Monday, September 19, 2011

Að læra meira og meira...

Námskeið og kennsla er ríkur þáttur í haustinu að þessu sinni hjá mér. Ég var með námskeið á Húsavík um helgina fyrir byrjendur og lengra komna, ART8 í Garðabænum sem hafa fengið mig til sín eru komnar af stað aftur eftir sumarfrí og á morgun byrjar kennslan í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Mér finnst gaman þegar ég er farin að þekkja nemendur mína og veit við hverju ég má búast af þeim. Mér finnst skemmtilegt þegar þeir koma mér á óvart og það er alltaf svolítið gaman að leggja nýtt verkefni fyrir og sjá hvernig þeir vinna úr því. Sjáf reyni ég að gera það að einhverju leyti, þ.e. að leggja ný verkefni fyrir mig og með því endurnýjast í mínu fagi.

Ég ætla að vinna svolítið markvisst með hugmyndir og hvernig maður getur unnið með hugmyndir hjá þriðjudagshópnum mínum í Mos. Ég keypti bók í sumar eftir Steingrím Eyfjörð sem hefur verið ófáanleg lengi og heitir: Handbók í hugmyndavinnu. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar leiðir til að fríska upp á hugmyndaauðgina og koma sér af stað í sköpun. Maður lendir sjálfur auðvitað stundum í því að vera alveg tómur og þá er fínt að rifja upp einhverjar leiðir til að koma sér af stað að mála. 

kannski fjólubláa tímabilið...
1. Þegar ég er að byrja á einhverju nýju þá finnst mér gott að hreinsa til í gamla dótinu, taka til á málaraborðinu, sortera litina mína, sjá hvaða liti mig vantar. Stundum hef ég líka prófað alla litina á einn striga eða á blað og enda oft á því að gera einhverja uppgötvun.
2. Að viða að sér einhverju efni. Kaupa nýjan striga(helst nokkra), tréplötur og grunna þær báðum megin, nauðsynlegt að kaupa nokkra pensla, þeir þurfa ekki að vera dýrir, rífa niður mjúkar tuskur, kannski láta eftir sér að kaupa nýjan lit. Ein túba getur gert kraftaverk!
3. Netið er ótrúlegur hafsjór af fróðleik um málverk og málara og aðferðir í málun. Ótal myndskeið eru til  af aðferðum, heimsókn til listamanna og fleira. 
4. Bækur. Maður finnur alltaf eitthvað nýtt sem vekur áhuga manns við að skoða bækur. Fara á bókasafnið og skoða blöð og bækur. Taka allskonar bækur, ekki bara bækur til að hafa á náttborðinu og lesa fyrir svefninn.
5. Litur. Að fá einhvern lit á heilann. Mála yfir alla ljótu strigana/tréplöturnar sem þú nennir ekki að eiga,  með þessum lit. Þannig verður til bláa tímabilið, rauða tímabilið, gula tímabilið....

leggjast í grasið..

...að horfa upp í himininn

heiði.....



Foss foss fossar



Á ferð með Baldri yfir Breiðafjörð

Mismunandi bláir litir....

6. Skoða myndir í myndaalbúmum, rifja upp minningar og fara yfir gamlar skissubækur. 
7. Fara í bíó. Hung kennarinn minn sagði alltaf reglulega við mig að ég yrði að fara í bíó þegar hún kom í stúdíóheimsókn í Mills. Go and see a movie sagði hún. Það er alveg rétt, maður kveikir oft á einhverju við að sjá mynd fyrir framan sig á stórum fleti. Ég mæli með Egilshöll sem er með frábæra bíósali og Bíó Paradís er oft með æðislegar myndir. 
8. Skrifa lista yfir allt sem mig langar að gera eða dreymir um.
9. Gera hugkort. Finna eitthvert orð til að vinna með og finna allskonar tengingar út frá þessu orði. 
10. Fara á myndlistarsýningu. lesa allt sem er til um viðkomandi listamann eða bara fara út í náttúruna og njóta þess að vera til.

Já...notalegt að vera hundur
og njóta þess að vera til á sumarkvöldi
......ekkert sem truflar veröldina


Monday, September 12, 2011

Námskeið á Húsavík

Sjóndeildarhringur I
Um helgina verð ég með námskeið í málun á vegum Myndlistarklúbbs Húsavíkur. Þar er vaxandi áhugi á myndlist og kröftugur hópur sem kemur saman til að sinna hugðarefnum sínum og svo er fenginn kennari af og til. Þegar ég fór þangað í vetur þá var sjórinn og það sem tengist honum megin viðfangsefnið, og við byrjuðum á léttri æfingu fyrsta kvöldið og máluðum sjóndeildarhringinn, himinn og haf til að koma okkur í gang og svo ég gæti séð hvaða þekkingu fólk hafði á að mála. Eins og sjá má er ótrúlegt hvað við búum yfir mikilli þekkingu innra með okkur. Fyrirmyndin var engin, bara himinn og haf.
Sjóndeildarhringur II


Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk fær mikið út úr stuttri helgi. Framfarirnar voru mjög góðar, en ég held því fram að með því að mála það sem þú þekkir og hefur áhuga á þá sé hálfur björninn unninn. Að nálgast viðfangsefnið af áhuga getur fleytt þér lengra en þig grunar. Á sama hátt má segja að það skiptir í raun ekki öllu hvað þú málar heldur hvernig þú málar það.
Sjóndeildarhringur III

Sjóndeildarhringur IV

Dagskráin núna er frá föstudagskvöldi til sunnudags. Ég legg þetta upp sem námskeið í málun fyrir byrjendur og lengra komna. Það er skemmtileg blanda. Margir hafa skráð sig og það er spennandi helgi framundan norðan heiða. Það er ákaflega fallegt að ferðast um landið þessa dagana og ég hlakka til að taka inn birtuna og litina sem haustið býður upp á. Úti í náttúrunni eru óþrjótandi viðfangsefni og í nánasta umhverfi geta verið ýmis "mótíf" sem þú hafðir ekki hugmynd um að gaman geti verið að mála. Ekki vera hrædd við að velja það sem gæti verið erfitt viðfangsefni. Við ætlum ekki að skapa  fullkomið verk, en það er gaman að búa til málverk úr spennandi viðfangsefni. Mig langar td. að mála hundinn minn, hana Heklu. Endurnar úti í kofa hér rétt hjá mér eru ótrúlega litskrúðugar og þessi trjábolur býður upp á skemmtilega áferð, td. væri hægt að prófa að mála þessa mynd með spaða. Þegar maður velur að mála með spaða er gott að myndefnið bjóði upp á einhverja áferð. 
Hvaða litir eru i snjónum?

Hvaða áferð er í snjónum? Hvaða áferð er á feldi hundsins?

Það er ekki nauðsynlegt að mála allar endurnar þó þær sé allar á ljósmyndinni. 


Hvað þarf þessi mynd að vera stór?

Wednesday, August 10, 2011

Námskeið um helgina


Thursday, August 4, 2011

Sumar er í sveitum...

Um þessar mundir er ég að undirbúa spennandi sýningar. Þó sumarið sé kannski ekki allra besti tíminn til að sitja við trönurnar, standa við pressuna  eða gleyma sér í verkum sínum er því ekki að neita að fegurð sumarsins og litadýrð, dularfullar nætur, dalalæða og spegilsléttur djúpblár sjór er "innspirerandi" og það er auðvelt að verða innblásinn.

Á ferðum mínum um landið er ég alltaf með skissubók/bækur og pennaveski með blýjöntum, stundum vatnslitabox og pensil, myndavélina mína sem ég elska og nota óspart, helst mjög ónákvæmt út um bílgluggann á ferð og þó ég teikni ekki beint það sem ég sé þá skrifa ég gjarnan litina sem ég upplifi í miklum smáatriðum gulgrábrúnt gras, blágrágræn fjöllin með fjólubleikri slikju.

Sýningarnar framundan eru allar ólíkar að gerð
1. Samsýningin brot með samkennurum mínum í Myndlistarskóla Mosfelssbæjar í húsnæði skólans og á Kaffi Álafoss í tilefni af bæjarhátíðinni í Túninu heima 26. ágúst.

2. Einkasýning í Gallerí Fold 10. september. Ég hef ekki sýnt í Fold lengi og hlakka til að setja upp sýningu þar en hvað ég sýni er ennþá á huldu.

3. Í október sýni ég ásamt Magdalenu Margréti Kjartansdóttur í galleríi í Malmö í Svíþjóð. Ég hef ekki sýnt grafík lengi og hlakka til og er líka ákaflega þakklát Magdalenu fyrir að bjóða mér að sýna með sér. Hún er ein af okkar allra flottustu listamönnum og hefur sýnt út um allan heim. Þetta verður spennandi.

Það er ekki alveg komið að kennslunni hjá mér ennþá, hún hefst að mestu leyti í september eftir sýninguna í Fold. Ég ætla þó að standa fyrir námskeiði í litum og litanotkun á vinnustofunni um næstu helgi. Nokkrir hafa þegar skráð sig en pláss fyrir fleiri. Sumarið er tíminn!!

Varmá í Hvergerði frá því í apríl....

Tuesday, August 2, 2011

Síðsumartíminn...námskeið

Helgina 11.-14. ágúst verð ég með námskeið í litum og litatengdum efnum á vinnustofunni. Sumarið er tími lita og léttleika og því tilvalið að koma sér af stað í málun í ágúst með því að einblína á liti og litanotkun undir handleiðslu kennara. Námskeiðið hentar þeim best sem hafa einhverja þjálfun í málun.


Litir og litanotkun
11.-14. ágúst 2011
Fyrirlestur um liti og áhrif þeirra, notkun litahringsins og virkni út frá málverkum. Stutt verkefni(klukkutími) þar sem litablöndun er þjálfuð en síðan vinna nemendur tvær myndir þar sem unnið er með andstæða liti. Gefinn kostur á stuttum einkatíma eftir að námskeiði lýkur þar sem kennari leiðbeinir um framhald myndanna. 
Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.


Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar. 
Einkatími(30 mínútur) eftir samkomulagi.
Staður: Málarinn við höfnina, Fornubúðir 8, 220 Hafnarfjörður
Kennari: Soffía Sæmundsdóttir. Fjöldi nemenda 7-10
Efni: Nemendur koma með allt efni sjálfir, 2 striga/blindramma í sömu stærð td. 40x50 eða stærra og fá leiðbeiningar um efniskaup í upphafi námskeiðs.
Skoðum m.a. þessa listamenn: Louisa Matthíasdóttir, Nína Tryggvadóttir, Júlíana Sveinsdóttir, L.A.Ring, E. Degas, Monet, Olaf Höst, Emil Nolde, Færeysku listamennina ofl.
Efnisatriði: Olíulitir, íblöndunarefni, grunnar, litablöndun, kaldir og heitir litir, andstæðir litir, litahringurinn. Verð:25.000. Skráning hjá Soffíu í s:8987425 eða á soffias@vortex.is

Tuesday, June 7, 2011

Bjartir dagar og sumarið framundan...

Opið var á báðum hæðum og nýjustu verkin á trönunum auðvitað.

Margir komu til að hlusta á Auði Gunnarsdóttur syngja af  "Little things"



Stöðugur straumur...
Auður Gunnarsdóttir söng nokkur lög...


Einn veggurinn af "pop up" sýningunni.
Bjartir dagar á vinnustofu minni í Hafnarfirði um helgina tókust einkar vel. Mikill fjöldi gesta sótti hátíðina heim og var gerður góður rómur að því sem þar var á boðstólum. Vel á annað hundrað manns komu á opnun pop up sýningar og tóku þátt í listaverkahappdrætti og margir komu aftur til að vera viðstaddir þegar Auður Gunnarsdóttir söng af nýútkomnum diski sínum "Little things"og vildu ekki missa af þegar dregið var í happdrættinu. Aðalvinningurinn "Hvíta birta" kom í hendur ungs drengs sem staddur var þarna með ömmu sinni og afa og var hann heldur en ekki glaður. Sögumálverkið var á sínum stað og eru margar áhugaverðar sögur komnar í kassann en svo vel tókst til á síðasta ári að ákveðið var að endurtaka leikinn.
Vinningshafi í Listaverkahappdrættinu

Hluti úr sögumálverkinu 2010
Á sjómannadaginn var mikið um að vera við höfnina og lét Málarinn við höfnina sitt ekki eftir liggja með sjómannadagsstemmingu. Pönnukökur og kaffi voru í boði hússins og klukkan 3 tók Marín Hrafnsdóttir menningarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar við "Sögum af björtum dögum 2010" litlu kveri sem gefið var út með sögum sem samdar voru við sögumálverkið 2010.

Helena Mjöll Jóhannsdóttir fékk verðlaun fyrir skemmtilegustu söguna 2010 sem var bæði titill og saga og var yfirskrifitn "Bjarma slær á engi" sem var jafnframt sá titill sem fór á málverkið, sagan fjallaði um vinina Bjart og Hjalta sem nutu veðurblíðunnar. Draumkenndur og fallegur texti sem hæfði myndinni sannarlega eins og þeir reyndar gerðu margir textarnir hver með sínum hætti. Stefnt er að því að gera þetta að árvissum viðburði.

Helena fékk í verðlaun málverkið "Draumarnir taka yfir" og bókina sem gefin var út.

Nokkuð var um að fólk skráði sig á námskeið í sumar en vikuna 10. - 14. ágúst verða haldin námskeið í litum og litafræði sem hentar þeim sem hafa verið að mála í langan tíma og langar að öðlast ferska sýn á liti með nýjum kennara og einnig verður haldið námskeið fyrir byrjendur eða þá sem litla reynslu hafa. Nokkuð hefur verið spurt um styttri námskeið  og ef nægur fjöldi fæst hef ég hug á að vera með eins dags námskeið í ákveðnum þáttum td. hvað þarf að hafa í huga við að mála landslag og er þá heill dagur frá 10-17 þar sem farið er í helstu atriði. Allt frá skissugerð til fullgerðs málverks. Næsta námskeið er 3. júlí. Námskeiðin eru eins og áður á vinnustofu minni.


En sumarið er til að njóta skoða, horfa og vera til. Ég verð mikið við á vinnustofunni því það eru stórar sýningar framundan og alltaf opið þegar ég er á staðnum.Þar er líka hægt að skrá sig á námskeið, skoða myndir og fleira..

Tuesday, May 3, 2011

Skemmtilegt sumar framundan?

Hvað ætlarðu að gera í sumar? Hefurðu prófað að mála með olíulitum? Er ekki sumarið tíminn til að gera eitthvað skemmtilegt?
Verð með námskeið um helgina á vinnustofunni. Fleiri námskeið fyrirhuguð í maí og júní. Upplagt að koma sér af stað! Skráning í s:8987425 eða á soffias@vortex.is


5.-7. og 8. maí  Olíumálun fyrir byrjendur
Námskeið sem hentar þeim sem hafa aldrei málað með olíulitum áður. Farið yfir helstu tól og tæki í olíumálun og nemendum leiðbeint með hvaða efni er best að kaupa. Farið yfir einfaldar aðferðir til að velja sér myndefni og hvernig á að mála það. Allt efni innifalið og í  lok námskeiðs fara allir heim með fyrsta málverkið sitt(fyrstu málverkin sín).


Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:25.000

Saturday, April 30, 2011

Wednesday, April 13, 2011

Listamannadvöl

Nú hef ég verið hér í Varmahlíð í Hveragerði í u.þ.b. 10 daga og er farin að koma mér upp rútínu sem byggist á göngu og skoðunarferðum um nágrennið, lestri, skissu og hugmyndavinnu, hlustun, yfirlegu á hinu og þessu, tiltekt og naflaskoðun af ýmsu tagi. Hveragerði kemur mér á óvart. Þetta er sannarlega skemmtilegur bær með sögu. Hér var á árum áður líklega fyrsta listamannanýlendan og er meira að segja heilt hverfi þar sem rithöfundar og listmálarar komu sér fyrir. Margar gönguleiðir eru i bænum og hér rennur Varmá í gegnum bæinn og er margbreytileg á hverjum degi. Það er titringur í jörðinni og drunur úr nálægum hverum og gufan sem stígur úr þeim til himins er aldrei eins á litinn. Hér eru líka krókusar og aðrir laukar farnir að spretta upp úr jörðinni og mér finnst allt hér grænna en í höfuðborginni. Stór gróin tré með mosavöxnum stofnum eru traustvekjandi og svo eru fyrstu vorboðarnir, farfuglarnir farnir að láta á sér kræla. Hér er auðvitað dýrindis bakarí steinsnar frá og blómabúð með litríkum sumarblómum. Heilsugæsla, apótek, leikskóli, grunnskóli, elliheimili og kirkja. Þetta sé ég allt frá tröppunni á litla húsinu sem ég bý í. Einfalt líf, en gott og gefandi og afraksturinn af því er smám saman að byggjast upp.

Monday, April 4, 2011

Apríl - Listamannadvöl/sýning á EFLU/vinnustofa

Ég fékk úthlutað dvöl í Varmahlíð í Hveragerði í aprílmánuði. Varmahlíð er hús sem Hveragerðisbær úthlutar í mánuð í senn til listamanna úr ýmsum listgreinum. Tímann ætla ég að nota til að hlaða batteríin, vinna hugmyndavinnu að sýningu og þróa ákveðna hugmynd betur sem hefur verið kollinum á mér lengi. Ég hlakka til að nýta þetta tækifæri og vona að þetta nýtist mér til framtíðarverka!

Vinnustofan mín í Hafnarfirði verður því lokuð þennan tíma en hægt að fá að skoða eftir samkomulagi.

Andyri Eflu
Um helgina hengdi ég upp sýningu með verkum mínum á Verkfræðistofunni Efla sem staðsett er á Höfðabakka(í gamla Tækniskólanum). Þetta er fallegt húsnæði og fjölmennur vinnustaður sem stendur fyrir sýningum með völdum listamönnum á 6 vikna fresti. Það er öllum velkomið að skoða sýninguna á vinnutíma og þetta er sölusýning.

Monday, March 14, 2011

Myndbönd

Ég hef verið að setja inn hér á síðuna ýmis myndskeið sem mér finnast áhugaverð fyrir ýmsar sakir. Sérstaklega vegna þess að þetta eru allt myndskeið um aðferðir málarar og mér finnst þeir allir vera með ákveðna áherslu á efnið, undirlagið og það vekur athygli mína hvernig þeir mála eða hvað þeir hafa um það að segja. Það eru mörg mjög áhugaverð myndskeið á youtube og ég valdi bara nokkur. Ég fann þó engin íslenska málara í fljótu bragði og ég átti í miklum erfiðleikum með að finna einhverja spennandi kvenkyns málara. Kannski maður verði bara að fara að framleiða svona myndbönd!

Marlene Dumas: Measuring Your Own Grave, on view at MoMA

Women Artists: Gabriele Münter

Art:21 | Elizabeth Murray

Art:21 | Vija Celmins

Gerhard Richter. Overpainted Photographs

BRICE MARDEN's theory of painting

Anselm Kiefer

Susan Rothenberg: Emotions | Art21 "Exclusive"

Helen Frankenthaler

Að mála á tréplötur

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að hægt er að mála á ýmis efni. Til dæmis hefur verið málað á tré frá örófi alda og pappír býður upp á ótal möguleika. Það er hægt að setja ýmsa hluti inn í málverk og einnig er hægt að skeyta saman málverkum þannig að þau myndi eina heild. Möguleikarnir eru óteljandi en hafa þarf í huga frá upphafi að mikilvægt er að td. líma hluti eða festa vel inn á myndina.

Öllu skiptir að grunna vel það sem á að mála á, td. þarf að grunna tré vel á báðum hliðum með trégrunni eða gezzo sem er sérstakur akríl grunnur og fæst í listmálarabúðum. Sjálf mála ég mest á 9 mm. krossvið og  læt saga hann í ákveðnar stærðir í timburverslunum. Timbur er lifandi efni og það er það sem ég sækist eftir, æðarnar í viðnum, kvistirnir og þeir möguleikar sem bjóðast með því að skera í efnið, pússa það með sandpappír hentar mér vel. 

Í þessari mynd er ekki eins greinilegt á hvaða efni er verið að mála. Hér er flöturinn sléttari og meira unninn. Ef vel er að gáð má þó sjá lítinn kvist í himninum.
Í þessari mynd sjást vel efniseiginleikar trésins, það er þó vel hægt að slétta flötinn alveg út með því að bera gezzo á nokkrar umferðir og pússa á milli eða að mála á fínni tréplötur.



Þess ber þó að geta að auðvitað skiptir máli hvað við erum að mála, þ.e. hvert er myndefnið og hverju viljum við ná fram. tréð getur verið mjög ósveigjanlegt og það tekur langan tíma að ná fram því sem ég sækist eftir. Ég legg mig fram um að ná fram tilfinningu fyrir liðnum tíma í myndum mínum og þess vegna fór ég að mála á tré í upphafi og að afla mér upplýsinga um hvernig hefur verið unnið á tré í gegnum tíðina.











Sunday, March 6, 2011

Námskeið - Litir og óhefðbundin efni í mars

Í mars verð ég með tvö stutt helgarnámskeið á vinnustofu minni. Þetta eru snörp námskeið ætluð þeim sem einhvern grunn hafa í málun en langar að bæta við sig í tiltekinni tækni svo sem litameðferð eða að mála á óhefðbundin efni. Mikið lagt upp úr góðum anda og vinnugleði. 

10 - 12. og 13. mars Olíulitir og áhrif þeirra.
Fyrirlestur um liti og áhrif þeirra, notkun litahringsins og virkni út frá málverkum. Stutt verkefni(klukkutími) þar sem litablöndun er þjálfuð en síðan vinna nemendur tvær myndir þar sem unnið er með andstæða liti. Gefinn kostur á stuttum einkatíma eftir að námskeiði lýkur þar sem kennari leiðbeinir um framhald myndanna. 
Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar. 
Einkatími(30 mínútur) eftir samkomulagi.
Staður: Málarinn við höfnina, Fornubúðir 8,, 220 Hafnarfjörður
Kennari: Soffía SæmundsdóttirFjöldi nemenda 7-10
Efni: Nemendur koma með allt efni sjálfir og fá leiðbeiningar um efniskaup.
Skoðum m.a. þessa listamenn: Louisa Matthíasdóttir, Nína Tryggvadóttir, Júlíana Sveinsdóttir, L.A.Ring, E. Degas, Monet, Olaf Höst, Emil Nolde, Færeysku listamennina ofl.
Efnisatriði: Olíulitir, íblöndunarefni, grunnar, litablöndun, kaldir og heitir litir, andstæðir litir, litahringurinn. Verð:28.000
E. Degas, snillingur með liti.

24., 26 og 27. mars Olíumálun á óhefðbundin efni
Fyrirlestur um olíumálun á óhefðbundin efni og þau efni sem listamenn hafa notað það í gegnum tíðina. Komið inn á ýmis efni sem hægt er að nota og hvað þarf að hafa í huga varðandi undirlag og efnisnotkun og gerðar tilraunir og prufur.  Nemendur koma með efni að heiman sem þeir vilja vinna með í samráði við kennara. 


Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Efni: Nemendur koma sjálfir með allt efni en grunnar og lím á staðnum.
Skoðum m.a. þessa listamenn: Howard Hodgkin, C.D. Friedrich, Arngunnur Ýr, August Strindberg, R. Rauschenberg, Jasper Johns, Helen Frankenthaler, Anselm Kiefer, 
Efnisatriði: Grunnar, gesso, kanínulím, kalk, penslar, spaðar, tré, efni, undirlag, íblöndunarefni, línolía, vax, liquin,  lökk.
Verð:28.000
Howard Hodgkin málar oftast á tré og stundum málar hann líka rammana með.

Nánari upplýsingar um námskeiðin og skráning eru í s:8987425 eða á soffias@vortex.is.
Greiðslukortaþjónusta og gefinn afsláttur ef þú skráir þig á fleiri en eitt námskeið.
Allir nemendur sem hafa skráð sig á námskeið hjá Málaranum við höfnina fá afslátt á listmálaravörum í viðurkenndum listbúðum.
Fleiri námskeið eru fyrirhuguð í vor og sumar og verða kynnt betur síðar.




Sunday, February 13, 2011

Að endurmenntast!



Ross Bleckner
http://www.rbleckner.com
Robert Rauschenberg
Robert Rauschenberg
Anselm Kiefer 1997
Anselm Kiefer 
Um helgina var Arngunnur Ýr með námskeið á vinnustofu minni(Málarinn við höfnina)í Hafnarfirði og var salurinn fullur af málurum(auðvitað kvenkyns), starfandi myndlistarmönnum sem sátu opinmynntir og tóku við miklu magni upplýsinga, um undirlög og ýmis efni, hvaða efni er hægt að nota og hvaða möguleikar felast í mismunandi efnum auk þess sem við gerðum ótal tilraunir með efni. Rauður þráður í framsetningu Arngunnar var að vera óhræddur við að prófa efnin, að hægt er að mála á mjög fjölbreytt efni, að mismunandi þurrktími getur verið spennandi, til dæmis er hægt að bera lakk þykkt, á strekkt silki sem síðan er látið þorna í tja....tvo mánuði og síðan er hægt að mála áfram á það. En síðan skiptir líka máli afhverju við veljum þau efni sem við málum á og með og Anselm Kiefer td. vann mikið með stríðið og fortíð Þýskalands. Hann notaði td. stra, kol, lakk, vax ofl í myndum sínum, Rauschenberg vann mikið með amerískan veruleika, nútíð, fortíð og notaði ýmis efni í myndir sínar. Það eru ótrúlega margar hugmyndir sem kvikna við að skoða og umgangast ýmis efni og það verður spennandi að fara að vinna í vikunni!!Hér má sjá einhverja af þeim málurum sem við vorum að skoða. 
Anselm Kiefer







Rauschenberg Art

Monday, February 7, 2011

Málarinn við höfnina - Skapandi vakandi vinnustofa. Spennandi framundan

Ég er að fara af stað með nokkur spennandi stutt helgarnámskeið í mars og maí á vinnustofunni minni í Hafnarfirði. Þetta eru námskeið af ýmsu tagi og gagnast þeim sem eru að mála eða hafa verið að mála og langar til að fá innsýn í ákveðna tækni eða aðferð, koma sér af stað eftir langt hlé eða langar bara til að prófa að mála með olíulitum. Margir ganga með málaradraum í maganum og hvar er betra að láta hann rætast en á vinnustofu listamanns i skapandi gefandi umhverfi. Námskeiðin eru yfirgripsmikil og lagt upp með að nemendur hafi einhverja þekkingu og skilyrðislausan áhuga á myndlist. Hér er listi yfir námskeiðin framundan:




10 - 12. og 13. mars Olíulitir og áhrif þeirra.
Fyrirlestur um virkni og áhrif lita, notkun litahringsins og virkni út frá málverkum. Stutt verkefni(klukkutími) þar sem litablöndun er þjálfuð en síðan vinna nemendur tvær myndir þar sem unnið er með andstæða liti. Gefinn kostur á stuttum einkatíma eftir að námskeiði lýkur þar sem kennari leiðbeinir um framhald myndanna. 
Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar. 
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:28.000


24., 26 og 27. mars Olíumálun á óhefðbundin efni
Fyrirlestur um olíumálun á óhefðbundin efni og þau efni sem listamenn hafa notað það í gegnum tíðina. Komið inn á ýmis efni sem hægt er að nota og hvað þarf að hafa í huga varðandi undirlag og efnisnotkun og gerðar tilraunir og prufur.  Nemendur koma með efni að heiman sem þeir vilja vinna með í samráði við kennara. 

Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:28.000


5.-7. og 8. maí  Olíumálun fyrir byrjendur
Námskeið sem hentar þeim sem hafa aldrei málað með olíulitum áður. Farið yfir helstu tól og tæki í olíumálun og nemendum leiðbeint með hvaða efni er best að kaupa. Farið yfir einfaldar aðferðir til að velja sér myndefni og hvernig á að mála það. Allt efni innifalið og í  lok námskeiðs fara allir heim með fyrsta málverkið sitt(fyrstu málverkin sín).

Fimmtudagur 19:30-21:30 Fyrirlestur og leiðbeint um liti, tól og tæki.
Laugardagur og sunnudagur 10-15. Málað í sal undir handleiðslu kennara.
Samtals 12 tímar.
Fjöldi nemenda 7-10
Verð:32.000


Fleiri námskeið eru fyrirhuguð og verða kynnt jafnóðum. Allar nánari upplýsingar hjá mér í s: 8987425 eða á netfangið soffias@vortex.is 

Námskeið - einstakt tækifæri


Ýmislegt varðandi olíuliti lærist á löngum tíma og það er alltaf gaman að bæta við sig þekkingu. Ég  stefni að því að fá til mín gestakennara öðru hverju og er svo heppin að Arngunnur Ýr féllst á að miðla af þekkingu sinni og býðst því þetta einstaka tækifæri nú. 

Fjölbreytileg efni og aðferðir í olíumálun
Kennari: Arngunnur Ýr Gylfadóttir
Staður: Fornubúðir 8, Hafnarfirði
Tími: 12. og 13. febrúar frá 12-16
Verð: 25.000
Allt efni innifalið.

Encaustic
Glært kalt vax
strekkt silki með lökkum
málað á feld
Mismunandi grunnar - að undirbúa viðarplötur og aðra grunna
Hefðbundinn upphitaður gifsgrunnur með kanínulími
Málað á gler og plexí
Vinnsla á pappír með ýmisskonar efnum og aðferðum.

Arngunnur Ýr hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af að vinna með ýmis efni og undirlag í olíumálun og miðlar okkur af reynslu sinni og kynnir mismunandi aðferðir. Allt efni innifalið og sérflutt til landsins frá Ameríku sumt mjög dýrt og erfitt að fá svo þetta er einstakt tækifæri.
Takmarkaður sætafjöldi.

Hluti úr verki eftir Arngunni.





Sunday, January 30, 2011

Staðir

Skissur/Brot 2007 - Litblýjantur á A-4 Pappír.
Á sýningunni IS/NL 2007 vann ég þessar myndir með bláum litblýjanti. Ég var að sýna með Monicu, hollensku vinkonu minni í sal Grafíkfélagsins og mér fannst að með því að teikna þessi brot sem geta minnt á landslag eða litla minningu um landslag gæti það tengst verkum hennar á skemmtilegan máta því við unnum verkin sitt í hvoru lagi. Ég var mjög ánægð með þá sýningu og hún fékkk góða dóma. 


Slóðir/Tracks - æting á handgerðan indverskan pappír - 2009
Þessa ætingu vann ég hratt á málmplötu og setti í sýrubað til að línurnar ættust niður. Ég vildi ná fram ákveðnum hráleika og gömlum tíma. Var á þessum tíma að skoða James Whistler sem var stórfenglegur grafiklistamaður og málari. Hann vildi ná fram malerískum áhrifum sem ég reyni alltaf að gera líka í mínum grafíkverkum.

Sæfarendur - 2010 - Olia og vax á tréplötu
Huliðsheimur II 2010 - Detail - Olía og Vax a tréplötu 
Huliðsheimur - 2007 - Detail - Olía og vax á tréplötu

Efnisnotkun hefur mikil áhrif á það hvernig ég vinn og hver útkoman er. Í myndunum Leysingar I og II lagði ég þunnan gegnsæjan pappír á tréplötu sem ég var búin að mála á og teiknaði svo það sem mér fannst að ætti að vera ofan á pappírinn. 
Leysingar 2009- Þrykk á gegnsæjan pappír af tréplötu með lit og blýjanti
 Náttúruöfl 2010 - Detail -  Olía og Vax á tréplötu
Tréplata getur falið í sér ótal ferðalög ef maður bara leitar eftir þeim. Fyrr enn varir er maður kominn á fjöll og súld í grenndinni.....Náttúruöflin lláta ekki hæða að sér.
Leysingar 2009 - Þrykk og blýjantur af tréplötu á gegnsæjan pappír
Staður - Kol á pappír - 2009
Kol eru einfaldasta efnið til að ná fram stemmingu. maður getur steundum þurft að glíma við blýjantinn lengi til að ná fram stemmingu í mynd en bara ein loðin lína teiknuð með koli gefur til kynna sjóndeildarhring, þoku í grenndinni og einhverja hreyfingu sem blýjanturinn býr ekki yfir.