Sunday, February 25, 2024

Kennsla - Vorönn í Myndlistarskóla Kópavogs 2024

Það er gaman að detta inn í kennslu í Myndlistarskóla Kópavogs þessa vorönn þar sem ég er að leysa Söru Vilbergsdóttur af sem dvelur í góðu yfirlæti á suðrænum slóðum þessi misserin og mundar þar pensil ofl. Hún er vinsæll og farsæll kennari og ég tek sannarlega við góðu búi þar sem sköpunargleði og kraftur hefur fengið að njóta sín. Ég er með þrjá mismunandi hópa, tvo morgunhópa og einn kvöldhóp, alls um 35 manns. Sumir hafa verið lengi að en aðrir að prófa sig áfram og það er áskorun fyrir kennarann að finna rétta tóninn í kennslunni svo allir fái að njóta sín. Meðfram því að hvetja til dáða og leita nýrra leiða við að leysa verkefnin má ekki hefta sköpunargleðina. Í lýsingu um námskeiðin sem eru á vefsíðu skólans segir: Lagt upp með skissubækur, akrílliti, blek, kol og kjark til að gera tilraunir, leita að sinni fjöl og njóta þess að skapa. Leiðsögn í lita- og formfræði ásamt myndbyggingarpælingum er ávallt samtvinnuð vinnuferlinu. Verklag og vinnuaðferðir listafólks skoðuð (myndbönd, bækur).Í skissubókavinnunni er notast við vatnsleysanleg efni (s.s.akrílliti, vatnsliti) ásamt blýöntum, krít og fleiru. Nemendum er síðan í sjálfsvald sett hvort þeir mála með olíu eða akríl á striga/pappír í framhaldinu. Nemendur eru hvattir til að taka með sér skissubók/bækur, eigi þeir slíkar..... Þessi lýsing rímar vel við mitt vinnuferli. Ég segi stundum í sambandi við kennslu að hver kennari er á einhvern hátt að kenna sig. Þegar kemur að t.d. olíumálun er mismunandi hvernig maður blandar litina, hvaða liti notar maður, á hvað er málað og hvernig hvaða áhöld notum við til þess? Það er í sjálfu sér ekkert rétt eða rangt í því samhengi. Reynslan kennir manni auðvitað og svo er líka bara mjög gaman að lesa sér til, prófa sig áfram. Þegar ég dett inn í kennslu finnst mér gefandi að skoða eitt og annað og miðla því áfram og ég ætla að nota þessa blogsíðu til þess. Það er svolítið síðan ég notaði hana, og það eru líka ýmsar upplýsingar hér sem koma að notum, en aðrar ekki.