Thursday, November 4, 2010

Litafræði - Hluti III


Susan Rothenberg er kraftmikil með einfalt mynefni en litakraftur einkennir þær.
Joan Mitchell ein af fáum konum sem tilheyrðu abstract expressionistunum.

Hundertwasser hannaði allt mögulegt....málaði líka.
Hans Hoffmann var mikilhæfur kennari.
Gerhard Richter. Með næstum fullkomna tækni.
Emil Nolde. Alltaf svo gefandi litanotkun.
Cecily Brown ótrúleg reiða í óreiðunni. Nær því með markvissri litanotkuninni.
Mamma Andersen er náttúrulega ótrúleg eitthvað svo nútímalega gamaldags í sínum litum en lika hvað hún málar þunnt.
Monet var nú með litina á hreinu en líka myndefnið sem hann valdi sér.
Í kvöld er síðasti tíminn hjá mér  í Litafræði til gagns og ánægju hjá Endurmenntun Háskólans. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg reynsla og gaman að tala um það sem manni þykir skemmtilegt að tala um og læra í leiðinni heilmikið sjálf um efnið. í kvöld mun ég sýna notkun lita í málverkum, listum, hönnun umhverfi og jafnvel kvikmyndum.
Josef Albers var upptekinn af virkni lita


Wednesday, November 3, 2010

UMBROT - SÝNING


Málverk máluð á tré og striga og tréristur þrykktar á gagnsæjan pappír og límdar saman.  Á óvissutímum eru sæfarendur og kærleiksríkir ljósberar uppteknir af voninni sem svífur yfir vötnum við mikil umbrot allt um kring. Ljósgjafinn heldur ljósinu stöðugu en óvíst er hversu lengi það má ganga enn.

Hluti af myndinni Landbrot
Það er alltaf svolítið skemmtilegt að sýna á óhefðbundnum stöðum, þ.e. ekki í galleríi eða á safni heldur einhversstaðar þar sem fólk kemur, kannski ekki beinlínis til að skoða myndlist en hún verður óhjákvæmilega hluti af einhverri upplifun. Á föstudaginn opna ég á veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarfangi og það hefur áhrif á það sem maður vill setja upp á svoleiðis stað. Ég kalla sýninguna Umbrot og vísa þar í ýmsar hræringar, eins og eitthvað sem er yfirvofandi. Þessir kappar eru þó kokhraustir og vissir í sinni sök. Þeir bera með sér vonina eða kannski leita þeir að henni með þessum skrýtnu sjónaukum.....

Thursday, October 21, 2010

Okkurgulur

Einn af fyrstu litunum sem maður lærir að þekkja þegar maður fer að mála er okkur litur. Þetta er jarðlitur sem hefur verið þekktur frá steinöld amk. og er í dag eini liturinn sem er notaður hreinn, þ.e. okkurlitur er búinn til úr hreinu jarðefni.
Það má hugsa sér sand eða kletta á Spáni. Okkur getur líka haft á sér rauðan blæ eins og sést á þessari mynd en líka út í græna og jafnvel fjólubláa tóna.

Hér er svo aftur okkur gulur úr litatúbu:

Endurmenntun Háskólans - Tími 1.

Í kvöld var fyrsti tíminn og ég fór í sögu litanna og þróun. Þetta er raunar mjög skemmtileg saga og gaman að velta fyrir sér hvernig litir hafa þróast í gegnum tíðina, hvernig nýjar uppfinningar og landafundir breyttu litanotkun. Gaman að spá í hvernig Loðvík 14, sjálfur Sólarkonungurinn hafði gríðarleg áhrif um gjörvalla Evrópu og lagði nýjar línur í tísku og menningu. Michael Eugéne Chevril kom líka fram með litahringinn í lok 18. aldar og Geroges Seurat lagðist í fræðin og prófaði sig áfram með því að nota punkta og láta þá mætast en blanda litina ekki. 
Hádegisverður við Signu


Það er ferlegt hvað litir skila sér illa uppi á tjaldi í stofu. þeir verða eitthvað svo mattir og ljótir og mér finnst nemendur fara mikils á mis við að fá ekki að skoða myndir í fullum gæðum. Sem betur fer eru góðar bækur til með góðum myndum en ekkert jafnast á við að skoða myndir augliti til auglitis. Ég hef til dæmis séð myndir Sargents Singer á safni og það var ótrúleg upplifun. Hér er ein af mínum uppáhalds:






Það er svo ótrúlega flott hvernig hann notar kontrastana í svarta og hvíta litnum og hvað það eru í raun margir tónar í hvíta kjólnum sem konan klæðist. Ég verð líka að segja að Rafael er einn af mínum uppáhalds málurum. Hann var á hátindi frægðar sinnar í kringum aldamótin 1500 og hlýtur að hafa unnið sleitulaust því hann varð ekki gamall maður og dó aðeins 37 ára gamall, en eftir hann liggja mörg snilldarverk. Hér er portrettið af Leó X páfa.

Ég myndi skoða það í góðri bók því þá skila litirnir sér betur en það er samt gaman að sjá alla þessu rauðu tóna sem hann notar. Rafael var örugglega mjög vel að sér í litafræðum og hefr velt mikið fyrir sér hvaða liti ætti að nota en svo hefur hann örugglega líka verið með góðan aðstoðarmann sem hefur malað Cochinal pöddurnar vel. Aztekarnir notuðu rauðan lit og notkun hans var þekkt í Suður Ameríku, en þegar litarefnið var flutt til Evrópu varð rauður litur gríðarlega vinsæll. En kannski voru það einmitt svona snilldarmálverk eins og verkið hans Rafaels sem átti sinn þátt í því. Hér er mynd af Cochinal pöddu og kaktusi þar sem þær þrífast. 





Sunday, October 3, 2010

Dagur myndlistar


af vinnustofunni...


gægst inn....
málverk....
Dagru myndlistar var haldinn hátíðlegur á laugardaginn. Opnar vinnustofur voru víða um land hjá myndlistarmönnum og ný vefsíða tileinkuð þessum degi var opnuð. Málarinn við höfnina lét sitt ekki eftir liggja og var opið á vinnustofunni milli 14 og 17 og var opið á báðum hæðum, kynning á námskeiðum og fleiru skemmtilegu lágu frammi og nafnlausa sögumyndin ásamt nokkrum sögur sem gestir menningarnætur og Bjartra daga skrifuðu héngu á vegg. Vonandi á þessi dagur eftir að festa sig í sessi. 

Monday, September 27, 2010

Dagur myndlistar - Vinnustofa Soffíu - Málarinn við höfnina

Bjartir dagar 2010 - Huggulegt hjá Málaranum við höfnina - Vinnustofa Soffíu Sæm.
Frá Björtum dögum 2010 - Sýningin Sögur -  Trúbadorinn Guðrún Hólmgeirsdóttir
Frá Björtum dögum 2009 - Sýningin Blikandi haf og sjómannalög í flutningi Signýjar  Bergþórs og Reynis
Allt á fullu...
Á laugardaginn 2. október er dagur myndlistar haldinn. Þá opna myndlistarmenn og konur vinnustofur sínar og bjóða fólki að koma. Hér koma nokkrar svipmyndir af vinnustofunni. Ég ætla að auglýsa sérstaklega dagskrána sem ég verð með en það verður ýmislegt brallað á laugardaginn....alltaf eitthvað um að vera hjá málarnum....
Í salnum niðri - Teikningar, málverk...


Tilbúin sýning 2009 ...eftir að senda út

Monday, September 20, 2010

Kennslan hefst

....lífsins ólgusjór....
Á morgun byrjar kennsla í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Ég hlakka mikið til og sé að ég hef verið með hugann við það í sumar að undibúa mig þegar ég skoða myndirnar sem ég hef tekið á myndavélina mína. Ég ætla að fjalla um liti og litafræði og hef því leitað eftir spennandi myndefni og myndum sem undirstrika það. Ég fór td. á nokkrar sýningar og þar tók ég myndir af myndum sem mér fannst sýna vel hvernig litir virka í samspili við aðra liti. Svo hef ég myndavélina alltaf í vasanum og tek myndir eftir hendinni. Ljósmyndir eru góðar til að skrásetja það sem maður er að hugsa og á tímum "digital" myndavéla þá er hægur vandi að taka nóg af myndum því maður bara eyðir þeim sem eru ekki áhugaverðar. Það er líka hægt að prenta myndirnar út sjálfur við tiltölulega lítinn tilkostnað.

Sunday, September 19, 2010

Ljóta húfan.....halló halló, er einhver að fylgjast með?

Ég er búin að vera með þess síðu í dálítinn tíma og hef líklega fengið um það bil 10 comment á það sem ég er að gera, einhverjir hafa sagt við mig að þeir hafi séð síðuna og aðrir hafa tjáð sig við mig en ég sakna þess að fá ekki meiri viðbrögð. Svo nú bið ég þig lesandi góður að setja eitthvað gáfulegt í comment...þó ekki væri annað en .....jaá ....ég les þetta stundum...eða asnaleg húfa....

Monday, September 13, 2010

heitt/kalt




Fjalladrottning móðir mín...


Mynd úr Maríuseríunni frá 2002. 

ljós/skuggi



Ég er með hugann við andstæður þessa dagana. Kannski afþví ég er að skoða og skrá allt sem ég finn um liti og þá dettur manni þetta í hug. Ég er eiginlega með hugann við himnaríki og helvíti.



Sunday, September 12, 2010

Hugmyndasmiðjan...

Ég er alltaf eitthvað að spá. 

Kannski smá klikk...
Fæ stórar og miklar hugmyndir og skrifa þær niður, 
teikna og hanna og skoða og langar og ætla...

En vakna svo næsta morgun
eða kannski bara eftir smástund!

hugsa
æi
þetta var kannski ekkert svo sniðugt.

En núna.
Sit ég á fimmtudögum með fólki sem er eins og ég.
Það er með hugmynd og langar að gera eitthvað við hana.

Ekkert er ómögulegt.
Allt er hægt.

Mín hugmynd er kannski ekkert svo frábær
ekkert svo frumleg
ekkert svo sérstök...

en hún er mín!

...og mér er sagt að það sé allt í lagi að:
láta mína persónu skína í gegn
allt í lagi að segja frá öllu
allt í lagi að gefa allt besta stöffið
en ekki að hringja í fjölmiðla á föstudögum.

Málarinn við höfnina
lifandi vinnustofa

Friday, August 27, 2010

Endurmenntun Háskólans - Litafræði

Þetta er litahringur Goethes. Hann velti mikið fyrir sér áhrifum ljóss og skugga á  liti

Þetta er litahringur Ittens en hann velti mikið fyrir sér  samspili lita. Hann setti frumlitina 3, gulan rauðan og bláan í miðjuna, annars stigs litina appelsínugulan, grænan og fjólubláan sem blandast úr frumlitunum þar fyrir utan og loks þriðja stigs litina sem voru blandaðir úr frumlit og annars stigs lit yst. 
.
Ég mun einnig kenna stutt námskeið hjá Endurmenntunarstofnun sem nefnist Litafræði til gagns og ánægju en þar verður stiklað á stóru um fræði lita og virkni, farið í sögu þeirra og þróun,  áhrif þeirra og tákn og er ótrúlega spennandi að setja þessa fyrirlestra saman. Fyrir mig er það óvanalegt að byggja kennsluna eingöngu upp á fyrirlestrum þó ég muni sýna einhver dæmi um litablöndun . Saga litanna er mögnuð þróun menningar og er gaman að lesa um hvernig nýjar uppgötvanir lita og landvinningar kónga skila sér í menningu og listum gegnum aldirnar og hvernig táknfræði lita er mismunandi eftir tíma, menningu og heimshlutum, Litahringurinn er svo í raun afar merkilegt fyrirbæri sem gaman er að velta fyrir sér og hann getur líka verið ótrúlega mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að því að raða litum saman. Það er heilmikil heimspeki tengd virkni lita og þó ég fari ekki svo ítarlega í það á námskeiðinu er samt ætla ég að reyna að stikla þar á stóru. Aðalatriðið er að þátttakendur fari út með brennandi áhuga á litum og séu einhvers vísari.  Hér er hlekkur á námskeiðslýsinguna. Þetta námskeið hefst 21. október og er þrjú fimmtudagskvöld í röð.

Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Haust 2010


Það er stundum gaman að gleyma sér....

Þarna er verið að vinna með vax.

Ég mun kenna í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar á þriðjudagskvöldum framhaldshópi í málun. Ég hef kennt þar undanfarin 5 ár og haft gaman af. Á síðustu önn var unnið með drauma og hvernig maður skapar draumkennda áferð og kynnti ég vax sem íblöndunarefni í olíulit. Á þessari önn verða litirnir teknir föstum tökum undir yfirskriftinni  " Litafræði fyrir lengra komna". Stutt verkefni og löng munu hverfast um liti og þann persónulega litahring sem hver og einn mun vinna samkvæmt minni forskrift. Vanalega er ég með frekar lausbeislað form en að þessu sinni ætla ég að vera með ákveðin verkefni og hlakka til að sjá nemendur mína takast á við þau. Hér er heimasíða skólans. Innritun hefst innan skamms. 
Frá vorsýningu skólans 2010. Veggur með nokkrum verkum nemenda minna.





Reykjanes - Námskeið Dagar við Djúpið

Töfrandi umhverfi
Í maí sl. stóð ég fyrir námskeiði í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þetta var 5 daga námskeið þar sem mætt var með striga og liti og málað í ró og næði, öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar og matur og gisting innifalin. Umhverfið var skissað og skoðað og unnið með það eins og hver og einn vildi. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að vinna óháð tíma á ákveðnum stað og þó einhverjir hefðu viljað koma heim með margar myndir til að sýna þá er alveg öruggt að það sem eftir situr í huganum mun skila sér með tíð og tíma. Langar sumarnætur sitja eftir í minningunni og ekki ólíklegt að þangað verði einhverntímann farið aftur.


Skólastofan undirlögð


Myndir á ýmsum stigum

Ekki slegið slöku við að vinna með umhverfið


Litafræði

Gamall ryðgaður tankur, flott litasamsetning
Í grænum greniskóg, sjáið öll mörgu litabrigðin og hvernig birtan breytir græna litnum.
Gólfmotta á Síldarminjasafninu. Eru þetta sömu litir og í gamla tanknum. Hvert skyldi hönnuðurinn hafa sótt innblásturinn
Það er óhætt að segja að haustið verði fullt af litum. Ég ligg þessa dagana yfir bókum og ýmsum gögnum um liti og litafræði og velti því látlaust fyrir mér hvernig ég geti talað um liti og virkni þeirra án þess að gera þá óspennandi og fæla áheyrendur frá öllu því skemmtilega, dularfulla og leyndardómsfulla sem fylgir þeim. Sjálf hafði ég mestu ímugust á litafræði í skóla en eitthvað gerðist þegar ég fór kom inn í kennslu í Tækniskólanum sl. vetur þar sem verið var að kenna litafræði Ittens og ég fór að endurskoða ýmislegt sem ég hefði áður verið búin að loka á. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt.

Tuesday, May 11, 2010

Hung Liu - Alltaf að

Ég fékk póst frá Hung Liu kennaranum mínum í gær. Hún vildi vita hvernig við hefðum það á Íslandi og hvort hér væri allt í kaldakoli. Hún sendi mér líka hlekk á nýjustu sýninguna sína og það er alltaf jafn gaman að sjá hvað hún er að fást við. Heiti sýningarinnar er "Drawing from life and death" og er í Rena Branstein galleríinu í San Francisco sem er mjög flott. Að þessu sinni skoðaði ég líka myndböndin sem eru á síðunni og þar komu fram spennandi myndir sem hún vann árið 2007 þegar hún notaði bíómynd sem var framleidd 1949 sem innblástur á mjög áhrifaríkan hátt. Hún er einnig farin að vinna mjög stórar myndir og get ekki annað en dáðst að kraftinum http://www.renabranstengallery.com/liu.html.

Sunday, May 2, 2010

Vinnuferð í Reykjanes



Ég hyggst bjóða upp á námskeið á Reykjanesi fyrir vestan í lok maí. 27. maí til 1. júní. þetta verður lúxusferð þar sem allt er innifalið, gisting, matur, góður félagsskapur og kennsla, eina sem þarf að gera er að koma sér á staðinn og taka með sér það sem maður ætlar að mála með og á. Ég hlakka til, þetta er skemmtilegur tími og það verður gaman að geta setið við óháð tíma og mála. Ég ætla að vinna með umhverfið þarna en staðurinn er ótrúlega fallegur og auðvitað bjart allan sólarhringinn á þessum tíma. Það verður vaknað snemma og farið út. Eða vakað lengi og farið inn seint. Ég hef hugmynd um að vera með einfara í myndlist sem innblástur. Það er nefnilega margt hægt að læra af þeim sem mála það sem þeir elska. Stefán frá Möðrudal var til dæmis mjög hrifinn af Herðubreið og málaði margar myndir af fjallinu eina. Færeyskir málarar hafa lika margir hverjir ákveðna einlægni til að bera í sinni myndlist þó þeir séu ekki endilega einfarar í þeim skilningi. Það er nefnilega ákveðin einlægni sem fylgir því að mála það sem maður þekkir.
 Hér er linkur á hótelið.

Thursday, April 1, 2010

Ýmislegt um eldgos


Hér má sjá túlkun tveggja listamanna á eldgosi á 18. öld. Annars vegar bretinn Turner með Vesuvius og hins vegar bandaríkjamaðurinn Edwin Church með suður ameríska fjallið Coxata. Það er athyglisvert hvernig þeir nota myndbygginguna og liti markvisst til að ýkja stærðina á þessum náttúruundrum og draga vissa hluti fram. Í mynd Turners eru skipin eins og táknmynd heimsins mót stórfenglegu fjallinu og eru dregin dökkum dráttum en hvít mýkt fossins og fjallsins mynda ákveðnar andstæður móti gulri sólinni í mynd Church en reykurinn og klettarnir tengjast með dökkum lit á móti og mynda grunninn.

Eldgos - Rauður


Það gengur mikið á í náttúrunni um þessar mundir. Eldgos í Eyjafjallajökli sést víða og margir fara á staðinn til að skoða. Appelsínurauði liturinn er magnaður og hann þröngvar sér í myndirnar hjá mér. Rauður litur er flókinn í notkun. Hann er jafnframt alveg ótrúlega fallegur sé hann rétt notaður. Hann getur verið agressívur og ögrandi, rómantískur og rólegur, glaðlegur og gefandi. Það er auðvelt að klúðra honum og  örítill dropi af hvítum getur gert hann bleikari en allt sem bleikt er. Doppa af bláum breytir honum samstundis í skærfjólubláan, en gul doppa í skær appelsínugulan. Minn uppáhaldsrauður er Alizarin Crimson(W&N litur) og blandi maður Cadmium Yellow í hann(sömu tegund) fæst þessi skær rauð appelsínuguli litur sem einkennir gosið. Þessi mynd er tekin af vini mínum Gunnari Karli Gunnlaugssyni ljósmyndara.

Saturday, March 20, 2010

Verkefni

Ég setti nemendum mínum fyrir það verkefni fyrir næsta tíma að skoða tvær sýningar. Önnur er bókasýningin Context í Norræna Húsinu en það er mjög gott að skoða hana með því að horfa á aðferðir, áferðir og hvernig hægt er að tengja það við það sem mann langar að segja með td. bókverki eða málverki. Síðan er önnur sýning á þjóðminjasafninu Ævispor sem er útsaumssýning Guðrúnar Guðmundsdóttur sem, hefur saumað út af miklu listfengi með gömul handrit og forn útsaumuð klæði sem fyrirmynd. Mig langar til að nemendur mínir velti fyrir sér tengslum handverksins og myndlistar, hvað gerir verk að listaverki. Hvað er listamaðurinn að segja í verkum sínum?Ég set hér líka textann í stærra letur og öðruvísi leturgerð til prufu.

Tuesday, March 16, 2010

Hung Liu

Ég sýndi nemendum mínum mynd uppi á skjá með Hung Liu að vinna í kvöld í tíma. Ég dáist ótrúlega að henni og því hvernig hún nær að halda myndunum sínum svona ferskum, þunnum, með skýra sýn, Hún vinnur mikið með ljósmyndir en þær eru frá henni sjálfri eða tengjast henni amk. á einhvern hátt og það er gaman að sjá hvað stærð verka henni gerir mikið. Skoðið þetta: http://www.youtube.com/watch?v=LV8e43K2zCI

Sunday, March 14, 2010

Eiginleikar efna - vax


Margir málarar nota vax í myndirnar sínar. Það er sérstaklega mikið notað í Ameríku og þar er hægt að fá margar mismunandi gerðir af vaxi, bæði til að blanda beint í litinn og beewax til að hita og nota beint eða blanda í litinn. Ég er að láta nemendur mína prófa þetta efni og í síðasta tíma lét ég þá undirbúa tré og masónítplötur með því að grunna þær, setja lit á þær, jafnvel líma á þær úrklippur, texta, myndir o.sv.frv. Þetta vakti mikla lukku og gleði þegar var hægt að láta gamminn geysa, allir við eitt borð og efnin á því miðju. Þetta er alltaf svolítið gefandi að vinna svona og mér finnst það oft skila heilmiklu, þetta eru oft verkefni sem eru öðruvísi og falla ekki beint inn í rammann. Í næst tíma eiga þeir svo að prófa vaxið og nú velti ég fyrir mér hvernig er best að kynna þetta efni fyrir þeim markvisst því ég vil fá málverk en ekki föndur og sérstaklega í þessu verkefni er stutt á milli. Eiginleikar vaxins eru að það getur verið gegnsætt, það getur líka verið gamaldags, varpað hulu yfir, það getur líka gert litinn þykkan og ómeðfærilegan og nú er mitt að kynna þetta þannig að nemendurinir ráði við þetta. Sjálf nota ég vax mikið en þá bara Cold Wax medium sem ég blanda beint út í litinn svo hann verður þykkur. Sérstaklega á þessari neðri mynd sést hvernig hægt er að nota vaxið transparent. En í þeirri efri límdi ég pappír fyrst, hellti waxi yfir, málaði ofan á, þunnt með línolíublönduðum lit.

Bókasýning


Bók er góð.
Hún er blaðsíður og stafir og setningar og myndir. Hún er þykk og hún er þunn, hún er úr góðum pappír eða vondum, glans eða möttum. Hún er stór eða lítil, ferköntuð aflöng.....

Á bókasýningu í Norræna húsinu eru til sýnis allskyns bækur. Það víkkar sannarlega út sjóndeildarhringinn að sjá hversu margir möguleikar eru með því að taka hugtak eins og bók og búa til úr því sýningu. Bókin vex og stækkar og þykknar og blæs út og belgist.....

Ég elska bækur fyrir það sem þær eru, sagan sem þær bera með sér, tíminn sem þær fela í sér. Þetta er bókahillan með öllum ástarsögunum sem ég las þegar ég var unglingur. Ég velti því stundum fyrir mér hvaða áhrif bækur hafa haft á líf mitt. Einhver myndi segja að þetta væru ekki merkilegar bækur. En kannski eru það einmitt ómerkilegu hlutirnir sem hafa mest áhrif í lífinu.

Thursday, March 11, 2010

Viola Frey


Fjölskyldan - Family Portrait



Ég sat í áheyrn í Tækniskólanum í dag í kúrs sem heitir menning og listir og sá þar myndband um listkonuna Violu Frey sem var bandarísk og vann einkum í keramik, risstóra skúlptúra þar sem voru ýmist stórar manneskjur eða fundnir hlutir sem hún fann á mörkuðum og blandaði í verk sín. Hún fæddist í Kaliforníu og mér finnst verk hennar bera þess merki. Það var gaman að sjá gamla kennarann minn, Ron Nagle sem líka er frábær listamaður, tala um hana og verk hennar. Hér má sjá verkk eftir hana sem hún kallar fjölskyldumynd og er sambland af mörgum manneskjum. Hún notar liti mjög skemmtilega og er óhrædd við að blanda þeim saman. Það merkilega er að hún lærði hjá Mark Rothko í New York en reyndar var hún ekki lengi þar og bjó alla tíð og starfaði á vesturströndinni. þar eru margir fleiri skemmtilegir keramiklistamenn og Ron Nagle kynnti okkur fyrir mörgum flottum þegar ég var í náminu. Hann er sjálfur ótrúlega geggjaður listamaður, hann vinnur með formið bolli og breytir því á alla mögulega og ómögulega vegu svo það er ekki nytjahlutur heldur skúlptúr. Hann er líka nokkuð þekktur tónlistarmaður og frábær manneskja. Verk eftir Ron Nagle.

Monday, March 8, 2010

Hreyfanleiki í listum


Las góða grein " Social life of Art" sem kemur inn á það hve margt í sambandi við listir er breytingum háð. 

Greinin fékk mig m.a. til að velta því fyrir mér:

Hver horfir td á málverkið?
Í hvaða samhengi er það?
Er það í galleríi, heima hjá einhverjum, fær það góða birtu?
Í hvaða samhengi er sá sem horfir á það? Er það listfræðingur, listamaður, gamall maður, sálfræðingur, ung stúlka?

Það má líka velta fyrir sér sögunni í þessu samhengi, hver segir söguna og hvernig lifir hún. Hvernig verður  einmitt í þessu samhengi litið á mig og mína list í sögunni? Hvernig verða verkin mín túlkuð og hver erfir þau? Skiptir máli hvað er að gerast í mínu lífi 2010 og hefur það áhrif á það hvað ég mála og hvað ég geri?

Hvernig mun sagan líta á Feneyjardvöl Ragnars Kjartanssonar?

Sjálf tók ég þátt í samsýningu í Hafnarborg 2007 sem hét 50 Hafnfirskir listamenn. Ég sýndi eina mynd frekar stóra málaða á tré og hét "Ganga". Það var mikið landslag í henni og ferðalangur sem hélt á fiski við dálitla tjörn. Þetta var fyrsta verkið sem ég málaði á nýju vinnustofunni í Fornubúðum. Ég heyrði af tveimur konum sem skoðuðu myndina og sögðu: Vá hvað þetta væri flott landslag ef það væru ekki þessir kallar þarna. Já............Hvernig mun sagan fara með þátttöku mína í þeirri sýningu? Hvaða stöðu munu " þessir karlar" hafa eftir kannski 50 ár?

Thursday, March 4, 2010

Sköpun í kennslu

Hvað ýtir undir sköpun, hvað stoppar hana og hvað er frumlegt....Ég er að lesa grein eftir kennslufræðing sem er að velta þessu fyrir sér. Hann talar um hvort það að sýna verk eftir einhvern og að sýna hvernig á að gera hlutina geti hindrað sköpunarferlið. Ég er ekki viss. Þó get ég sagt það að þetta er svolítið í þeim anda sem ég kenni. Ég forðast að segja fólki hvað það á að mála, forðast að sýna hvernig það á að gera hlutina og forðast að segja hvað sé rangt og hvað rétt í raun. Allt er jafngilt. Kannski ekki allt samt. Það væri of mikið að segja það. En ég gef fólki ekki upp hlutföll og stærðir og blöndur eins og sumir kennarar gera, ég segi þeim ekki hvað þeir eiga að mála né hvaða liti þeir eiga að velja, ekki nema þeir spyrji mig. Hef kannski ekki alveg forsendur til að velta því fyrir mér hvort þetta er rétt hjá mér og hvort þetta skilar einhverju. Hinsvegar finnst mér þeir nemendur sem hafa verið hjá mér lengi vera orðnir sjálfstæðir og vita hvað þeir vilja svona oftast.