Saturday, April 30, 2011

Wednesday, April 13, 2011

Listamannadvöl

Nú hef ég verið hér í Varmahlíð í Hveragerði í u.þ.b. 10 daga og er farin að koma mér upp rútínu sem byggist á göngu og skoðunarferðum um nágrennið, lestri, skissu og hugmyndavinnu, hlustun, yfirlegu á hinu og þessu, tiltekt og naflaskoðun af ýmsu tagi. Hveragerði kemur mér á óvart. Þetta er sannarlega skemmtilegur bær með sögu. Hér var á árum áður líklega fyrsta listamannanýlendan og er meira að segja heilt hverfi þar sem rithöfundar og listmálarar komu sér fyrir. Margar gönguleiðir eru i bænum og hér rennur Varmá í gegnum bæinn og er margbreytileg á hverjum degi. Það er titringur í jörðinni og drunur úr nálægum hverum og gufan sem stígur úr þeim til himins er aldrei eins á litinn. Hér eru líka krókusar og aðrir laukar farnir að spretta upp úr jörðinni og mér finnst allt hér grænna en í höfuðborginni. Stór gróin tré með mosavöxnum stofnum eru traustvekjandi og svo eru fyrstu vorboðarnir, farfuglarnir farnir að láta á sér kræla. Hér er auðvitað dýrindis bakarí steinsnar frá og blómabúð með litríkum sumarblómum. Heilsugæsla, apótek, leikskóli, grunnskóli, elliheimili og kirkja. Þetta sé ég allt frá tröppunni á litla húsinu sem ég bý í. Einfalt líf, en gott og gefandi og afraksturinn af því er smám saman að byggjast upp.

Monday, April 4, 2011

Apríl - Listamannadvöl/sýning á EFLU/vinnustofa

Ég fékk úthlutað dvöl í Varmahlíð í Hveragerði í aprílmánuði. Varmahlíð er hús sem Hveragerðisbær úthlutar í mánuð í senn til listamanna úr ýmsum listgreinum. Tímann ætla ég að nota til að hlaða batteríin, vinna hugmyndavinnu að sýningu og þróa ákveðna hugmynd betur sem hefur verið kollinum á mér lengi. Ég hlakka til að nýta þetta tækifæri og vona að þetta nýtist mér til framtíðarverka!

Vinnustofan mín í Hafnarfirði verður því lokuð þennan tíma en hægt að fá að skoða eftir samkomulagi.

Andyri Eflu
Um helgina hengdi ég upp sýningu með verkum mínum á Verkfræðistofunni Efla sem staðsett er á Höfðabakka(í gamla Tækniskólanum). Þetta er fallegt húsnæði og fjölmennur vinnustaður sem stendur fyrir sýningum með völdum listamönnum á 6 vikna fresti. Það er öllum velkomið að skoða sýninguna á vinnutíma og þetta er sölusýning.