Monday, January 24, 2011

Endurtekning

Claude Monet
Japönsk áhrif í myndbyggingu og litavali.
Grafísk áhrif í svörtum línum sem eru teiknaðar ákveðið inn.
Claude Monet
Hér er áherslan á græna og gula tóna
en blái liturinn teiknaður inn á áhrifamikinn hátt

Claude Monet,
Málar þunnt og notar teikninguna og pensilskriftina á áhrifaríkan hátt
en myndbyggingin er líka óvanaleg þar sem hann raðar blómunum neðst og efst.

Mér finnst nemendur mínir stundum vanmeta myndefni sitt og möguleika þess. Ég tala stundum um að mála sig í gegnum viðfangsefnið og er þá að tala um einmitt þessa möguleika. Monet er gott dæmi um listamann sem vann sig í gegnum viðfangsefni sitt en myndir hans td. af heysátum í ýmsum litatónum með mismunandi stemmingu og birtu, myndir úr garði hans þar sem hann málar td. brú og vatnaliljur um árabil. Ekkert við þetta myndefni er eintóna eða óspennandi, heldur er áhugavert að sjá hvað hann nær miklu út úr fremur einföldu viðfangsefni. Hann málaði þessar myndir seinni hluta ævi sinnar en þá var sjón hans tekin að daprast og hann notaði stóra striga til að mála á, oft 1 x 2 metrar.

Claude Monet  
Þarna eru vatnaliljurnar hans þéttar  og liturinn frekar  mettaður (þykkur)
og unnið með bláa, hvíta og græna tóna .





Impressionistarnir

Claude Monet "Impression, soleil levant" 1872
Heystakkar, Claude Monet, 1890-1891
Stundum er fínt að taka fram gamla kunningja og skoða þá betur, manni hættir stundum til að vanmeta stór nöfn því maður er búinn að sjá myndirnar þeirra svo oft. Einn af þessum málurum er Monet(1840-1926). Hann var einn helsti upphafsmaður impressionismans en svo nefndist hreyfing listamanna sem var uppi á árunum 1870-1880. Verk þeirra einkenndust af litanotkuninni sem var frjálslegri en áður hafði tíðkast, teikningunni sem var lausbeisluð í and Eugéne Delacroix auk þess sem þeir fóru með striga sína út í náttúruna og til að ná betur fram áhrifum ljóssins. Pensilstrokurnar voru fremur stuttar og litirnir ýmist beint úr túbunum eða blandaðir á palettunni áður en þeir voru"settir" hlið við hlið en ekki dregið úr þeim eins og áður hafði tíðkast og þetta er sérstaklega einkennandi í verkum Monet. Á þessum tíma var líka ljósmyndin að öðlast vinsældir og þetta hafði áhrif á verk málaranna á þann hátt að þeir leituðust við að skjalfesta áhrif augnabliksins bæði í landslagi og í daglegu lífi. Á þessum tíma var líka sóst eftir áhrifum frá fjarlægum slóðum, og japönsk grafík sem var flutt inn á þessum tíma hafði einnig sterk áhrif með sérstakri myndbyggingu og litanotkun.
Edgar Degas,  L'Absinthe, 1876
 

Straumar og stefnur

Það er gaman að velta fyrir sér straumum og stefnum í myndlist. Hvernig utanaðkomandi atburðir hafa áhrif inn í myndlistina, hvernig litanotkun og pensliskrift breytist með öðruvísi áherslum og ekki hvað síst hvernig myndefnið sem málari velur sér ber tíðaranda og straumum merki. Ég hef verið að taka fram bækur sem ég á um impressionistana. Það byrjaði þannig að ég keypti bók eftir nóbelsverðlaunahafann Mario Vargas Llosa "The Way to Paradise" sem reyndist fjalla um ævi listamálarans Paul Gauguins og öðrum þræði líf ömmu hans, en bæði fóru þau óhefðbundnar leiðir í lífinu þó ég viti ekki fullkomlega hvað er rétt og hvað skáldað í sögunnu. Hins vegar er það víst að Gauguin fór ekki að mála og teikna fyrr en fast að þrítugu en ástríðan náði svo sterkum tökum á honum að hann yfirgaf danska eiginkonu sína og börn og gaf sig listinni á vald, fyrst í Frakklandi þar sem hann dvaldist m.a. á Bretagne skaganum og málaði fólk og stórbrotið landslag en fluttist síðan til Tahiti þar sem hann bjó síðustu  12 ár ævi sinnar undir það síðasta við fremur ömurlegar aðstæður. Á Tahiti málaði hann ástkonur sínar og suðrænt landslag og það er áhugavert hvernig litanotkun hans undirstrikar suðrænt landslag og hita, rauðir, okkurgulir og brúnir tónar afar spennandi.

Tate Modern| Past Exhibitions | Gauguin

Tate Modern| Past Exhibitions | Gauguin

Wednesday, January 5, 2011

Litir litir litir.....MyndMos 2011

Kennsla hefst von bráðar að nýju eftir dýrðlegt jólafrí. Alltaf er ákveðin tilhlökkun að byrja aftur og vorönnin er oft skilvirkari en haustönnin sem vill stundum nýtast illa einhverra hluta vegna. Ég ætla að halda áfram með litapælingarnar en er reyndar með nýjar hugmyndir í farteskinu sem ég hlakka til að prófa á nemendum mínum. Þetta verður nokkuð snörp önn því ég byrja óvenju snemma og ætla að slá saman tveimur tímum þegar við byrjum á nýju efni í seinni hlutanum. Ég er að fara í "rannsóknarleyfi" í aprílmánuði og ætla því að vera búin með námskeiðið þá. Ég keypti ofboðslega fallega bláa liti í Svíþjóð sem ég hef verið að vinna með, kóbalt blár litur frá Rembrandt litafyrirtækinu hollenska og kóbalt frá Winsor&Newton. Ég sá það í Pennanum í fyrradag að litir hafa hækkað töluvert (og myndlistardeildin að sama skapi minnkað!) en ekki dettur mér í hug að fara að spara litina mína. Ég bara get það ekki!! Nemendur sem eru að byrja að mála með olíulitum, kaupa sér liti og lenda oft í því að kaupa köttinn í sekknum þegar þeir koma með ódýra liti sem fást í þar til gerðum öskjum. Það er betra að kaupa sér fáa grunnliti(frumliti) frá góðu litafyrirtæki, td. Winsor &Newton og nota þá til að fá alla liti heldur en að kaupa alla litina á einu bretti í ódýrri tegund. Gulur(td. lemon Yellow), rauður(Alizarin Crimson eða Scarlet red), blár(Ultramarin er nauðsynlegur og Prussian Blue líka) og hvítur(Titian) hafa ótal möguleika í blöndun sem hægt er að leika sér með. Lyktarlaus terpentína, tuska og tveir ódýrir penslar. Voila. Það þarf ekki meira. Bara bretta upp ermar og byrja!

Joan Mitchell verðlaunin

Ég fékk einu sinni rosalega flott verðlaun fyrir verkin mín. Það var árið 2004 og þetta eru bandarísk verðlaun veitt af Joan Mitchell stofnununni í New York og kennd við samnefnda konu sem var bandarískur málari og einn af fyrstu abstract expressionistunum. Þessi verðlaun eru veitt árlega og nefnast Joan Mitchell Painting and Sculpture Award og eru veitt þeim sem þykja framúrskarandi í málun og skúlptúr. Listinn frekar flottur verð ég að segja og ég átta mig eiginlega ekki á því ennþá afhverju ég er á þessum lista því það þarf að mæla með manni og engan veginn hægt að sækja um þetta heldur er þetta eingöngu fyrir útvalda . Það eru um 20 manns sem hljóta þennan heiður árlega og ég er alveg rífandi stolt þegar ég skoða þá sem voru að fá verðlaunin í dag en það var verið að tilkynna verðlaunahafana fyrir þetta ár. Spennandi listamenn þarna á ferð og hægt að setja nöfnin þeirra í google leitarvélina til að fá verkin þeirra upp.
Hér er vefsíðan þeirra


Hér eru vinningshafarnir fyrir 2010:

Samira Abbassy, New York, NY
M. Firelei Báez, New York, NY
Tom Burckhardt, New York, NY
Kaili Chun, Honolulu, HI
Bruce A. Davenport, Jr., New Orleans, LA
Chitra Ganesh, Brooklyn, NY
Michael Hall, San Francisco, CA
Corin Hewitt, Richmond, VA
Vandana Jain, Brooklyn, NY
Noah Landfield, Brooklyn, NY
Darryl Lauster, Arlington, TX
James Luna, Pauma Valley, CA
Walter McConnell, Belmont, NY
Michael C. McMillen, Santa Monica, CA
Jason Middlebrook, Craryville, NY
 Postcommodity*, Tempe, AZ
 Arlene Shechet, New York, NY
 Jeanne Silverthorne, New York, NY
 Travis Somerville, Berkeley, CA
 Tavares Strachan, Mt. Vernon, NY
 Whiting Tennis, Seattle, WA
 Sam Van Aken, Syracuse, NY
 Manuel Vega, Jr., New York, NY
 Stacy Lynn Waddell, Chapel Hill, NC
 Lynne Yamamoto, Northampton, MA


Sunday, December 26, 2010

Gleðileg jól...very merry christmas

Sendi öllum vinum mínum nær og fjær bestu óskir um gleðileg jól, þakka fyrir frábært samstarf í leik og starfi. Hlakka til að sjá ykkur á nýju ári hjá Málaranum við höfnina þar sem fitjað verður upp á ýmsu skemmtilegu sem betur verður auglýst síðar. Njótið næðis og jóla og takið brosandi á móti nýju ári 2011.

Dear friends
I wish you a very merry christmas and thank for a great year. I look forward to a new exciting year with new adventures. Enjoy the spirit of the season and may the new year bring exciting paths to your life.

Monday, November 22, 2010

Vetrarstemmingar...tungl og jól

Edwin Church
Vincent Van Gogh


C.D.Friedrich
Það virðist vaxandi stemming fyrir jólaljósum. Var á Selfossi í dag og þar er bara búið að skreyta heilmikið og setja upp ljós úti og inni. Það var þoka og hrímuð jörð og tunglið vakti yfir okkur á leiðinni austur í gær og til baka í dag. Það eru margir sem velta fyrir sér hvaða litir eru í tunglinu? Er það hvítt eða gult? Hvað er hinumegin við tunglið? Býr karl i tunglinu? Hér eru nokkur verk eftir þekkta málara sem unnu með tunglið og þá mögnuðu birtu sem fylgir því. Samt finnst mér engin þeirra ná í raun þessari mögnuðu stemmingu sem fylgir fullu tungli....að vetri til.
C.D. Friedrich(1774-1840)






Wednesday, November 17, 2010

Sænskir málarar og grafíkerar

Verk eftir Mamma Anderson 
Ég var nýverið í Stokkhólmi og skoðaði m.a. Modern Museum þar sem var stór sýning með sænskri samtímalist af ýmsu tagi, ég skoðaði einnig stóra grafík sýningu en þar mátti bæði sjá verk eftir félaga úr sænska grafíkfélaginu(sem hefur um 400 félagsmenn)en einnig eftir þá sem vinna ekki endilega bara í grafík heldur sóttu um að vera tekin inn á sýninguna með grafíkverk. Þetta var stór sýning með fjölmörgum verkum en mér fannst áhugavert hvað viðfangsefnin voru fjölbreytt. Það kom mér í raun á óvart hvað sænsk samtímalist er framsækin. Auðvitað þekki ég td. verk MammaAndersen eins og sjá má hér að ofan en margir samtíma listamenn eru að vinna með málverkið sem miðil á framsækinn hátt. Mér finnst einhver kraftur og spenna í málverkinu, bæði eru verkin oft mjög stór, kannski 2,50 x 3,0 metrar og viðfangsefnið nútímalegt og í takt við samtímann.


Þessi listamaður Mikael Kihlman vinnur td. þessar borgarmyndir í ætingar og vinnur með ljósið og skapar einhverja magnaða stemmingu. Myndirnar verða svo tímalausar.
Málverk Jens Fanges voru ekki mjög stór en litrík og einkennileg með gljáandi áferð. 
Viktor Rohsdahl var með nokkur stór mjög dökk málverk unnin með tússi og málningu á striga og gler. Þetta eru mjög áhrifamikil og kraftmikil verk með sterka vísun í hefðina en líka mikil ögrun í því hvernig hann vinnur með efnið því hann teiknar nostursamlega á strigann en veigrar sér svo ekki við að hella málningu yfir hluta af því og halda svo áfram. Með því næst mikil dýpt í myndirnar og teikningin verður mikilvægur þáttur. 

Þetta er ekki málverk heldur útstilling í búðarglugga. Hluti af því að ferðast til stórborga er að skoða í búðir og búðarglugga. Þetta er sérbúð með ýmsum böndum, skáböndum, gömlum böndum, borðum, dúskum ofl. Hefði getað eytt drjúgum tíma þarna......

Íslensk grafík í Stokkhólmi

Nýverið opnaði sýning með verkum 13 íslenskra grafíklistamanna hjá Grafiska sellskapet í Stokkhólmi. Þetta er boðssýning á vegum sænska grafíkfélagsins og er haldin í tilefni af 100 ára afmæli þess og er hluti af margvíslegum hátíðahöldum af því tilefni en öllum grafíkfélögum Norðurlanda var boðið að sýna hjá þeim. Undirrituð situr í sýningarnefnd ÍG og hélt utan um sýninguna fyrir hönd íslenskrar grafíkur en sýnendur þóttu gefa góðan þverskurð af því sem er efst á baugi í faginu á Íslandi.

Hér er hlekkur á sýninguna http://www.grafiskasallskapet.se

Thursday, November 4, 2010

Litafræði - Hluti III


Susan Rothenberg er kraftmikil með einfalt mynefni en litakraftur einkennir þær.
Joan Mitchell ein af fáum konum sem tilheyrðu abstract expressionistunum.

Hundertwasser hannaði allt mögulegt....málaði líka.
Hans Hoffmann var mikilhæfur kennari.
Gerhard Richter. Með næstum fullkomna tækni.
Emil Nolde. Alltaf svo gefandi litanotkun.
Cecily Brown ótrúleg reiða í óreiðunni. Nær því með markvissri litanotkuninni.
Mamma Andersen er náttúrulega ótrúleg eitthvað svo nútímalega gamaldags í sínum litum en lika hvað hún málar þunnt.
Monet var nú með litina á hreinu en líka myndefnið sem hann valdi sér.
Í kvöld er síðasti tíminn hjá mér  í Litafræði til gagns og ánægju hjá Endurmenntun Háskólans. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg reynsla og gaman að tala um það sem manni þykir skemmtilegt að tala um og læra í leiðinni heilmikið sjálf um efnið. í kvöld mun ég sýna notkun lita í málverkum, listum, hönnun umhverfi og jafnvel kvikmyndum.
Josef Albers var upptekinn af virkni lita


Wednesday, November 3, 2010

UMBROT - SÝNING


Málverk máluð á tré og striga og tréristur þrykktar á gagnsæjan pappír og límdar saman.  Á óvissutímum eru sæfarendur og kærleiksríkir ljósberar uppteknir af voninni sem svífur yfir vötnum við mikil umbrot allt um kring. Ljósgjafinn heldur ljósinu stöðugu en óvíst er hversu lengi það má ganga enn.

Hluti af myndinni Landbrot
Það er alltaf svolítið skemmtilegt að sýna á óhefðbundnum stöðum, þ.e. ekki í galleríi eða á safni heldur einhversstaðar þar sem fólk kemur, kannski ekki beinlínis til að skoða myndlist en hún verður óhjákvæmilega hluti af einhverri upplifun. Á föstudaginn opna ég á veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarfangi og það hefur áhrif á það sem maður vill setja upp á svoleiðis stað. Ég kalla sýninguna Umbrot og vísa þar í ýmsar hræringar, eins og eitthvað sem er yfirvofandi. Þessir kappar eru þó kokhraustir og vissir í sinni sök. Þeir bera með sér vonina eða kannski leita þeir að henni með þessum skrýtnu sjónaukum.....

Thursday, October 21, 2010

Okkurgulur

Einn af fyrstu litunum sem maður lærir að þekkja þegar maður fer að mála er okkur litur. Þetta er jarðlitur sem hefur verið þekktur frá steinöld amk. og er í dag eini liturinn sem er notaður hreinn, þ.e. okkurlitur er búinn til úr hreinu jarðefni.
Það má hugsa sér sand eða kletta á Spáni. Okkur getur líka haft á sér rauðan blæ eins og sést á þessari mynd en líka út í græna og jafnvel fjólubláa tóna.

Hér er svo aftur okkur gulur úr litatúbu:

Endurmenntun Háskólans - Tími 1.

Í kvöld var fyrsti tíminn og ég fór í sögu litanna og þróun. Þetta er raunar mjög skemmtileg saga og gaman að velta fyrir sér hvernig litir hafa þróast í gegnum tíðina, hvernig nýjar uppfinningar og landafundir breyttu litanotkun. Gaman að spá í hvernig Loðvík 14, sjálfur Sólarkonungurinn hafði gríðarleg áhrif um gjörvalla Evrópu og lagði nýjar línur í tísku og menningu. Michael Eugéne Chevril kom líka fram með litahringinn í lok 18. aldar og Geroges Seurat lagðist í fræðin og prófaði sig áfram með því að nota punkta og láta þá mætast en blanda litina ekki. 
Hádegisverður við Signu


Það er ferlegt hvað litir skila sér illa uppi á tjaldi í stofu. þeir verða eitthvað svo mattir og ljótir og mér finnst nemendur fara mikils á mis við að fá ekki að skoða myndir í fullum gæðum. Sem betur fer eru góðar bækur til með góðum myndum en ekkert jafnast á við að skoða myndir augliti til auglitis. Ég hef til dæmis séð myndir Sargents Singer á safni og það var ótrúleg upplifun. Hér er ein af mínum uppáhalds:






Það er svo ótrúlega flott hvernig hann notar kontrastana í svarta og hvíta litnum og hvað það eru í raun margir tónar í hvíta kjólnum sem konan klæðist. Ég verð líka að segja að Rafael er einn af mínum uppáhalds málurum. Hann var á hátindi frægðar sinnar í kringum aldamótin 1500 og hlýtur að hafa unnið sleitulaust því hann varð ekki gamall maður og dó aðeins 37 ára gamall, en eftir hann liggja mörg snilldarverk. Hér er portrettið af Leó X páfa.

Ég myndi skoða það í góðri bók því þá skila litirnir sér betur en það er samt gaman að sjá alla þessu rauðu tóna sem hann notar. Rafael var örugglega mjög vel að sér í litafræðum og hefr velt mikið fyrir sér hvaða liti ætti að nota en svo hefur hann örugglega líka verið með góðan aðstoðarmann sem hefur malað Cochinal pöddurnar vel. Aztekarnir notuðu rauðan lit og notkun hans var þekkt í Suður Ameríku, en þegar litarefnið var flutt til Evrópu varð rauður litur gríðarlega vinsæll. En kannski voru það einmitt svona snilldarmálverk eins og verkið hans Rafaels sem átti sinn þátt í því. Hér er mynd af Cochinal pöddu og kaktusi þar sem þær þrífast. 





Sunday, October 3, 2010

Dagur myndlistar


af vinnustofunni...


gægst inn....
málverk....
Dagru myndlistar var haldinn hátíðlegur á laugardaginn. Opnar vinnustofur voru víða um land hjá myndlistarmönnum og ný vefsíða tileinkuð þessum degi var opnuð. Málarinn við höfnina lét sitt ekki eftir liggja og var opið á vinnustofunni milli 14 og 17 og var opið á báðum hæðum, kynning á námskeiðum og fleiru skemmtilegu lágu frammi og nafnlausa sögumyndin ásamt nokkrum sögur sem gestir menningarnætur og Bjartra daga skrifuðu héngu á vegg. Vonandi á þessi dagur eftir að festa sig í sessi. 

Monday, September 27, 2010

Dagur myndlistar - Vinnustofa Soffíu - Málarinn við höfnina

Bjartir dagar 2010 - Huggulegt hjá Málaranum við höfnina - Vinnustofa Soffíu Sæm.
Frá Björtum dögum 2010 - Sýningin Sögur -  Trúbadorinn Guðrún Hólmgeirsdóttir
Frá Björtum dögum 2009 - Sýningin Blikandi haf og sjómannalög í flutningi Signýjar  Bergþórs og Reynis
Allt á fullu...
Á laugardaginn 2. október er dagur myndlistar haldinn. Þá opna myndlistarmenn og konur vinnustofur sínar og bjóða fólki að koma. Hér koma nokkrar svipmyndir af vinnustofunni. Ég ætla að auglýsa sérstaklega dagskrána sem ég verð með en það verður ýmislegt brallað á laugardaginn....alltaf eitthvað um að vera hjá málarnum....
Í salnum niðri - Teikningar, málverk...


Tilbúin sýning 2009 ...eftir að senda út

Monday, September 20, 2010

Kennslan hefst

....lífsins ólgusjór....
Á morgun byrjar kennsla í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Ég hlakka mikið til og sé að ég hef verið með hugann við það í sumar að undibúa mig þegar ég skoða myndirnar sem ég hef tekið á myndavélina mína. Ég ætla að fjalla um liti og litafræði og hef því leitað eftir spennandi myndefni og myndum sem undirstrika það. Ég fór td. á nokkrar sýningar og þar tók ég myndir af myndum sem mér fannst sýna vel hvernig litir virka í samspili við aðra liti. Svo hef ég myndavélina alltaf í vasanum og tek myndir eftir hendinni. Ljósmyndir eru góðar til að skrásetja það sem maður er að hugsa og á tímum "digital" myndavéla þá er hægur vandi að taka nóg af myndum því maður bara eyðir þeim sem eru ekki áhugaverðar. Það er líka hægt að prenta myndirnar út sjálfur við tiltölulega lítinn tilkostnað.

Sunday, September 19, 2010

Ljóta húfan.....halló halló, er einhver að fylgjast með?

Ég er búin að vera með þess síðu í dálítinn tíma og hef líklega fengið um það bil 10 comment á það sem ég er að gera, einhverjir hafa sagt við mig að þeir hafi séð síðuna og aðrir hafa tjáð sig við mig en ég sakna þess að fá ekki meiri viðbrögð. Svo nú bið ég þig lesandi góður að setja eitthvað gáfulegt í comment...þó ekki væri annað en .....jaá ....ég les þetta stundum...eða asnaleg húfa....

Monday, September 13, 2010

heitt/kalt




Fjalladrottning móðir mín...


Mynd úr Maríuseríunni frá 2002. 

ljós/skuggi



Ég er með hugann við andstæður þessa dagana. Kannski afþví ég er að skoða og skrá allt sem ég finn um liti og þá dettur manni þetta í hug. Ég er eiginlega með hugann við himnaríki og helvíti.



Sunday, September 12, 2010

Hugmyndasmiðjan...

Ég er alltaf eitthvað að spá. 

Kannski smá klikk...
Fæ stórar og miklar hugmyndir og skrifa þær niður, 
teikna og hanna og skoða og langar og ætla...

En vakna svo næsta morgun
eða kannski bara eftir smástund!

hugsa
æi
þetta var kannski ekkert svo sniðugt.

En núna.
Sit ég á fimmtudögum með fólki sem er eins og ég.
Það er með hugmynd og langar að gera eitthvað við hana.

Ekkert er ómögulegt.
Allt er hægt.

Mín hugmynd er kannski ekkert svo frábær
ekkert svo frumleg
ekkert svo sérstök...

en hún er mín!

...og mér er sagt að það sé allt í lagi að:
láta mína persónu skína í gegn
allt í lagi að segja frá öllu
allt í lagi að gefa allt besta stöffið
en ekki að hringja í fjölmiðla á föstudögum.

Málarinn við höfnina
lifandi vinnustofa