Monday, September 12, 2011

Námskeið á Húsavík

Sjóndeildarhringur I
Um helgina verð ég með námskeið í málun á vegum Myndlistarklúbbs Húsavíkur. Þar er vaxandi áhugi á myndlist og kröftugur hópur sem kemur saman til að sinna hugðarefnum sínum og svo er fenginn kennari af og til. Þegar ég fór þangað í vetur þá var sjórinn og það sem tengist honum megin viðfangsefnið, og við byrjuðum á léttri æfingu fyrsta kvöldið og máluðum sjóndeildarhringinn, himinn og haf til að koma okkur í gang og svo ég gæti séð hvaða þekkingu fólk hafði á að mála. Eins og sjá má er ótrúlegt hvað við búum yfir mikilli þekkingu innra með okkur. Fyrirmyndin var engin, bara himinn og haf.
Sjóndeildarhringur II


Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk fær mikið út úr stuttri helgi. Framfarirnar voru mjög góðar, en ég held því fram að með því að mála það sem þú þekkir og hefur áhuga á þá sé hálfur björninn unninn. Að nálgast viðfangsefnið af áhuga getur fleytt þér lengra en þig grunar. Á sama hátt má segja að það skiptir í raun ekki öllu hvað þú málar heldur hvernig þú málar það.
Sjóndeildarhringur III

Sjóndeildarhringur IV

Dagskráin núna er frá föstudagskvöldi til sunnudags. Ég legg þetta upp sem námskeið í málun fyrir byrjendur og lengra komna. Það er skemmtileg blanda. Margir hafa skráð sig og það er spennandi helgi framundan norðan heiða. Það er ákaflega fallegt að ferðast um landið þessa dagana og ég hlakka til að taka inn birtuna og litina sem haustið býður upp á. Úti í náttúrunni eru óþrjótandi viðfangsefni og í nánasta umhverfi geta verið ýmis "mótíf" sem þú hafðir ekki hugmynd um að gaman geti verið að mála. Ekki vera hrædd við að velja það sem gæti verið erfitt viðfangsefni. Við ætlum ekki að skapa  fullkomið verk, en það er gaman að búa til málverk úr spennandi viðfangsefni. Mig langar td. að mála hundinn minn, hana Heklu. Endurnar úti í kofa hér rétt hjá mér eru ótrúlega litskrúðugar og þessi trjábolur býður upp á skemmtilega áferð, td. væri hægt að prófa að mála þessa mynd með spaða. Þegar maður velur að mála með spaða er gott að myndefnið bjóði upp á einhverja áferð. 
Hvaða litir eru i snjónum?

Hvaða áferð er í snjónum? Hvaða áferð er á feldi hundsins?

Það er ekki nauðsynlegt að mála allar endurnar þó þær sé allar á ljósmyndinni. 


Hvað þarf þessi mynd að vera stór?

No comments:

Post a Comment