Tuesday, June 7, 2011

Bjartir dagar og sumarið framundan...

Opið var á báðum hæðum og nýjustu verkin á trönunum auðvitað.

Margir komu til að hlusta á Auði Gunnarsdóttur syngja af  "Little things"



Stöðugur straumur...
Auður Gunnarsdóttir söng nokkur lög...


Einn veggurinn af "pop up" sýningunni.
Bjartir dagar á vinnustofu minni í Hafnarfirði um helgina tókust einkar vel. Mikill fjöldi gesta sótti hátíðina heim og var gerður góður rómur að því sem þar var á boðstólum. Vel á annað hundrað manns komu á opnun pop up sýningar og tóku þátt í listaverkahappdrætti og margir komu aftur til að vera viðstaddir þegar Auður Gunnarsdóttir söng af nýútkomnum diski sínum "Little things"og vildu ekki missa af þegar dregið var í happdrættinu. Aðalvinningurinn "Hvíta birta" kom í hendur ungs drengs sem staddur var þarna með ömmu sinni og afa og var hann heldur en ekki glaður. Sögumálverkið var á sínum stað og eru margar áhugaverðar sögur komnar í kassann en svo vel tókst til á síðasta ári að ákveðið var að endurtaka leikinn.
Vinningshafi í Listaverkahappdrættinu

Hluti úr sögumálverkinu 2010
Á sjómannadaginn var mikið um að vera við höfnina og lét Málarinn við höfnina sitt ekki eftir liggja með sjómannadagsstemmingu. Pönnukökur og kaffi voru í boði hússins og klukkan 3 tók Marín Hrafnsdóttir menningarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar við "Sögum af björtum dögum 2010" litlu kveri sem gefið var út með sögum sem samdar voru við sögumálverkið 2010.

Helena Mjöll Jóhannsdóttir fékk verðlaun fyrir skemmtilegustu söguna 2010 sem var bæði titill og saga og var yfirskrifitn "Bjarma slær á engi" sem var jafnframt sá titill sem fór á málverkið, sagan fjallaði um vinina Bjart og Hjalta sem nutu veðurblíðunnar. Draumkenndur og fallegur texti sem hæfði myndinni sannarlega eins og þeir reyndar gerðu margir textarnir hver með sínum hætti. Stefnt er að því að gera þetta að árvissum viðburði.

Helena fékk í verðlaun málverkið "Draumarnir taka yfir" og bókina sem gefin var út.

Nokkuð var um að fólk skráði sig á námskeið í sumar en vikuna 10. - 14. ágúst verða haldin námskeið í litum og litafræði sem hentar þeim sem hafa verið að mála í langan tíma og langar að öðlast ferska sýn á liti með nýjum kennara og einnig verður haldið námskeið fyrir byrjendur eða þá sem litla reynslu hafa. Nokkuð hefur verið spurt um styttri námskeið  og ef nægur fjöldi fæst hef ég hug á að vera með eins dags námskeið í ákveðnum þáttum td. hvað þarf að hafa í huga við að mála landslag og er þá heill dagur frá 10-17 þar sem farið er í helstu atriði. Allt frá skissugerð til fullgerðs málverks. Næsta námskeið er 3. júlí. Námskeiðin eru eins og áður á vinnustofu minni.


En sumarið er til að njóta skoða, horfa og vera til. Ég verð mikið við á vinnustofunni því það eru stórar sýningar framundan og alltaf opið þegar ég er á staðnum.Þar er líka hægt að skrá sig á námskeið, skoða myndir og fleira..

Tuesday, May 3, 2011

Skemmtilegt sumar framundan?

Hvað ætlarðu að gera í sumar? Hefurðu prófað að mála með olíulitum? Er ekki sumarið tíminn til að gera eitthvað skemmtilegt?
Verð með námskeið um helgina á vinnustofunni. Fleiri námskeið fyrirhuguð í maí og júní. Upplagt að koma sér af stað! Skráning í s:8987425 eða á soffias@vortex.is


5.-7. og 8. maí  Olíumálun fyrir byrjendur
Námskeið sem hentar þeim sem hafa aldrei málað með olíulitum áður. Farið yfir helstu tól og tæki í olíumálun og nemendum leiðbeint með hvaða efni er best að kaupa. Farið yfir einfaldar aðferðir til að velja sér myndefni og hvernig á að mála það. Allt efni innifalið og í  lok námskeiðs fara allir heim með fyrsta málverkið sitt(fyrstu málverkin sín).


Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:25.000

Saturday, April 30, 2011

Wednesday, April 13, 2011

Listamannadvöl

Nú hef ég verið hér í Varmahlíð í Hveragerði í u.þ.b. 10 daga og er farin að koma mér upp rútínu sem byggist á göngu og skoðunarferðum um nágrennið, lestri, skissu og hugmyndavinnu, hlustun, yfirlegu á hinu og þessu, tiltekt og naflaskoðun af ýmsu tagi. Hveragerði kemur mér á óvart. Þetta er sannarlega skemmtilegur bær með sögu. Hér var á árum áður líklega fyrsta listamannanýlendan og er meira að segja heilt hverfi þar sem rithöfundar og listmálarar komu sér fyrir. Margar gönguleiðir eru i bænum og hér rennur Varmá í gegnum bæinn og er margbreytileg á hverjum degi. Það er titringur í jörðinni og drunur úr nálægum hverum og gufan sem stígur úr þeim til himins er aldrei eins á litinn. Hér eru líka krókusar og aðrir laukar farnir að spretta upp úr jörðinni og mér finnst allt hér grænna en í höfuðborginni. Stór gróin tré með mosavöxnum stofnum eru traustvekjandi og svo eru fyrstu vorboðarnir, farfuglarnir farnir að láta á sér kræla. Hér er auðvitað dýrindis bakarí steinsnar frá og blómabúð með litríkum sumarblómum. Heilsugæsla, apótek, leikskóli, grunnskóli, elliheimili og kirkja. Þetta sé ég allt frá tröppunni á litla húsinu sem ég bý í. Einfalt líf, en gott og gefandi og afraksturinn af því er smám saman að byggjast upp.

Monday, April 4, 2011

Apríl - Listamannadvöl/sýning á EFLU/vinnustofa

Ég fékk úthlutað dvöl í Varmahlíð í Hveragerði í aprílmánuði. Varmahlíð er hús sem Hveragerðisbær úthlutar í mánuð í senn til listamanna úr ýmsum listgreinum. Tímann ætla ég að nota til að hlaða batteríin, vinna hugmyndavinnu að sýningu og þróa ákveðna hugmynd betur sem hefur verið kollinum á mér lengi. Ég hlakka til að nýta þetta tækifæri og vona að þetta nýtist mér til framtíðarverka!

Vinnustofan mín í Hafnarfirði verður því lokuð þennan tíma en hægt að fá að skoða eftir samkomulagi.

Andyri Eflu
Um helgina hengdi ég upp sýningu með verkum mínum á Verkfræðistofunni Efla sem staðsett er á Höfðabakka(í gamla Tækniskólanum). Þetta er fallegt húsnæði og fjölmennur vinnustaður sem stendur fyrir sýningum með völdum listamönnum á 6 vikna fresti. Það er öllum velkomið að skoða sýninguna á vinnutíma og þetta er sölusýning.

Monday, March 14, 2011

Myndbönd

Ég hef verið að setja inn hér á síðuna ýmis myndskeið sem mér finnast áhugaverð fyrir ýmsar sakir. Sérstaklega vegna þess að þetta eru allt myndskeið um aðferðir málarar og mér finnst þeir allir vera með ákveðna áherslu á efnið, undirlagið og það vekur athygli mína hvernig þeir mála eða hvað þeir hafa um það að segja. Það eru mörg mjög áhugaverð myndskeið á youtube og ég valdi bara nokkur. Ég fann þó engin íslenska málara í fljótu bragði og ég átti í miklum erfiðleikum með að finna einhverja spennandi kvenkyns málara. Kannski maður verði bara að fara að framleiða svona myndbönd!

Marlene Dumas: Measuring Your Own Grave, on view at MoMA

Women Artists: Gabriele Münter

Art:21 | Elizabeth Murray

Art:21 | Vija Celmins

Gerhard Richter. Overpainted Photographs

BRICE MARDEN's theory of painting

Anselm Kiefer

Susan Rothenberg: Emotions | Art21 "Exclusive"

Helen Frankenthaler

Að mála á tréplötur

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að hægt er að mála á ýmis efni. Til dæmis hefur verið málað á tré frá örófi alda og pappír býður upp á ótal möguleika. Það er hægt að setja ýmsa hluti inn í málverk og einnig er hægt að skeyta saman málverkum þannig að þau myndi eina heild. Möguleikarnir eru óteljandi en hafa þarf í huga frá upphafi að mikilvægt er að td. líma hluti eða festa vel inn á myndina.

Öllu skiptir að grunna vel það sem á að mála á, td. þarf að grunna tré vel á báðum hliðum með trégrunni eða gezzo sem er sérstakur akríl grunnur og fæst í listmálarabúðum. Sjálf mála ég mest á 9 mm. krossvið og  læt saga hann í ákveðnar stærðir í timburverslunum. Timbur er lifandi efni og það er það sem ég sækist eftir, æðarnar í viðnum, kvistirnir og þeir möguleikar sem bjóðast með því að skera í efnið, pússa það með sandpappír hentar mér vel. 

Í þessari mynd er ekki eins greinilegt á hvaða efni er verið að mála. Hér er flöturinn sléttari og meira unninn. Ef vel er að gáð má þó sjá lítinn kvist í himninum.
Í þessari mynd sjást vel efniseiginleikar trésins, það er þó vel hægt að slétta flötinn alveg út með því að bera gezzo á nokkrar umferðir og pússa á milli eða að mála á fínni tréplötur.



Þess ber þó að geta að auðvitað skiptir máli hvað við erum að mála, þ.e. hvert er myndefnið og hverju viljum við ná fram. tréð getur verið mjög ósveigjanlegt og það tekur langan tíma að ná fram því sem ég sækist eftir. Ég legg mig fram um að ná fram tilfinningu fyrir liðnum tíma í myndum mínum og þess vegna fór ég að mála á tré í upphafi og að afla mér upplýsinga um hvernig hefur verið unnið á tré í gegnum tíðina.











Sunday, March 6, 2011

Námskeið - Litir og óhefðbundin efni í mars

Í mars verð ég með tvö stutt helgarnámskeið á vinnustofu minni. Þetta eru snörp námskeið ætluð þeim sem einhvern grunn hafa í málun en langar að bæta við sig í tiltekinni tækni svo sem litameðferð eða að mála á óhefðbundin efni. Mikið lagt upp úr góðum anda og vinnugleði. 

10 - 12. og 13. mars Olíulitir og áhrif þeirra.
Fyrirlestur um liti og áhrif þeirra, notkun litahringsins og virkni út frá málverkum. Stutt verkefni(klukkutími) þar sem litablöndun er þjálfuð en síðan vinna nemendur tvær myndir þar sem unnið er með andstæða liti. Gefinn kostur á stuttum einkatíma eftir að námskeiði lýkur þar sem kennari leiðbeinir um framhald myndanna. 
Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar. 
Einkatími(30 mínútur) eftir samkomulagi.
Staður: Málarinn við höfnina, Fornubúðir 8,, 220 Hafnarfjörður
Kennari: Soffía SæmundsdóttirFjöldi nemenda 7-10
Efni: Nemendur koma með allt efni sjálfir og fá leiðbeiningar um efniskaup.
Skoðum m.a. þessa listamenn: Louisa Matthíasdóttir, Nína Tryggvadóttir, Júlíana Sveinsdóttir, L.A.Ring, E. Degas, Monet, Olaf Höst, Emil Nolde, Færeysku listamennina ofl.
Efnisatriði: Olíulitir, íblöndunarefni, grunnar, litablöndun, kaldir og heitir litir, andstæðir litir, litahringurinn. Verð:28.000
E. Degas, snillingur með liti.

24., 26 og 27. mars Olíumálun á óhefðbundin efni
Fyrirlestur um olíumálun á óhefðbundin efni og þau efni sem listamenn hafa notað það í gegnum tíðina. Komið inn á ýmis efni sem hægt er að nota og hvað þarf að hafa í huga varðandi undirlag og efnisnotkun og gerðar tilraunir og prufur.  Nemendur koma með efni að heiman sem þeir vilja vinna með í samráði við kennara. 


Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Efni: Nemendur koma sjálfir með allt efni en grunnar og lím á staðnum.
Skoðum m.a. þessa listamenn: Howard Hodgkin, C.D. Friedrich, Arngunnur Ýr, August Strindberg, R. Rauschenberg, Jasper Johns, Helen Frankenthaler, Anselm Kiefer, 
Efnisatriði: Grunnar, gesso, kanínulím, kalk, penslar, spaðar, tré, efni, undirlag, íblöndunarefni, línolía, vax, liquin,  lökk.
Verð:28.000
Howard Hodgkin málar oftast á tré og stundum málar hann líka rammana með.

Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráning eru í s:8987425 eða á soffias@vortex.is.
Greiðslukortaþjónusta og gefinn afsláttur ef þú skráir þig á fleiri en eitt námskeið.
Allir nemendur sem hafa skráð sig á námskeið hjá Málaranum við höfnina fá afslátt á listmálaravörum í viðurkenndum listbúðum.
Fleiri námskeið eru fyrirhuguð í vor og sumar og verða kynnt betur síðar.




Sunday, February 13, 2011

Að endurmenntast!



Ross Bleckner
http://www.rbleckner.com
Robert Rauschenberg
Robert Rauschenberg
Anselm Kiefer 1997
Anselm Kiefer 
Um helgina var Arngunnur Ýr með námskeið á vinnustofu minni(Málarinn við höfnina)í Hafnarfirði og var salurinn fullur af málurum(auðvitað kvenkyns), starfandi myndlistarmönnum sem sátu opinmynntir og tóku við miklu magni upplýsinga, um undirlög og ýmis efni, hvaða efni er hægt að nota og hvaða möguleikar felast í mismunandi efnum auk þess sem við gerðum ótal tilraunir með efni. Rauður þráður í framsetningu Arngunnar var að vera óhræddur við að prófa efnin, að hægt er að mála á mjög fjölbreytt efni, að mismunandi þurrktími getur verið spennandi, til dæmis er hægt að bera lakk þykkt, á strekkt silki sem síðan er látið þorna í tja....tvo mánuði og síðan er hægt að mála áfram á það. En síðan skiptir líka máli afhverju við veljum þau efni sem við málum á og með og Anselm Kiefer td. vann mikið með stríðið og fortíð Þýskalands. Hann notaði td. stra, kol, lakk, vax ofl í myndum sínum, Rauschenberg vann mikið með amerískan veruleika, nútíð, fortíð og notaði ýmis efni í myndir sínar. Það eru ótrúlega margar hugmyndir sem kvikna við að skoða og umgangast ýmis efni og það verður spennandi að fara að vinna í vikunni!!Hér má sjá einhverja af þeim málurum sem við vorum að skoða. 
Anselm Kiefer







Rauschenberg Art

Monday, February 7, 2011

Málarinn við höfnina - Skapandi vakandi vinnustofa. Spennandi framundan

Ég er að fara af stað með nokkur spennandi stutt helgarnámskeið í mars og maí á vinnustofunni minni í Hafnarfirði. Þetta eru námskeið af ýmsu tagi og gagnast þeim sem eru að mála eða hafa verið að mála og langar til að fá innsýn í ákveðna tækni eða aðferð, koma sér af stað eftir langt hlé eða langar bara til að prófa að mála með olíulitum. Margir ganga með málaradraum í maganum og hvar er betra að láta hann rætast en á vinnustofu listamanns i skapandi gefandi umhverfi. Námskeiðin eru yfirgripsmikil og lagt upp með að nemendur hafi einhverja þekkingu og skilyrðislausan áhuga á myndlist. Hér er listi yfir námskeiðin framundan:




10 - 12. og 13. mars Olíulitir og áhrif þeirra.
Fyrirlestur um virkni og áhrif lita, notkun litahringsins og virkni út frá málverkum. Stutt verkefni(klukkutími) þar sem litablöndun er þjálfuð en síðan vinna nemendur tvær myndir þar sem unnið er með andstæða liti. Gefinn kostur á stuttum einkatíma eftir að námskeiði lýkur þar sem kennari leiðbeinir um framhald myndanna. 
Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar. 
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:28.000


24., 26 og 27. mars Olíumálun á óhefðbundin efni
Fyrirlestur um olíumálun á óhefðbundin efni og þau efni sem listamenn hafa notað það í gegnum tíðina. Komið inn á ýmis efni sem hægt er að nota og hvað þarf að hafa í huga varðandi undirlag og efnisnotkun og gerðar tilraunir og prufur.  Nemendur koma með efni að heiman sem þeir vilja vinna með í samráði við kennara. 

Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:28.000


5.-7. og 8. maí  Olíumálun fyrir byrjendur
Námskeið sem hentar þeim sem hafa aldrei málað með olíulitum áður. Farið yfir helstu tól og tæki í olíumálun og nemendum leiðbeint með hvaða efni er best að kaupa. Farið yfir einfaldar aðferðir til að velja sér myndefni og hvernig á að mála það. Allt efni innifalið og í  lok námskeiðs fara allir heim með fyrsta málverkið sitt(fyrstu málverkin sín).

Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:32.000


Fleiri námskeið eru fyrirhuguð og verða kynnt jafnóðum. Allar nánari upplýsingar hjá mér í s: 8987425 eða á netfangið soffias@vortex.is 

Námskeið - einstakt tækifæri


Ýmislegt varðandi olíuliti lærist á löngum tíma og það er alltaf gaman að bæta við sig þekkingu. Ég  stefni að því að fá til mín gestakennara öðru hverju og er svo heppin að Arngunnur Ýr féllst á að miðla af þekkingu sinni og býðst því þetta einstaka tækifæri nú. 

Fjölbreytileg efni og aðferðir í olíumálun
Kennari: Arngunnur Ýr Gylfadóttir
Staður: Fornubúðir 8, Hafnarfirði
Tími: 12. og 13. febrúar frá 12-16
Verð: 25.000
Allt efni innifalið.

Encaustic
Glært kalt vax
strekkt silki með lökkum
málað á feld
Mismunandi grunnar - að undirbúa viðarplötur og aðra grunna
Hefðbundinn upphitaður gifsgrunnur með kanínulími
Málað á gler og plexí
Vinnsla á pappír með ýmisskonar efnum og aðferðum.

Arngunnur Ýr hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af að vinna með ýmis efni og undirlag í olíumálun og miðlar okkur af reynslu sinni og kynnir mismunandi aðferðir. Allt efni innifalið og sérflutt til landsins frá Ameríku sumt mjög dýrt og erfitt að fá svo þetta er einstakt tækifæri.
Takmarkaður sætafjöldi.

Hluti úr verki eftir Arngunni.





Sunday, January 30, 2011

Staðir

Skissur/Brot 2007 - Litblýjantur á A-4 Pappír.
Á sýningunni IS/NL 2007 vann ég þessar myndir með bláum litblýjanti. Ég var að sýna með Monicu, hollensku vinkonu minni í sal Grafíkfélagsins og mér fannst að með því að teikna þessi brot sem geta minnt á landslag eða litla minningu um landslag gæti það tengst verkum hennar á skemmtilegan máta því við unnum verkin sitt í hvoru lagi. Ég var mjög ánægð með þá sýningu og hún fékkk góða dóma. 


Slóðir/Tracks - æting á handgerðan indverskan pappír - 2009
Þessa ætingu vann ég hratt á málmplötu og setti í sýrubað til að línurnar ættust niður. Ég vildi ná fram ákveðnum hráleika og gömlum tíma. Var á þessum tíma að skoða James Whistler sem var stórfenglegur grafiklistamaður og málari. Hann vildi ná fram malerískum áhrifum sem ég reyni alltaf að gera líka í mínum grafíkverkum.

Sæfarendur - 2010 - Olia og vax á tréplötu
Huliðsheimur II 2010 - Detail - Olía og Vax a tréplötu 
Huliðsheimur - 2007 - Detail - Olía og vax á tréplötu

Efnisnotkun hefur mikil áhrif á það hvernig ég vinn og hver útkoman er. Í myndunum Leysingar I og II lagði ég þunnan gegnsæjan pappír á tréplötu sem ég var búin að mála á og teiknaði svo það sem mér fannst að ætti að vera ofan á pappírinn. 
Leysingar 2009- Þrykk á gegnsæjan pappír af tréplötu með lit og blýjanti
 Náttúruöfl 2010 - Detail -  Olía og Vax á tréplötu
Tréplata getur falið í sér ótal ferðalög ef maður bara leitar eftir þeim. Fyrr enn varir er maður kominn á fjöll og súld í grenndinni.....Náttúruöflin lláta ekki hæða að sér.
Leysingar 2009 - Þrykk og blýjantur af tréplötu á gegnsæjan pappír
Staður - Kol á pappír - 2009
Kol eru einfaldasta efnið til að ná fram stemmingu. maður getur steundum þurft að glíma við blýjantinn lengi til að ná fram stemmingu í mynd en bara ein loðin lína teiknuð með koli gefur til kynna sjóndeildarhring, þoku í grenndinni og einhverja hreyfingu sem blýjanturinn býr ekki yfir.

Ferðir án áfangastaðar - leiðsagnir

Er þetta ekki fyrir austan fjall?
Hluti úr málverki mínu  Náttúröfl 2010 - Olía og vax á tré
Bjalli 2010 - Ljósmynd

Ég fór á sýninguna Án áfangastaðar í Listasafni Reykjavíkur í dag og varð mjög upprifin. Ég komst að vísu ekki yfir alla sýninguna og ætla mér að fara við fyrsta tækifæri aftur því ég "lenti" á leiðsögn(meira um það síðar) en það sem ég sá af sýningunni hitti mig í hjartastað. Það er svo margt við ferðina og upplifun af ferðinni sem er áhugavert. Hvenær kemst maður á leiðarenda og hvert er ferðinni heitið? Þetta er mjög vitsmunaleg sýning og mikið lesefni en þarna voru td. myndir og skrif Roni Horn um landið og upplifun hennar af því. Sem var svo ótrúlega áhugavert. Ég þekki myndverk Roni Horn en þessi skrif og upplifanir hennar á þessum tíma eru magnaðar eiginlega. Líka fyrir þær sakir að þessi skrif og myndirnar birtust í Morgunblaðinu 2002 sem segir manni hvað Mogginn var og hvað maður saknar hans eins og hann var eða....vildi maður endilega hafa hann svona núna? Væri þetta ekki bara skrýtið í dag? Það er þetta með ferðina og áfangastaðinn......og leiðina. En nú er ég komin út fyrir efnið. Finnst að hver og einn verði að upplifa sýninguna fyrir sig...og líka hvaða leið hentar.

Monday, January 24, 2011

Sjálfsmyndir 2011

Flestir hafa einhverntímann gert sjálfsmynd af sér, ýmist málað eða teiknað eða tekið ljósmynd. Í tímanum á morgun eiga nemendur mínir að gera sjálfsmynd/málverk af sér á klukkutíma. Stærðin á striganum er frjáls og aðferðin líka, þannig má hafa spegil, vera með ljósmynd, taka mynd á síma og svo framvegis. Ég leitaði í mína smiðju sem mér fannst bara mjög athyglisvert. Ég hef málað og teiknað myndir af sjálfri mér í gegnum tíðina og lét mig hafa það að leysa verkefnið sem nemendur mínir eiga að leysa á klukkutíma(tvö kvöld í röð)
Mér finnst þessi ljósmynd nú bara lýsa mér frekar vel. Þetta er stóllinn á vinnustofunni sem ég sit alltaf í og hugsa. 


Ef til vill kemst þessi mynd af ferðalanginum á steininum sem situr og horfir niður á vatnið og hugsar sitt þar sem hann speglast í vatninu, næst því að vera sjálfsmynd kvöldsins. Hver veit hvað fer fram undir yfirborði vatnsins og hvað er hann að hugsa? Hver veit hvað fer fram í huga hvers manns...?
Mér finnst þessi mynd alveg svakalega fyndin. Hún er máluð eftir ljósmynd af mér sem er á kynningarbæklingi  og það þarf eiginlega að mála aðeins meira í hana ef vel á að vera, fyndnir litir sem ég valdi mér. Ég greip í hana meðfram hinum tveimur í gær og í dag en þetta er ekki mjög góð ljósmynd af henni. Hún er líka stærri en þetta.
Þessi mynd er máluð í gærkvöldi á gamla málningarplötu á klukkutíma. Svoldið fyndin og ekkert lík mér nema kannski rauða hárið og ég setti vængina bara upp á grín....kannski ég kalli hana Soffia Rosso.
Þessi mynd er máluð á klukkutíma eftir gamalli ljósmynd frá 2006 á vinnustofunni í kvöld.  Það væri freistandi að mála svoldið meira í hana og hún er raunar miklu stærri en hún virðist hér. Það er samt alltaf svolítið gaman að myndum sem eru gerðar með hraði, það kemur einhver ferskleiki sem gaman er að halda í. Kannski hún fari upp á vegg með hinum sjálfsmyndunum. 

Þessa mynd gerði ég líka í náminu í LHÍ 2009. Þarna er ég að hugsa um mig sem kennara. Þetta er ljósmynd af mér í rútu þar sem ég er með Álftaneskórnum í söngferð, en þar geng ég undir nafninu "Soffia Reisen" því ég hef verið fararstjóri í nokkrum ferðum. Ég teiknaði svo inn á það helsta sem þarf en mér finnst hlutverk mitt sem kennara vera eins og fararstjóri sem sáir fræjum og góðum anda en er líka sjálf á ferð og í sama báti þó ég viti alveg hvað ég er að gera og þekki leiðirnar...það getur samt alltaf koomið eitthvað óvænt og skemmtilegt upp á.
Þessa skissaði ég á pappír í náminu í Mills 2002. Ég var upptekin af því þá að ég ætlaði að vera málari og held því á málningartúbunni og er með pensil í hendinni. Ég er svoldið ánægð með hvað ég er ákveðin og reið.
.
Þetta er hluti af blýjantsteikningu sem ég gerði í náminu í LHÍ 2010, ég var sífellt á milli staða , á leið í skólann, á vinnustofuna, á leið í kennslu, sækja bílinn ofl ofl. Við vorum alltaf að gera hugkort og þetta var leið hjá mér til að skrásetja minn sístarfandi huga á þeim tíma. Það er stærri mynd af þessari hér til hliðar.



Endurtekning

Claude Monet
Japönsk áhrif í myndbyggingu og litavali.
Grafísk áhrif í svörtum línum sem eru teiknaðar ákveðið inn.
Claude Monet
Hér er áherslan á græna og gula tóna
en blái liturinn teiknaður inn á áhrifamikinn hátt

Claude Monet,
Málar þunnt og notar teikninguna og pensilskriftina á áhrifaríkan hátt
en myndbyggingin er líka óvanaleg þar sem hann raðar blómunum neðst og efst.

Mér finnst nemendur mínir stundum vanmeta myndefni sitt og möguleika þess. Ég tala stundum um að mála sig í gegnum viðfangsefnið og er þá að tala um einmitt þessa möguleika. Monet er gott dæmi um listamann sem vann sig í gegnum viðfangsefni sitt en myndir hans td. af heysátum í ýmsum litatónum með mismunandi stemmingu og birtu, myndir úr garði hans þar sem hann málar td. brú og vatnaliljur um árabil. Ekkert við þetta myndefni er eintóna eða óspennandi, heldur er áhugavert að sjá hvað hann nær miklu út úr fremur einföldu viðfangsefni. Hann málaði þessar myndir seinni hluta ævi sinnar en þá var sjón hans tekin að daprast og hann notaði stóra striga til að mála á, oft 1 x 2 metrar.

Claude Monet  
Þarna eru vatnaliljurnar hans þéttar  og liturinn frekar  mettaður (þykkur)
og unnið með bláa, hvíta og græna tóna .





Impressionistarnir

Claude Monet "Impression, soleil levant" 1872
Heystakkar, Claude Monet, 1890-1891
Stundum er fínt að taka fram gamla kunningja og skoða þá betur, manni hættir stundum til að vanmeta stór nöfn því maður er búinn að sjá myndirnar þeirra svo oft. Einn af þessum málurum er Monet(1840-1926). Hann var einn helsti upphafsmaður impressionismans en svo nefndist hreyfing listamanna sem var uppi á árunum 1870-1880. Verk þeirra einkenndust af litanotkuninni sem var frjálslegri en áður hafði tíðkast, teikningunni sem var lausbeisluð í and Eugéne Delacroix auk þess sem þeir fóru með striga sína út í náttúruna og til að ná betur fram áhrifum ljóssins. Pensilstrokurnar voru fremur stuttar og litirnir ýmist beint úr túbunum eða blandaðir á palettunni áður en þeir voru"settir" hlið við hlið en ekki dregið úr þeim eins og áður hafði tíðkast og þetta er sérstaklega einkennandi í verkum Monet. Á þessum tíma var líka ljósmyndin að öðlast vinsældir og þetta hafði áhrif á verk málaranna á þann hátt að þeir leituðust við að skjalfesta áhrif augnabliksins bæði í landslagi og í daglegu lífi. Á þessum tíma var líka sóst eftir áhrifum frá fjarlægum slóðum, og japönsk grafík sem var flutt inn á þessum tíma hafði einnig sterk áhrif með sérstakri myndbyggingu og litanotkun.
Edgar Degas,  L'Absinthe, 1876
 

Straumar og stefnur

Það er gaman að velta fyrir sér straumum og stefnum í myndlist. Hvernig utanaðkomandi atburðir hafa áhrif inn í myndlistina, hvernig litanotkun og pensliskrift breytist með öðruvísi áherslum og ekki hvað síst hvernig myndefnið sem málari velur sér ber tíðaranda og straumum merki. Ég hef verið að taka fram bækur sem ég á um impressionistana. Það byrjaði þannig að ég keypti bók eftir nóbelsverðlaunahafann Mario Vargas Llosa "The Way to Paradise" sem reyndist fjalla um ævi listamálarans Paul Gauguins og öðrum þræði líf ömmu hans, en bæði fóru þau óhefðbundnar leiðir í lífinu þó ég viti ekki fullkomlega hvað er rétt og hvað skáldað í sögunnu. Hins vegar er það víst að Gauguin fór ekki að mála og teikna fyrr en fast að þrítugu en ástríðan náði svo sterkum tökum á honum að hann yfirgaf danska eiginkonu sína og börn og gaf sig listinni á vald, fyrst í Frakklandi þar sem hann dvaldist m.a. á Bretagne skaganum og málaði fólk og stórbrotið landslag en fluttist síðan til Tahiti þar sem hann bjó síðustu  12 ár ævi sinnar undir það síðasta við fremur ömurlegar aðstæður. Á Tahiti málaði hann ástkonur sínar og suðrænt landslag og það er áhugavert hvernig litanotkun hans undirstrikar suðrænt landslag og hita, rauðir, okkurgulir og brúnir tónar afar spennandi.

Tate Modern| Past Exhibitions | Gauguin

Tate Modern| Past Exhibitions | Gauguin

Wednesday, January 5, 2011

Litir litir litir.....MyndMos 2011

Kennsla hefst von bráðar að nýju eftir dýrðlegt jólafrí. Alltaf er ákveðin tilhlökkun að byrja aftur og vorönnin er oft skilvirkari en haustönnin sem vill stundum nýtast illa einhverra hluta vegna. Ég ætla að halda áfram með litapælingarnar en er reyndar með nýjar hugmyndir í farteskinu sem ég hlakka til að prófa á nemendum mínum. Þetta verður nokkuð snörp önn því ég byrja óvenju snemma og ætla að slá saman tveimur tímum þegar við byrjum á nýju efni í seinni hlutanum. Ég er að fara í "rannsóknarleyfi" í aprílmánuði og ætla því að vera búin með námskeiðið þá. Ég keypti ofboðslega fallega bláa liti í Svíþjóð sem ég hef verið að vinna með, kóbalt blár litur frá Rembrandt litafyrirtækinu hollenska og kóbalt frá Winsor&Newton. Ég sá það í Pennanum í fyrradag að litir hafa hækkað töluvert (og myndlistardeildin að sama skapi minnkað!) en ekki dettur mér í hug að fara að spara litina mína. Ég bara get það ekki!! Nemendur sem eru að byrja að mála með olíulitum, kaupa sér liti og lenda oft í því að kaupa köttinn í sekknum þegar þeir koma með ódýra liti sem fást í þar til gerðum öskjum. Það er betra að kaupa sér fáa grunnliti(frumliti) frá góðu litafyrirtæki, td. Winsor &Newton og nota þá til að fá alla liti heldur en að kaupa alla litina á einu bretti í ódýrri tegund. Gulur(td. lemon Yellow), rauður(Alizarin Crimson eða Scarlet red), blár(Ultramarin er nauðsynlegur og Prussian Blue líka) og hvítur(Titian) hafa ótal möguleika í blöndun sem hægt er að leika sér með. Lyktarlaus terpentína, tuska og tveir ódýrir penslar. Voila. Það þarf ekki meira. Bara bretta upp ermar og byrja!

Joan Mitchell verðlaunin

Ég fékk einu sinni rosalega flott verðlaun fyrir verkin mín. Það var árið 2004 og þetta eru bandarísk verðlaun veitt af Joan Mitchell stofnununni í New York og kennd við samnefnda konu sem var bandarískur málari og einn af fyrstu abstract expressionistunum. Þessi verðlaun eru veitt árlega og nefnast Joan Mitchell Painting and Sculpture Award og eru veitt þeim sem þykja framúrskarandi í málun og skúlptúr. Listinn frekar flottur verð ég að segja og ég átta mig eiginlega ekki á því ennþá afhverju ég er á þessum lista því það þarf að mæla með manni og engan veginn hægt að sækja um þetta heldur er þetta eingöngu fyrir útvalda . Það eru um 20 manns sem hljóta þennan heiður árlega og ég er alveg rífandi stolt þegar ég skoða þá sem voru að fá verðlaunin í dag en það var verið að tilkynna verðlaunahafana fyrir þetta ár. Spennandi listamenn þarna á ferð og hægt að setja nöfnin þeirra í google leitarvélina til að fá verkin þeirra upp.
Hér er vefsíðan þeirra


Hér eru vinningshafarnir fyrir 2010:

Samira Abbassy, New York, NY
M. Firelei Báez, New York, NY
Tom Burckhardt, New York, NY
Kaili Chun, Honolulu, HI
Bruce A. Davenport, Jr., New Orleans, LA
Chitra Ganesh, Brooklyn, NY
Michael Hall, San Francisco, CA
Corin Hewitt, Richmond, VA
Vandana Jain, Brooklyn, NY
Noah Landfield, Brooklyn, NY
Darryl Lauster, Arlington, TX
James Luna, Pauma Valley, CA
Walter McConnell, Belmont, NY
Michael C. McMillen, Santa Monica, CA
Jason Middlebrook, Craryville, NY
 Postcommodity*, Tempe, AZ
 Arlene Shechet, New York, NY
 Jeanne Silverthorne, New York, NY
 Travis Somerville, Berkeley, CA
 Tavares Strachan, Mt. Vernon, NY
 Whiting Tennis, Seattle, WA
 Sam Van Aken, Syracuse, NY
 Manuel Vega, Jr., New York, NY
 Stacy Lynn Waddell, Chapel Hill, NC
 Lynne Yamamoto, Northampton, MA