Sunday, February 21, 2010

Átök og ögrun - Golub/Spero

Seinna myndbandið sem ég sá í dag er um listamanninn Leon Golub og reyndar lítillega um konu hans Nancy Spero. Það sem mér finnst áhugavert við verk Golubs er vinnuferlið en hann vinnur með ljósmyndir og samtímann og vinnur á mjög stórum skala en verk hans eru amk. 2 metrar á hæð og amk. 3 metrar á breidd og unnin beint á óstrekktan striga með akríllitum og vaxi á vegg og á gólfi. Hann notar ljósmyndir af fólki í mismunandi stellingum og myndir af hlutum til að velja myndefnið sem hann sækist eftir og í sömu myndinni er notast við margar mismunandi ljósmyndir. Myndir hans eru oftar en ekki mjög ögrandi og fjalla um átök og stríð og hermenn fólk og pyntingar. Það er svo aftur í vinnuferlinu sjálfu og þeim efnum sem hann notar þar sem mér finnst hann ná tengslum við myndina og skapa spennu. Eftir að hafa teiknað manneskjurnar inn á og hlutina og raðað því eins og hann vill á myndflötinn hefst áhrifamikið ferli  sem felst í því að hann vinnur myndirnar ýmist á gólfinu eða veggnum og málar með misstórum penslum með málningu úr stórum dollum yfir það sem hann er búinn að teikna inn á. Síðan leggur hann myndina á gólfið og hefst handa við að hella yfir og mála og skefur og klórar í lögin, hellir yfir og skefur í burtu, teiknar ofan í aftur og stundum límir hann yfir einhverja parta af myndinni meðan hann vinnur í öðrum og með þessu lagskipta ferli og þessum óvenju stóra skala næst mikil dýpt og saga í myndirnar. Litanotkunin er mjög ákveðin, jarðlitir og grátónar og pastel, skærir litir inn á milli. Kona hans Nancy Sphero, þekktur feministi og vinnur myndir af konum, einnig á stórum skala og oft með skírskotun í nútímann. Það er ekki mikið fjallað um verk hennar í þessari mynd en maður finnur samt að áhrif hennar á mann sinn eru sterk og hún tjáir sig um hvað betur megi fara í myndunum og hann spyr hana gjarnan álits(amk. í myndinni)enda eru þau saman með stóra vinnustofu og nokkra aðstoðarmenn. Golub er fæddur árið 1922 en lést 2004 og það er áhugavert að sjá síðustu verk hans í myndinni frá 2001 þar sem hann vinnur með texta, hunda og geometríu og manni finnst hann svolítið vera búinn að tapa sér....eða hvað....kannski bara frelsi til að gera það sem hann vill.

No comments:

Post a Comment