Wednesday, December 30, 2015

2015 - Myndlistarannáll Soffíu í aldanna skaut....




Frá sýningunni Sögustaðir á vinnustofunni Fornubúðum í maí 2015. Sýningin var á báðum hæðum og stóð ég fyrir sýningarspjalli um vinnuferlið, en myndirnar voru undir áhrifum frá Egilssögu. Ég sýndi bæði fullbúin verk og verk í vinnslu.
Myndlistarárið 2015 hefur verið ákaflega fjöbreytt. Þetta er árið sem ég fagnaði fimmtugsafmæli mínu og ég ákvað fyrir löngu að ég myndi ekki gera það með stórri einkasýningu eða slá hátíðahöldum saman, enda sé ég ekki hvernig ég hefði átt að koma því fyrir svo vel hefði farið. Ég lít enda svo á að ég sé í stöðugri þróun sem myndlistarmaður og þegar ég lít yfir árið sé ég að það er að mörgu leyti dæmigert fyrir mitt myndlistarlíf. Litlar einkasýningar og þátttaka í stærri/smærri samsýningum, opin vinnustofa með sýningarspjalli, námskeiðshald, vinnustofudvöl í New York og víðar, samstarf með fleiri listamönnum og þannig mætti lengi telja.

Brottför/Exitus 2015
Olía og vax á tréplötu
Janúar: Sýningarárið hófst 6. janúar 2015 með einkasýningunni "Exitus/Brottför" í SÍM húsinu, Hafnarstræti.  Þetta var þriðji og síðasti hluti sýningarraðarinnar Kleine Welt eða “Smáheimur” sem varð  til á ákveðnum stað í afmarkaðan tíma, í vinnustofudvöl í Lukas Künstlerhaus í Ahrenshoop í Þýskalandi 2012. Þróun hugmynda gerist oft á löngum tíma en það er áhugavert hvað gerist þegar áhrif umhverfis/staða blandast saman við það sem maður leggur upp með og það sem bætist svo við þegar heim er komið og haldið er áfram. Þessi sýning var eins konar niðurlag vinnuferlisins þar sem sum verkanna öðlast nýja skírskotun í öðru samhengi, önnur hafa orðið til  á leiðinni. Jafnframt er sýningin einskonar brottför og þá upphaf að nýjum áföngum.

Vinnuaðstaða í Hvíta húsinu utan við Hellisand.
Febrúar: Vinnustofudvöl í Hvíta húsinu utan við Hellisand ásamt Elvu Hreiðarsdóttur var gefandi og upptaktur að samsýningu okkar ásamt Phyllis Ewen í Listasafni Reykjaness.

Apríl/Maí:  
Það var gaman að taka fram grafíklitina og ég hef verið iðin af og til á árinu að taka þátt í sýningum. Ég er komin með grafíkpressu á vinnustofuna og fékk "grafíkfrosk" í afmælisgjöf og er ekkert að vanbúnaði. EIns og ég hef sagt áður finnst mér það alltaf gefandi að vinna í grafik inn á milli. Litaval, efnismeðferð ofl. hefur þar áhrif.
Lokkur 2015
Trérista
 Samstarfsverkefni með Berglindi Maríu Tómasdóttur á Listahátíð 2015



Skemmtilegt verkefni kom upp í hendurnar á mér á vordögum. Myndgerð "Lokks" í tengslum við frumflutning/sýningu á hljóðfærinu og tónlist sem samin var sérstaklega fyrir það og flutt af Berglindi Maríu Tómasdóttur í Árbæjarsafninu í maí 2015.  


Sýningin Sögusvið á vinnustofunni og innsýn í vinnuferlið var góður endir á ári mínu sem Bæjarlistamaður Garðabæjar. Fyrirlestur um ferilinn í Gróskusalnum í Garðabæ var undanfari sýningarinnar og öllum garðbæingum boðið á opna vinnustofu. Málverk fyrir bæinn eru í vinnslu og munu verða sýnd á góðum stað í fyllingu tímans. Það var ákaflega ánægjulegt að verða þess heiðurs aðnjótandi að fá þennan titil í hendurnar. 



Júní: Námskeiðshald: Það er alltaf gaman að standa fyrir þessum vinsælu sumarnámskeiðunum. Einhver einstök stemming myndast við höfnina á þessum tíma og myndirnar þorna í rólegheitum í sólinni meðan spjallað er á efri hæðinni. Stutt helgarnámskeið og lengra massíft námskeið með áherslu á sjóndeildarhringinn var skemmtilegt og skapandi.
Hress hópur á námskeiði með kennara sínum.


Júlí - Wish you were here - Postcard project - Heike Liss/Soffía Sæmundsdóttir
Frá janúar á þessu ári höfum við stöllur sent hvor annarri póstkort, þar sem við vinnum með landslag og sendum hvor annarri. Þetta er verkefni sem mun halda áfram en við sýndum afraksturinn í Grafíksalnum á örsýningu í júlí og það var skemmtilegt og öðruvísi. 

Wish you were here is a mail-art project by Icelandic painter Soffia Saemundsdottir and German multi-media artist Heike Liss. Since January 2015 Saemundsdottir and Liss, who met while studying in California, have been making and sending postcards that explore their perceptions of landscape. For the duration of the exhibition the two artists will not only show the cards that they have already produced but  also set up a makeshift studio at the IPA Gallery in Reykjavik to continue to work on this open-ended venture.
Boðskort/Invitation
Verk okkar blönduðust saman og voru hengd upp eftir því hvenær þau voru gerð.
Settum upp vinnustöð og sáatum við þessa helgi.
Gullkistan 20 ár - Listasafn Árnesinga 
Gaman var að eiga verk á þessari sýningu sem opnaði 10. júlí í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Gullkistan er merkilegt fyrirbæri, listavinnustofur á Laugavatni(Artist Residency)sem er stýrt af Kristveigu Halldórsdóttur og Öldu Sigurðardóttur af miklum metnaði. Ég hef tekið þátt í sýningum hjá þeim 1995 og 2005, en sýningarstjóri á þessari sýningu var Ben Valentino. Sýningin var fjölbreytt og gaf góðan þverskurð af þeim íslensku/erlendu listamönnum sem sækja Gullkistuna og taka þátt í viðburðum á hennar vegum.

Landnám, 2015
Olía á striga
110x90
Október/nóvember Arts, Letters and Numbers Artist Residency/Vinnustofudvöl 
Það hefur verið sagt að vinnustofudvalir gefi listamönnum frelsi til að vera þeir sjálfir. Það er nokkuð til í því. Mánaðardvöl í uppsveitum New York 10.10.-10.11.2015 var spennandi, krefjandi, upplýsandi og "inspirerandi". Maður er lengi að vinna úr svona dvöl, en tengslanetið styrkist og sjálfstraustið eykst í því samhengi einnig. Gaman að kynnast fólki allststaðar að úr heiminum og fá frið til að vera til á eigin listrænu forsendum eingöngu. Ég er þegar með nokkur plön fyrir næsta ár sem urðu til þarna og munu fá verðuga kynningu síðar.  
Skissubók og hlutir úr náttúrunni innblástur.

Unnið með kvöldbirtuna í skóginum. 
Desember - Studio Stafn - Annars staðar
Lítil einkasýning í Studio Stafni sem er elskulegt listhús sem Viktor Smári stýrir, með fallegri myndlist eftir samtímalistamenn en líka fjölmarga aðra meistara var skemmtileg viðbót við sýningarárið. 


Undirbúningur sýningarinnar "Annars staðar"
Verk af sýningunni.
Á næsta ári eru fjölmörg verkefni í uppsiglingu sem upplýst verður um síðar. Ég þakka öllum sem hafa aðstoðað mig við sýningarhald, stutt mig á ýmsan hátt og heimsótt mig á sýningar og vinnustofu. Á tímum þar sem "venjuleg" myndlist á undir högg að sækja í almennri fjölmiðlun og vitræn umfjöllun er af skornum skammti verður maður bara að gera meira, sýna meira, skrifa meira og vonast til þess að maður sé að gera eitthvað rétt. Ég er gríðarlega þakklát fyrir alla þá sem sýna því áhuga sem ég er að gera og tjá sig við mig um það. Sannarlega hvetur það mig áfram. Samtímis vil ég hvetja ykkur öll til að láta til ykkar taka, skoðið, horfið, spáið í, já og kaupið myndlist. Gleðilegt nýtt myndlistarár 2016.








Thursday, December 10, 2015

Bláa línan...

Er í fantaformi þessa dagana. Það er desember, dagurinn er stuttur og nóttin er löng og nýtist vel þegar maður er kominn af stað. Í öllu falli finnst mér eitthvað ógurlega gaman að mála, hlusta á Messías, Ceciliu Bartoli og Rúv. Það snjóar úti og jóaljósin varpa skemmtilegri birtu á allt. Ég er með margar myndir í gangi í einu og mála ýmist á tré eða striga eftir því sem ég er í stuði fyrir.
Bláa tímabilið....

Einhver mystik hér...

Teikna með kolum á hvíttaða plötu, mála með línolíuþynntum lit. 
Stundum þarf ekki að gera mikið... 
Einhver trúarlegur strengur eða framandlegur kannski ...
Þróun verka...

vegurinn heim.....2015
I love painting these days. The days are short, the night is long and it is great to be painting and listening to nice music. It's snowing outside, the christmas lights in my studio shed a specific tone to everything. I paint on different surfaces and enjoy life.

Sunday, November 29, 2015

Studio Stafn

Það er gaman að sitja hér yfir sýningunni minni @Studio Stafn . Gluggarnir vísa út á Ingólfsstræti og fólk labbar hér framhjá eða lítur við. Þetta er alhliða listhús og hér er boðið upp á allt frá innrömmun, mati á verkum, viðgerðum og svo eru hér litlar sýningar af og til. Hér eiga margir leið hjá enda viðmótið gott og myndir á veggjunum fallegar og gaman að skoða. Á veggjunum þessa stundina (fyrir utan sýninguna mína) má sjá verk eftir eldri meistara svo sem Kjarval, Louisu Matthíasdóttur Karl Kvaran og Einar Jónsson, en einnig verk samtímalistamanna svo sem málverk Guðrúnar Einarsdóttur og Jóns Axels Björnssonar sem sýndi einmitt hér á þessum sama stað á undan mér. Staðurinn lætur lítið yfir sér, en staðsetningin er góð, steinsnar frá Laugaveginum og margir gimsteinar hér á veggjunum. Hér er opið virka daga frá 13-17 og á meðan á sýningu minni stendur líka um helgar frá 14-17.
Hér má sjá titil sýningarinnar.
Studio Stafn, Ingólfsstræti 6(fyrir ofan Laugaveginn)

"Annars staðar" blasir við...

Falleg innrömmun á verkum mínum, eikarlistar og glampafrítt gler.
Meira að segja hægt að taka mynd af verkunum án teljandi glampa. 

Friday, November 27, 2015

Skapandi óvissa


 Á þessum tíma, þegar snjóar úti, notaleg tónlist fyllir húsið og kveikt er á kertum verða oft til góðar myndir. Serían "Annars staðar / Elsewhere" (2015)varð til á nokkrum nóttum á vinnustofunni og mér þykir ákaflega vænt um þessi litlu verk á pappír sem urðu til áreynslulaust og mér finnst það skila sér. Nú þegar búið er að ramma verkin inn og setja þau upp í sýningarsal(Studio Stafn)innan um fleiri góð innan seilingar er ekki úr vegi að kíkja á þessar myndir. Svoldið gaman að þessu, langar mest að halda áfram...


Annars staðar/elsewhere - Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014

Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014
 En hér er texti úr sýningarskránni:

Skapandi óvissa

Það er langur vegur frá auðu blaði eða ógrunnaðri tréplötu að fullsköpuðu málverki. Smám saman fyllir maður upp í tómið, finnur sína leið, sitt landslag, sinn stað.

Í pappírsmyndunum teygi ég mig eftir alls kyns litum, lakki og bleki. Finnst spennandi að sjá undirlagið breyta til dæmis hvítum lit í grænbláan himin. Blekið liggur ofan á og það er eins og lína þess lifni við þar sem hún eltir og bætir við myndina sem ég hef límt inn á.

Tréplatan kemur sterk inn og leggur til landslag og óravíddir, óumbeðin. Það felst áskorun í að hylja æðar viðarins sem vilja á stundum fara í allar áttir. Með hverju lagi af terpentínuþynntum olíulitnum sem ég smá þykki, minnkar vægi þeirra. Bæti loks vaxi í litinn svo hann verður óræður og dregur fram lögin sem eru undir; skarlatrauð, túrkísblá, magenta-bleik.

Kvisturinn fyrir miðri mynd lætur ekki að sér hæða, fyrr en varir er ég búin að sjá fyrir mér og teikna út frá honum hatt og þar fyrir neðan treyju, buxur og sokka. Í hvaða átt snýr þessi mannvera? Hvert horfir hún? Pússa annars hugar kantana á plötunni með sandpappír, fylli upp í allar glufur og sprungur með vaxi og lit. Læt marga daga og vikur líða þar til ég kem við myndina næst.
Held svo áfram …


S.S. 2015

Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014


Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014



Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014


Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014 - Annars staðar...


Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014

Úr vinnuferli sem hófst 2. desember 2014

Thursday, November 26, 2015

Ástríða fyrir málun...

Howard Hodgkin er einn af mínum uppáhaldsmálurum. Ég sá stóra sýningu með verkum hans í London fyrir nokkrum árum og síðan hefur hann setið í mér sem sannur, flottur, magnaður málari sem er með þetta leyndardómsfulla sem allir sem mála vilja búa yfir. Það sést vel á þessari mynd hvað hann er með ótrúlega afslappaða línu og rythma í verkum sínum.
Howard Hodkin við eitt verka sinna

Hér er lítill myndbandsbútur með viðtali við hann. Hann sem er nú 82ja ára segist aldrei hafa verið betri. Held ég sé sammála honum með það. Svo það er eftir einhverju að slægjast með aldrinum. Húrra!!




Tuesday, November 24, 2015

Annars staðar / Elsewhere - Sýning á nýjum verkum í Studio Stafni

Á fimmtudaginn milli 17 og 19 opna ég sýningu á nýjum verkum í Studio Stafn, Ingólfsstræti 8. Ég sýni þar dálítið aðra hlið á mér, en þó ekki því ég er jú alltaf að gera eitthvað til hliðar við mig. En hér má sjá mynd af undirbúningnum og eitt verka sýningarinnar. Ég sit sjálf yfir sýningunni um helgar milli 14 og 17 og sýningin stendur til sunnudagsins 13. desember.

Annars staðar / Elsewhere, 2015 -
Samklipp, akríl, lakk og blek á pappír.
Smá spökúlasjón...
Úr fréttatilkynningu:

Á köldum vetrardegi má fletta glanstímariti og skoða myndir af stöðum og lífi úti í heimi. Það kviknar löngun til að kynnast þeim betur, fara þangað…vera þar! Lítil úrklippa af landslagi sem klippt er úr tímariti er límd tilviljunarkennt á pappír. Með því að mála yfir og tengja landslagið áfram og stækka verður upphaf að áður óþekktum stöðum.

Á tréplötu má sjá landslag og jafnvel mannverur ef grannt er skoðað. Með hverju lagi af málningu á tréplötuna breytist landslagið og mannverurnar ýmist hverfa eða koma í ljós eftir því hversu þykkt er málað og á. Það kviknar löngun til að kynnast þeim betur, fara þangað…vera þar!



Saturday, November 21, 2015

"Shaken, not stirred"

Þarna er ég með "Manhattan" á Manhattan fyrir stuttu.
Já....maður verður að vita hvað maður vill!! Það veit James Bond allavega og fær sér alltaf Martini Dry. Ég er að reyna að gera þessa litlu bloggsíðu áhugaverðari og "nær mér" svo hún sýni og gefi betri mynd af því sem ég er að gera í dag. Það er mikil yfirlega og allir segja mér að ég eigi að prófa aðra gerð af bloggi, þetta sé gamaldags viðmót og ég get í sjálfu sér tekið undir það. En tæknin er ekki alltaf með mér í  liði og ég vil frekar gera það sem ég ræð við en ekki. Ég veit líka ekkert hvort nokkur skoðar það sem ég set hér inn, en þetta er líka bara fyrir mig, svona einskonar starfsmaður í þjálfun. Með Facebook, Instagram og fleiri miðlum þarf ég líka að hugsa um hvað ég vil setja hér á þessa síðu. Hvað liggur mér á hjarta, hverju vil ég segja frá? Hvað vil ég sýna!!? Svo þetta er byrjun á einhverju.....og ég ætla að setja meira hér inn...á morgun? Svo væri ekki verra ef ég fengi einhver viðbrögð. 

Hér er smá innsýn í "heiminn minn" (hugkort), undirbúningur að fyrirlestri um ferilinn.


Wednesday, November 4, 2015

Námskeið í nóvember - Inni/úti og Litastuð með landslagi

Óvenju langt er síðan ég lét heyra frá mér hér á þessum vettvangi og kominn tími til að gera á því bragarbót. Að þessu sinni vil ég einkum vekja athygli á tveimur námskeiðum sem ég mun halda á vinnustofunni að Fornubúðum 8 nú í nóvember. Bæði námskeiðin eru frekar stutt og þétt. Mér finnst skipta máli að ná samfellu í vinnuna og svo hentar þetta líka oft betur en lengri námskeið á öðrum vettvangi. Sá möguleiki er auðvitað einnig fyrir hendi að sækja bæði námskeiðin og að sjálfsögðu er veittur afsláttur þegar svo er. Fyrra námskeiðið er hefðbundið fyrir þá sem vilja halda sér við, prófa nýjan miðil eða bara mála eina góða mynd. Frábært að byrja á akríllitum og fara svo yfir í olíuna.


I.
14.- 18.nóvember 2015
Námskeið í olíumálun
Inni úti….
(gatan mín, húsið mitt, bærinn minn, sveitin mín, herbergið mitt, stofan mín)

Kennari: Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8, 220 Hafnarfjörður

Hvað: Námskeið í olíumálun fyrir byrjendur og lengra komna þar sem lögð er áhersla á að vinna með fáa liti og ná færni í litablöndun. Þátttakendur koma með ljósmynd, skissu eða hugmynd sem þeir vilja vinna með og fá hjálp við að útfæra viðfangsefnið á striga. Áhersla á vinnugleði og að taka sig ekki of hátíðlega. Lítill hópur og notalegt andrúmsloft

Efni: Unnið með akríllitum yfir í olíuliti. Allir litir og íblöndunarefni(línolía, terpentína) á staðnum en mætið með 1-2 striga í stærðinni 50x60 eða 60x70, olíuliti(og akrílliti) ef þið eigið þá, 1-3 pensla(nr.10, 12 og breiðan pensil ef þið eigið). Auk þess 2 krukkur með loki.

Fyrirkomulag

14.11. Laugardagur kl.11-13 Stutt kynning á viðfangsefni, skoðum bækur komum okkur fyrir og spjöllum. Mælt með að skoða sýningar eftir það ef tími vinnst til.
16.11. Mánudagur kl.16-20 Grunnum striga, ákveðum myndefni í samráði við kennara og hefjumst handa. Málum með akríllitum og leggjum áherslu á að ná myndefninu á strigann.
18.11. Miðvikudagur kl.16-20 Færum okkur yfir í olíulitina.
24.11. Þriðjudagur kl. 16-21 Leggjum síðustu hönd á verkin. Í lok tímans er stutt yfirferð og leiðbeint með framhald.


Spennandi námskeið í olímálun þar sem unnið er með viðfangsefni sem er persónulegt og gaman að fast við. Lítill hópur og notalegt andrúmsloft á vinnustofu listamanns og á stuttum tíma næst mikill árangur. Hentar þeim sem hafa komið á námskeið áður en líka þeim sem eru að byrja að mála eða hefur alltaf dreymt um að mála með olíulitum. Góð byrjun og frábær upprifjun.


Verð: 28.000 (*hægt að skipta greiðslu).
Skráning á soffias@vortex.is


Seinna námskeiðið er meira svona stuð en líka mjög gagnlegt til að koma sér af stað í vinnu og að vinna í önnur efni en olíu. Ég kynni ykkur líka fyrir mismunandi gerðum af pappír og allskyns akrílefnum sem er gaman að vinna með. Frágangur mynda á pappír er öðruvísi en strigamynda og því fer ég aðeins í það.

II.
22.-26. nóvember 2015
Litastuð með landslagi
Akrílmyndir á pappír

klippimyndir, litir, leka, mála, landslag, stórt, lítið, hratt, akríllitir, lím, lakk, þykkt, þunnt,


23, nóvember – Mánudagur kl. 16-20 Stutt kynning á námskeiðinu og því sem á að gera. Veljum viðfangsefni, grunnum pappírinn og hefjumst handa.
25. nóvember – Miðvikudagur kl. 16-20
26. nóvember – Fimmtudagur kl. 16-21 Í lok tímans er stutt yfirferð og samvera á loftinu þar sem þátttakendur leggja með sér á borðið, mat og drykk og farið verður í nokkrar leiðir við frágang mynda.

Hressandi námskeið sem veitir góða innsýn inn í vinnuaðferð sem einfalt og gott er að grípa í. Með því að leggja upp með ákveðna fyrirmynd sem útgangspunkt og kennari leggur til er auðvelt að koma sér af stað og láta málaragleðina ná tökum á sér. Tilvalið að kynnast akríllitum á ferskan hátt með “malerí - ívafi “og nota ýmis efni sem verða kynnt til að prófa sig áfram.

Allt efni innifalið en gott að koma með pensla(nr. 8, 10 eða 12) og amk. 1 breiðan pensil(td. frá Söstrene grene) og krukku með loki.

Kennari: Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8, Hafnarfjörður

Verð: 20.000 * Hægt að skipta greiðslu. 
Skráning á soffias@vortex.is