Thursday, March 22, 2012

Uglur og Kiki Smith

Ég var að skoða á vefnum hvort ég finndi einhver spennandi málverk með uglum. Það hafa sést uglur á Íslandi undanfarin misseri, ugla er listamönnum hugleikin, en Kiki Smith er ein af mínum uppáhalds listamönnum. Hún vinnur á svolítið skemmtilegum nótum, myndir hennar eru frekar ævintýralegar en líka dálítið óhuggulegar, þær eru þarna á mörkunum. Hún vinnur í grafík, teikningar og skúlptúr og hefur lag á að koma manni á óvart. 
Kiki Smith - Samsettur pappír, teikning 

Kiki Smith - Dúkrista

Kiki Smith - Æting á svartan pappír

Kiki Smith - Æting

Tilda Lovell

Ég sá verk þessarar listakonu á sýningunni "Drawings" í Gallerí Lars Bohman í Stokkhólmi. Þar sýndi hún myndir  málaðar með hvítu bleki á svartan pappír. Eitthvað í verkum hennar minni á Kiki Smith, líklega það að hún vinnur á mörkum ævintýra og martraðar. En kannski líka það að hún vinnur með teikningar, skúlptúr og einskonar innsetningar.

Uglan hefur löngum þótt fugl næturinnar og tákn visku. En það er hægt að skoða og spá í fugla út frá ýmsum sjónarhornum. En hér er hlekkur á síðu um.....uglur:

Tuesday, March 20, 2012

Módel í Mos

DeKooning, Sitjandi maður i hvíld.


DeKooning, Sitjandi kona
Við erum að mála módel(ef það hefur farið framhjá einhverjum) uppi í Mos um þessar mundir. Ekkert mjög tæknilega í sjálfu sér. Margir hafa verið að mála myndir með manneskjum eftir ljósmynd og mér fannst kominn tími til að hafa lifandi fyrirmynd fyrir framan þau og spreyta sig á því að ná niður stöðunni, mæla og horfa án þess að fara mjög nákvæmlega í anatómíu og annað slíkt. Fyrst hafa þau grunnað á stóran striga einhverskonar rými(eða komið með "ljótt verk" sem þau tíma að mála yfir) og nú er komið að því að setja módel sem þau hafa skissað með kolum á brúnan maskínupappír í einum tíma, inn á myndina. Þetta er ekkert mjög létt fyrir þann sem hefur aldrei málað módel áður en líka ótrúlega spennandi. Mér finnst DeKooning fara snilldar vel með manneskjuna sem viðfangsefni og hvernig hann notar teikninguna með kolunum og málar frekar þunnt yfir brýtur þetta skemmtilega upp.

Skór

Ég fór á nokkur söfn og gallerí í Svíþjóð um daginn og tók þar eftir ungu sænsku listaspírunum, renglulegum strákum og stelpum í þröngum gallabuxum og slitnum ullarpeysum sem voru að skoða málverk.  Það var greinilegt að þetta voru krakkar með ástríðu fyrir myndlist en maður sá það á skónum þeirra að þetta voru málarar.....og þeir leggja mikið upp úr skóm, sem voru einskonar "status" eða stöðutákn.

Ég hef ekki fyrr áttað mig á því fyrr hvað skórnir hans Van Gogh eru mikil snilld. Hann málaði þá aftur og aftur. Merkilegt líka hvað skór gefa mikið til kynna um manneskjuna. Nemendur mínir eru að mála manneskjuna (módel) um þessar mundir. Það gengur vel, en ef þeir ættu að mála skóna sína(eða einhvers annars) þa´væri áhugavert að sjá hvernig gengi að skila karakter manneskjunnar sem á skóna. Það er ekki út af engu sem ungar listaspírur nota svona skó. En svo má líka bara mála skó sér til ánægju og yndisauka.
Van Gogh, 1886, 40x50 
Van Gogh, 1888, 40x50
 
Paul Housley, 2008, 40x50