Monday, September 19, 2011

Að læra meira og meira...

Námskeið og kennsla er ríkur þáttur í haustinu að þessu sinni hjá mér. Ég var með námskeið á Húsavík um helgina fyrir byrjendur og lengra komna, ART8 í Garðabænum sem hafa fengið mig til sín eru komnar af stað aftur eftir sumarfrí og á morgun byrjar kennslan í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar. Mér finnst gaman þegar ég er farin að þekkja nemendur mína og veit við hverju ég má búast af þeim. Mér finnst skemmtilegt þegar þeir koma mér á óvart og það er alltaf svolítið gaman að leggja nýtt verkefni fyrir og sjá hvernig þeir vinna úr því. Sjáf reyni ég að gera það að einhverju leyti, þ.e. að leggja ný verkefni fyrir mig og með því endurnýjast í mínu fagi.

Ég ætla að vinna svolítið markvisst með hugmyndir og hvernig maður getur unnið með hugmyndir hjá þriðjudagshópnum mínum í Mos. Ég keypti bók í sumar eftir Steingrím Eyfjörð sem hefur verið ófáanleg lengi og heitir: Handbók í hugmyndavinnu. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar leiðir til að fríska upp á hugmyndaauðgina og koma sér af stað í sköpun. Maður lendir sjálfur auðvitað stundum í því að vera alveg tómur og þá er fínt að rifja upp einhverjar leiðir til að koma sér af stað að mála. 

kannski fjólubláa tímabilið...
1. Þegar ég er að byrja á einhverju nýju þá finnst mér gott að hreinsa til í gamla dótinu, taka til á málaraborðinu, sortera litina mína, sjá hvaða liti mig vantar. Stundum hef ég líka prófað alla litina á einn striga eða á blað og enda oft á því að gera einhverja uppgötvun.
2. Að viða að sér einhverju efni. Kaupa nýjan striga(helst nokkra), tréplötur og grunna þær báðum megin, nauðsynlegt að kaupa nokkra pensla, þeir þurfa ekki að vera dýrir, rífa niður mjúkar tuskur, kannski láta eftir sér að kaupa nýjan lit. Ein túba getur gert kraftaverk!
3. Netið er ótrúlegur hafsjór af fróðleik um málverk og málara og aðferðir í málun. Ótal myndskeið eru til  af aðferðum, heimsókn til listamanna og fleira. 
4. Bækur. Maður finnur alltaf eitthvað nýtt sem vekur áhuga manns við að skoða bækur. Fara á bókasafnið og skoða blöð og bækur. Taka allskonar bækur, ekki bara bækur til að hafa á náttborðinu og lesa fyrir svefninn.
5. Litur. Að fá einhvern lit á heilann. Mála yfir alla ljótu strigana/tréplöturnar sem þú nennir ekki að eiga,  með þessum lit. Þannig verður til bláa tímabilið, rauða tímabilið, gula tímabilið....

leggjast í grasið..

...að horfa upp í himininn

heiði.....



Foss foss fossar



Á ferð með Baldri yfir Breiðafjörð

Mismunandi bláir litir....

6. Skoða myndir í myndaalbúmum, rifja upp minningar og fara yfir gamlar skissubækur. 
7. Fara í bíó. Hung kennarinn minn sagði alltaf reglulega við mig að ég yrði að fara í bíó þegar hún kom í stúdíóheimsókn í Mills. Go and see a movie sagði hún. Það er alveg rétt, maður kveikir oft á einhverju við að sjá mynd fyrir framan sig á stórum fleti. Ég mæli með Egilshöll sem er með frábæra bíósali og Bíó Paradís er oft með æðislegar myndir. 
8. Skrifa lista yfir allt sem mig langar að gera eða dreymir um.
9. Gera hugkort. Finna eitthvert orð til að vinna með og finna allskonar tengingar út frá þessu orði. 
10. Fara á myndlistarsýningu. lesa allt sem er til um viðkomandi listamann eða bara fara út í náttúruna og njóta þess að vera til.

Já...notalegt að vera hundur
og njóta þess að vera til á sumarkvöldi
......ekkert sem truflar veröldina


Monday, September 12, 2011

Námskeið á Húsavík

Sjóndeildarhringur I
Um helgina verð ég með námskeið í málun á vegum Myndlistarklúbbs Húsavíkur. Þar er vaxandi áhugi á myndlist og kröftugur hópur sem kemur saman til að sinna hugðarefnum sínum og svo er fenginn kennari af og til. Þegar ég fór þangað í vetur þá var sjórinn og það sem tengist honum megin viðfangsefnið, og við byrjuðum á léttri æfingu fyrsta kvöldið og máluðum sjóndeildarhringinn, himinn og haf til að koma okkur í gang og svo ég gæti séð hvaða þekkingu fólk hafði á að mála. Eins og sjá má er ótrúlegt hvað við búum yfir mikilli þekkingu innra með okkur. Fyrirmyndin var engin, bara himinn og haf.
Sjóndeildarhringur II


Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað fólk fær mikið út úr stuttri helgi. Framfarirnar voru mjög góðar, en ég held því fram að með því að mála það sem þú þekkir og hefur áhuga á þá sé hálfur björninn unninn. Að nálgast viðfangsefnið af áhuga getur fleytt þér lengra en þig grunar. Á sama hátt má segja að það skiptir í raun ekki öllu hvað þú málar heldur hvernig þú málar það.
Sjóndeildarhringur III

Sjóndeildarhringur IV

Dagskráin núna er frá föstudagskvöldi til sunnudags. Ég legg þetta upp sem námskeið í málun fyrir byrjendur og lengra komna. Það er skemmtileg blanda. Margir hafa skráð sig og það er spennandi helgi framundan norðan heiða. Það er ákaflega fallegt að ferðast um landið þessa dagana og ég hlakka til að taka inn birtuna og litina sem haustið býður upp á. Úti í náttúrunni eru óþrjótandi viðfangsefni og í nánasta umhverfi geta verið ýmis "mótíf" sem þú hafðir ekki hugmynd um að gaman geti verið að mála. Ekki vera hrædd við að velja það sem gæti verið erfitt viðfangsefni. Við ætlum ekki að skapa  fullkomið verk, en það er gaman að búa til málverk úr spennandi viðfangsefni. Mig langar td. að mála hundinn minn, hana Heklu. Endurnar úti í kofa hér rétt hjá mér eru ótrúlega litskrúðugar og þessi trjábolur býður upp á skemmtilega áferð, td. væri hægt að prófa að mála þessa mynd með spaða. Þegar maður velur að mála með spaða er gott að myndefnið bjóði upp á einhverja áferð. 
Hvaða litir eru i snjónum?

Hvaða áferð er í snjónum? Hvaða áferð er á feldi hundsins?

Það er ekki nauðsynlegt að mála allar endurnar þó þær sé allar á ljósmyndinni. 


Hvað þarf þessi mynd að vera stór?