Wednesday, December 30, 2015

2015 - Myndlistarannáll Soffíu í aldanna skaut....




Frá sýningunni Sögustaðir á vinnustofunni Fornubúðum í maí 2015. Sýningin var á báðum hæðum og stóð ég fyrir sýningarspjalli um vinnuferlið, en myndirnar voru undir áhrifum frá Egilssögu. Ég sýndi bæði fullbúin verk og verk í vinnslu.
Myndlistarárið 2015 hefur verið ákaflega fjöbreytt. Þetta er árið sem ég fagnaði fimmtugsafmæli mínu og ég ákvað fyrir löngu að ég myndi ekki gera það með stórri einkasýningu eða slá hátíðahöldum saman, enda sé ég ekki hvernig ég hefði átt að koma því fyrir svo vel hefði farið. Ég lít enda svo á að ég sé í stöðugri þróun sem myndlistarmaður og þegar ég lít yfir árið sé ég að það er að mörgu leyti dæmigert fyrir mitt myndlistarlíf. Litlar einkasýningar og þátttaka í stærri/smærri samsýningum, opin vinnustofa með sýningarspjalli, námskeiðshald, vinnustofudvöl í New York og víðar, samstarf með fleiri listamönnum og þannig mætti lengi telja.

Brottför/Exitus 2015
Olía og vax á tréplötu
Janúar: Sýningarárið hófst 6. janúar 2015 með einkasýningunni "Exitus/Brottför" í SÍM húsinu, Hafnarstræti.  Þetta var þriðji og síðasti hluti sýningarraðarinnar Kleine Welt eða “Smáheimur” sem varð  til á ákveðnum stað í afmarkaðan tíma, í vinnustofudvöl í Lukas Künstlerhaus í Ahrenshoop í Þýskalandi 2012. Þróun hugmynda gerist oft á löngum tíma en það er áhugavert hvað gerist þegar áhrif umhverfis/staða blandast saman við það sem maður leggur upp með og það sem bætist svo við þegar heim er komið og haldið er áfram. Þessi sýning var eins konar niðurlag vinnuferlisins þar sem sum verkanna öðlast nýja skírskotun í öðru samhengi, önnur hafa orðið til  á leiðinni. Jafnframt er sýningin einskonar brottför og þá upphaf að nýjum áföngum.

Vinnuaðstaða í Hvíta húsinu utan við Hellisand.
Febrúar: Vinnustofudvöl í Hvíta húsinu utan við Hellisand ásamt Elvu Hreiðarsdóttur var gefandi og upptaktur að samsýningu okkar ásamt Phyllis Ewen í Listasafni Reykjaness.

Apríl/Maí:  
Það var gaman að taka fram grafíklitina og ég hef verið iðin af og til á árinu að taka þátt í sýningum. Ég er komin með grafíkpressu á vinnustofuna og fékk "grafíkfrosk" í afmælisgjöf og er ekkert að vanbúnaði. EIns og ég hef sagt áður finnst mér það alltaf gefandi að vinna í grafik inn á milli. Litaval, efnismeðferð ofl. hefur þar áhrif.
Lokkur 2015
Trérista
 Samstarfsverkefni með Berglindi Maríu Tómasdóttur á Listahátíð 2015



Skemmtilegt verkefni kom upp í hendurnar á mér á vordögum. Myndgerð "Lokks" í tengslum við frumflutning/sýningu á hljóðfærinu og tónlist sem samin var sérstaklega fyrir það og flutt af Berglindi Maríu Tómasdóttur í Árbæjarsafninu í maí 2015.  


Sýningin Sögusvið á vinnustofunni og innsýn í vinnuferlið var góður endir á ári mínu sem Bæjarlistamaður Garðabæjar. Fyrirlestur um ferilinn í Gróskusalnum í Garðabæ var undanfari sýningarinnar og öllum garðbæingum boðið á opna vinnustofu. Málverk fyrir bæinn eru í vinnslu og munu verða sýnd á góðum stað í fyllingu tímans. Það var ákaflega ánægjulegt að verða þess heiðurs aðnjótandi að fá þennan titil í hendurnar. 



Júní: Námskeiðshald: Það er alltaf gaman að standa fyrir þessum vinsælu sumarnámskeiðunum. Einhver einstök stemming myndast við höfnina á þessum tíma og myndirnar þorna í rólegheitum í sólinni meðan spjallað er á efri hæðinni. Stutt helgarnámskeið og lengra massíft námskeið með áherslu á sjóndeildarhringinn var skemmtilegt og skapandi.
Hress hópur á námskeiði með kennara sínum.


Júlí - Wish you were here - Postcard project - Heike Liss/Soffía Sæmundsdóttir
Frá janúar á þessu ári höfum við stöllur sent hvor annarri póstkort, þar sem við vinnum með landslag og sendum hvor annarri. Þetta er verkefni sem mun halda áfram en við sýndum afraksturinn í Grafíksalnum á örsýningu í júlí og það var skemmtilegt og öðruvísi. 

Wish you were here is a mail-art project by Icelandic painter Soffia Saemundsdottir and German multi-media artist Heike Liss. Since January 2015 Saemundsdottir and Liss, who met while studying in California, have been making and sending postcards that explore their perceptions of landscape. For the duration of the exhibition the two artists will not only show the cards that they have already produced but  also set up a makeshift studio at the IPA Gallery in Reykjavik to continue to work on this open-ended venture.
Boðskort/Invitation
Verk okkar blönduðust saman og voru hengd upp eftir því hvenær þau voru gerð.
Settum upp vinnustöð og sáatum við þessa helgi.
Gullkistan 20 ár - Listasafn Árnesinga 
Gaman var að eiga verk á þessari sýningu sem opnaði 10. júlí í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Gullkistan er merkilegt fyrirbæri, listavinnustofur á Laugavatni(Artist Residency)sem er stýrt af Kristveigu Halldórsdóttur og Öldu Sigurðardóttur af miklum metnaði. Ég hef tekið þátt í sýningum hjá þeim 1995 og 2005, en sýningarstjóri á þessari sýningu var Ben Valentino. Sýningin var fjölbreytt og gaf góðan þverskurð af þeim íslensku/erlendu listamönnum sem sækja Gullkistuna og taka þátt í viðburðum á hennar vegum.

Landnám, 2015
Olía á striga
110x90
Október/nóvember Arts, Letters and Numbers Artist Residency/Vinnustofudvöl 
Það hefur verið sagt að vinnustofudvalir gefi listamönnum frelsi til að vera þeir sjálfir. Það er nokkuð til í því. Mánaðardvöl í uppsveitum New York 10.10.-10.11.2015 var spennandi, krefjandi, upplýsandi og "inspirerandi". Maður er lengi að vinna úr svona dvöl, en tengslanetið styrkist og sjálfstraustið eykst í því samhengi einnig. Gaman að kynnast fólki allststaðar að úr heiminum og fá frið til að vera til á eigin listrænu forsendum eingöngu. Ég er þegar með nokkur plön fyrir næsta ár sem urðu til þarna og munu fá verðuga kynningu síðar.  
Skissubók og hlutir úr náttúrunni innblástur.

Unnið með kvöldbirtuna í skóginum. 
Desember - Studio Stafn - Annars staðar
Lítil einkasýning í Studio Stafni sem er elskulegt listhús sem Viktor Smári stýrir, með fallegri myndlist eftir samtímalistamenn en líka fjölmarga aðra meistara var skemmtileg viðbót við sýningarárið. 


Undirbúningur sýningarinnar "Annars staðar"
Verk af sýningunni.
Á næsta ári eru fjölmörg verkefni í uppsiglingu sem upplýst verður um síðar. Ég þakka öllum sem hafa aðstoðað mig við sýningarhald, stutt mig á ýmsan hátt og heimsótt mig á sýningar og vinnustofu. Á tímum þar sem "venjuleg" myndlist á undir högg að sækja í almennri fjölmiðlun og vitræn umfjöllun er af skornum skammti verður maður bara að gera meira, sýna meira, skrifa meira og vonast til þess að maður sé að gera eitthvað rétt. Ég er gríðarlega þakklát fyrir alla þá sem sýna því áhuga sem ég er að gera og tjá sig við mig um það. Sannarlega hvetur það mig áfram. Samtímis vil ég hvetja ykkur öll til að láta til ykkar taka, skoðið, horfið, spáið í, já og kaupið myndlist. Gleðilegt nýtt myndlistarár 2016.








No comments:

Post a Comment