Monday, January 24, 2011

Straumar og stefnur

Það er gaman að velta fyrir sér straumum og stefnum í myndlist. Hvernig utanaðkomandi atburðir hafa áhrif inn í myndlistina, hvernig litanotkun og pensliskrift breytist með öðruvísi áherslum og ekki hvað síst hvernig myndefnið sem málari velur sér ber tíðaranda og straumum merki. Ég hef verið að taka fram bækur sem ég á um impressionistana. Það byrjaði þannig að ég keypti bók eftir nóbelsverðlaunahafann Mario Vargas Llosa "The Way to Paradise" sem reyndist fjalla um ævi listamálarans Paul Gauguins og öðrum þræði líf ömmu hans, en bæði fóru þau óhefðbundnar leiðir í lífinu þó ég viti ekki fullkomlega hvað er rétt og hvað skáldað í sögunnu. Hins vegar er það víst að Gauguin fór ekki að mála og teikna fyrr en fast að þrítugu en ástríðan náði svo sterkum tökum á honum að hann yfirgaf danska eiginkonu sína og börn og gaf sig listinni á vald, fyrst í Frakklandi þar sem hann dvaldist m.a. á Bretagne skaganum og málaði fólk og stórbrotið landslag en fluttist síðan til Tahiti þar sem hann bjó síðustu  12 ár ævi sinnar undir það síðasta við fremur ömurlegar aðstæður. Á Tahiti málaði hann ástkonur sínar og suðrænt landslag og það er áhugavert hvernig litanotkun hans undirstrikar suðrænt landslag og hita, rauðir, okkurgulir og brúnir tónar afar spennandi.

No comments:

Post a Comment