Saturday, March 20, 2010

Verkefni

Ég setti nemendum mínum fyrir það verkefni fyrir næsta tíma að skoða tvær sýningar. Önnur er bókasýningin Context í Norræna Húsinu en það er mjög gott að skoða hana með því að horfa á aðferðir, áferðir og hvernig hægt er að tengja það við það sem mann langar að segja með td. bókverki eða málverki. Síðan er önnur sýning á þjóðminjasafninu Ævispor sem er útsaumssýning Guðrúnar Guðmundsdóttur sem, hefur saumað út af miklu listfengi með gömul handrit og forn útsaumuð klæði sem fyrirmynd. Mig langar til að nemendur mínir velti fyrir sér tengslum handverksins og myndlistar, hvað gerir verk að listaverki. Hvað er listamaðurinn að segja í verkum sínum?Ég set hér líka textann í stærra letur og öðruvísi leturgerð til prufu.

Tuesday, March 16, 2010

Hung Liu

Ég sýndi nemendum mínum mynd uppi á skjá með Hung Liu að vinna í kvöld í tíma. Ég dáist ótrúlega að henni og því hvernig hún nær að halda myndunum sínum svona ferskum, þunnum, með skýra sýn, Hún vinnur mikið með ljósmyndir en þær eru frá henni sjálfri eða tengjast henni amk. á einhvern hátt og það er gaman að sjá hvað stærð verka henni gerir mikið. Skoðið þetta: http://www.youtube.com/watch?v=LV8e43K2zCI

Sunday, March 14, 2010

Eiginleikar efna - vax


Margir málarar nota vax í myndirnar sínar. Það er sérstaklega mikið notað í Ameríku og þar er hægt að fá margar mismunandi gerðir af vaxi, bæði til að blanda beint í litinn og beewax til að hita og nota beint eða blanda í litinn. Ég er að láta nemendur mína prófa þetta efni og í síðasta tíma lét ég þá undirbúa tré og masónítplötur með því að grunna þær, setja lit á þær, jafnvel líma á þær úrklippur, texta, myndir o.sv.frv. Þetta vakti mikla lukku og gleði þegar var hægt að láta gamminn geysa, allir við eitt borð og efnin á því miðju. Þetta er alltaf svolítið gefandi að vinna svona og mér finnst það oft skila heilmiklu, þetta eru oft verkefni sem eru öðruvísi og falla ekki beint inn í rammann. Í næst tíma eiga þeir svo að prófa vaxið og nú velti ég fyrir mér hvernig er best að kynna þetta efni fyrir þeim markvisst því ég vil fá málverk en ekki föndur og sérstaklega í þessu verkefni er stutt á milli. Eiginleikar vaxins eru að það getur verið gegnsætt, það getur líka verið gamaldags, varpað hulu yfir, það getur líka gert litinn þykkan og ómeðfærilegan og nú er mitt að kynna þetta þannig að nemendurinir ráði við þetta. Sjálf nota ég vax mikið en þá bara Cold Wax medium sem ég blanda beint út í litinn svo hann verður þykkur. Sérstaklega á þessari neðri mynd sést hvernig hægt er að nota vaxið transparent. En í þeirri efri límdi ég pappír fyrst, hellti waxi yfir, málaði ofan á, þunnt með línolíublönduðum lit.

Bókasýning


Bók er góð.
Hún er blaðsíður og stafir og setningar og myndir. Hún er þykk og hún er þunn, hún er úr góðum pappír eða vondum, glans eða möttum. Hún er stór eða lítil, ferköntuð aflöng.....

Á bókasýningu í Norræna húsinu eru til sýnis allskyns bækur. Það víkkar sannarlega út sjóndeildarhringinn að sjá hversu margir möguleikar eru með því að taka hugtak eins og bók og búa til úr því sýningu. Bókin vex og stækkar og þykknar og blæs út og belgist.....

Ég elska bækur fyrir það sem þær eru, sagan sem þær bera með sér, tíminn sem þær fela í sér. Þetta er bókahillan með öllum ástarsögunum sem ég las þegar ég var unglingur. Ég velti því stundum fyrir mér hvaða áhrif bækur hafa haft á líf mitt. Einhver myndi segja að þetta væru ekki merkilegar bækur. En kannski eru það einmitt ómerkilegu hlutirnir sem hafa mest áhrif í lífinu.

Thursday, March 11, 2010

Viola Frey


Fjölskyldan - Family Portrait



Ég sat í áheyrn í Tækniskólanum í dag í kúrs sem heitir menning og listir og sá þar myndband um listkonuna Violu Frey sem var bandarísk og vann einkum í keramik, risstóra skúlptúra þar sem voru ýmist stórar manneskjur eða fundnir hlutir sem hún fann á mörkuðum og blandaði í verk sín. Hún fæddist í Kaliforníu og mér finnst verk hennar bera þess merki. Það var gaman að sjá gamla kennarann minn, Ron Nagle sem líka er frábær listamaður, tala um hana og verk hennar. Hér má sjá verkk eftir hana sem hún kallar fjölskyldumynd og er sambland af mörgum manneskjum. Hún notar liti mjög skemmtilega og er óhrædd við að blanda þeim saman. Það merkilega er að hún lærði hjá Mark Rothko í New York en reyndar var hún ekki lengi þar og bjó alla tíð og starfaði á vesturströndinni. þar eru margir fleiri skemmtilegir keramiklistamenn og Ron Nagle kynnti okkur fyrir mörgum flottum þegar ég var í náminu. Hann er sjálfur ótrúlega geggjaður listamaður, hann vinnur með formið bolli og breytir því á alla mögulega og ómögulega vegu svo það er ekki nytjahlutur heldur skúlptúr. Hann er líka nokkuð þekktur tónlistarmaður og frábær manneskja. Verk eftir Ron Nagle.

Monday, March 8, 2010

Hreyfanleiki í listum


Las góða grein " Social life of Art" sem kemur inn á það hve margt í sambandi við listir er breytingum háð. 

Greinin fékk mig m.a. til að velta því fyrir mér:

Hver horfir td á málverkið?
Í hvaða samhengi er það?
Er það í galleríi, heima hjá einhverjum, fær það góða birtu?
Í hvaða samhengi er sá sem horfir á það? Er það listfræðingur, listamaður, gamall maður, sálfræðingur, ung stúlka?

Það má líka velta fyrir sér sögunni í þessu samhengi, hver segir söguna og hvernig lifir hún. Hvernig verður  einmitt í þessu samhengi litið á mig og mína list í sögunni? Hvernig verða verkin mín túlkuð og hver erfir þau? Skiptir máli hvað er að gerast í mínu lífi 2010 og hefur það áhrif á það hvað ég mála og hvað ég geri?

Hvernig mun sagan líta á Feneyjardvöl Ragnars Kjartanssonar?

Sjálf tók ég þátt í samsýningu í Hafnarborg 2007 sem hét 50 Hafnfirskir listamenn. Ég sýndi eina mynd frekar stóra málaða á tré og hét "Ganga". Það var mikið landslag í henni og ferðalangur sem hélt á fiski við dálitla tjörn. Þetta var fyrsta verkið sem ég málaði á nýju vinnustofunni í Fornubúðum. Ég heyrði af tveimur konum sem skoðuðu myndina og sögðu: Vá hvað þetta væri flott landslag ef það væru ekki þessir kallar þarna. Já............Hvernig mun sagan fara með þátttöku mína í þeirri sýningu? Hvaða stöðu munu " þessir karlar" hafa eftir kannski 50 ár?

Thursday, March 4, 2010

Sköpun í kennslu

Hvað ýtir undir sköpun, hvað stoppar hana og hvað er frumlegt....Ég er að lesa grein eftir kennslufræðing sem er að velta þessu fyrir sér. Hann talar um hvort það að sýna verk eftir einhvern og að sýna hvernig á að gera hlutina geti hindrað sköpunarferlið. Ég er ekki viss. Þó get ég sagt það að þetta er svolítið í þeim anda sem ég kenni. Ég forðast að segja fólki hvað það á að mála, forðast að sýna hvernig það á að gera hlutina og forðast að segja hvað sé rangt og hvað rétt í raun. Allt er jafngilt. Kannski ekki allt samt. Það væri of mikið að segja það. En ég gef fólki ekki upp hlutföll og stærðir og blöndur eins og sumir kennarar gera, ég segi þeim ekki hvað þeir eiga að mála né hvaða liti þeir eiga að velja, ekki nema þeir spyrji mig. Hef kannski ekki alveg forsendur til að velta því fyrir mér hvort þetta er rétt hjá mér og hvort þetta skilar einhverju. Hinsvegar finnst mér þeir nemendur sem hafa verið hjá mér lengi vera orðnir sjálfstæðir og vita hvað þeir vilja svona oftast.