Saturday, February 4, 2012

Málaraárið 2012

Það er komið nýtt ár 2012. Vonandi verður það gleðilegt og gefandi myndlistarár og satt best að segja lofar það sérstaklega góðu. Spennandi sýningar á sýningarstöðum borgarinnar framundan og í gangi, sem ég mun kannski tæpa á hér á næstunni og Safnanótt 10. febrúar þar sem mikið verður um dýrðir. Sjálf fer ég í Menningarreisu til Stokkhólms um miðjan mánuðinn með fríðu föruneyti kennara við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar og býst við að sjá heilmargt skemmtilegt sem ég mun líka deila hér á síðunni. Í kvöld sá ég myndina eða Listamaðurinn sem er frönsk þögul verðlaunamynd, svart hvít. Frábærlega leikin og tökurnar hreinn unaður. Fékk mig til að hugsa um það hvað listin er stundum hverful, eitt vinsælt í dag, annað á morgun. Kvikmyndaformið er mjög gefandi og eiginlega sér heimur út af fyrir sig sem kom mjög vel fram í þessari mynd. Það á svo greiðan aðgang að manni og þegar sagan er sterk og allt kemur saman eins og áður segir hittir það mann í hjartastað, eða hvað finnst þér?
The Artist

Myndlistin hefur líka þessa eiginleika og það hafa ýmsar tilraunir verið gerðar í gegnum tíðina til að "dramatísera" myndlistina. Í dag kannski með ýmsum gjörningum samanber verk Ragnars Kjartanssonar. En málarar fyrri alda voru líka uppteknir af því að færa eitthvað á svið og gengu sumir langt í því. John Martin, listamaður sem var uppi um 1800 er stundum sagður vera faðir kvikmyndarinnar og gríðarstór málverk hans af stórbrotnu landslagi, einskonar heimsendamálverk og hafa verið áhrifamikil á sínum tíma og voru lýst upp af gaslampa í tónleikasölum og leikhúsum. Hér eru tvö dæmi um stórbrotin verk hans sem hann sýndi 1812. Hann var sjálflærður og hefur verið miklum hæfileikum gæddur eins og sjá má. Þetta eru mjög stórar myndir.
John Martin

John Martin
Um sýningu John Martin í Tate gallery
Um þessar mundir er sýning á Kjarvlasstöðum með verkum Karenar Agnethe Þórarinsson sem gift var málaranum Sveini Þórarinssyni en hún fylgdi honum heim frá Danmörku og unnu þau bæði að myndlist sinni þó hún héldi ekki fyrstu einkasýningu sína hér fyrr en 1982. Í Bretlandi bjuggu á síðustu öld hjónin Ben Nicholson og eiginkona hans Barbara Hepworth. Njög ólíkir listamenn, en þó má finna ákveðna samsvörun í verkum þeirra. Þau bjuggu í St. Ives í Suður Englandi við sjóinn og má nærri geta hvað umhverfið hefur haft djúpstæð áhrif á verk þeirra. Þar er nú eitt Tate söfnunum og vona ég að maður eigi einhverntímann eftir að skoða það og fara á þessar slóðir.Þessi hvíttuðu verk Nicholson finnst mér afar heillandi og það er einnig áhugavert hvernig hann teiknar formin inn og notar blýjantinn.

Ben Nicholson

Ben Nicohlson
Eiginkona hans vann skúlptúra sem hafa líka þessa hvíttuðu áferð. Mér fiinnst þessi verk hafa þau áhrif á mig að mig langar að taka fram sandpappír og pússa hvítmálaða tréplötu.
Barbara Hepworth

Wednesday, November 23, 2011

Síðasta sýningarhelgi

Yfirlitsmynd af sýningu í baksal Gallerí Foldar
Helgur staður-Olía á tré-2011
Sýningunni minni "Veruleikans hugarsvið" í Gallerí Fold lýkur um helgina. Það fylgir því alltaf dálítill tómleiki að ljúka sýningu. Ferli sem hófst fyrir mörgum mánuðum, stundum árum, lýkur með því að maður tekur niður sýninguna, sumar myndir hafa fengið ný heimkynni, önnur fara aftur á vinnustofuna eins og gengur. Það er erfitt að meta það hvar maður stendur þegar þessu ferli er lokið. Einhverjar fréttatilkynningar hafa verið birtar í blöðum, einhverjir hafa látið falleg orð falla um það sem hangir uppi og það yljar manni ósegjanlega. Facebook er að mörgu leyti komin í stað faglegrar gagnrýni, hversu mörg læk fær maður á myndir sem maður birtir af sýningunni.......Ég er ekki að segja þetta til að vera súr, en það skýtur svolítið skökku við að þegar maður var að hefja sinn feril og sýndi á litlum stöðum, svosem eins og í Gallerí Stöðlakoti eða á stærri stöðum eins og Gallerí Fold, þá fékk maður undantekningalaust viðtal í blaði, jafnvel baksíðu á Lesbók og gagnrýni frá amk. tveimur gagnrýnendum, einum á Morgunblaðinu og öðrum í DV. Maður gat verið sammála eða ósammála gagnrýninni en hvað mig varðar þá fannst mér þetta yfirleitt vera uppbyggjandi og þetta voru mjög ólíkir gagnrýnendur sem tóku misjafnlega á málum sem var athyglisvert og fleytti manni eitthvað áfram.

Ég sendi nemendur mína í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar í vikunni út af örkinni til að skoða sýningar og mynda sér skoðun á amk. tveimur verkum og rýna til gagns og segja hvað hrífur þá og hvað ekki. Það voru amk. 9 ólíkir sýningarstaðir í boði næstu tvær vikurnar með hátt í 20 sýningum og enn fleiri sýnendum. Þá erum við bara að tala um stóru söfnin á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað birtist gagnrýni um sýningarnar þar en það verður bara svo margt útundan sem er markvert. Mér finnst í kennslu oft skorta á umburðarlyndi hjá nemendum sem eiga erfitt með að skoða myndlist með opnum hug. Myndir eru ljótar og klessulegar, listamennirnir þunglyndir eða hátt uppi og dómar þeirra um myndlist og málara oft neikvæðir. Ég velti því fyrir mér hvort það geti stafað af því að það vantar meiri umræðu um myndlist sem höfðar til hins almenn borgara sem er ekki búinn að þróa með sér smekk eða skoðun á samtímalist og það vantar einhverja brú þarna á milli sem litlu sýningarstaðirnir bjóða oft upp á. Ef ég ber þetta saman við tónlist og tónlistargagnrýni þá er nánast allt gagnrýnt sem kemur út eða er flutt, sama má segja um bækur, kvikmyndir og leikhús. Hversvegna er hægt að gagnrýna sýningu hjá LA á Akureyri en ekki sýningar í Listasafni Akureyrar. Leiksýning í Grindavík er gagnrýnd við fyrsta hentugleika en flottar myndlistarsýningar í Listasafni Reykjanesbæjar fá ekki náð. Ég held að það gleymist svolítið hvað myndlist er útbreidd og hvað margir eru að skoða myndlist og skapa sjálfir en akkúrat það flækir málið og gerir það enn mikilvægara að umræða um allskonar myndlist nái upp á yfirborðið.

En ég ætla ekkert að hætta að mála eða halda sýningar og sækja um sýningarsali. Framundan er nýtt sýningarár 2012. Að mörgu leyti óskrifað blað hjá mér....en svo dúkkar eitthvað upp...allt i einu, bara handan við hornið.

Monday, October 31, 2011

Týndir á helgum stað...

Ferðalangar - Frá fyrstu sýningu minni í Gallerí Fold 1996
Soffía hún sjálf 1999, ljósmynd tekin á vinnustofunni af Kristni Ingvarssyni
Það styttist í næstu sýningu. Ég opna einkasýningu í Gallerí Fold(baksal) eftir tæpar tvær vikur. Ég var með sýninguna Rætur þar 2006 og 15 ár frá fyrstu sýningu minni þar svo ég er svolítið að kíkja á hvað ég var að gera þá og hvað ég er að gera nú. Ég lét taka af mér nýjar myndir af þessu tilefni og það er gaman að bera þær saman við mynd af mér sem Kristinn Ingvarsson tók af mér á sínum tíma(1999)og ég notaði lengi í sýningarskrár.
Soffía hún sjálf á vinnustofunni 2011, ljósmynd tekin af Erlendi Sveinssyni
Vinnuheiti sýningarinnar er "Týndir á helgum stað"og ég vil vekja tilfinningu fyrir einhverju stórbrotnu en jafnframt ofurlítið brothættu. Manneskjurnar í myndunum sem ég kalla ferðalanga, halda ferð sinni áfram í forundran yfir stærð veraldarinnar og óendanleika og smæð mannsins í því samhengi. Að sumu leyti laga þeir sig að náttúrunni og renna jafnvel saman við hana og hafa sig hæga. Hinsvegar hefur hlutverk þeirra kannski aldrei verið jafn skýrt. Þeir kveða við fossinn, halda áfram yfir sléttuna um leið og þeir sá nýjum fræjum í græna jörð og jafnvel má gægjast með þeim inn í annan heim sem lýtur öðrum lögmálum.
Stig lífsins - Olía á tré 2011

Í græna jörð - Olía á tré 2011

Þjóðarsöngur

Á helgum stað

Tuesday, October 25, 2011

Það sem rekur á fjörur manns....

Í Kaupmannahöfn og Malmö nýverið sá ég margar sýningar og skoðaði bækur í hinum frábæru bókabúðum sem eru á stóru söfnunum. Ég fór í Glypotekið i Kaupmanna höfn og þar var Gauguin sýning sem olli mér tölvuverðum vonbrigðum. Litirnir í málverkunum voru daufir og mér fannst málverkin hafa elst vægast sagt illa. Skýringin kann að vera að hann bjó lengi í Suðurhöfum og hefur kannski ekki getað fengið bestu litina senda og hefur kannski þurft að spara þá við sig. Hinsvegar sá ég frábærar tréristur þarna eftir hann, mjög áhrifamiklar og sterkar þó þær væru bara svart/hvítar í mesta lagi með einum öðrum lit undir.
Trérista eftir Gauguin, einföld teikning en feikilega gott handverk!






Í Louisiana safninu varð ég fyrir miklum áhrifum af teikningum og þrykkjum Viju Celmins. Hún hefur ótrúlegt vald á blýjantinum og kolunum og nær mikilli dýpt svo maður hverfur inn í myndirnar með einhverjum hætti. Hún vinnur með himinn, sjó, kóngulóarvefi og stjörnuhiminn og þetta eru mjög djúpar myndir.


Wolfgang Tillmann
 Í bókabúðinni í Louisiana kynntist ég tveimur ólíkum listamönnum. Verk Wolfgang Tillmann fóru með mig um óravíddir af blöðum bókarinnar. Get ekki beðið eftir að sjá þessi verk augliti til auglitis. Hvernig hann fer að því að fá svona mikinn léttleika í línurnar. Þetta eru að vísu ljósmyndir held ég(prints) en dýptin í þeim er makalaus. Annar listamaður og mjög ólíkur var þessi kona:
Tanja Lempicka, pólsk 1898-1980
 Hún var líklega mjög umdeild á sínum tíma en það dylst engum færni hennar í málverkinu. Hún sagði: "My goal was never to copy, but to create a new style with bright luminous colours and to scent out the elegance in my models".

Grrrafik 2011/Kaupmannahöfn Kulturnatt

Þetta haust hefur verið venju fremur annasamt. Fyrst flutti ég fyrirlestur um sjálfa mig og verk mín í Listasafni Árnesinga sem var reglulega skemmtilegt og fróðlegt að taka ferilinn saman með þessum hætti. Svo tók við heilmikil reisa til Svíþjóðar og Danmerkur þar sem ég opnaði sýningu á verkum mínum, annars vegar í Gallery Sagoy í Malmö í tengslum við Grrrafik 2011 og hinsvegar setti ég upp nokkur málverk á vinnustofu Sossu vinkonu minnar á Nybrogade í Kaupmannahöfn á Menningarnótt ásamt fleiri góðum gestum. Mikil stemming og gaman að vera á þessum viðburði sem Sossa hefur staðið fyrir undanfarin ár og margir sem leggja leið sína þangað.
Frá Listasafni Árnesinga.
Setti fram nokkrar skissur sem ég vann í Varmahlíð í apríl.

Það var ágætlega mætt og fleiri týndust inn þegar leið á.
Gallery Sagoy er í Malmö. Sýningin Glimt fra Island stendur til 27. nóvember
svo  það er um að gera að hvetja þá sem eiga leið þar um að kíkja.

Sýni þar tvær seríur af ætingum.

Slóðir I-XVI

Staðir I-XVI

Hluti af tréristum Magdalenu Margrétar Kjartansdóttur.


Þarna er ég búin að koma myndunum fyrir á vinnustofu  Sossu

Portið fyrir framan vinnustofuna var skemmtilega upplýst og ef vel er að gáð
má sjá mynd eftir Sossu sem hangir þar uppi. Síðar var þarna tískusýning.

Ánægðar með okkur eftir skemmtilegt kvöld. 

Friday, October 7, 2011

Sýningar - kúltúr og kræsingar!!







Ég er á leið til Svíþjóðar og Kaupmannahafnar í næstu viku og er að skipuleggja hvað ég ætla að sjá af myndlist. Það er skemmtilegt að vera ekki með of mikið planað en stundum er líka gott að vera búin að ákveða eitthvað. Ég er að opna sýningu í Gallery Sagoy í Malmö ásamt Magdalenu Margréti Kjartansdóttur sem verður með stóru tréristurnar sínar, en ég verð með seríu af nýjum grafíkverkum(ætingum) sem ég hef verið í óðaönn að þrykkja undanfarið. Þetta er hluti af mikill grafíkhátíð sem stendur út árið http://www.grrrafik.se/ og það verður gaman að sjá hvað er um að vera i Malmö þessa daga. Auk þess tek ég þátt í Menningarnótt í Kaupmannahöfn sem haldin er 14. október nk. með viðburðum út um alla borg Kulturnatten . Ég mun sýna nokkur málverk á vinnustofu Sossu sem er á besta stað í borginni og það eru nokkrir fleiri sem hún hefur boðið að sýna hjá sér auk þess sem hún sýnir auðvitað sjálf. Tónlist og stemming og kúltúr í fyrirrúmi!! En af sýningum ætla ég alveg örugglega ekki að láta sýningu Cobru og Paul Klee sem er í Louisiana safninu í Danmörku framhjá mér fara og þar sýnir líka Vija Celmins sem er einn af mínum uppáhalds listamönnum. Áhugavert myndband, vonandi fæ ég að sjá "litlu málverkin hennar". Hér eru svo nokkrar myndir sem Erlendur tók af mér í dagsins "grafíkönn" þar sem ég stend við pressuna og þrykki......það er ólíkt því að mála og tekur jú heilmikið á en alltaf spennandi að sjá hvað kemur af plötunni á pappírinn!

Monday, September 19, 2011

Að læra meira og meira...

Námskeið og kennsla er ríkur þáttur í haustinu að þessu sinni hjá mér. Ég var með námskeið á Húsavík um helgina fyrir byrjendur og lengra komna, ART8 í Garðabænum sem hafa fengið mig til sín eru komnar af stað aftur eftir sumarfrí og á morgun byrjar kennslan í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Mér finnst gaman þegar ég er farin að þekkja nemendur mína og veit við hverju ég má búast af þeim. Mér finnst skemmtilegt þegar þeir koma mér á óvart og það er alltaf svolítið gaman að leggja nýtt verkefni fyrir og sjá hvernig þeir vinna úr því. Sjáf reyni ég að gera það að einhverju leyti, þ.e. að leggja ný verkefni fyrir mig og með því endurnýjast í mínu fagi.

Ég ætla að vinna svolítið markvisst með hugmyndir og hvernig maður getur unnið með hugmyndir hjá þriðjudagshópnum mínum í Mos. Ég keypti bók í sumar eftir Steingrím Eyfjörð sem hefur verið ófáanleg lengi og heitir: Handbók í hugmyndavinnu. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar leiðir til að fríska upp á hugmyndaauðgina og koma sér af stað í sköpun. Maður lendir sjálfur auðvitað stundum í því að vera alveg tómur og þá er fínt að rifja upp einhverjar leiðir til að koma sér af stað að mála. 

kannski fjólubláa tímabilið...
1. Þegar ég er að byrja á einhverju nýju þá finnst mér gott að hreinsa til í gamla dótinu, taka til á málaraborðinu, sortera litina mína, sjá hvaða liti mig vantar. Stundum hef ég líka prófað alla litina á einn striga eða á blað og enda oft á því að gera einhverja uppgötvun.
2. Að viða að sér einhverju efni. Kaupa nýjan striga(helst nokkra), tréplötur og grunna þær báðum megin, nauðsynlegt að kaupa nokkra pensla, þeir þurfa ekki að vera dýrir, rífa niður mjúkar tuskur, kannski láta eftir sér að kaupa nýjan lit. Ein túba getur gert kraftaverk!
3. Netið er ótrúlegur hafsjór af fróðleik um málverk og málara og aðferðir í málun. Ótal myndskeið eru til  af aðferðum, heimsókn til listamanna og fleira. 
4. Bækur. Maður finnur alltaf eitthvað nýtt sem vekur áhuga manns við að skoða bækur. Fara á bókasafnið og skoða blöð og bækur. Taka allskonar bækur, ekki bara bækur til að hafa á náttborðinu og lesa fyrir svefninn.
5. Litur. Að fá einhvern lit á heilann. Mála yfir alla ljótu strigana/tréplöturnar sem þú nennir ekki að eiga,  með þessum lit. Þannig verður til bláa tímabilið, rauða tímabilið, gula tímabilið....

leggjast í grasið..

...að horfa upp í himininn

heiði.....



Foss foss fossar



Á ferð með Baldri yfir Breiðafjörð

Mismunandi bláir litir....

6. Skoða myndir í myndaalbúmum, rifja upp minningar og fara yfir gamlar skissubækur. 
7. Fara í bíó. Hung kennarinn minn sagði alltaf reglulega við mig að ég yrði að fara í bíó þegar hún kom í stúdíóheimsókn í Mills. Go and see a movie sagði hún. Það er alveg rétt, maður kveikir oft á einhverju við að sjá mynd fyrir framan sig á stórum fleti. Ég mæli með Egilshöll sem er með frábæra bíósali og Bíó Paradís er oft með æðislegar myndir. 
8. Skrifa lista yfir allt sem mig langar að gera eða dreymir um.
9. Gera hugkort. Finna eitthvert orð til að vinna með og finna allskonar tengingar út frá þessu orði. 
10. Fara á myndlistarsýningu. lesa allt sem er til um viðkomandi listamann eða bara fara út í náttúruna og njóta þess að vera til.

Já...notalegt að vera hundur
og njóta þess að vera til á sumarkvöldi
......ekkert sem truflar veröldina


Monday, September 12, 2011

Námskeið á Húsavík

Sjóndeildarhringur I
Um helgina verð ég með námskeið í málun á vegum Myndlistarklúbbs Húsavíkur. Þar er vaxandi áhugi á myndlist og kröftugur hópur sem kemur saman til að sinna hugðarefnum sínum og svo er fenginn kennari af og til. Þegar ég fór þangað í vetur þá var sjórinn og það sem tengist honum megin viðfangsefnið, og við byrjuðum á léttri æfingu fyrsta kvöldið og máluðum sjóndeildarhringinn, himinn og haf til að koma okkur í gang og svo ég gæti séð hvaða þekkingu fólk hafði á að mála. Eins og sjá má er ótrúlegt hvað við búum yfir mikilli þekkingu innra með okkur. Fyrirmyndin var engin, bara himinn og haf.
Sjóndeildarhringur II


Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk fær mikið út úr stuttri helgi. Framfarirnar voru mjög góðar, en ég held því fram að með því að mála það sem þú þekkir og hefur áhuga á þá sé hálfur björninn unninn. Að nálgast viðfangsefnið af áhuga getur fleytt þér lengra en þig grunar. Á sama hátt má segja að það skiptir í raun ekki öllu hvað þú málar heldur hvernig þú málar það.
Sjóndeildarhringur III

Sjóndeildarhringur IV

Dagskráin núna er frá föstudagskvöldi til sunnudags. Ég legg þetta upp sem námskeið í málun fyrir byrjendur og lengra komna. Það er skemmtileg blanda. Margir hafa skráð sig og það er spennandi helgi framundan norðan heiða. Það er ákaflega fallegt að ferðast um landið þessa dagana og ég hlakka til að taka inn birtuna og litina sem haustið býður upp á. Úti í náttúrunni eru óþrjótandi viðfangsefni og í nánasta umhverfi geta verið ýmis "mótíf" sem þú hafðir ekki hugmynd um að gaman geti verið að mála. Ekki vera hrædd við að velja það sem gæti verið erfitt viðfangsefni. Við ætlum ekki að skapa  fullkomið verk, en það er gaman að búa til málverk úr spennandi viðfangsefni. Mig langar td. að mála hundinn minn, hana Heklu. Endurnar úti í kofa hér rétt hjá mér eru ótrúlega litskrúðugar og þessi trjábolur býður upp á skemmtilega áferð, td. væri hægt að prófa að mála þessa mynd með spaða. Þegar maður velur að mála með spaða er gott að myndefnið bjóði upp á einhverja áferð. 
Hvaða litir eru i snjónum?

Hvaða áferð er í snjónum? Hvaða áferð er á feldi hundsins?

Það er ekki nauðsynlegt að mála allar endurnar þó þær sé allar á ljósmyndinni. 


Hvað þarf þessi mynd að vera stór?