Wednesday, February 29, 2012

Stutt og hratt

Vegna forfalla er laust á námskeið í olíumálun á vinnustofunni hjá mér um helgina(3. og 4. mars), að Fornubúðum 8 í Hafnarfirði. Þar sem þetta er með stuttum fyrirvara þá verður dagskráin frekar laus í reipunum, byrjum á laugardagsmorgun klukkan 10 með smákynningu á olíulitum og ég hjálpa ykkur að velja myndefni til að mála. Málum til kl. 14 og svo aftur á sunnudaginn kl. 10-15. Svo verður bætt inn í þriðja deginum seinna eftir því sem hentar hverjum og einum þannig að samtals eru þetta því 12 tímar.

Verð fyrir allan tímann er 25.000 og allt efni er innifalið, nema striginn sem hver og einn kemur með fyrir sig. Eftir helgina ættir þú að geta gengið út með fyrsta málverkið og komin með bakteríuna.
Endilega láttu vita ef þú veist um einhvern sem hefur áhuga. Ég er með námskeið af og til á vinnustofunni.

Hægt að skrá sig hjá mér í s:8987425

kveðja Soffía

Sunday, February 5, 2012

Námskeið í febrúar og mars


Næsta helgarnámskeið í olíumálun á vinnustofunni minni verður 23. 25. og 26. febrúar.

23.2./fim 19:30-21:30 - Fyrirlestur, kynning. Farið í helstu atriði olíumálunar og það sem hafa ber í huga þegar við veljum okkur myndefni.
25./2 lau 10-15:30 - Málum í sal undir leiðsögn kennara. ( Stutt hádegishlé 12-12:30).
26/2 sun 10-15:30 - Málum í sal undir leiðsögn kennara. (Stutt hádegishlé 12-12:30).
Auk þess stuttur einkatími á vinnustofu(20 mínútur) í samráði við kennara þar sem leiðbeint er með framhald.

Allt efni á staðnum en mælt með að þú lærir á þína liti ef þú átt þá og komir með striga í þeirri stærð sem þú vilt mála á.

Hentar fyrir byrjendur og lengra komna. Farið í helstu grunnþætti olíumálunar svo sem litameðferð, íblöndunarefni, helstu aðferðir, tól og tæki. Áhersla á litla hópa og einstaklingsmiðaða kennslu.


Í mars fyrirhugað helgarnámskeið í olíumálun á óhefðbundin efni og styttri námskeið með vorinu.
Allar upplýsingar í s:8987425 eða á netfangið soffias@vortex.is


Málað úti á góðviðrisdegi á námskeiði í sumar
og auðvitað gott að fá sér dálítinn kaffisopa í sólinni.

Á þessu námskeiði var unnið með dýr
og það gerði hver með sínum hætti.

Saturday, February 4, 2012

Nýir straumar

Felix Vallaton
Gaman að þessum munstrum og litla barnið auðvitað í bleiku
 og viðkvæmnisleg blómin líka á arinhillunni undirstrika
blíðuna í sambandi móður og barns.
Felix Edouard Vallaton
Trérista - Áhugavert hvernig hann skapar rými í myndinni
og hvað manneskjurnar falla saman við bakgrunninn.
Felix Vallaton
Einföld uppstilling? 
Felix Vallaton
Skemmtileg myndbygging, hvernig módelið er staðsett
 á efri helmingi myndarinnar og bókin alveg fremst.

Felix Vallaton
Konan virðist skyggja á manninn, amk er hann frekar litlaus .
Það er ómetanlegt þegar maður er kynntur fyrir nýjum listamanni til að skoða og spá í. Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt! Arngunnur vinkona mín og málari með meiru sendi mér nokkra linka á myndir Felix Edouard Vallaton 1865-1925, sem var alveg ótrúlega flottur svissneskur listamaður og vann jöfnum höndum að málverki og grafík og er sérstaklega þekktur fyrir tréristur sínar.  Auðvitað var hann vinur Vuillards sem hefur lengi verið minn uppáhalds málari og ég verð að segja að það er margt líkt með þeim. En afþví ég ætla að hafa einn tíma uppi í Mos með módeli þá er ekki úr vegi að skoða þessi módel-málverk hans.

Málaraárið 2012

Það er komið nýtt ár 2012. Vonandi verður það gleðilegt og gefandi myndlistarár og satt best að segja lofar það sérstaklega góðu. Spennandi sýningar á sýningarstöðum borgarinnar framundan og í gangi, sem ég mun kannski tæpa á hér á næstunni og Safnanótt 10. febrúar þar sem mikið verður um dýrðir. Sjálf fer ég í Menningarreisu til Stokkhólms um miðjan mánuðinn með fríðu föruneyti kennara við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar og býst við að sjá heilmargt skemmtilegt sem ég mun líka deila hér á síðunni. Í kvöld sá ég myndina eða Listamaðurinn sem er frönsk þögul verðlaunamynd, svart hvít. Frábærlega leikin og tökurnar hreinn unaður. Fékk mig til að hugsa um það hvað listin er stundum hverful, eitt vinsælt í dag, annað á morgun. Kvikmyndaformið er mjög gefandi og eiginlega sér heimur út af fyrir sig sem kom mjög vel fram í þessari mynd. Það á svo greiðan aðgang að manni og þegar sagan er sterk og allt kemur saman eins og áður segir hittir það mann í hjartastað, eða hvað finnst þér?
The Artist

Myndlistin hefur líka þessa eiginleika og það hafa ýmsar tilraunir verið gerðar í gegnum tíðina til að "dramatísera" myndlistina. Í dag kannski með ýmsum gjörningum samanber verk Ragnars Kjartanssonar. En málarar fyrri alda voru líka uppteknir af því að færa eitthvað á svið og gengu sumir langt í því. John Martin, listamaður sem var uppi um 1800 er stundum sagður vera faðir kvikmyndarinnar og gríðarstór málverk hans af stórbrotnu landslagi, einskonar heimsendamálverk og hafa verið áhrifamikil á sínum tíma og voru lýst upp af gaslampa í tónleikasölum og leikhúsum. Hér eru tvö dæmi um stórbrotin verk hans sem hann sýndi 1812. Hann var sjálflærður og hefur verið miklum hæfileikum gæddur eins og sjá má. Þetta eru mjög stórar myndir.
John Martin

John Martin
Um sýningu John Martin í Tate gallery
Um þessar mundir er sýning á Kjarvlasstöðum með verkum Karenar Agnethe Þórarinsson sem gift var málaranum Sveini Þórarinssyni en hún fylgdi honum heim frá Danmörku og unnu þau bæði að myndlist sinni þó hún héldi ekki fyrstu einkasýningu sína hér fyrr en 1982. Í Bretlandi bjuggu á síðustu öld hjónin Ben Nicholson og eiginkona hans Barbara Hepworth. Njög ólíkir listamenn, en þó má finna ákveðna samsvörun í verkum þeirra. Þau bjuggu í St. Ives í Suður Englandi við sjóinn og má nærri geta hvað umhverfið hefur haft djúpstæð áhrif á verk þeirra. Þar er nú eitt Tate söfnunum og vona ég að maður eigi einhverntímann eftir að skoða það og fara á þessar slóðir.Þessi hvíttuðu verk Nicholson finnst mér afar heillandi og það er einnig áhugavert hvernig hann teiknar formin inn og notar blýjantinn.

Ben Nicholson

Ben Nicohlson
Eiginkona hans vann skúlptúra sem hafa líka þessa hvíttuðu áferð. Mér fiinnst þessi verk hafa þau áhrif á mig að mig langar að taka fram sandpappír og pússa hvítmálaða tréplötu.
Barbara Hepworth