Monday, August 6, 2012

Töfrar sumarnæturinnar....








Þessar óendanlegu sumarnætur koma svo sannarlega ímyndunaraflinu af stað. Svo mikil hvíld í þessum bláma sem tekur á sig gráa, fjólulita og græna, jafnvel bleika tóna. En staðurinn þar sem þessar myndir eru teknar í Landsveitinni er að sjálfsögðu sveipaður töfraljóma og ljósmyndarinn, vinkona mín Berglind Björgúlfsdóttir nær að fanga hann þegar hún var þar á ferðinni fyrir stuttu. 

Svo er ekki úr vegi að minna á námskeiðin sem eru framundan hjá mér á vinnustofunni í ágúst. Enn eru pláss laus og hægt að taka bæði saman fyrir þá sem vilja ná miklum árangri á stuttum tíma.

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.



Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000

Sunday, July 22, 2012

Amerískir straumar....

Adolph Gottlieb
Adolph Gottlieb
Franz Kline
Henri Matisse - Hurð - (1914)
Henri Matissse - Gluggi út á Notre Dame(1914)
Ég er að skoða ýmsa ameríska spennandi málara sem ég sé allt í einu eitthvað alveg nýtt í. Adolph Gottlieb er einn af þeim. Þessar myndir hafa svo lifandi línu og mýkt í litanotkun sem er þunn og gagnsæ og formin eins og fljóta ofan á. Samferða honum var Franz Kline sem notar sterk form og mikinn svartan lit sem á köflum er ótrúlega sterkt. Langt á undan þeim var Matisse sem notaði rými og form á nýjan máta og hafði örugglega áhrif á þá sem á eftir komu, hvernig hann notaði litinn þunnt, hvernig hann skapaði rými í myndinni, myndbyggingin og einhver fágun í litanotkuninni.
Richard Diebencorn - Seascape


Ekki ólíklegt að Kaliforníu listamaðurinn Richard Diebencorn hafi skoðað verk Matisse og séð ýmislegt sem hann nýtti sér. Nú ætla ég að hugsa til þeirra allra, skoða myndbyggingu, nota litinn þunnt, STÆRÐIR, línur og að láta formin fljóta ofan á.

Sumarnætur...

Toulouse Lautrec vakti oft á næturna og vann. Hann málaði nokkrar útgáfur af sofandi fólki. Gaman að velta fyrir sér á hvað tíma sólarhringsins þessi mynd er máluð og lika á hvaða tíma ársins. Ég spaí því að hún sé máluð að vori eða hausti í París. Snilldarvel máluð og gaman að þessum bláu og grænu tónum í sænginni og teikningin skilar sér sérlega vel í málverkinu.
Edward Munch notaði oft sama mótífið og mismunandi birtu. Hér er "Sumarnótt".
Blái liturinn getur verið ákaflega þrunginn og höfugur þegar líður á sumarið. Ég er svolítið að spá í sumarnætur og næturhiminn almennt og hvernig hægt er að mála hann. Mér finnst íslenskur sumarblár næturhiminn vera mjög gegnsær og hugsa mér himinblá, cobalt eða ultramarin blá augu í því samhengi. En stundum eru sumarnæturnar þéttar og dökkar, Indigo svarbláar og stundum jafnvel gráar. Það er líka merkilegt hvernig aðrir litir taka líka mið af því.
Svona sá Winslow Homer sína "Sumarnótt". Svolítið drungaleg.


Sunday, July 15, 2012

Soffía Grafíker

True North/Æting/2012
Ég var á sýningaropnun í gær. Reyndar á sýningu sem ég sjálf var að opna í Grafíkfélaginu, ekkert formlegt, heldur er þetta grafíkmappa sem mér bauðst að taka þátt í og heitir "Idea of North" og 14 listamenn frá íslandi, USA og Kanada eiga verk í þessari möppu. Nicole Pietrantoni sem dvaldi hér á Íslandi síðasta ár setur þessa möppu saman. Ég sýni þar ætinguna True North sem ég þrykkti í 18 eintaka upplagi, nokkuð sem ég geri afar sjaldan. Þetta er ánægjulegt og ég er satt best að segja mjög glöð að vera tekinn með í hóp framsækinna "grafíkera" því ég hef ekki beint litið á mig sem sérstakan grafíklistamann þó ég vinni af og til í grafík. Ég hef reyndar sinnt grafíkinni af dálitlum krafti undanfarið og kem til með að gera það meira á næstunni. Gekk meira að segja svo langt að stofna sérstakt blogg sem ég kalla Grafíkbloggið, en þar ætla ég að setja inn ýmsar upplýsingar um aðferðir og grafík og listamenn sem nota grafík í sinni myndlist. Hér kemur það:Grafíkbloggið.

Tuesday, June 26, 2012

Sumar og sól

Það er ekki ofsagt að sólin skín úti og inni þessa dagana. Litirnir í umhverfinu eru gefandi og vekjandi, hressandi gulir, grænir, og himinbláir.....Það er himneskt að ferðast um landið og liggja úti í tjaldi eða móa, hlusta á niðinn í lækjarsprænu eða vinalegan fuglasöng. Ég verð með námskeið í olíumálun um helgina á vinnustofunni sem ég kalla "Sóleyjar og sællegar kýr úti á túni". Myndefnið getur verið af ýmsum toga, en það er tilvalið að vinna með skæra liti og láta gamminn geysa! Það er enn hægt að skrá sig.....við byrjum á fimmtudaginn klukkan fimm(17:00)
Sællegar kýr? Eða bara forvitnar?

Fjólublái liturinn er víða í náttúrunni þessa dagana...

Fíflar og sóleyjar....bifukollur og puntstrá...

Tuesday, June 19, 2012

MÁLARINN VIÐ HÖFNINA - SUMARNÁMSKEIÐ


Nokkuð hefur verið spurt eftir því hvort ég verði með styttri námskeið í málun á vinnustofunni í sumar. Sumarið er sannarlega tími til að mála og hafa gaman og það er eitthvað svo afslappað að sýsla við liti og skoða náttúruna og sumarblómin með það í huga. Ég set námskeiðin upp þannig að þau ættu að henta þeim sem hafa verið hjá mér áður, en líka þeim sem langar að prófa að mála með olíulitum og allt þar á milli. Hóparnir eru yfirleitt litlir og alltaf góð stemming hjá Málaranum við höfnina....Skráning fer fram hjá mér á netfanginu soffias@vortex.is.

I) JÚNÍ 28.6.-2.7. 


Sóleyjar og sællegar kýr úti á túni....
Sérstaklega farið í grunna, spaðanotkun og hraðar aðferðir í málun sem eru skjótar til árangurs. Unnið með sumarið og hressilega glaða liti. Nemendur koma með allt efni sjálfir.

28.6. - fim. 17-20 Skoðum blóm og liti, skissum og temjum okkur hraðar aðferðir. Grunnum 2 striga með mismunandi akríl grunnum.
30.6. - laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
1. 7. - sunnudagur 11-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara
2. 7. - mánudagur 17-18 Yfirferð og frágangur. Leiðbeint með framhald.

Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir
Verð: 22.000

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000

Frá námskeiði í fyrrasumar, þarna voru trönurnar bara færðar út,
málað af miklu kappi meðan aðrir slökuðu aðeins á í sólinni






Tuesday, May 15, 2012

Sumar og sýningar 2012

Ýmislegt framundan á næstunni, kennslu lokið í bili þó ég verði með námskeið á vinnustofunni í sumar sem ég auglýsi fljótlega. Áður en að því kemur þarf nú samt að koma ýmsu í framkvæmd og það vellur og kraumar í hugmyndapottinum enda verkefnin ólík en spennandi.

24-26 maí nk. tek ég þátt í ráðstefnunni Art in Translation með fyrirlestri um notkun texta í verkum mínum. Þarna verða um 70 fyrirlesarar frá ýmsum löndum auk Íslands, listamenn, þýðendur og fræðimenn í bland og verður án efa athyglisvert að hlýða á ýmsa fyrirlestra um notkun texta og mismunandi nálgun á því. Sjálfri finnst mér texti/skrif/orð skipta miklu máli í myndlist minni, en það er nýtt fyrir mig að þurfa að setja það fram með þessum hætti og gera það áheyrilegt og spennandi.

31. maí - 4. júní eru Bjartir dagar í Hafnarfirði og hjá Málaranum við höfnina verður sýningin Út á við - Inn á við í sal. Þar munum við Gunnar Karl Gunnlaugsson leiða saman hesta okkar með ljósmyndum og málverkum. Gunnar hefur undanfarin misseri tekið ljósmyndir af "Listamönnum í lengjunni" hér við höfnina og sýnir seríu ljósmynda en ég málverk sem máluð eru á þeim tíma. Það er áhugavert að  fá að skyggnast á bakvið en líka gaman að draga fram þessa margvíslegu starfsemi sem fram fer hér við höfnina og ég er hluti af.

15. júní - 8. júlí verð ég með litla sýningu í Gallerí Klaustri í Gunnarshúsi, Skriðuklaustri. Sýninguna nefni ég Dalverpi, minningar og fundnir hlutir og ætla að sýna málverk og teikningar. Það er alltaf gaman að setja upp sýningu í nýju umhverfi úti á landi að sumri til. Ég dvaldi í Gunnarshúsi 1999 og vann þar sýninguna Dalbúar sem ég sýndi í Osló og Gallerí Fold og dvölin er mér að mörgu leyti minnisstæð. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum stað sem mér finnst gaman að spá í og skoða og láta hafa áhrif í myndirnar.
Svo vona ég að það komi að því þegar þetta er allt afstaðið að Landsveitin taki vel á móti manni á fallegum sumardegi og að Hekla hafi hægt um sig amk. að sinni.



Thursday, April 26, 2012

Leysingar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

Það er mikið í gangi í Álafosskvosinni þessa dagana. Í gærkvöldi fékk ég hóp af hressum nemendum sem spreyttu sig á sjóndeildarhring og litum fyrstu "gróður" vorboðanna sem ég bar með mér alla leið af Álftanesi og setti á hvítan pappír á borðið. Fíflar, rabbarbarahnúður, moldarbingur og daufgræn strá voru viðfangsefni kvöldsins og framvindan glettilega góð. Verkefnið að blanda saman litina úr rauðum, gulum og bláum litum og fá úr því rauðfjólubláan lit rabarbarans, grsgrænu stráanna, skærgulan og rauðgulan lit fíflanna og svo mætti lengi telja. Litirnir: Lemon Yellow, Crome Yellow, Alizarin Crimson, Ultramarin Blár, Prussian blár, Scarlet Rauður og auðvitað blandað með terpentínu...lyktarlausri. Á laugardaginn koma þau svo með mynd, skissu eða ljósmynd af því sem hugurinn stendur til að festa á striga. Það þarf að hafa hraðar hendur til að ná árangri á stuttum tíma en það er bara gaman að því.

Degas vann sínar myndir hratt úti í náttúrunni með pastellitum sem hann teiknaði með á plötu, svo vætti hann blað í terpentínu og lagði ofan á plötuna. Þetta lét hann síðan þorna(í sólinni) og litaði svo áfram með þurrkrítinni. Hann elskaði liti og var sannkallaður "koloristi".


25.4.-5.5. 2012
Leysingar (fuglarnir, fossinn og fríðleiksblómið...)
Kennari: Soffía Sæmundsdóttir
Tími: Miðvikudaga 19:15-22:15 og Laugardaga 10-13 alls 4 skipti.




Degas - Þurrkrít þrykkt á pappír 
Stutt hressandi námskeið í olíumálun fyrir byrjendur og lengra komna. Unnið með umhverfið og liti vorsins. Farið í litablöndun og aðferðir sem nýtast vel til árangurs á stuttum tíma. Áhersla á góðan anda, vinnusemi og viðfangsefni sem hæfir hverjum og einum. 


Monday, April 9, 2012

Fyrirlestrar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

http://www.myndmos.is/nyacutett---styttri-naacutemskeieth-yacutemsir-kennarar.html

Composition frá 1916 eftir Kandinsky. Hann var mjög vandlátur á liti og hugsaði  mikið um að ná réttum samsetningum. Hann notaði nær eingöngu Sennelier liti sem hafa verið framleiddir frá því seint á 19. öld í París. Þeir eru þekktir fyrir gæði, framleiða eingöngu liti fyrir listamenn þ.e. "Artist Oil Colour" og nota línolíu í dekkri litina en poppyseed og safflower olíu í hvítu litina sem þýðir að þeir gulna ekki eins mikið. 
Ég er að undirbúa tvo skemmtilega fyrirlestra sem verða í þessari viku og næstu í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Þeir eru ætlaðir nemendum skólans en eru einnig opnir öllum og ekki þarf að skrá sig sérstaklega. Fyrri fyrirlesturinn fjallar um allt varðandi olíuliti, litanotkun og litahringinn en seinni fyrirlesturinn um allt varðandi tól og tæki í olíumálun. Þetta er mjög yfirgripsmikið efni sem ég ætla að koma frá mér í samþjöppuðu formi og aðgengilegt öllum svo það er áskorun að takast á við það. Í leiðinni er þetta heilmikill lærdómur fyrir mig því maður er alltaf að komast að einhverju nýju. Ég var til dæmis að skoða allar tegundir af ólíulitum sem eru framleiddar(amk. þessar helstu) og er strax búin að finna út ákveðna liti sem mig langar að prófa. Ég fer td. til Ítalíu í sumar og er ákveðin í að komast í litabúð og athuga hvort ég finn einhvern af þeim litum sem ég hef augastað á þar. Það er svo takmarkað flutt inn af olíulitum til Íslands og þó maður geti bjargað sér með það helsta þá er svo margt sem maður fer á mis við. Ameríka er náttúrulega gósenland málarans og almennilegar litabúðir eru engu líkar. Það er þó líka hægt að panta ýmislegt á netinu.

En hér eru lýsingar á fyrirlestrunum:


Litir og litafræði málarans
Fimmtudagur 12. apríl kl. 19:30-21:30
Farið yfir ýmislegt varðandi liti og litanotkun í olíumálun. Helstu hugtök í sambandi við liti eru skýrð og skoðuð með dæmum. Hvaðan koma litir, hvernig hafa þeir þróast í gegnum söguna? Hvernig varð litahringurinn til og hvaða lögmál ríkja varðandi hann? Hvernig getum við notað litahringinn persónulega fyrir okkur? Hvernig notum við liti og hvað ber að hafa í huga sérstaklega þegar málað er með olíulitum? Hvaða liti er gott að nota í undirlag og hvaða liti í slikjur? Skoðum lítillega mismunandi tegundir af olíulitum og muninn á þeim. Dæmi af ýmsum uppáhaldsmálurum fyrirlesarans tekin og skoðað hvernig þeir nota liti til að leggja áherslu á og túlka viðfangsefnin.

Fyrirlesturinn hentar þeim sem hafa verið að mála og þeim sem eru að byrja. Dýpkar skilning á litum og litanotkun og  gefur þér færi á að spyrja um það sem þig langaði alltaf að vita um liti.

Tækni tól og tæki málarans
Þriðjudagur 17. apríl  kl. 19:30-21:30
Allt sem viðkemur olíumálun dregið fram í dagsljósið og skoðað nánar. Allt frá penslum, striga og öðru undirlagi, litum, spöðum, íblöndunarefnum af ýmsu tagi og grunnum kynnt og helstu notkunarmöguleikar sýndir með dæmum. Ýmis praktísk atriði reifuð og sýnd með dæmum, varðandi frágang á myndum, íblöndunarefni og grunna. Tilvalið fyrir þann sem hefur verið að mála lengi, en hentar einnig þeim sem hefur aldrei málað áður en langar til að kynnast því. 

Það er tilvalið að fara á báða fyrirlestrana sem eru yfirgripsmikir og veita innsýn í ýmislegt varðandi olíuliti og notkun þeirra og þau efni sem tilheyra þeim. Í hefðbundnum tímum í málun læðist ýmis fróðleikur með sem ekki gefst færi á að skrá hjá sér en þarna er hægt að glósa og ná ákveðinni yfirsýn.

Fyriorlestrarnir eru haldnir í húsnæði skólans í Álafosskvosinni. Verð á hvorn fyrirlestur kr. 2000 fyrir nemendur skólans en 2500 fyrir aðra. Innifalið er kaffi og námsgögn.

Thursday, March 22, 2012

Uglur og Kiki Smith

Ég var að skoða á vefnum hvort ég finndi einhver spennandi málverk með uglum. Það hafa sést uglur á Íslandi undanfarin misseri, ugla er listamönnum hugleikin, en Kiki Smith er ein af mínum uppáhalds listamönnum. Hún vinnur á svolítið skemmtilegum nótum, myndir hennar eru frekar ævintýralegar en líka dálítið óhuggulegar, þær eru þarna á mörkunum. Hún vinnur í grafík, teikningar og skúlptúr og hefur lag á að koma manni á óvart. 
Kiki Smith - Samsettur pappír, teikning 

Kiki Smith - Dúkrista

Kiki Smith - Æting á svartan pappír

Kiki Smith - Æting

Tilda Lovell

Ég sá verk þessarar listakonu á sýningunni "Drawings" í Gallerí Lars Bohman í Stokkhólmi. Þar sýndi hún myndir  málaðar með hvítu bleki á svartan pappír. Eitthvað í verkum hennar minni á Kiki Smith, líklega það að hún vinnur á mörkum ævintýra og martraðar. En kannski líka það að hún vinnur með teikningar, skúlptúr og einskonar innsetningar.

Uglan hefur löngum þótt fugl næturinnar og tákn visku. En það er hægt að skoða og spá í fugla út frá ýmsum sjónarhornum. En hér er hlekkur á síðu um.....uglur:

Tuesday, March 20, 2012

Módel í Mos

DeKooning, Sitjandi maður i hvíld.


DeKooning, Sitjandi kona
Við erum að mála módel(ef það hefur farið framhjá einhverjum) uppi í Mos um þessar mundir. Ekkert mjög tæknilega í sjálfu sér. Margir hafa verið að mála myndir með manneskjum eftir ljósmynd og mér fannst kominn tími til að hafa lifandi fyrirmynd fyrir framan þau og spreyta sig á því að ná niður stöðunni, mæla og horfa án þess að fara mjög nákvæmlega í anatómíu og annað slíkt. Fyrst hafa þau grunnað á stóran striga einhverskonar rými(eða komið með "ljótt verk" sem þau tíma að mála yfir) og nú er komið að því að setja módel sem þau hafa skissað með kolum á brúnan maskínupappír í einum tíma, inn á myndina. Þetta er ekkert mjög létt fyrir þann sem hefur aldrei málað módel áður en líka ótrúlega spennandi. Mér finnst DeKooning fara snilldar vel með manneskjuna sem viðfangsefni og hvernig hann notar teikninguna með kolunum og málar frekar þunnt yfir brýtur þetta skemmtilega upp.

Skór

Ég fór á nokkur söfn og gallerí í Svíþjóð um daginn og tók þar eftir ungu sænsku listaspírunum, renglulegum strákum og stelpum í þröngum gallabuxum og slitnum ullarpeysum sem voru að skoða málverk.  Það var greinilegt að þetta voru krakkar með ástríðu fyrir myndlist en maður sá það á skónum þeirra að þetta voru málarar.....og þeir leggja mikið upp úr skóm, sem voru einskonar "status" eða stöðutákn.

Ég hef ekki fyrr áttað mig á því fyrr hvað skórnir hans Van Gogh eru mikil snilld. Hann málaði þá aftur og aftur. Merkilegt líka hvað skór gefa mikið til kynna um manneskjuna. Nemendur mínir eru að mála manneskjuna (módel) um þessar mundir. Það gengur vel, en ef þeir ættu að mála skóna sína(eða einhvers annars) þa´væri áhugavert að sjá hvernig gengi að skila karakter manneskjunnar sem á skóna. Það er ekki út af engu sem ungar listaspírur nota svona skó. En svo má líka bara mála skó sér til ánægju og yndisauka.
Van Gogh, 1886, 40x50 
Van Gogh, 1888, 40x50
 
Paul Housley, 2008, 40x50

Wednesday, February 29, 2012

Stutt og hratt

Vegna forfalla er laust á námskeið í olíumálun á vinnustofunni hjá mér um helgina(3. og 4. mars), að Fornubúðum 8 í Hafnarfirði. Þar sem þetta er með stuttum fyrirvara þá verður dagskráin frekar laus í reipunum, byrjum á laugardagsmorgun klukkan 10 með smákynningu á olíulitum og ég hjálpa ykkur að velja myndefni til að mála. Málum til kl. 14 og svo aftur á sunnudaginn kl. 10-15. Svo verður bætt inn í þriðja deginum seinna eftir því sem hentar hverjum og einum þannig að samtals eru þetta því 12 tímar.

Verð fyrir allan tímann er 25.000 og allt efni er innifalið, nema striginn sem hver og einn kemur með fyrir sig. Eftir helgina ættir þú að geta gengið út með fyrsta málverkið og komin með bakteríuna.
Endilega láttu vita ef þú veist um einhvern sem hefur áhuga. Ég er með námskeið af og til á vinnustofunni.

Hægt að skrá sig hjá mér í s:8987425

kveðja Soffía

Sunday, February 5, 2012

Námskeið í febrúar og mars


Næsta helgarnámskeið í olíumálun á vinnustofunni minni verður 23. 25. og 26. febrúar.

23.2./fim 19:30-21:30 - Fyrirlestur, kynning. Farið í helstu atriði olíumálunar og það sem hafa ber í huga þegar við veljum okkur myndefni.
25./2 lau 10-15:30 - Málum í sal undir leiðsögn kennara. ( Stutt hádegishlé 12-12:30).
26/2 sun 10-15:30 - Málum í sal undir leiðsögn kennara. (Stutt hádegishlé 12-12:30).
Auk þess stuttur einkatími á vinnustofu(20 mínútur) í samráði við kennara þar sem leiðbeint er með framhald.

Allt efni á staðnum en mælt með að þú lærir á þína liti ef þú átt þá og komir með striga í þeirri stærð sem þú vilt mála á.

Hentar fyrir byrjendur og lengra komna. Farið í helstu grunnþætti olíumálunar svo sem litameðferð, íblöndunarefni, helstu aðferðir, tól og tæki. Áhersla á litla hópa og einstaklingsmiðaða kennslu.


Í mars fyrirhugað helgarnámskeið í olíumálun á óhefðbundin efni og styttri námskeið með vorinu.
Allar upplýsingar í s:8987425 eða á netfangið soffias@vortex.is


Málað úti á góðviðrisdegi á námskeiði í sumar
og auðvitað gott að fá sér dálítinn kaffisopa í sólinni.

Á þessu námskeiði var unnið með dýr
og það gerði hver með sínum hætti.

Saturday, February 4, 2012

Nýir straumar

Felix Vallaton
Gaman að þessum munstrum og litla barnið auðvitað í bleiku
 og viðkvæmnisleg blómin líka á arinhillunni undirstrika
blíðuna í sambandi móður og barns.
Felix Edouard Vallaton
Trérista - Áhugavert hvernig hann skapar rými í myndinni
og hvað manneskjurnar falla saman við bakgrunninn.
Felix Vallaton
Einföld uppstilling? 
Felix Vallaton
Skemmtileg myndbygging, hvernig módelið er staðsett
 á efri helmingi myndarinnar og bókin alveg fremst.

Felix Vallaton
Konan virðist skyggja á manninn, amk er hann frekar litlaus .
Það er ómetanlegt þegar maður er kynntur fyrir nýjum listamanni til að skoða og spá í. Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt! Arngunnur vinkona mín og málari með meiru sendi mér nokkra linka á myndir Felix Edouard Vallaton 1865-1925, sem var alveg ótrúlega flottur svissneskur listamaður og vann jöfnum höndum að málverki og grafík og er sérstaklega þekktur fyrir tréristur sínar.  Auðvitað var hann vinur Vuillards sem hefur lengi verið minn uppáhalds málari og ég verð að segja að það er margt líkt með þeim. En afþví ég ætla að hafa einn tíma uppi í Mos með módeli þá er ekki úr vegi að skoða þessi módel-málverk hans.

Málaraárið 2012

Það er komið nýtt ár 2012. Vonandi verður það gleðilegt og gefandi myndlistarár og satt best að segja lofar það sérstaklega góðu. Spennandi sýningar á sýningarstöðum borgarinnar framundan og í gangi, sem ég mun kannski tæpa á hér á næstunni og Safnanótt 10. febrúar þar sem mikið verður um dýrðir. Sjálf fer ég í Menningarreisu til Stokkhólms um miðjan mánuðinn með fríðu föruneyti kennara við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar og býst við að sjá heilmargt skemmtilegt sem ég mun líka deila hér á síðunni. Í kvöld sá ég myndina eða Listamaðurinn sem er frönsk þögul verðlaunamynd, svart hvít. Frábærlega leikin og tökurnar hreinn unaður. Fékk mig til að hugsa um það hvað listin er stundum hverful, eitt vinsælt í dag, annað á morgun. Kvikmyndaformið er mjög gefandi og eiginlega sér heimur út af fyrir sig sem kom mjög vel fram í þessari mynd. Það á svo greiðan aðgang að manni og þegar sagan er sterk og allt kemur saman eins og áður segir hittir það mann í hjartastað, eða hvað finnst þér?
The Artist

Myndlistin hefur líka þessa eiginleika og það hafa ýmsar tilraunir verið gerðar í gegnum tíðina til að "dramatísera" myndlistina. Í dag kannski með ýmsum gjörningum samanber verk Ragnars Kjartanssonar. En málarar fyrri alda voru líka uppteknir af því að færa eitthvað á svið og gengu sumir langt í því. John Martin, listamaður sem var uppi um 1800 er stundum sagður vera faðir kvikmyndarinnar og gríðarstór málverk hans af stórbrotnu landslagi, einskonar heimsendamálverk og hafa verið áhrifamikil á sínum tíma og voru lýst upp af gaslampa í tónleikasölum og leikhúsum. Hér eru tvö dæmi um stórbrotin verk hans sem hann sýndi 1812. Hann var sjálflærður og hefur verið miklum hæfileikum gæddur eins og sjá má. Þetta eru mjög stórar myndir.
John Martin

John Martin
Um sýningu John Martin í Tate gallery
Um þessar mundir er sýning á Kjarvlasstöðum með verkum Karenar Agnethe Þórarinsson sem gift var málaranum Sveini Þórarinssyni en hún fylgdi honum heim frá Danmörku og unnu þau bæði að myndlist sinni þó hún héldi ekki fyrstu einkasýningu sína hér fyrr en 1982. Í Bretlandi bjuggu á síðustu öld hjónin Ben Nicholson og eiginkona hans Barbara Hepworth. Njög ólíkir listamenn, en þó má finna ákveðna samsvörun í verkum þeirra. Þau bjuggu í St. Ives í Suður Englandi við sjóinn og má nærri geta hvað umhverfið hefur haft djúpstæð áhrif á verk þeirra. Þar er nú eitt Tate söfnunum og vona ég að maður eigi einhverntímann eftir að skoða það og fara á þessar slóðir.Þessi hvíttuðu verk Nicholson finnst mér afar heillandi og það er einnig áhugavert hvernig hann teiknar formin inn og notar blýjantinn.

Ben Nicholson

Ben Nicohlson
Eiginkona hans vann skúlptúra sem hafa líka þessa hvíttuðu áferð. Mér fiinnst þessi verk hafa þau áhrif á mig að mig langar að taka fram sandpappír og pússa hvítmálaða tréplötu.
Barbara Hepworth

Wednesday, November 23, 2011

Síðasta sýningarhelgi

Yfirlitsmynd af sýningu í baksal Gallerí Foldar
Helgur staður-Olía á tré-2011
Sýningunni minni "Veruleikans hugarsvið" í Gallerí Fold lýkur um helgina. Það fylgir því alltaf dálítill tómleiki að ljúka sýningu. Ferli sem hófst fyrir mörgum mánuðum, stundum árum, lýkur með því að maður tekur niður sýninguna, sumar myndir hafa fengið ný heimkynni, önnur fara aftur á vinnustofuna eins og gengur. Það er erfitt að meta það hvar maður stendur þegar þessu ferli er lokið. Einhverjar fréttatilkynningar hafa verið birtar í blöðum, einhverjir hafa látið falleg orð falla um það sem hangir uppi og það yljar manni ósegjanlega. Facebook er að mörgu leyti komin í stað faglegrar gagnrýni, hversu mörg læk fær maður á myndir sem maður birtir af sýningunni.......Ég er ekki að segja þetta til að vera súr, en það skýtur svolítið skökku við að þegar maður var að hefja sinn feril og sýndi á litlum stöðum, svosem eins og í Gallerí Stöðlakoti eða á stærri stöðum eins og Gallerí Fold, þá fékk maður undantekningalaust viðtal í blaði, jafnvel baksíðu á Lesbók og gagnrýni frá amk. tveimur gagnrýnendum, einum á Morgunblaðinu og öðrum í DV. Maður gat verið sammála eða ósammála gagnrýninni en hvað mig varðar þá fannst mér þetta yfirleitt vera uppbyggjandi og þetta voru mjög ólíkir gagnrýnendur sem tóku misjafnlega á málum sem var athyglisvert og fleytti manni eitthvað áfram.

Ég sendi nemendur mína í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar í vikunni út af örkinni til að skoða sýningar og mynda sér skoðun á amk. tveimur verkum og rýna til gagns og segja hvað hrífur þá og hvað ekki. Það voru amk. 9 ólíkir sýningarstaðir í boði næstu tvær vikurnar með hátt í 20 sýningum og enn fleiri sýnendum. Þá erum við bara að tala um stóru söfnin á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað birtist gagnrýni um sýningarnar þar en það verður bara svo margt útundan sem er markvert. Mér finnst í kennslu oft skorta á umburðarlyndi hjá nemendum sem eiga erfitt með að skoða myndlist með opnum hug. Myndir eru ljótar og klessulegar, listamennirnir þunglyndir eða hátt uppi og dómar þeirra um myndlist og málara oft neikvæðir. Ég velti því fyrir mér hvort það geti stafað af því að það vantar meiri umræðu um myndlist sem höfðar til hins almenn borgara sem er ekki búinn að þróa með sér smekk eða skoðun á samtímalist og það vantar einhverja brú þarna á milli sem litlu sýningarstaðirnir bjóða oft upp á. Ef ég ber þetta saman við tónlist og tónlistargagnrýni þá er nánast allt gagnrýnt sem kemur út eða er flutt, sama má segja um bækur, kvikmyndir og leikhús. Hversvegna er hægt að gagnrýna sýningu hjá LA á Akureyri en ekki sýningar í Listasafni Akureyrar. Leiksýning í Grindavík er gagnrýnd við fyrsta hentugleika en flottar myndlistarsýningar í Listasafni Reykjanesbæjar fá ekki náð. Ég held að það gleymist svolítið hvað myndlist er útbreidd og hvað margir eru að skoða myndlist og skapa sjálfir en akkúrat það flækir málið og gerir það enn mikilvægara að umræða um allskonar myndlist nái upp á yfirborðið.

En ég ætla ekkert að hætta að mála eða halda sýningar og sækja um sýningarsali. Framundan er nýtt sýningarár 2012. Að mörgu leyti óskrifað blað hjá mér....en svo dúkkar eitthvað upp...allt i einu, bara handan við hornið.