Thursday, April 26, 2012

Leysingar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

Það er mikið í gangi í Álafosskvosinni þessa dagana. Í gærkvöldi fékk ég hóp af hressum nemendum sem spreyttu sig á sjóndeildarhring og litum fyrstu "gróður" vorboðanna sem ég bar með mér alla leið af Álftanesi og setti á hvítan pappír á borðið. Fíflar, rabbarbarahnúður, moldarbingur og daufgræn strá voru viðfangsefni kvöldsins og framvindan glettilega góð. Verkefnið að blanda saman litina úr rauðum, gulum og bláum litum og fá úr því rauðfjólubláan lit rabarbarans, grsgrænu stráanna, skærgulan og rauðgulan lit fíflanna og svo mætti lengi telja. Litirnir: Lemon Yellow, Crome Yellow, Alizarin Crimson, Ultramarin Blár, Prussian blár, Scarlet Rauður og auðvitað blandað með terpentínu...lyktarlausri. Á laugardaginn koma þau svo með mynd, skissu eða ljósmynd af því sem hugurinn stendur til að festa á striga. Það þarf að hafa hraðar hendur til að ná árangri á stuttum tíma en það er bara gaman að því.

Degas vann sínar myndir hratt úti í náttúrunni með pastellitum sem hann teiknaði með á plötu, svo vætti hann blað í terpentínu og lagði ofan á plötuna. Þetta lét hann síðan þorna(í sólinni) og litaði svo áfram með þurrkrítinni. Hann elskaði liti og var sannkallaður "koloristi".


25.4.-5.5. 2012
Leysingar (fuglarnir, fossinn og fríðleiksblómið...)
Kennari: Soffía Sæmundsdóttir
Tími: Miðvikudaga 19:15-22:15 og Laugardaga 10-13 alls 4 skipti.




Degas - Þurrkrít þrykkt á pappír 
Stutt hressandi námskeið í olíumálun fyrir byrjendur og lengra komna. Unnið með umhverfið og liti vorsins. Farið í litablöndun og aðferðir sem nýtast vel til árangurs á stuttum tíma. Áhersla á góðan anda, vinnusemi og viðfangsefni sem hæfir hverjum og einum. 


Monday, April 9, 2012

Fyrirlestrar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

http://www.myndmos.is/nyacutett---styttri-naacutemskeieth-yacutemsir-kennarar.html

Composition frá 1916 eftir Kandinsky. Hann var mjög vandlátur á liti og hugsaði  mikið um að ná réttum samsetningum. Hann notaði nær eingöngu Sennelier liti sem hafa verið framleiddir frá því seint á 19. öld í París. Þeir eru þekktir fyrir gæði, framleiða eingöngu liti fyrir listamenn þ.e. "Artist Oil Colour" og nota línolíu í dekkri litina en poppyseed og safflower olíu í hvítu litina sem þýðir að þeir gulna ekki eins mikið. 
Ég er að undirbúa tvo skemmtilega fyrirlestra sem verða í þessari viku og næstu í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Þeir eru ætlaðir nemendum skólans en eru einnig opnir öllum og ekki þarf að skrá sig sérstaklega. Fyrri fyrirlesturinn fjallar um allt varðandi olíuliti, litanotkun og litahringinn en seinni fyrirlesturinn um allt varðandi tól og tæki í olíumálun. Þetta er mjög yfirgripsmikið efni sem ég ætla að koma frá mér í samþjöppuðu formi og aðgengilegt öllum svo það er áskorun að takast á við það. Í leiðinni er þetta heilmikill lærdómur fyrir mig því maður er alltaf að komast að einhverju nýju. Ég var til dæmis að skoða allar tegundir af ólíulitum sem eru framleiddar(amk. þessar helstu) og er strax búin að finna út ákveðna liti sem mig langar að prófa. Ég fer td. til Ítalíu í sumar og er ákveðin í að komast í litabúð og athuga hvort ég finn einhvern af þeim litum sem ég hef augastað á þar. Það er svo takmarkað flutt inn af olíulitum til Íslands og þó maður geti bjargað sér með það helsta þá er svo margt sem maður fer á mis við. Ameríka er náttúrulega gósenland málarans og almennilegar litabúðir eru engu líkar. Það er þó líka hægt að panta ýmislegt á netinu.

En hér eru lýsingar á fyrirlestrunum:


Litir og litafræði málarans
Fimmtudagur 12. apríl kl. 19:30-21:30
Farið yfir ýmislegt varðandi liti og litanotkun í olíumálun. Helstu hugtök í sambandi við liti eru skýrð og skoðuð með dæmum. Hvaðan koma litir, hvernig hafa þeir þróast í gegnum söguna? Hvernig varð litahringurinn til og hvaða lögmál ríkja varðandi hann? Hvernig getum við notað litahringinn persónulega fyrir okkur? Hvernig notum við liti og hvað ber að hafa í huga sérstaklega þegar málað er með olíulitum? Hvaða liti er gott að nota í undirlag og hvaða liti í slikjur? Skoðum lítillega mismunandi tegundir af olíulitum og muninn á þeim. Dæmi af ýmsum uppáhaldsmálurum fyrirlesarans tekin og skoðað hvernig þeir nota liti til að leggja áherslu á og túlka viðfangsefnin.

Fyrirlesturinn hentar þeim sem hafa verið að mála og þeim sem eru að byrja. Dýpkar skilning á litum og litanotkun og  gefur þér færi á að spyrja um það sem þig langaði alltaf að vita um liti.

Tækni tól og tæki málarans
Þriðjudagur 17. apríl  kl. 19:30-21:30
Allt sem viðkemur olíumálun dregið fram í dagsljósið og skoðað nánar. Allt frá penslum, striga og öðru undirlagi, litum, spöðum, íblöndunarefnum af ýmsu tagi og grunnum kynnt og helstu notkunarmöguleikar sýndir með dæmum. Ýmis praktísk atriði reifuð og sýnd með dæmum, varðandi frágang á myndum, íblöndunarefni og grunna. Tilvalið fyrir þann sem hefur verið að mála lengi, en hentar einnig þeim sem hefur aldrei málað áður en langar til að kynnast því. 

Það er tilvalið að fara á báða fyrirlestrana sem eru yfirgripsmikir og veita innsýn í ýmislegt varðandi olíuliti og notkun þeirra og þau efni sem tilheyra þeim. Í hefðbundnum tímum í málun læðist ýmis fróðleikur með sem ekki gefst færi á að skrá hjá sér en þarna er hægt að glósa og ná ákveðinni yfirsýn.

Fyriorlestrarnir eru haldnir í húsnæði skólans í Álafosskvosinni. Verð á hvorn fyrirlestur kr. 2000 fyrir nemendur skólans en 2500 fyrir aðra. Innifalið er kaffi og námsgögn.