Aðferð:
Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leggur drög að verki. Hér að ofan má sjá ljósmynd af fjörugróðri. Hvernig gætir þú hugsað þér að yfirfæra þessa ljósmynd í málverk? Það koma margar leiðir til greina og hér tel ég upp ýmislegt sem gott er að hafa í huga.
1. Hvernig ætlar þú að byrja á myndinni? Vinna eftir skissu, eftir ljósmynd, eftir lifandi módeli, eða á myndin að leiða þig áfram? Ætlar þú að vinna blautt í blautt eða vinna myndina á löngum tíma lag fyrir lag? Á að vera einn grunntónn undir? Það er mjög ólíkt að vinna td. með svart undirlag eða hvítt, rautt undirlag gefur líka spennu. Svo má líka vinna markvisst með andstæða liti, eða heita/kalda?
2. Ætlar þú að vinna myndina með einum pensli eða mörgum? Það gefur mynd ákveðið vægi ef þú vinnur hana alla með sama penslinum, prófaðu til dæmis að vinna nákvæmt með stórum pensli og sömuleiðis að vinna stóra mynd alla með litlum pensli, og litla mynd með stórum pensli. Ætlar þú kannski að vinna myndina með tusku eingöngu?
3. Ætlar þú að vinna grunninn þykkt og þá með hvaða efni, gezzo, setja efni í grunninn td. sand, drasl, efni ýmis akrílefni sem hægt er að kaupa. Ætlar þú að vinna myndina með akríllitum framan af?
4. Ætlar þú að hella málningunni yfir myndina eða ætlar þú að vinna hana alla með fíngerðum penslum, hvaða undirlag er það best að nota? Ætlar þú að nota íblöndunarefni, terpentína, línolía, vax, malbutter, lakk, nota gljáa, eða viltu hafa myndina matta. Hvað er á myndinni, hvaða aðferð er best að nota til að ná sem mestum áhrifum.
5. Þú þarft að hugsa um hvaða litir eiga að vera í henni áður en þú byrjar að setja eitthvað á og hvort þú vilt td. láta sjást í strigann eða hafa hana alla ljósa. Ef þú byrjar að teikna inn á myndina með kolum sem er í raun skemmtilegasta efnið að vinna með í byrjun þá getur þú lent í vandræðum því kolin smitast út í litinn og gera hann gráan. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að teikna beint inn á með pensli og málningu en þá þarftu að vera búin að ákveða liti fyrirfram. Viltu td. halda línunni sem þú teiknar inn í upphafi? Mynd eftir Nathan Oliveira er til dæmis öll ljós undir og mikið lagt upp úr línunni og teikningunni og striginn skín í gegn en mynd Arngunnar er unnin í mörgum lögum með málningu, vaxi og öðrum efnum á tré. Getur þú séð muninn á því hvernig á að byrja á þessum málverkum? Að hverju þarf að huga og hvað myndir þú spá í? Prófaðu þig áfram.