Friday, September 14, 2012

Nokkrar Nocturnur

James Whistler vann mikið með nóttina eins og ég hef minnst á áður og hann kallaði myndir sínar Nocturne og bætti síðan litunum aftan við. Hann sagðist kalla þær því nefni til að draga úr áhrifum þess hvar myndirnar voru málaðar, en þær voru flestar málaðar af Thames ánni að kvöld/næturlagi. Nocturne gefur líka til kynna tónlist og Chopin samdi margar fallegar sem má til dæmis hlýða á hér: NOCTURNE CHOPIN
Nocturne blue and silver

Nocturne

Nocturne

Monday, September 10, 2012

Nokkrir flottir málarar....

Chris Brown(1951) - Dark Winter 1991
Er búin að vera að skoða málara sem vinna á einhvern hátt með nóttina/kvöldið, stemminguna sem er á nóttinni og hvernig hægt er að ná fram kyrrð og ró í myndum. Mér finnst margir málarar í San Francisco hafa þessa stemmingu á valdi sínu. Þessir þrír hér eru allir frá því svæði...

Elmar Bishof (1916-1991)


Elmar Bishof

Elmar Bishof
Mér finnst Olivera alltaf ótrúlega naskur að komast upp með að gera lítið en þó svo mikið. Einhver kraftur sem einkennir myndirnar hans, eins og innbyggð stilla.

Nathan Olivera 1928-2010

Nathan Olivera

Nathan Olivera

Nathan Olivera
Tónlist tengist líka í mínum huga nóttinni. Jass kannski.....og þá helst þessi hérna....:Tord Gustavsen - Where breathing starts

Sunday, August 19, 2012

Að mála á tré -

Albrecht Dürer 1471-1528 er meistari allra efna. 
Þetta málverk er málað á tré og þvílík fágun í litanotkun og teikningu
Lukas Cranach - Málverk frá 16. öld. 
Í vikunni verð ég með námskeið á vinnustofunni í olíumálun á tré. Það er að mörgu leyti mjög ólíkt að vinna á tré samanborið við striga. Mér finnst það gefa ákveðna dýpt í myndirnar því það tekur langan tíma að byggja litinn upp og lengi framan af drekkur viðurinn meira í sig en ef ég væri td. að mála á striga. Auðvitað fer það að einhverju leyti eftir því hvað plöturnar eru grunnaðar mikið, en ég grunna yfirleitt tvisvar sinnum með gezzo báðum megin. Það eru ríkar hefðir í íkonamálun og mjög strangar reglur, það þekkja þeir sem hafa farið á námskeið í því og lært samkvæmt því. Hér er td. sýnt hvaða leið var farin við það:  Hefðbundin aðferð við að grunna og mála á tréplötu Það er auðvitað hægt að mála á tré án þess að fara eftir þessari ströngu formúlu sem þeir allra hörðustu fara eftir í hörgul en það er alltaf gott að vera meðvitaður um hverju maður vill ná fram svo ef þú ætlar að mála íkona þá er þetta leiðin. En svo má líka lesa sér til almennt, hér er meira um tréplötur/striga ofl.
Málverk eftir Degas málað á tréplötu
Peter Paul Rubens(1577-1640) málaði oft á tré.
Þetta málverk er ekki fullunnið er frá 1565 og er í stærðinni 80x100m.

Peter Bruegel um 1500



Hyronomius Bosch 1450-1516


Sunday, August 12, 2012

Sumar....málningartilraunir og ný verkefni...

Á sumrin finnst mér gaman að prófa mig áfram með ný efni, nota liti sem ég er ekki alltaf að nota, leyfa sumrinu að flæða inn. Ég tók nokkra daga í að prófa mig áfram með heitt vax og olíulit á pappír. Ég er ekkert brjálæðislega glöð með útkomuna en finnst hún þó vísa í einhverja átt og fíla litina vel.
Tilraunir með vax og olíutlit á pappír
Á sumrin reyni ég auðvitað líka að halda mig við efnið, maður þarf alltaf að eiga eitthvað til í galleríinu og ekki þýðir að leika sér alla daga þó það sé gaman. Það er stundum létt yfir köppunum mínum.
...er þessi kannski úti á túni?
...og þessi úti í glugga?


.....og þessi uppi á þaki?
Í Svíþjóð í vetur keypti ég bláan pappír sem hefur legið hjá mér í hillunni. Undir áhrifum frá myndinni Hugo(ekki drykknum sko) hef ég svo leitast við að skapa einhverja veröld með hvítu bleki, gylltri og silfurlitaðri slikju og blýjanti. Þetta er skemmtilegt og þróun. Mig langar til að það taki tíma svo það skiptir ekki höfuð máli. Vantar nafn á þessa seríu...kannski það komi þegar allt er komið. Mér finnst þetta hvíta vera snjór eða ský, en getur allt eins verið reykur. Þetta skilar sér nú ekki beint vel á ljósmynd....en kannski mun þetta einhverntímann koma fyrir sjónir sýningargesta. Mér finnst þetta virka.





 Af og til detta inn á borð hjá mér einhver gæluverkefni sem eru af öðrum toga en þessi hefðbundnu. Nú er ég með eitt slíkt í vinnslu. Byrjaði á því 2008 og það mun líta dagsins ljós á haustdögum. Það mun ég þó tilkynna betur þegar nær dregur.
Nýjasta verkefnið á nýja borðinu mínu.




Monday, August 6, 2012

Töfrar sumarnæturinnar....








Þessar óendanlegu sumarnætur koma svo sannarlega ímyndunaraflinu af stað. Svo mikil hvíld í þessum bláma sem tekur á sig gráa, fjólulita og græna, jafnvel bleika tóna. En staðurinn þar sem þessar myndir eru teknar í Landsveitinni er að sjálfsögðu sveipaður töfraljóma og ljósmyndarinn, vinkona mín Berglind Björgúlfsdóttir nær að fanga hann þegar hún var þar á ferðinni fyrir stuttu. 

Svo er ekki úr vegi að minna á námskeiðin sem eru framundan hjá mér á vinnustofunni í ágúst. Enn eru pláss laus og hægt að taka bæði saman fyrir þá sem vilja ná miklum árangri á stuttum tíma.

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.



Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000

Sunday, July 22, 2012

Amerískir straumar....

Adolph Gottlieb
Adolph Gottlieb
Franz Kline
Henri Matisse - Hurð - (1914)
Henri Matissse - Gluggi út á Notre Dame(1914)
Ég er að skoða ýmsa ameríska spennandi málara sem ég sé allt í einu eitthvað alveg nýtt í. Adolph Gottlieb er einn af þeim. Þessar myndir hafa svo lifandi línu og mýkt í litanotkun sem er þunn og gagnsæ og formin eins og fljóta ofan á. Samferða honum var Franz Kline sem notar sterk form og mikinn svartan lit sem á köflum er ótrúlega sterkt. Langt á undan þeim var Matisse sem notaði rými og form á nýjan máta og hafði örugglega áhrif á þá sem á eftir komu, hvernig hann notaði litinn þunnt, hvernig hann skapaði rými í myndinni, myndbyggingin og einhver fágun í litanotkuninni.
Richard Diebencorn - Seascape


Ekki ólíklegt að Kaliforníu listamaðurinn Richard Diebencorn hafi skoðað verk Matisse og séð ýmislegt sem hann nýtti sér. Nú ætla ég að hugsa til þeirra allra, skoða myndbyggingu, nota litinn þunnt, STÆRÐIR, línur og að láta formin fljóta ofan á.

Sumarnætur...

Toulouse Lautrec vakti oft á næturna og vann. Hann málaði nokkrar útgáfur af sofandi fólki. Gaman að velta fyrir sér á hvað tíma sólarhringsins þessi mynd er máluð og lika á hvaða tíma ársins. Ég spaí því að hún sé máluð að vori eða hausti í París. Snilldarvel máluð og gaman að þessum bláu og grænu tónum í sænginni og teikningin skilar sér sérlega vel í málverkinu.
Edward Munch notaði oft sama mótífið og mismunandi birtu. Hér er "Sumarnótt".
Blái liturinn getur verið ákaflega þrunginn og höfugur þegar líður á sumarið. Ég er svolítið að spá í sumarnætur og næturhiminn almennt og hvernig hægt er að mála hann. Mér finnst íslenskur sumarblár næturhiminn vera mjög gegnsær og hugsa mér himinblá, cobalt eða ultramarin blá augu í því samhengi. En stundum eru sumarnæturnar þéttar og dökkar, Indigo svarbláar og stundum jafnvel gráar. Það er líka merkilegt hvernig aðrir litir taka líka mið af því.
Svona sá Winslow Homer sína "Sumarnótt". Svolítið drungaleg.


Sunday, July 15, 2012

Soffía Grafíker

True North/Æting/2012
Ég var á sýningaropnun í gær. Reyndar á sýningu sem ég sjálf var að opna í Grafíkfélaginu, ekkert formlegt, heldur er þetta grafíkmappa sem mér bauðst að taka þátt í og heitir "Idea of North" og 14 listamenn frá íslandi, USA og Kanada eiga verk í þessari möppu. Nicole Pietrantoni sem dvaldi hér á Íslandi síðasta ár setur þessa möppu saman. Ég sýni þar ætinguna True North sem ég þrykkti í 18 eintaka upplagi, nokkuð sem ég geri afar sjaldan. Þetta er ánægjulegt og ég er satt best að segja mjög glöð að vera tekinn með í hóp framsækinna "grafíkera" því ég hef ekki beint litið á mig sem sérstakan grafíklistamann þó ég vinni af og til í grafík. Ég hef reyndar sinnt grafíkinni af dálitlum krafti undanfarið og kem til með að gera það meira á næstunni. Gekk meira að segja svo langt að stofna sérstakt blogg sem ég kalla Grafíkbloggið, en þar ætla ég að setja inn ýmsar upplýsingar um aðferðir og grafík og listamenn sem nota grafík í sinni myndlist. Hér kemur það:Grafíkbloggið.

Tuesday, June 26, 2012

Sumar og sól

Það er ekki ofsagt að sólin skín úti og inni þessa dagana. Litirnir í umhverfinu eru gefandi og vekjandi, hressandi gulir, grænir, og himinbláir.....Það er himneskt að ferðast um landið og liggja úti í tjaldi eða móa, hlusta á niðinn í lækjarsprænu eða vinalegan fuglasöng. Ég verð með námskeið í olíumálun um helgina á vinnustofunni sem ég kalla "Sóleyjar og sællegar kýr úti á túni". Myndefnið getur verið af ýmsum toga, en það er tilvalið að vinna með skæra liti og láta gamminn geysa! Það er enn hægt að skrá sig.....við byrjum á fimmtudaginn klukkan fimm(17:00)
Sællegar kýr? Eða bara forvitnar?

Fjólublái liturinn er víða í náttúrunni þessa dagana...

Fíflar og sóleyjar....bifukollur og puntstrá...

Tuesday, June 19, 2012

MÁLARINN VIÐ HÖFNINA - SUMARNÁMSKEIÐ


Nokkuð hefur verið spurt eftir því hvort ég verði með styttri námskeið í málun á vinnustofunni í sumar. Sumarið er sannarlega tími til að mála og hafa gaman og það er eitthvað svo afslappað að sýsla við liti og skoða náttúruna og sumarblómin með það í huga. Ég set námskeiðin upp þannig að þau ættu að henta þeim sem hafa verið hjá mér áður, en líka þeim sem langar að prófa að mála með olíulitum og allt þar á milli. Hóparnir eru yfirleitt litlir og alltaf góð stemming hjá Málaranum við höfnina....Skráning fer fram hjá mér á netfanginu soffias@vortex.is.

I) JÚNÍ 28.6.-2.7. 


Sóleyjar og sællegar kýr úti á túni....
Sérstaklega farið í grunna, spaðanotkun og hraðar aðferðir í málun sem eru skjótar til árangurs. Unnið með sumarið og hressilega glaða liti. Nemendur koma með allt efni sjálfir.

28.6. - fim. 17-20 Skoðum blóm og liti, skissum og temjum okkur hraðar aðferðir. Grunnum 2 striga með mismunandi akríl grunnum.
30.6. - laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
1. 7. - sunnudagur 11-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara
2. 7. - mánudagur 17-18 Yfirferð og frágangur. Leiðbeint með framhald.

Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir
Verð: 22.000

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000

Frá námskeiði í fyrrasumar, þarna voru trönurnar bara færðar út,
málað af miklu kappi meðan aðrir slökuðu aðeins á í sólinni






Tuesday, May 15, 2012

Sumar og sýningar 2012

Ýmislegt framundan á næstunni, kennslu lokið í bili þó ég verði með námskeið á vinnustofunni í sumar sem ég auglýsi fljótlega. Áður en að því kemur þarf nú samt að koma ýmsu í framkvæmd og það vellur og kraumar í hugmyndapottinum enda verkefnin ólík en spennandi.

24-26 maí nk. tek ég þátt í ráðstefnunni Art in Translation með fyrirlestri um notkun texta í verkum mínum. Þarna verða um 70 fyrirlesarar frá ýmsum löndum auk Íslands, listamenn, þýðendur og fræðimenn í bland og verður án efa athyglisvert að hlýða á ýmsa fyrirlestra um notkun texta og mismunandi nálgun á því. Sjálfri finnst mér texti/skrif/orð skipta miklu máli í myndlist minni, en það er nýtt fyrir mig að þurfa að setja það fram með þessum hætti og gera það áheyrilegt og spennandi.

31. maí - 4. júní eru Bjartir dagar í Hafnarfirði og hjá Málaranum við höfnina verður sýningin Út á við - Inn á við í sal. Þar munum við Gunnar Karl Gunnlaugsson leiða saman hesta okkar með ljósmyndum og málverkum. Gunnar hefur undanfarin misseri tekið ljósmyndir af "Listamönnum í lengjunni" hér við höfnina og sýnir seríu ljósmynda en ég málverk sem máluð eru á þeim tíma. Það er áhugavert að  fá að skyggnast á bakvið en líka gaman að draga fram þessa margvíslegu starfsemi sem fram fer hér við höfnina og ég er hluti af.

15. júní - 8. júlí verð ég með litla sýningu í Gallerí Klaustri í Gunnarshúsi, Skriðuklaustri. Sýninguna nefni ég Dalverpi, minningar og fundnir hlutir og ætla að sýna málverk og teikningar. Það er alltaf gaman að setja upp sýningu í nýju umhverfi úti á landi að sumri til. Ég dvaldi í Gunnarshúsi 1999 og vann þar sýninguna Dalbúar sem ég sýndi í Osló og Gallerí Fold og dvölin er mér að mörgu leyti minnisstæð. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum stað sem mér finnst gaman að spá í og skoða og láta hafa áhrif í myndirnar.
Svo vona ég að það komi að því þegar þetta er allt afstaðið að Landsveitin taki vel á móti manni á fallegum sumardegi og að Hekla hafi hægt um sig amk. að sinni.



Thursday, April 26, 2012

Leysingar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

Það er mikið í gangi í Álafosskvosinni þessa dagana. Í gærkvöldi fékk ég hóp af hressum nemendum sem spreyttu sig á sjóndeildarhring og litum fyrstu "gróður" vorboðanna sem ég bar með mér alla leið af Álftanesi og setti á hvítan pappír á borðið. Fíflar, rabbarbarahnúður, moldarbingur og daufgræn strá voru viðfangsefni kvöldsins og framvindan glettilega góð. Verkefnið að blanda saman litina úr rauðum, gulum og bláum litum og fá úr því rauðfjólubláan lit rabarbarans, grsgrænu stráanna, skærgulan og rauðgulan lit fíflanna og svo mætti lengi telja. Litirnir: Lemon Yellow, Crome Yellow, Alizarin Crimson, Ultramarin Blár, Prussian blár, Scarlet Rauður og auðvitað blandað með terpentínu...lyktarlausri. Á laugardaginn koma þau svo með mynd, skissu eða ljósmynd af því sem hugurinn stendur til að festa á striga. Það þarf að hafa hraðar hendur til að ná árangri á stuttum tíma en það er bara gaman að því.

Degas vann sínar myndir hratt úti í náttúrunni með pastellitum sem hann teiknaði með á plötu, svo vætti hann blað í terpentínu og lagði ofan á plötuna. Þetta lét hann síðan þorna(í sólinni) og litaði svo áfram með þurrkrítinni. Hann elskaði liti og var sannkallaður "koloristi".


25.4.-5.5. 2012
Leysingar (fuglarnir, fossinn og fríðleiksblómið...)
Kennari: Soffía Sæmundsdóttir
Tími: Miðvikudaga 19:15-22:15 og Laugardaga 10-13 alls 4 skipti.




Degas - Þurrkrít þrykkt á pappír 
Stutt hressandi námskeið í olíumálun fyrir byrjendur og lengra komna. Unnið með umhverfið og liti vorsins. Farið í litablöndun og aðferðir sem nýtast vel til árangurs á stuttum tíma. Áhersla á góðan anda, vinnusemi og viðfangsefni sem hæfir hverjum og einum. 


Monday, April 9, 2012

Fyrirlestrar í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar

http://www.myndmos.is/nyacutett---styttri-naacutemskeieth-yacutemsir-kennarar.html

Composition frá 1916 eftir Kandinsky. Hann var mjög vandlátur á liti og hugsaði  mikið um að ná réttum samsetningum. Hann notaði nær eingöngu Sennelier liti sem hafa verið framleiddir frá því seint á 19. öld í París. Þeir eru þekktir fyrir gæði, framleiða eingöngu liti fyrir listamenn þ.e. "Artist Oil Colour" og nota línolíu í dekkri litina en poppyseed og safflower olíu í hvítu litina sem þýðir að þeir gulna ekki eins mikið. 
Ég er að undirbúa tvo skemmtilega fyrirlestra sem verða í þessari viku og næstu í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Þeir eru ætlaðir nemendum skólans en eru einnig opnir öllum og ekki þarf að skrá sig sérstaklega. Fyrri fyrirlesturinn fjallar um allt varðandi olíuliti, litanotkun og litahringinn en seinni fyrirlesturinn um allt varðandi tól og tæki í olíumálun. Þetta er mjög yfirgripsmikið efni sem ég ætla að koma frá mér í samþjöppuðu formi og aðgengilegt öllum svo það er áskorun að takast á við það. Í leiðinni er þetta heilmikill lærdómur fyrir mig því maður er alltaf að komast að einhverju nýju. Ég var til dæmis að skoða allar tegundir af ólíulitum sem eru framleiddar(amk. þessar helstu) og er strax búin að finna út ákveðna liti sem mig langar að prófa. Ég fer td. til Ítalíu í sumar og er ákveðin í að komast í litabúð og athuga hvort ég finn einhvern af þeim litum sem ég hef augastað á þar. Það er svo takmarkað flutt inn af olíulitum til Íslands og þó maður geti bjargað sér með það helsta þá er svo margt sem maður fer á mis við. Ameríka er náttúrulega gósenland málarans og almennilegar litabúðir eru engu líkar. Það er þó líka hægt að panta ýmislegt á netinu.

En hér eru lýsingar á fyrirlestrunum:


Litir og litafræði málarans
Fimmtudagur 12. apríl kl. 19:30-21:30
Farið yfir ýmislegt varðandi liti og litanotkun í olíumálun. Helstu hugtök í sambandi við liti eru skýrð og skoðuð með dæmum. Hvaðan koma litir, hvernig hafa þeir þróast í gegnum söguna? Hvernig varð litahringurinn til og hvaða lögmál ríkja varðandi hann? Hvernig getum við notað litahringinn persónulega fyrir okkur? Hvernig notum við liti og hvað ber að hafa í huga sérstaklega þegar málað er með olíulitum? Hvaða liti er gott að nota í undirlag og hvaða liti í slikjur? Skoðum lítillega mismunandi tegundir af olíulitum og muninn á þeim. Dæmi af ýmsum uppáhaldsmálurum fyrirlesarans tekin og skoðað hvernig þeir nota liti til að leggja áherslu á og túlka viðfangsefnin.

Fyrirlesturinn hentar þeim sem hafa verið að mála og þeim sem eru að byrja. Dýpkar skilning á litum og litanotkun og  gefur þér færi á að spyrja um það sem þig langaði alltaf að vita um liti.

Tækni tól og tæki málarans
Þriðjudagur 17. apríl  kl. 19:30-21:30
Allt sem viðkemur olíumálun dregið fram í dagsljósið og skoðað nánar. Allt frá penslum, striga og öðru undirlagi, litum, spöðum, íblöndunarefnum af ýmsu tagi og grunnum kynnt og helstu notkunarmöguleikar sýndir með dæmum. Ýmis praktísk atriði reifuð og sýnd með dæmum, varðandi frágang á myndum, íblöndunarefni og grunna. Tilvalið fyrir þann sem hefur verið að mála lengi, en hentar einnig þeim sem hefur aldrei málað áður en langar til að kynnast því. 

Það er tilvalið að fara á báða fyrirlestrana sem eru yfirgripsmikir og veita innsýn í ýmislegt varðandi olíuliti og notkun þeirra og þau efni sem tilheyra þeim. Í hefðbundnum tímum í málun læðist ýmis fróðleikur með sem ekki gefst færi á að skrá hjá sér en þarna er hægt að glósa og ná ákveðinni yfirsýn.

Fyriorlestrarnir eru haldnir í húsnæði skólans í Álafosskvosinni. Verð á hvorn fyrirlestur kr. 2000 fyrir nemendur skólans en 2500 fyrir aðra. Innifalið er kaffi og námsgögn.