Monday, November 22, 2010

Vetrarstemmingar...tungl og jól

Edwin Church
Vincent Van Gogh


C.D.Friedrich
Það virðist vaxandi stemming fyrir jólaljósum. Var á Selfossi í dag og þar er bara búið að skreyta heilmikið og setja upp ljós úti og inni. Það var þoka og hrímuð jörð og tunglið vakti yfir okkur á leiðinni austur í gær og til baka í dag. Það eru margir sem velta fyrir sér hvaða litir eru í tunglinu? Er það hvítt eða gult? Hvað er hinumegin við tunglið? Býr karl i tunglinu? Hér eru nokkur verk eftir þekkta málara sem unnu með tunglið og þá mögnuðu birtu sem fylgir því. Samt finnst mér engin þeirra ná í raun þessari mögnuðu stemmingu sem fylgir fullu tungli....að vetri til.
C.D. Friedrich(1774-1840)






Wednesday, November 17, 2010

Sænskir málarar og grafíkerar

Verk eftir Mamma Anderson 
Ég var nýverið í Stokkhólmi og skoðaði m.a. Modern Museum þar sem var stór sýning með sænskri samtímalist af ýmsu tagi, ég skoðaði einnig stóra grafík sýningu en þar mátti bæði sjá verk eftir félaga úr sænska grafíkfélaginu(sem hefur um 400 félagsmenn)en einnig eftir þá sem vinna ekki endilega bara í grafík heldur sóttu um að vera tekin inn á sýninguna með grafíkverk. Þetta var stór sýning með fjölmörgum verkum en mér fannst áhugavert hvað viðfangsefnin voru fjölbreytt. Það kom mér í raun á óvart hvað sænsk samtímalist er framsækin. Auðvitað þekki ég td. verk MammaAndersen eins og sjá má hér að ofan en margir samtíma listamenn eru að vinna með málverkið sem miðil á framsækinn hátt. Mér finnst einhver kraftur og spenna í málverkinu, bæði eru verkin oft mjög stór, kannski 2,50 x 3,0 metrar og viðfangsefnið nútímalegt og í takt við samtímann.


Þessi listamaður Mikael Kihlman vinnur td. þessar borgarmyndir í ætingar og vinnur með ljósið og skapar einhverja magnaða stemmingu. Myndirnar verða svo tímalausar.
Málverk Jens Fanges voru ekki mjög stór en litrík og einkennileg með gljáandi áferð. 
Viktor Rohsdahl var með nokkur stór mjög dökk málverk unnin með tússi og málningu á striga og gler. Þetta eru mjög áhrifamikil og kraftmikil verk með sterka vísun í hefðina en líka mikil ögrun í því hvernig hann vinnur með efnið því hann teiknar nostursamlega á strigann en veigrar sér svo ekki við að hella málningu yfir hluta af því og halda svo áfram. Með því næst mikil dýpt í myndirnar og teikningin verður mikilvægur þáttur. 

Þetta er ekki málverk heldur útstilling í búðarglugga. Hluti af því að ferðast til stórborga er að skoða í búðir og búðarglugga. Þetta er sérbúð með ýmsum böndum, skáböndum, gömlum böndum, borðum, dúskum ofl. Hefði getað eytt drjúgum tíma þarna......

Íslensk grafík í Stokkhólmi

Nýverið opnaði sýning með verkum 13 íslenskra grafíklistamanna hjá Grafiska sellskapet í Stokkhólmi. Þetta er boðssýning á vegum sænska grafíkfélagsins og er haldin í tilefni af 100 ára afmæli þess og er hluti af margvíslegum hátíðahöldum af því tilefni en öllum grafíkfélögum Norðurlanda var boðið að sýna hjá þeim. Undirrituð situr í sýningarnefnd ÍG og hélt utan um sýninguna fyrir hönd íslenskrar grafíkur en sýnendur þóttu gefa góðan þverskurð af því sem er efst á baugi í faginu á Íslandi.

Hér er hlekkur á sýninguna http://www.grafiskasallskapet.se

Thursday, November 4, 2010

Litafræði - Hluti III


Susan Rothenberg er kraftmikil með einfalt mynefni en litakraftur einkennir þær.
Joan Mitchell ein af fáum konum sem tilheyrðu abstract expressionistunum.

Hundertwasser hannaði allt mögulegt....málaði líka.
Hans Hoffmann var mikilhæfur kennari.
Gerhard Richter. Með næstum fullkomna tækni.
Emil Nolde. Alltaf svo gefandi litanotkun.
Cecily Brown ótrúleg reiða í óreiðunni. Nær því með markvissri litanotkuninni.
Mamma Andersen er náttúrulega ótrúleg eitthvað svo nútímalega gamaldags í sínum litum en lika hvað hún málar þunnt.
Monet var nú með litina á hreinu en líka myndefnið sem hann valdi sér.
Í kvöld er síðasti tíminn hjá mér  í Litafræði til gagns og ánægju hjá Endurmenntun Háskólans. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg reynsla og gaman að tala um það sem manni þykir skemmtilegt að tala um og læra í leiðinni heilmikið sjálf um efnið. í kvöld mun ég sýna notkun lita í málverkum, listum, hönnun umhverfi og jafnvel kvikmyndum.
Josef Albers var upptekinn af virkni lita


Wednesday, November 3, 2010

UMBROT - SÝNING


Málverk máluð á tré og striga og tréristur þrykktar á gagnsæjan pappír og límdar saman.  Á óvissutímum eru sæfarendur og kærleiksríkir ljósberar uppteknir af voninni sem svífur yfir vötnum við mikil umbrot allt um kring. Ljósgjafinn heldur ljósinu stöðugu en óvíst er hversu lengi það má ganga enn.

Hluti af myndinni Landbrot
Það er alltaf svolítið skemmtilegt að sýna á óhefðbundnum stöðum, þ.e. ekki í galleríi eða á safni heldur einhversstaðar þar sem fólk kemur, kannski ekki beinlínis til að skoða myndlist en hún verður óhjákvæmilega hluti af einhverri upplifun. Á föstudaginn opna ég á veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarfangi og það hefur áhrif á það sem maður vill setja upp á svoleiðis stað. Ég kalla sýninguna Umbrot og vísa þar í ýmsar hræringar, eins og eitthvað sem er yfirvofandi. Þessir kappar eru þó kokhraustir og vissir í sinni sök. Þeir bera með sér vonina eða kannski leita þeir að henni með þessum skrýtnu sjónaukum.....