Monday, March 14, 2011

Að mála á tréplötur

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að hægt er að mála á ýmis efni. Til dæmis hefur verið málað á tré frá örófi alda og pappír býður upp á ótal möguleika. Það er hægt að setja ýmsa hluti inn í málverk og einnig er hægt að skeyta saman málverkum þannig að þau myndi eina heild. Möguleikarnir eru óteljandi en hafa þarf í huga frá upphafi að mikilvægt er að td. líma hluti eða festa vel inn á myndina.

Öllu skiptir að grunna vel það sem á að mála á, td. þarf að grunna tré vel á báðum hliðum með trégrunni eða gezzo sem er sérstakur akríl grunnur og fæst í listmálarabúðum. Sjálf mála ég mest á 9 mm. krossvið og  læt saga hann í ákveðnar stærðir í timburverslunum. Timbur er lifandi efni og það er það sem ég sækist eftir, æðarnar í viðnum, kvistirnir og þeir möguleikar sem bjóðast með því að skera í efnið, pússa það með sandpappír hentar mér vel. 

Í þessari mynd er ekki eins greinilegt á hvaða efni er verið að mála. Hér er flöturinn sléttari og meira unninn. Ef vel er að gáð má þó sjá lítinn kvist í himninum.
Í þessari mynd sjást vel efniseiginleikar trésins, það er þó vel hægt að slétta flötinn alveg út með því að bera gezzo á nokkrar umferðir og pússa á milli eða að mála á fínni tréplötur.



Þess ber þó að geta að auðvitað skiptir máli hvað við erum að mála, þ.e. hvert er myndefnið og hverju viljum við ná fram. tréð getur verið mjög ósveigjanlegt og það tekur langan tíma að ná fram því sem ég sækist eftir. Ég legg mig fram um að ná fram tilfinningu fyrir liðnum tíma í myndum mínum og þess vegna fór ég að mála á tré í upphafi og að afla mér upplýsinga um hvernig hefur verið unnið á tré í gegnum tíðina.











No comments:

Post a Comment