Dagarnir eru svo kúfullir að það eru farnir að renna taumar niður. Í morgun keyrði ég hollenska andann til Keflavíkur og á leiðinni heim fann ég hvernig ég útvatnaðist og hið hvunndagslega líf tók yfir. Framundan dagur á vinnustofunni í ró og næði, heimsókn um hádegið og svo bara að munda pensla. Það var líka þannig og í lok dags er ég ringluð. Það var annasamt á vinnustofunni í maleríi og mannamótum af ýmsu tagi, allt gott og ég náði að prófa nýja pensla og halda áfram með einhverjar myndir. Spaghetti með reyktum veiðivatnaurriða og chilisósu í kvöldmatinn með kvik-yndinu og mikið rætt um dagana , handritið, framhaldið, vinnuna í sumar og allt sem mann langar í. Sinfónían kom út á mér tárum, Sellókonsert Dvorjak og ótrúlegur leikur Sæunnar Þorsteinsdóttur sem er eins venjuleg að sjá og nafnið gefur til kynna en eins óvenjulega góður sellóleikari og við mátti búast því þetta er ekkert venjulegt stykki og hún er bara 26 ára. Það er eitthvað við sellóleik sem kemur við hjartað á manni og strýkur því rækilega, hittir mann í hjartastað. Mér fannst merkilegt að lesa mér til um að Dvorsjak hefði búið í New York í þrjú ár og verið þar skólastjóri, hann var þjakaður af heimþrá og samdi því þennan konsert sem er eins og þungbúið bæheimst ættjarðarljóð, himinn og þoka og tár veðurbarða bænda sem staupa sig meðan þeir syngja blíðsárt komu upp í hugann en upplifunin í sjálfu sér dýpri en það.
hm....segir maður bæheimst eða bæheimskt?
ReplyDelete