Sunday, September 21, 2014

Borgir - New York í september V

Það er gjarnan talað um að New York sé Mekka myndlistar, enginn er listamaður með listamönnum nema hafa meikað það þar, og með því að fletta í gegnum listasíður á netinu mætti sannarlega ætla að svo sé.

Ég hef komið til New York nokkrum sinnum við ýmis tilefni. Aldrei hef ég þó alveg fundið "gallerí-æðina" góðu, sem svo margir hrósa og tala um. Ég hef leitað og spurt, en einhverra hluta vegna finnst mér ég aldrei ná að finna það sem máli skiptir eða snertir mig á einhvern hátt.
Aðkoma að galleríi í Chelsea
Ég tók einn dag sérstaklega í Chelsea hverfið 23, 24 og 25 stræti og þar í kring. Iðulega voru galleríin í stórum byggingum og merki niðri með nöfnum þeirra, lyftan upp frekar óþægileg og  maður þurfti að fara upp ýmsa ranghala. Svo voru þau yfirleitt tóm(ef þau voru aðgengileg) með myndum á veggjunum og upplýsingum á borði. Þar var enginn sem bauð góðan daginn eða var sjáanlegur að neinu leyti. Verkin sem ég sá á þessari galleríferð minni voru ekkert sérstök en kannski var ég bara eitthvað fúl og "lost". Amk. ætla ég ekki að gefast upp og í næstu ferð ætla ég að "taka þetta".

Borgir - New York í september III

Eftir Guggenheim safnaferð rölti ég seint og um síðir eftir 86 stræti til að finna Subway sem tæki mig heim. Villtist auðvitað inn í Barnes og Noble bókabúð á þremur hæðum og hellti mér í slúðurblöðin áður en ég fann listaverkabækurnar. Amerískar bókabúðir eru sannarlega fullar af gulli. Þær eru að visu misjafnar og sumar eru óttalega flatar og "kommersíal" en aðrar eru þannig að maður gæti bara verið þar allan daginn bókstaflega. Þannig var þessi bókabúð þó ég saknaði þess að geta ekki sest niður og látið fara vel um mig, en hvert sæti var skipað(aftur komum við að mannfjöldanum) Ætlaði að finna góða bók um einhvern amerísku málarana, en fór út með bók um aldeilis frábæran listamann Antonio López Garcia sem er nýtt rannsóknarefni.
Flottur málari - Antonio Garcia Lopez
Það sem dró mig að honum þegar ég fletti bókinni hratt var ekki þessi svolítið djarfa forsíða heldur voru það verk hans af borginni Madrid þar sem hann býr og hvernig hann hefur fylgst með borginni þróast og málað hana frá ýmsum sjónarhornum og skiptir myndunum upp, málar á tré og skeytir myndunum saman. Hann vinnur líka mikið figúratíft td. stóra skúlptúra af fólki sem minna á líkneski. En svo þegar ég fór að skoða bókina betur og lesa mér til þá er þetta stórt nafn í alþjóðasamhengi og sérstaklega á Spáni. Verk hans minna mig í útfærslu sumpartinn á verk Kiki Smith, fígúrurnar minna mig á blöndu af Steinunni Þórarinsdóttur, helgimyndir af dýrlingum, málverk Degas frá upphafsárum hans, en líka á sum verk málarans Ninu Sten Knudsen. Svo sver hann sig auðvitað í spænsku málarana svo sem eins og Goja.
Hm hm nokkrar bækur...
Bókabúðir safnanna voru ærið misjafnar. Oft meira með hluti og framleiðslu en góðar bækur. Bestu bækurnar fann ég á Whitney safninu og hefði viljað kaupa miklu meira þar en ég gerði. En einhversstaðar verður maður að draga mörkin. Þar eru bækur um einstaka listamenn í góðu úrvali, katalógar gerðir af safninu eru með miklar upplýsingar og góðar myndir og loks voru margar bækur þar hreinlega til "innspýtingar" og þar var af nægu að taka. 

Eitt af mörgum fríblöðum sem liggja frammi í bókabúðum og galleríum með
frábærum greinum um menningu, stefnur og strauma, gagnrýni um sýningar ofl. 

Þessa bók langar mig að glugga í,
alltaf áhugaverður Hockney
Richard Diebenkorn -
Afhverju keypti ég hana ekki!!! 
Wayne Thiebaud -
Hefði nú ekki munað öllu að kippa þessari með.
Edward Hopper - Þessa keypti ég þó.


Mörg áhugaverð verkefnin í þessari bók 
og koma hausnum af stað.

Monday, September 15, 2014

Borgir - New York í september IV

Whitney Museum í New York kíktu á það hér... er strax orðið uppáhaldssafnið mitt. Ég fór þangað með strætó númer M4 frá 110 stræti og það var ótrúlega gaman að sitja í strætónum og horfa á mannlífið ofan frá. Ég krækti fyrir Central Park og eftir Museum Mile eða Fifth Avenue og það kom mér á óvart hvað ég sá mörg söfn þarna. Þau bíða betri tíma, kannski næstu heimsóknar. 

Á Whitney Museum fannst mér rýmin ekki yfirþyrmandi, hver hæð nokkuð viðráðanleg og hægt að fara upp með stórri lyftu eða labba upp(eða niður) stigana sem voru með dökkum flísum en upplýstir og ekki fullir af fólki. Ég byrjaði efst uppi og sá strax heilt herbergi með verkum eftir Brice Marden sem ég hef ótrúlegt dálæti á. Þar voru stór málverk með frjálsum hringjum sem hann er þekktur fyrir og málar með sprekum og hefur ótrúlegt vald á fletinum. En þar sá ég líka myndir frá honum sem ég hef ekki séð áður, "graphyte" teikningar margunnar með vaxi og blýjanti. 

Þarna sá ég stór málverk eftir "vinkonur mínar" sem tilheyrðu Abstract Expressionistunum, Grace Hartigan sem kenndi í Maryland Institute og vildi endilega fá mig á sínum tíma og Helen Frankenthaler með risastórt málverk sem hún hafði unnið á ógrunnaðan striga með fáum litum, en sem hver var sterkur og stóð fyrir sínu. Þar sem striginn var ógrunnaður hafði línolían "blætt" meðfram flötunum, en þannig vildi hún einmitt hafa það, hrátt og einfalt. 

Í öðru herbergi verk Jasper Johns "map series" þar sem han skeytir saman stöfum, litum, vaxi, landamærum, blýjanti og í grennd við það verk R. Rauschenbergs og Cy Twombly. Þessir þrír meistarar í áferðum og hvítum lit, hvort sem er á ógrunnuðum striga eða margunnum hvítum með fleiri fleiri umferðum. Á næstu hæð fyrir neðan var lítil sérsýning með verkum Hoppers og nokkurra samtímaljósmyndara og var gaman að bera þau verk saman.

Ein af myndunum á sýningunni

Ég dregst alltaf svolítið að raunsæismálurum. Ekki afþví ég mála endilega raunsætt, heldur afþví það er svo áhugavert að spá í hvernig listamenn útfæra liti og form í því sem við þekkjum. Eins og td. í þessari mynd hér að ofan, verk eftir Edward Hopper(1882-1967) það heillar mig óendanlega hvernig hann notar bláa litinn í himninum og húsunum og gula og græna tóna í trjánum og í gluggunum og rauði liturinn í strompinum og þakinu og örlítið inni í húsinu. Svo finnst mér alltaf merkilegt hvað manneskjurnar sem hann málar eru eitthvað fjarlægar og utan við sig en líka einhver mannleg stúdía í þeim sem er áhugaverð. Sjálfur vildi hann láta myndirnar taa sínu máli og ekki segja of mikið um þær. Svo sem eins og í ljósmynd eftir Philip Lorca di Cordia(1951-)frá Connecticut sem var einn af sýnendunum. Hér má lesa svolítið um hann..

Ljósmynd eftir Philip Lorca di Cordia
Það sem kom mér á óvart við að skoða myndir Hoppers í nálægð var það hversu öruggur málari hann var og verkin vel útfærð. Þó kom það mér mest á óvart hvernig litirnir á striganum eru misþykkir og misglansandi. Hann hefur örugglega blandað þá sjálfur í stórar dollur og ekki alltaf rifið þá nægilega svo stundum er hreinlega bara línolía með smá lit og sést í beran strigann og gljáinn mismikill. Áhugavert.  
Eitt verka Jeff Koons.


Stór retrospektive sýning(Yfirlitssýning) með verkum Jeff Koons(1951-)í öðrum sölum safnsins kom á óvart. Sem segir manni það hversu áhugavert það er að sjá yfirlitssýningar og hversu miklar upplýsingar fást um viðkomandi listamann þegar allur ferill hans er skoðaður. Þá "meikar allt sens" sem hann gerir og sum verk fá meiri dýpt en áður. Hvað sem manni finnst um hann sem manneskju og listamann getur maður ekki annað en dáðst að dirfskunni og hrifist með. Það er þó erfitt að átta sig á því hvort honum er alvara eða bara ríkur og vitlaus. Maður mun aldrei vita það alveg, en hann var td. giftur klámleikkonunni og ítölsku þingkonunni Cicciolinu í 5 ár og risamyndir af þeim "prýða" salina í Whitney. Verk hans seljast á metfjárhæðir og hann hefur sannarlega "meikað það". 

Monday, September 8, 2014

Borgir New York í september II

Eins og sannri dömu sæmir þá tók ég leigubíl á Guggenheim safnið. Leigubílstjórinn skildi engan veginn hvað ég sagði og ég þurfti að hafa mikið fyrir því að finna bókina með nákvæmri adressu og þá var þetta ekkert mál. Safnið er opið til 7:45 á laugardagskvöldum og ég hélt að það væri kannski enginn þarna og ætlaði bara að æða beint inn úr leigubílnum. En þegar ég leit betur þá náði röðin langar leiðir inn í næstu götu. En ég lét mig hafa það og þetta tók fljótt af. Þarna voru algerlega frjáls framlög og strákurinn í miðasölunni tók af mér einn dollara og sagði að það væri fínt. Safnabyggingin sem opnaðu 1959 og hönnuð af risanum Frank Lloyd Wright er í sjálfu sér nóg, arkitektúrinn svo flottur að það er næstum of mikið að setja einhver verk þarna inn. Mannmergðin á safninu hafði aðeins af mér ánægjuna við að vera þarna og stigarnir milli hæða voru trampaðir af miklum ákafa meðan öll heimsins tungumál bergmáluðu. Þarna voru tvær sýningar í gangi.


Verk af sýningunni eftir Gabriel Orozca
Annars vegar var sýning með samtímalist frá Suður- Ameríku "Under the same sun" sem hafði hljómað sem mjög áhugaverð og margir þekktir listamenn að sýna þarna. Kannski var það sú staðreynd að það var ekki nokkur leið að komast á milli verkanna sem gerði það að verkum að mér drepleiddist það sem ég sá, ekkert sem hreif mig eða gerði nokkuð fyrir mig. Kannski hefði ég þurft meiri tíma, kannski var ég pirruð á fólkinu þarna, kannski vantaði mig bara meiri upplýsingar um það sem ég var að sjá, kannski passar þessi sýning alls ekki í þetta rými. Svo er hæpið að sýna eitt verk eftir svo marga stóra saman, getur ekki orðið gott.
Verk eftir Gabriel Orozco(ekki á þessari sýningu)



Hin sýningin Kandinsky before abstractaion sló mig hinsvegar alveg kalda. Þar var komin sýning með verkum Kandinsky frá árunum 1901-1911 m.a. svarthvítar dúkristur og litógrafíur og ætingar, lykilverk frá hans ferli frá upphafsárum hans í myndlist. Á þessum árum flutti hann frá Rússlandi til München og snéri sér alfarið að myndlist. Einfalt myndefni og skýrir fletir og dúkristur hans ótrúlega fallegar. Hefði ekki viljað missa af þessu.
Lykilerk eftir Wassily Kandinsky
Svo er gaman að hlusta hér á leikkonuna Helen Mirren tjá sig um hvað það er sem heillar hana við að horfa á málverk: Helen Mirren um Kandinsky

 

Borgir - New York í september I

Sjálf frelsisstyttan
Það er gaman að skoða og spá í New York sem ég er rétt að byrja að kynnast. Hún er ólík San Francisco sem ég þekki vel eftir dvöl mína þar 2001-2003 og endurnýjaði kynni við í mars sl. Á vesturströndinni er náttúran nær manni, Kyrrahafið rómantískt og stórfenglegt og litrík hús og fólkið sem maður hittir keppist við að hrósa bara einhverju og maður er strax einhvernveginn velkominn. Hér á austurströndinni í New York sem náttúrulega er hjarta og höfuð Bandaríkjanna finnst mér sagan vera við hvert fótmál. Sigling með ferjunni framhjá frelsisstyttunni í boði fylkisins, rifjar upp ótal bíómyndir og sögur af fólki svo sem af íslensku læknishjónin sem sigldu hingað rétt fyrr stríð til náms og bjuggu í nokkur ár en fórust með Goðafossi ásamt börnum sínum undir lok stríðsins. Margir aðrir hafa vafalaust fyrr og síðar komið hingað að freista gæfunnar, ítalskir, írskir, kínverskir, Suður-amerískir, þýskir innflytjendur auk gyðinga og hafa sett svip sinn og karakter á borgina. Skilti, hraði, mannmergð og háhýsi eru landslag borgarinnar og fólkið sem hér býr keppist við að komast áfram, bara eitthvert, inn í næstu lest, yfir götuna eða bara heim. 

Græn tré í Central Park
Eitt hefur komið mér verulega á óvart hér en það eru hin fjölmörgu grænu svæði og þá sérstaklega Central Park sem nær yfir góðan part Mannhattan og þegar maður tyllir sér þar á bekk verðu manni ljóst hversu mikilvægt það er að hafa aðgang að lífi og gróanda.Þar er líka skjól fyrir sólinni í skugga trjánna og leiksvæði fyrir unga sem aldna fjarri ys og þys stórborgarinnar. En einmitt þarna við garðinn vestan megin eru nokkur af helstu listasöfnum borgarinnar. 

Mér finnst oft gott að kíkja á Timeout til að finna út hvað er helst spennandi að finna og hvaða sýningar eru í gangi því satt best að segja er listalífið oft svolítið flókið fyrir utanaðkomandi í stórborginni. En ég byrjaði á að fara á Metropolitan safnið. Leiðin þangað var löng og ströng í gegnum Central Park sem mér fannst að væri bara stutt ganga þvert yfir garðinn reyndist heljarinnar labb í steikjandi hita. En á leiðinni sá ég ýmsar trjátegundir og gat ekki annað en dáðst að fjölbreytileikanum í mannlífinu.

Að sjálfsögðu var löng röð til að komast inn en það gekk þó hratt og vel fyrir sig og svo mátti ég ráða hvað ég borgaði mikið fyrir það. Tillaga(Suggested donation)var 25$ og lét ég mig hafa það. "Þú mátt borga minna" sagði afgreiðslumaðurinn. En ég bara borgaði og brosti(ein voða ánægð með sig). Safnið er mjög stórt og ég var fljót að skauta í gegnum þær deildir sem ég hef ekki áhuga á, en þegar ég kom að vini mínum Caspar David Friedrich og þeim sem fylgdu honum svo sem Johan Christian Dahl, norskur nemandi hans fann ég að ferðin hafði verið þess virði að leggja á sig.Hér má sjá myndina hans: Birkitré í stormi . Ég var mjög hrifin af þessum litlu "stúdíum" þar sem hann skoðar himinninn. Myndirnar þarna voru ekki stórar en þeim mun áhugaverðari. Ég sá myndir eftir fleiri nemendur Friedrichs sem höfðu dvalið langdvölum í Þýskalandi hjá meistara sínum og var gaman að spá í landslagið og tökin sem þeir notuðu hvað var líkt/ólíkt með meistaranum. Í Berlín er heill salur tileinkaður verkum C.D.F. sem er ógleymanlegur og ég man líka þegar ég sá fyrstu myndir hans í Amsterdam. Ég hef séð verk Dahls í bókum en það var gaman að sjá þessar myndir.
Myndin eftir Johan Christian Dahl(afsakið gæðin)
Það var líka magnað að sjá nokkur verka  Eduard Manet af fólki þar sem hann vann með ljósgráan undirtón á striga en teiknaði manneskjuna inn á með olíupastel. Hann nær fram ótrúlegri dýpt í manneskjunni almennt og það minnir mig líka á það hvað það er hægt að nota mismunandi tækni til að skapa góð listaverk. Ég hef oft minnst á verk hans í þessu bloggi en verð alltaf jafn heilluð þegar ég sé myndir hans.
Verk eftir Franz Kline merkt"Untitled" frá 1957 sem
 fór á sögulegu verði á uppboði fyrir nokkru síðan. 
Í nútímadeildinni (Modern Art) voru líka verk eftir marga frábæra listamenn og áhrifamest fannst mér að sjá málverk Franz Kline sem virka ótrúlega áreynslulaus og mögnuð, en eru í raun útspökúleruð og mjög tæknilega útfærð. Hann notaði gjarnan húsamálningu og stóra pensla og gerði litlar skissur af verkunum áður en hann hófst handa. Hér má svo sjá smá upplýsingar um  tækni Franz Kline.