Monica, hollensk vinkona mín er komin í heimsókn. Hún er listamaður sem ég kynntist í Banff 2004 og við höfum haldið sambandinu allar götur síðan. Hún er ljósmyndari en í Kanada var hún að vinna æðislega skúlptúra úr örþunnu postulíni með ljósmyndum. Við sýndum saman í Grafíksalnum 2007 ég teikningar og málverk en hún sýndi ljósmyndir og skúlptúra. Það var svo merkilegt hvað þessi hollenski minimalíski andi skilaði sér inn í sýninguna. Við vinnum ólíkt en þó kannski ekki. Mér finnst hún aga mig og halda mér á jörðinni en hún slakar á. Við höfum í dag og kvöld velt fyrir okkur Íslandi um þessar mundir og hvað sú staða sem uppi er þýði fyrir það. Hún hjálpaði mér að koma mér fyrir á verkstæðinu og raða upp verkum fyrir morgundaginn og lá hvergi á skoðunum sínum sem er ótrúlega gott og hjálpar manni í vinnunni. Henni finnst ég ekki vera góð í að setja verkin mín fram og skilja kjarnann frá hisminu og ég geri mér grein fyrir því hvað það er rétt hjá henni þegar ég horfi á það sem hún valdi í kvöld með mér til að sýna. Einhver fágun og stíll sem skilar sér alla leið og ég hefði ekki valið hefði ég bara verið ein að setja þetta upp. Eins og í Safnasafninu fyrir norðan þar verður maður var við þessa fágun og hversdagslegan en litglaðan stíl. Á borðinu eru nú hvítir postulínsbollar, enginn eins sem hún kom með handa mér frá vinkonu sinni sem sendi mér þá og stór kringlóttur ostur í vaxi. Hann á að vera á borðinu en ekki í ískápnum og svo bara sker maður hann með hníf þegar rétti tíminn kemur.
No comments:
Post a Comment