Friday, August 27, 2010

Endurmenntun Háskólans - Litafræði

Þetta er litahringur Goethes. Hann velti mikið fyrir sér áhrifum ljóss og skugga á  liti

Þetta er litahringur Ittens en hann velti mikið fyrir sér  samspili lita. Hann setti frumlitina 3, gulan rauðan og bláan í miðjuna, annars stigs litina appelsínugulan, grænan og fjólubláan sem blandast úr frumlitunum þar fyrir utan og loks þriðja stigs litina sem voru blandaðir úr frumlit og annars stigs lit yst. 
.
Ég mun einnig kenna stutt námskeið hjá Endurmenntunarstofnun sem nefnist Litafræði til gagns og ánægju en þar verður stiklað á stóru um fræði lita og virkni, farið í sögu þeirra og þróun,  áhrif þeirra og tákn og er ótrúlega spennandi að setja þessa fyrirlestra saman. Fyrir mig er það óvanalegt að byggja kennsluna eingöngu upp á fyrirlestrum þó ég muni sýna einhver dæmi um litablöndun . Saga litanna er mögnuð þróun menningar og er gaman að lesa um hvernig nýjar uppgötvanir lita og landvinningar kónga skila sér í menningu og listum gegnum aldirnar og hvernig táknfræði lita er mismunandi eftir tíma, menningu og heimshlutum, Litahringurinn er svo í raun afar merkilegt fyrirbæri sem gaman er að velta fyrir sér og hann getur líka verið ótrúlega mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að því að raða litum saman. Það er heilmikil heimspeki tengd virkni lita og þó ég fari ekki svo ítarlega í það á námskeiðinu er samt ætla ég að reyna að stikla þar á stóru. Aðalatriðið er að þátttakendur fari út með brennandi áhuga á litum og séu einhvers vísari.  Hér er hlekkur á námskeiðslýsinguna. Þetta námskeið hefst 21. október og er þrjú fimmtudagskvöld í röð.

Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Haust 2010


Það er stundum gaman að gleyma sér....

Þarna er verið að vinna með vax.

Ég mun kenna í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar á þriðjudagskvöldum framhaldshópi í málun. Ég hef kennt þar undanfarin 5 ár og haft gaman af. Á síðustu önn var unnið með drauma og hvernig maður skapar draumkennda áferð og kynnti ég vax sem íblöndunarefni í olíulit. Á þessari önn verða litirnir teknir föstum tökum undir yfirskriftinni  " Litafræði fyrir lengra komna". Stutt verkefni og löng munu hverfast um liti og þann persónulega litahring sem hver og einn mun vinna samkvæmt minni forskrift. Vanalega er ég með frekar lausbeislað form en að þessu sinni ætla ég að vera með ákveðin verkefni og hlakka til að sjá nemendur mína takast á við þau. Hér er heimasíða skólans. Innritun hefst innan skamms. 
Frá vorsýningu skólans 2010. Veggur með nokkrum verkum nemenda minna.





Reykjanes - Námskeið Dagar við Djúpið

Töfrandi umhverfi
Í maí sl. stóð ég fyrir námskeiði í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þetta var 5 daga námskeið þar sem mætt var með striga og liti og málað í ró og næði, öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar og matur og gisting innifalin. Umhverfið var skissað og skoðað og unnið með það eins og hver og einn vildi. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að vinna óháð tíma á ákveðnum stað og þó einhverjir hefðu viljað koma heim með margar myndir til að sýna þá er alveg öruggt að það sem eftir situr í huganum mun skila sér með tíð og tíma. Langar sumarnætur sitja eftir í minningunni og ekki ólíklegt að þangað verði einhverntímann farið aftur.


Skólastofan undirlögð


Myndir á ýmsum stigum

Ekki slegið slöku við að vinna með umhverfið


Litafræði

Gamall ryðgaður tankur, flott litasamsetning
Í grænum greniskóg, sjáið öll mörgu litabrigðin og hvernig birtan breytir græna litnum.
Gólfmotta á Síldarminjasafninu. Eru þetta sömu litir og í gamla tanknum. Hvert skyldi hönnuðurinn hafa sótt innblásturinn
Það er óhætt að segja að haustið verði fullt af litum. Ég ligg þessa dagana yfir bókum og ýmsum gögnum um liti og litafræði og velti því látlaust fyrir mér hvernig ég geti talað um liti og virkni þeirra án þess að gera þá óspennandi og fæla áheyrendur frá öllu því skemmtilega, dularfulla og leyndardómsfulla sem fylgir þeim. Sjálf hafði ég mestu ímugust á litafræði í skóla en eitthvað gerðist þegar ég fór kom inn í kennslu í Tækniskólanum sl. vetur þar sem verið var að kenna litafræði Ittens og ég fór að endurskoða ýmislegt sem ég hefði áður verið búin að loka á. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt.

Tuesday, May 11, 2010

Hung Liu - Alltaf að

Ég fékk póst frá Hung Liu kennaranum mínum í gær. Hún vildi vita hvernig við hefðum það á Íslandi og hvort hér væri allt í kaldakoli. Hún sendi mér líka hlekk á nýjustu sýninguna sína og það er alltaf jafn gaman að sjá hvað hún er að fást við. Heiti sýningarinnar er "Drawing from life and death" og er í Rena Branstein galleríinu í San Francisco sem er mjög flott. Að þessu sinni skoðaði ég líka myndböndin sem eru á síðunni og þar komu fram spennandi myndir sem hún vann árið 2007 þegar hún notaði bíómynd sem var framleidd 1949 sem innblástur á mjög áhrifaríkan hátt. Hún er einnig farin að vinna mjög stórar myndir og get ekki annað en dáðst að kraftinum http://www.renabranstengallery.com/liu.html.

Sunday, May 2, 2010

Vinnuferð í Reykjanes



Ég hyggst bjóða upp á námskeið á Reykjanesi fyrir vestan í lok maí. 27. maí til 1. júní. þetta verður lúxusferð þar sem allt er innifalið, gisting, matur, góður félagsskapur og kennsla, eina sem þarf að gera er að koma sér á staðinn og taka með sér það sem maður ætlar að mála með og á. Ég hlakka til, þetta er skemmtilegur tími og það verður gaman að geta setið við óháð tíma og mála. Ég ætla að vinna með umhverfið þarna en staðurinn er ótrúlega fallegur og auðvitað bjart allan sólarhringinn á þessum tíma. Það verður vaknað snemma og farið út. Eða vakað lengi og farið inn seint. Ég hef hugmynd um að vera með einfara í myndlist sem innblástur. Það er nefnilega margt hægt að læra af þeim sem mála það sem þeir elska. Stefán frá Möðrudal var til dæmis mjög hrifinn af Herðubreið og málaði margar myndir af fjallinu eina. Færeyskir málarar hafa lika margir hverjir ákveðna einlægni til að bera í sinni myndlist þó þeir séu ekki endilega einfarar í þeim skilningi. Það er nefnilega ákveðin einlægni sem fylgir því að mála það sem maður þekkir.
 Hér er linkur á hótelið.

Thursday, April 1, 2010

Ýmislegt um eldgos


Hér má sjá túlkun tveggja listamanna á eldgosi á 18. öld. Annars vegar bretinn Turner með Vesuvius og hins vegar bandaríkjamaðurinn Edwin Church með suður ameríska fjallið Coxata. Það er athyglisvert hvernig þeir nota myndbygginguna og liti markvisst til að ýkja stærðina á þessum náttúruundrum og draga vissa hluti fram. Í mynd Turners eru skipin eins og táknmynd heimsins mót stórfenglegu fjallinu og eru dregin dökkum dráttum en hvít mýkt fossins og fjallsins mynda ákveðnar andstæður móti gulri sólinni í mynd Church en reykurinn og klettarnir tengjast með dökkum lit á móti og mynda grunninn.

Eldgos - Rauður


Það gengur mikið á í náttúrunni um þessar mundir. Eldgos í Eyjafjallajökli sést víða og margir fara á staðinn til að skoða. Appelsínurauði liturinn er magnaður og hann þröngvar sér í myndirnar hjá mér. Rauður litur er flókinn í notkun. Hann er jafnframt alveg ótrúlega fallegur sé hann rétt notaður. Hann getur verið agressívur og ögrandi, rómantískur og rólegur, glaðlegur og gefandi. Það er auðvelt að klúðra honum og  örítill dropi af hvítum getur gert hann bleikari en allt sem bleikt er. Doppa af bláum breytir honum samstundis í skærfjólubláan, en gul doppa í skær appelsínugulan. Minn uppáhaldsrauður er Alizarin Crimson(W&N litur) og blandi maður Cadmium Yellow í hann(sömu tegund) fæst þessi skær rauð appelsínuguli litur sem einkennir gosið. Þessi mynd er tekin af vini mínum Gunnari Karli Gunnlaugssyni ljósmyndara.

Saturday, March 20, 2010

Verkefni

Ég setti nemendum mínum fyrir það verkefni fyrir næsta tíma að skoða tvær sýningar. Önnur er bókasýningin Context í Norræna Húsinu en það er mjög gott að skoða hana með því að horfa á aðferðir, áferðir og hvernig hægt er að tengja það við það sem mann langar að segja með td. bókverki eða málverki. Síðan er önnur sýning á þjóðminjasafninu Ævispor sem er útsaumssýning Guðrúnar Guðmundsdóttur sem, hefur saumað út af miklu listfengi með gömul handrit og forn útsaumuð klæði sem fyrirmynd. Mig langar til að nemendur mínir velti fyrir sér tengslum handverksins og myndlistar, hvað gerir verk að listaverki. Hvað er listamaðurinn að segja í verkum sínum?Ég set hér líka textann í stærra letur og öðruvísi leturgerð til prufu.

Tuesday, March 16, 2010

Hung Liu

Ég sýndi nemendum mínum mynd uppi á skjá með Hung Liu að vinna í kvöld í tíma. Ég dáist ótrúlega að henni og því hvernig hún nær að halda myndunum sínum svona ferskum, þunnum, með skýra sýn, Hún vinnur mikið með ljósmyndir en þær eru frá henni sjálfri eða tengjast henni amk. á einhvern hátt og það er gaman að sjá hvað stærð verka henni gerir mikið. Skoðið þetta: http://www.youtube.com/watch?v=LV8e43K2zCI

Sunday, March 14, 2010

Eiginleikar efna - vax


Margir málarar nota vax í myndirnar sínar. Það er sérstaklega mikið notað í Ameríku og þar er hægt að fá margar mismunandi gerðir af vaxi, bæði til að blanda beint í litinn og beewax til að hita og nota beint eða blanda í litinn. Ég er að láta nemendur mína prófa þetta efni og í síðasta tíma lét ég þá undirbúa tré og masónítplötur með því að grunna þær, setja lit á þær, jafnvel líma á þær úrklippur, texta, myndir o.sv.frv. Þetta vakti mikla lukku og gleði þegar var hægt að láta gamminn geysa, allir við eitt borð og efnin á því miðju. Þetta er alltaf svolítið gefandi að vinna svona og mér finnst það oft skila heilmiklu, þetta eru oft verkefni sem eru öðruvísi og falla ekki beint inn í rammann. Í næst tíma eiga þeir svo að prófa vaxið og nú velti ég fyrir mér hvernig er best að kynna þetta efni fyrir þeim markvisst því ég vil fá málverk en ekki föndur og sérstaklega í þessu verkefni er stutt á milli. Eiginleikar vaxins eru að það getur verið gegnsætt, það getur líka verið gamaldags, varpað hulu yfir, það getur líka gert litinn þykkan og ómeðfærilegan og nú er mitt að kynna þetta þannig að nemendurinir ráði við þetta. Sjálf nota ég vax mikið en þá bara Cold Wax medium sem ég blanda beint út í litinn svo hann verður þykkur. Sérstaklega á þessari neðri mynd sést hvernig hægt er að nota vaxið transparent. En í þeirri efri límdi ég pappír fyrst, hellti waxi yfir, málaði ofan á, þunnt með línolíublönduðum lit.

Bókasýning


Bók er góð.
Hún er blaðsíður og stafir og setningar og myndir. Hún er þykk og hún er þunn, hún er úr góðum pappír eða vondum, glans eða möttum. Hún er stór eða lítil, ferköntuð aflöng.....

Á bókasýningu í Norræna húsinu eru til sýnis allskyns bækur. Það víkkar sannarlega út sjóndeildarhringinn að sjá hversu margir möguleikar eru með því að taka hugtak eins og bók og búa til úr því sýningu. Bókin vex og stækkar og þykknar og blæs út og belgist.....

Ég elska bækur fyrir það sem þær eru, sagan sem þær bera með sér, tíminn sem þær fela í sér. Þetta er bókahillan með öllum ástarsögunum sem ég las þegar ég var unglingur. Ég velti því stundum fyrir mér hvaða áhrif bækur hafa haft á líf mitt. Einhver myndi segja að þetta væru ekki merkilegar bækur. En kannski eru það einmitt ómerkilegu hlutirnir sem hafa mest áhrif í lífinu.

Thursday, March 11, 2010

Viola Frey


Fjölskyldan - Family Portrait



Ég sat í áheyrn í Tækniskólanum í dag í kúrs sem heitir menning og listir og sá þar myndband um listkonuna Violu Frey sem var bandarísk og vann einkum í keramik, risstóra skúlptúra þar sem voru ýmist stórar manneskjur eða fundnir hlutir sem hún fann á mörkuðum og blandaði í verk sín. Hún fæddist í Kaliforníu og mér finnst verk hennar bera þess merki. Það var gaman að sjá gamla kennarann minn, Ron Nagle sem líka er frábær listamaður, tala um hana og verk hennar. Hér má sjá verkk eftir hana sem hún kallar fjölskyldumynd og er sambland af mörgum manneskjum. Hún notar liti mjög skemmtilega og er óhrædd við að blanda þeim saman. Það merkilega er að hún lærði hjá Mark Rothko í New York en reyndar var hún ekki lengi þar og bjó alla tíð og starfaði á vesturströndinni. þar eru margir fleiri skemmtilegir keramiklistamenn og Ron Nagle kynnti okkur fyrir mörgum flottum þegar ég var í náminu. Hann er sjálfur ótrúlega geggjaður listamaður, hann vinnur með formið bolli og breytir því á alla mögulega og ómögulega vegu svo það er ekki nytjahlutur heldur skúlptúr. Hann er líka nokkuð þekktur tónlistarmaður og frábær manneskja. Verk eftir Ron Nagle.

Monday, March 8, 2010

Hreyfanleiki í listum


Las góða grein " Social life of Art" sem kemur inn á það hve margt í sambandi við listir er breytingum háð. 

Greinin fékk mig m.a. til að velta því fyrir mér:

Hver horfir td á málverkið?
Í hvaða samhengi er það?
Er það í galleríi, heima hjá einhverjum, fær það góða birtu?
Í hvaða samhengi er sá sem horfir á það? Er það listfræðingur, listamaður, gamall maður, sálfræðingur, ung stúlka?

Það má líka velta fyrir sér sögunni í þessu samhengi, hver segir söguna og hvernig lifir hún. Hvernig verður  einmitt í þessu samhengi litið á mig og mína list í sögunni? Hvernig verða verkin mín túlkuð og hver erfir þau? Skiptir máli hvað er að gerast í mínu lífi 2010 og hefur það áhrif á það hvað ég mála og hvað ég geri?

Hvernig mun sagan líta á Feneyjardvöl Ragnars Kjartanssonar?

Sjálf tók ég þátt í samsýningu í Hafnarborg 2007 sem hét 50 Hafnfirskir listamenn. Ég sýndi eina mynd frekar stóra málaða á tré og hét "Ganga". Það var mikið landslag í henni og ferðalangur sem hélt á fiski við dálitla tjörn. Þetta var fyrsta verkið sem ég málaði á nýju vinnustofunni í Fornubúðum. Ég heyrði af tveimur konum sem skoðuðu myndina og sögðu: Vá hvað þetta væri flott landslag ef það væru ekki þessir kallar þarna. Já............Hvernig mun sagan fara með þátttöku mína í þeirri sýningu? Hvaða stöðu munu " þessir karlar" hafa eftir kannski 50 ár?

Thursday, March 4, 2010

Sköpun í kennslu

Hvað ýtir undir sköpun, hvað stoppar hana og hvað er frumlegt....Ég er að lesa grein eftir kennslufræðing sem er að velta þessu fyrir sér. Hann talar um hvort það að sýna verk eftir einhvern og að sýna hvernig á að gera hlutina geti hindrað sköpunarferlið. Ég er ekki viss. Þó get ég sagt það að þetta er svolítið í þeim anda sem ég kenni. Ég forðast að segja fólki hvað það á að mála, forðast að sýna hvernig það á að gera hlutina og forðast að segja hvað sé rangt og hvað rétt í raun. Allt er jafngilt. Kannski ekki allt samt. Það væri of mikið að segja það. En ég gef fólki ekki upp hlutföll og stærðir og blöndur eins og sumir kennarar gera, ég segi þeim ekki hvað þeir eiga að mála né hvaða liti þeir eiga að velja, ekki nema þeir spyrji mig. Hef kannski ekki alveg forsendur til að velta því fyrir mér hvort þetta er rétt hjá mér og hvort þetta skilar einhverju. Hinsvegar finnst mér þeir nemendur sem hafa verið hjá mér lengi vera orðnir sjálfstæðir og vita hvað þeir vilja svona oftast.

Sunday, February 21, 2010

Málaragleði

Það má ekki vanmeta þá ánægju sem fæst út úr því að mála. Að koma að grunnaðri rauðri og türkisgrænlitaðri tréplötu þar sem er lítið annað á en kannski sjóndeildarhringur og undarlegur rauður himinn. Þegar ég kem að myndinni sé ég þó út úr trénu hóla og hæðir eða væri kannski réttara að tala um kletta og steina og  við að mála terpentínuþunnt með Indian Yellow og Titian blönduðu örlítilli línolíu yfir himinninn og bæta oggulitlum hvítum saman við túrkis/emeraldgræna litinn í sjóinn sem kannski breytist í gras eða eyjur eða móbergskletta verður svo geggjuð litasamsetning að ég fæ í hnén og líka undir bringuspalirnar. Á morgun þegar ég kem að henni verður hún kannski flöt og óspennandi en í öllu falli .....það að mála breytir deginum og gerir hann betri.

Aðferð




Aðferð:
Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leggur drög að verki. Hér að ofan má sjá ljósmynd af fjörugróðri. Hvernig gætir þú hugsað þér að yfirfæra þessa ljósmynd í málverk? Það koma margar leiðir til greina og hér tel ég upp ýmislegt sem gott er að hafa í huga.

1. Hvernig ætlar þú að byrja á myndinni? Vinna eftir skissu, eftir ljósmynd, eftir lifandi módeli, eða á myndin að leiða þig áfram? Ætlar þú að vinna blautt í blautt eða vinna myndina á löngum tíma lag fyrir lag? Á að vera einn grunntónn undir? Það er mjög ólíkt að vinna td. með svart undirlag eða hvítt, rautt undirlag gefur líka spennu. Svo má líka vinna markvisst með andstæða liti, eða heita/kalda? 
2. Ætlar þú að vinna myndina með einum pensli eða mörgum? Það gefur mynd ákveðið vægi ef þú vinnur hana alla með sama penslinum, prófaðu til dæmis að vinna nákvæmt með stórum pensli og sömuleiðis að vinna stóra mynd alla með litlum pensli, og litla mynd með stórum pensli. Ætlar þú kannski að vinna myndina með tusku eingöngu? 
3. Ætlar þú að vinna grunninn þykkt og þá með hvaða efni, gezzo, setja efni í grunninn td. sand, drasl, efni ýmis akrílefni sem hægt er að kaupa. Ætlar þú að vinna myndina með akríllitum framan af? 
4. Ætlar þú að hella málningunni yfir myndina eða ætlar þú að vinna hana alla með fíngerðum penslum, hvaða undirlag er það best að nota? Ætlar þú að nota íblöndunarefni, terpentína, línolía, vax, malbutter, lakk, nota gljáa, eða viltu hafa myndina matta. Hvað er á myndinni, hvaða aðferð er best að nota til að ná sem mestum áhrifum.
5. Þú þarft að hugsa um hvaða litir eiga að vera í henni áður en þú byrjar að setja eitthvað á og hvort þú vilt td. láta sjást í strigann eða hafa hana alla ljósa. Ef þú byrjar að teikna inn á myndina með kolum sem er í raun skemmtilegasta efnið að vinna með í byrjun þá getur þú lent í vandræðum því kolin smitast út í litinn og gera hann gráan. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að teikna beint inn á með pensli og málningu en þá þarftu að vera búin að ákveða liti fyrirfram. Viltu td. halda línunni sem þú teiknar inn í upphafi? Mynd eftir Nathan Oliveira er til dæmis öll ljós undir og mikið lagt upp úr línunni og teikningunni og striginn skín í gegn en mynd Arngunnar er unnin í mörgum lögum með málningu, vaxi og öðrum efnum á tré. Getur þú séð muninn á því hvernig á að byrja á þessum málverkum? Að hverju þarf að huga og hvað myndir þú spá í? Prófaðu þig áfram.

Efni - Sjávarföll/Turner

lEfni:
1. Hvað málar þú á?
a. Er það strigi og þá hvernig strigi, er hann grófur, fínn, grunnaður eða ekki? Strekktur eða óstrekktur?
b. Er það kannski tré eða mdf plata?Er það fínt, gróft, með miklum kvistum eða fínpússað, mikið unnið eða lítið.
c. Hvað er myndefnið, hvernig efni er þá best að nota/mála á? Er það viðkvæmt, landslag, fígúratíft, hvað viltu segja með myndinni?
d. Hvaða stærð á að vera á myndinni? Á hún að vera lítið, er þetta sería(koma fleiri á eftir). Eiga þetta að vera stórar myndir í þykkum blindrömmum því myndefnið er þannig? Er þetta landslag og þá hvernig landslag? Hvaða form hæfir því? Ertu að reyna að ná fram ákveðnum stíl td. vinna eins og annar málari hefur gert, hvaða stærðir vann/vinnur hann með?
e. Skoðaðu til dæmis Turner og þessa ljósmynd af sjávarlandslagi og reyndu að finna út hvernig þú myndir velja efni/áferð/aðferð við að mála þessa ljósmynd og yfirfæra hana í annað efni svo sem málverk.Turner var oft mjög dramatískur/rómantískur í sínum myndum, hvernig getur þú séð það í þessu verki? Hvernig heldur þú að hann hafi unnið það? Hann skissaði mjög mikið og vann með vatnsliti ofl. efni. Hvaða aðferð myndi henta þér best? Hvernig myndir þú gera þessa ljósmynd "Turner-lega" í málverki?

Átök og ögrun - Golub/Spero

Seinna myndbandið sem ég sá í dag er um listamanninn Leon Golub og reyndar lítillega um konu hans Nancy Spero. Það sem mér finnst áhugavert við verk Golubs er vinnuferlið en hann vinnur með ljósmyndir og samtímann og vinnur á mjög stórum skala en verk hans eru amk. 2 metrar á hæð og amk. 3 metrar á breidd og unnin beint á óstrekktan striga með akríllitum og vaxi á vegg og á gólfi. Hann notar ljósmyndir af fólki í mismunandi stellingum og myndir af hlutum til að velja myndefnið sem hann sækist eftir og í sömu myndinni er notast við margar mismunandi ljósmyndir. Myndir hans eru oftar en ekki mjög ögrandi og fjalla um átök og stríð og hermenn fólk og pyntingar. Það er svo aftur í vinnuferlinu sjálfu og þeim efnum sem hann notar þar sem mér finnst hann ná tengslum við myndina og skapa spennu. Eftir að hafa teiknað manneskjurnar inn á og hlutina og raðað því eins og hann vill á myndflötinn hefst áhrifamikið ferli  sem felst í því að hann vinnur myndirnar ýmist á gólfinu eða veggnum og málar með misstórum penslum með málningu úr stórum dollum yfir það sem hann er búinn að teikna inn á. Síðan leggur hann myndina á gólfið og hefst handa við að hella yfir og mála og skefur og klórar í lögin, hellir yfir og skefur í burtu, teiknar ofan í aftur og stundum límir hann yfir einhverja parta af myndinni meðan hann vinnur í öðrum og með þessu lagskipta ferli og þessum óvenju stóra skala næst mikil dýpt og saga í myndirnar. Litanotkunin er mjög ákveðin, jarðlitir og grátónar og pastel, skærir litir inn á milli. Kona hans Nancy Sphero, þekktur feministi og vinnur myndir af konum, einnig á stórum skala og oft með skírskotun í nútímann. Það er ekki mikið fjallað um verk hennar í þessari mynd en maður finnur samt að áhrif hennar á mann sinn eru sterk og hún tjáir sig um hvað betur megi fara í myndunum og hann spyr hana gjarnan álits(amk. í myndinni)enda eru þau saman með stóra vinnustofu og nokkra aðstoðarmenn. Golub er fæddur árið 1922 en lést 2004 og það er áhugavert að sjá síðustu verk hans í myndinni frá 2001 þar sem hann vinnur með texta, hunda og geometríu og manni finnst hann svolítið vera búinn að tapa sér....eða hvað....kannski bara frelsi til að gera það sem hann vill.

James Castle - sjálflærður einfari frá Idaho

Ég hef í dag verið að skoða tvær athyglisverðar myndir um listamenn sem ég tók á bókasafni Listaháskólans. Mjög ólíkir listamenn en með vissum hætti má segja að þær fjalli um líf þeirra og að þeir í list sinni taki fyrir þau málefni sem á þeim brenna hverju sinni. Sú fyrri sem ég horfði á var um sjálflærðan einfara, James Castle sem fæddist heyrnalaus rétt fyrir aldamótin 1900. Hann bjó í litlum bæ í Idaho alla sína æfi í sér húsi en í grennd við fjölskyldu sína og teiknaði, málaði, og mótaði  og myndefni hans mótaðist auðvitað af umhverfi hans að miklu leyti. Hann var uppgötvaður af listheiminum um miðbik æfinnar og safnarar kepptust um að eignasat verk eftir hann og það hlýtur að hafa haft áhrif á að hann gat unnið við list sína óhindrað. Hann vann alla tíð í einföld efni og ekki hefðbundin, þannig teiknaði hann ekki með blýjanti heldur með sprekum sem hann nuddaði upp úr kolaryki, sömuleiðis notaði hann tuskur til að mála með en ekki pensla og ýmis önnur efni sem féllu til, en foreldrar hans ráku nýlenduvöruverslun og ýmsar pakkningar og pappír urðu honum að yrkisefni. Hann skrásetti samviskusamlega það sem hann sá í nánasta umhverfi og fjölskyldan, heimilið, ýmsir hlutir og pakkar urðu honum að innblæstri. Það sem heillar mig alltaf við svonefnda einfara er þessi beina tenging við myndefnið sem oftar en ekki er úr nánasta umhverfi svo og notkun á ýmsum efnum sem finnast þar. Kannski ná þeir að varðveita barnið í sér með því að fara ekki hefðbundna skólagöngu þar sem þú lærir td. að teikna og fara með efni. Maður sér oft að listamenn sækja innblástur í þessháttar list og í list barna.Það er stofnun/sjóður í Bandraíkjunum sem hefur sérhæft sig í að koma svokölluðum einförum (selftaught artists)á framfæri með ýmsum hætti, m.a. í kvikmyndum. Skoðið endilega slóðina:

Thursday, February 18, 2010

Tími og tónlist

Dagarnir eru svo kúfullir að það eru farnir að renna taumar niður. Í morgun keyrði ég hollenska andann til Keflavíkur og á leiðinni heim fann ég hvernig ég útvatnaðist og hið hvunndagslega líf tók yfir. Framundan dagur á vinnustofunni í ró og næði, heimsókn um hádegið og svo bara að munda pensla. Það var líka þannig og í lok dags er ég ringluð. Það var annasamt á vinnustofunni í maleríi og mannamótum af ýmsu tagi, allt gott og ég náði að prófa nýja pensla og halda áfram með einhverjar myndir. Spaghetti með reyktum veiðivatnaurriða og chilisósu í kvöldmatinn með kvik-yndinu og mikið rætt um dagana , handritið, framhaldið, vinnuna í sumar og allt sem mann langar í. Sinfónían kom út á mér tárum, Sellókonsert Dvorjak og ótrúlegur leikur Sæunnar Þorsteinsdóttur sem er eins venjuleg að sjá og nafnið gefur til kynna en eins óvenjulega góður sellóleikari og við mátti búast því þetta er ekkert venjulegt stykki og hún er bara 26 ára. Það er eitthvað við sellóleik sem kemur við hjartað á manni og strýkur því rækilega, hittir mann í hjartastað. Mér fannst merkilegt að lesa mér til um að Dvorsjak hefði búið í New York í þrjú ár og verið þar skólastjóri, hann var þjakaður af heimþrá og samdi því þennan konsert sem er eins og þungbúið bæheimst ættjarðarljóð, himinn og þoka og tár veðurbarða bænda sem staupa sig meðan þeir syngja blíðsárt komu upp í hugann en upplifunin í sjálfu sér dýpri en það.

Monday, February 15, 2010

Myndin sem ég sendi inn

Umsóknir

Ég hef setið meira og minna við í allan dag að gera umsókn um sýningu í ASÍ. Ég ætlaði auðvitað að vera búin að þessu fyrir löngu en ég er bara ekki fljótari en þetta. Um hvað á maður að sækja? Hvaða myndir á maður að senda? Hvaða tíma vill maður? Hver er maður hvað viill maður.....og vill mann einhver!!?Mér finst þetta alltaf eilífur höfuðverkur. En í þetta skiptið er ég með Monicu hollensku mér við hlið sem býr til PDF skjöl og tekur nýjar myndir fyrir mig og sér til þess að þetta skili sér allt með póstinum á réttan stað. Mér finnst samt eins og ég verði aldrei góð í þessu og ég er svo óskipulögð í tölvunni að það er benlínis vandræðalegt. Ég á aldrei réttu myndirnar af réttu myndunum, aldrei rétta formið og kem þessu aldrei almennilega frá mér. Þetta er flókið líf.

Thursday, February 11, 2010

Hollenski andinn

Monica, hollensk vinkona mín er komin í heimsókn. Hún er listamaður sem ég kynntist í Banff 2004 og við höfum haldið sambandinu allar götur síðan. Hún er ljósmyndari en í Kanada var hún að vinna æðislega skúlptúra úr örþunnu postulíni með ljósmyndum. Við sýndum saman í Grafíksalnum 2007 ég teikningar og málverk en hún sýndi ljósmyndir og skúlptúra. Það var svo merkilegt hvað þessi hollenski minimalíski andi skilaði sér inn í sýninguna. Við vinnum ólíkt en þó kannski ekki. Mér finnst hún aga mig og halda mér á jörðinni en hún slakar á. Við höfum í dag og kvöld velt fyrir okkur Íslandi um þessar mundir og hvað sú staða sem uppi er þýði fyrir það. Hún hjálpaði mér að koma mér fyrir á verkstæðinu og raða upp verkum fyrir morgundaginn og lá hvergi á skoðunum sínum sem er ótrúlega gott og hjálpar manni í vinnunni. Henni finnst ég ekki vera góð í að setja verkin mín fram og skilja kjarnann frá hisminu og ég geri mér grein fyrir því hvað það er rétt hjá henni þegar ég horfi á það sem hún valdi í kvöld með mér til að sýna. Einhver fágun og stíll sem skilar sér alla leið og ég hefði ekki valið hefði ég bara verið ein að setja þetta upp. Eins og í Safnasafninu fyrir norðan þar verður maður var við þessa fágun og hversdagslegan en litglaðan stíl. Á borðinu eru nú hvítir postulínsbollar, enginn eins sem hún kom með handa mér frá vinkonu sinni sem sendi mér þá og stór kringlóttur ostur í vaxi. Hann á að vera á borðinu en ekki í ískápnum og svo bara sker maður hann með hníf þegar rétti tíminn kemur.

Hugmyndavinna

Á morgun á ég að undirbúa hugmyndavinnu í 15 mínútur. Mér finnst hugmyndavinna skemmtileg en mér finnst erfitt að tengja hana beinlínis við kennslu og að það þurfi að koma eitthvað almennilegt út úr henni. Hef verið að skoða allskonar síður og hugyndirnar spretta fram eins og sprækir lækir. En hvort það verður eins gott að koma þessu frá sér veit ég ekki. Kannski hef ég of mikla reynslu af því að kenna fullorðnum og er því rög við að reyna nýja hluti eða treysti mér ekki alla leið. Ég er að velta fyrir mér línu, mismunandi gerðir af línu og hvernig er hægt að gera línu án þess að teikna hana með blýjanti eða penna. Er líklega innblásin af sýningu Kristínar Gunnlaugs í Grafíksalnum með þessar frábæru " teikningar" á striga með garni. Lyktin af grófum striganum fylgir mér heim og er hluti af upplifuninni. Lína getur verið spennandi með grófu garni, eða tvinna eða pípuhreinsara. Með pipuhreinsurum verður línan þrívídd þegar þeir eru reistir við. Hugsa líka kortlagningu. Man þegar ég fór út um skólalóðina í Mills með Naomi og Rosönnu að leita að skúlptúrum, við áttum að finna skúlptúra, gefa þeim nafn og kortleggja staðina sem þeir voru á og taka af þeim mynd. Þetta vAR ÓGEÐSLEGA SKEMMTILEGT. Hvað skilgreinir skúlptúr og hvað gerir hann að því. Þetta var eitt af þessum verkefnum sem fengu mig til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við gerðum líka hljóðskúlptúr úr röddum okkar, en þetta hafði allt með staðinn Mills að gera. Í lokin var svo stórt persónulegt verk sem tengdist okkur. Ég vann út frá orðum og mismunandi þýðingu td. náttúra, landslag...og myndir sem tengjast því. Mér fannst þetta spennandi pælingo og þetta fékk mig til að vinna meira inn á við og tengja mig sjálfa beint inn í myndirnar. 

Er að ná þessu

Mér finnst ég vera að ná þessu með þetta blogg og um hvað það snýst. Sé að ég get notað þetta mikið og að  það hentar mér í raun um leið og ég er búin að skilja út á hvað þetta gengur. Hef legið yfir síðum og skoðað og það er í raun býsna auðvelt að villast. Mér finnst ég þó eiga langt í land með að ná því að festa þetta eins hratt niður og þegar ég skrifa í bókina mína eða skissa. Hugurinn er merkilegt fyrirbæri. 

Sunday, January 31, 2010

áfram veginn...

Það er erfitt að koma heim eftir tveggja vikna dvöl í sumarblíðu þar sem lítið var um annað hugsað en hvað skyldi borða og hvaða bók ætti að lesa næst. En alvara lífsins er tekin við að nýju og það er líka bara gott. Hvunndagurinn er góður hvað sem hver segir. Verstþykir mér að hafa ekki alveg tækifæri til að finna sálina að fullu því það er lítill tími til þess og líka að geta ekki tengst listinni að fullum krafti. Það er esvo oft þannig þegar maður er búinn að vera í fríi þá hefur maður mikla þörf fyrir að skapa.

Saturday, January 9, 2010

Hugleiðing um söfn

Í námi mínu hér við LHÍ hef ég lagt það í vana minn að spyrja sjálfa mig 10 spurninga við upphaf hvers áfanga og eftir föngum í námsdagbók mína. Spurningarnar eru settar fram sem leið til að kortleggja hugann og festa þau atriði sem upp í hugann koma en ekki endilega sem leið til að leita rökstuddra svara. Ég hef kennt á namskeiðum í olíumálun við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar undanfarin 5 ár og nota sýningar og söfn sem mikilvægan þátt í í kennslunni, fer með nemendur mína á sýningu einu sinni á hverri önn sem hluta af náminu. Sjálf reyni ég að sækja flestar þær sýningar sem upp koma og hvet nemendur mína til hins sama og fer jafnvel fram á að þeir skili skýrslu eða hugleiðingu um það sem þeir skoða. Undanfarin 3 ár hef ég verið í sýningarnefnd hjá Íslenskri grafík sem rekur sal í húsnæði félagsins svo margar spurningar varðandi eðli og starfsemi safna kvikna reglulega í starfi mínu. Mér eru ljósir vankantar sem söfn óneitanlega glíma við svo sem skortur á fjármagni og umfjöllun auk þess sem það er stöðug vinna að halda reglulegri starfsemi úti. Sjálf rek ég líka vinnustofu og sal þar og stend fyrir sýningarhaldi á eigin verkum og annarra og hef mikinn hug á að nýta það húsnæði sem lifandi vettvang vakandi fyrir þeim tækifærum sem bjóðast.

En:

  1. Hvert er hltuverk safna
  2. Hvaða stöðu hafa þau í samfélaginu, menningu, skólakerfi.
  3. Við hverju má búast á safni?
  4. Þurfa söfn að vera hefðbundin?
  5. Hversu mikilvægur er upplifunarþátturinn?
  6. Hversu ítarlegar eiga upplýsingar um verkin að vera ?
  7. Er menntun í faginu nauðsynleg til að skilja söfn/sýningar?
  8. Bæta skýringar alltaf einhverju við eða geta þær verið of stýrðar og eyðilagt upplifunina?
  9. Hversu ítarlegar eiga upplýsingar að vera?
  10. Getur “annað” efni , svo sem hlutverk safnabúða, kaffihús ofl. eyðilagt upplifunina eða bæta þau einhverju við?

Í greininni Running a Museum: A Practical Handbook er farið í stórum dráttum yfir helstu hlutverk safna og mikilvægi þess að þær aðgerðir sem safnið stendur að miði að því að þjóna almenningi og menntun í landinu. Sú fræðsla sem fram fer á safni er mjög ólík þeirri sem fram fer með formlegum hætti í skólum landsins eða annars staðar og ýmsum flötum á henni er velt upp í greininni og með hvaða hætti hún geti farið fram.

Mér er hugleikið hvernig hægt er að koma frekar til móts við þann hóp nemanda sem ég hef hug á að einbeita mér að í kennslu sem hægt er að kalla hinn almenna listnjótanda og er fullorðinn einstaklingur sem hefur áhuga á að mála. Meðfram því sem ég kenni honum aðferðir til þess finnst mér það hlutverk mitt að ala upp listnjótanda sem með því að læra um málun og málara lærir að njóta safna og myndlistar á annan og ólíkan hátt og mynda sér skoðun á því hvað gerir listaverk áhugavert en einnig að td. njóta þess hvað viðkomandi listamaður fer vel með gula litinn og nær fallegum blæbrigðum í himinninn eða hvað teikningin er flottt og veltir fyrir sér hvernig hann fer að því.

Þegar ég hugsa um þau söfn sem ég er hvað hrifnust af í þessu samhengi þá koma mér einkum í hug söfn í Bretlandi svo sem Tate Modern, National Gallery ofl. sem, þegar allt kemur saman, myndir, fræðsla, tölvunotkun, bækur, sendir mann heim með ótal hugmyndir og ómælda upplifun. Lítil sérsýning td. um litanotkun Turners á efri hæð Tate Modern þar sem bæði munir og myndir sem tengdust ferðum hans og litanotkun opnuðu nýja sýn á því hvernig hann notaði liti og rafrænt prógram þar sem þú gast prófað sjálfur ýmislegt í tölvu, ásamt því að fylgja eftir ferli hans og framvindu varpaði ómetanlegu ljósi á það sama. Með sama hætti væri td. hægt afþví að það er nærtækt dæmi að hafa litla sérsýningu á Kjarvalsstöðum þar sem hægt væri að sýna með munum, myndum og á rafrænan hátt fjölbreytta notkun Kjarvals á efnum og litum sem gæti gagnast almenningi og skólum og dýpka með því sýn okkar á vinnu listamannsins. Sýningin Kjarval allur sl. vor var líka brunnur af upplýsingum fyrir kennslu í málun, því hann hafði svo fjölbreyttan stíl. Sýningar eru þó oft ekki nægilega lengi uppi, sem væntanlega helgast af þeim fjármunum og kröfu um fjölbreytni í svo litlu samfélagi en alveg eins og Þjóminjasafnið er með fastar sýningar allan ársins hring kæmi það sér vel fyrir kennsluþáttinn að hafa stöku sýningar sem standa lengur og það þurfa ekki endilega að vera stórar sýningar. Þá er enn mjög vannýttur möguleiki tækninnar en á bestu söfnunum td. MOMA í New York eru mjög flottir sýningarvefir með fræðsluefni. Þar er gríðarlegur fjársjóður fyrir kennara. Það væri áhugavert að leggja meiri áherslu á þennan þátt.

Sú spurning kviknar iðulega í huga mínum þegar ég rekst á skólahópa á öllum aldri út um alla ganga td. á breskum söfnum, hversvegna íslensk söfn eru svo vannýtt sem raun ber vitni, amk. af skólum. Maður kemur iðulega að tómum sölum í miðri viku á helstu söfnum borgarinnar þó vera kunni að það sé smám saman að breytast. Er það áhugaskortur kennara, eitthvað í skipulagi skóla sem kemur í veg fyrir nýtni þeirra eða er eitthvað innbyggt í kerfið hér sem þarf að breyta? Mér finnst einnig mjög vannýtt sú mikla þekking og innspýting sem finna má á vinnustofum listamanna. En heimsóknir og samstarf gætu orðið hvati að ýmsu og það væri áhugavert að kanna frekar “hollensku leiðna” sem gerir einmitt ráð fyrir slíku flæði. Þetta kann þó að liggja í því að ekki er gert ráð fyrir því hér í skólum að greiða fyrir slíkar heimsóknir og því undir hverjum kennara komið hvernig hann nýtir tímann og þetta er auðvitað tímafrekt. Mitt mat er hinsvegar að sú menntun sem fram fer á slíkum stöðum sé ómetanleg.

Greinin sem hér er til umfjöllunar fjallar að mestu leyti um praktíska hluti og reglur, einskonar viðmið og leiðir sem eru færar og hafa ber í huga varðandi söfn og margar góðar hugmyndir og þar viðraðar. Hinsvegar held ég jafnframt að það sé að mörgu leyti mjög óplægður akur í samvinnu skóla, listamanna og safna hér á landi sem spennandi er að kafa dýpra ofan í og tel ég einsýnt að bæði myndlistarmenn, hönnuðir og starfandi og verðandi kennarar geta lagt sitt af mörkum og ég hlakka til að sjá þær hugmyndir sem spretta fram í hópi eins og þessum í kennaranámi LHÍ.

Fyrsta bloggið

Jæja, fyrsta bloggið mitt komið af stað, það er ekki svo auðvelt að finna út úr þessu en ég ætla samt að reyna að vera dugleg og setja allt inn sem mér settur í hug og svona það besta.