Wednesday, November 23, 2011

Síðasta sýningarhelgi

Yfirlitsmynd af sýningu í baksal Gallerí Foldar
Helgur staður-Olía á tré-2011
Sýningunni minni "Veruleikans hugarsvið" í Gallerí Fold lýkur um helgina. Það fylgir því alltaf dálítill tómleiki að ljúka sýningu. Ferli sem hófst fyrir mörgum mánuðum, stundum árum, lýkur með því að maður tekur niður sýninguna, sumar myndir hafa fengið ný heimkynni, önnur fara aftur á vinnustofuna eins og gengur. Það er erfitt að meta það hvar maður stendur þegar þessu ferli er lokið. Einhverjar fréttatilkynningar hafa verið birtar í blöðum, einhverjir hafa látið falleg orð falla um það sem hangir uppi og það yljar manni ósegjanlega. Facebook er að mörgu leyti komin í stað faglegrar gagnrýni, hversu mörg læk fær maður á myndir sem maður birtir af sýningunni.......Ég er ekki að segja þetta til að vera súr, en það skýtur svolítið skökku við að þegar maður var að hefja sinn feril og sýndi á litlum stöðum, svosem eins og í Gallerí Stöðlakoti eða á stærri stöðum eins og Gallerí Fold, þá fékk maður undantekningalaust viðtal í blaði, jafnvel baksíðu á Lesbók og gagnrýni frá amk. tveimur gagnrýnendum, einum á Morgunblaðinu og öðrum í DV. Maður gat verið sammála eða ósammála gagnrýninni en hvað mig varðar þá fannst mér þetta yfirleitt vera uppbyggjandi og þetta voru mjög ólíkir gagnrýnendur sem tóku misjafnlega á málum sem var athyglisvert og fleytti manni eitthvað áfram.

Ég sendi nemendur mína í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar í vikunni út af örkinni til að skoða sýningar og mynda sér skoðun á amk. tveimur verkum og rýna til gagns og segja hvað hrífur þá og hvað ekki. Það voru amk. 9 ólíkir sýningarstaðir í boði næstu tvær vikurnar með hátt í 20 sýningum og enn fleiri sýnendum. Þá erum við bara að tala um stóru söfnin á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað birtist gagnrýni um sýningarnar þar en það verður bara svo margt útundan sem er markvert. Mér finnst í kennslu oft skorta á umburðarlyndi hjá nemendum sem eiga erfitt með að skoða myndlist með opnum hug. Myndir eru ljótar og klessulegar, listamennirnir þunglyndir eða hátt uppi og dómar þeirra um myndlist og málara oft neikvæðir. Ég velti því fyrir mér hvort það geti stafað af því að það vantar meiri umræðu um myndlist sem höfðar til hins almenn borgara sem er ekki búinn að þróa með sér smekk eða skoðun á samtímalist og það vantar einhverja brú þarna á milli sem litlu sýningarstaðirnir bjóða oft upp á. Ef ég ber þetta saman við tónlist og tónlistargagnrýni þá er nánast allt gagnrýnt sem kemur út eða er flutt, sama má segja um bækur, kvikmyndir og leikhús. Hversvegna er hægt að gagnrýna sýningu hjá LA á Akureyri en ekki sýningar í Listasafni Akureyrar. Leiksýning í Grindavík er gagnrýnd við fyrsta hentugleika en flottar myndlistarsýningar í Listasafni Reykjanesbæjar fá ekki náð. Ég held að það gleymist svolítið hvað myndlist er útbreidd og hvað margir eru að skoða myndlist og skapa sjálfir en akkúrat það flækir málið og gerir það enn mikilvægara að umræða um allskonar myndlist nái upp á yfirborðið.

En ég ætla ekkert að hætta að mála eða halda sýningar og sækja um sýningarsali. Framundan er nýtt sýningarár 2012. Að mörgu leyti óskrifað blað hjá mér....en svo dúkkar eitthvað upp...allt i einu, bara handan við hornið.