Sjálf frelsisstyttan |
Það er gaman að skoða og spá í New York sem ég er rétt að byrja að kynnast. Hún er ólík San Francisco sem ég þekki vel eftir dvöl mína þar 2001-2003 og endurnýjaði kynni við í mars sl. Á vesturströndinni er náttúran nær manni, Kyrrahafið rómantískt og stórfenglegt og litrík hús og fólkið sem maður hittir keppist við að hrósa bara einhverju og maður er strax einhvernveginn velkominn. Hér á austurströndinni í New York sem náttúrulega er hjarta og höfuð Bandaríkjanna finnst mér sagan vera við hvert fótmál. Sigling með ferjunni framhjá frelsisstyttunni í boði fylkisins, rifjar upp ótal bíómyndir og sögur af fólki svo sem af íslensku læknishjónin sem sigldu hingað rétt fyrr stríð til náms og bjuggu í nokkur ár en fórust með Goðafossi ásamt börnum sínum undir lok stríðsins. Margir aðrir hafa vafalaust fyrr og síðar komið hingað að freista gæfunnar, ítalskir, írskir, kínverskir, Suður-amerískir, þýskir innflytjendur auk gyðinga og hafa sett svip sinn og karakter á borgina. Skilti, hraði, mannmergð og háhýsi eru landslag borgarinnar og fólkið sem hér býr keppist við að komast áfram, bara eitthvert, inn í næstu lest, yfir götuna eða bara heim.
Græn tré í Central Park |
Eitt hefur komið mér verulega á óvart hér en það eru hin fjölmörgu grænu svæði og þá sérstaklega Central Park sem nær yfir góðan part Mannhattan og þegar maður tyllir sér þar á bekk verðu manni ljóst hversu mikilvægt það er að hafa aðgang að lífi og gróanda.Þar er líka skjól fyrir sólinni í skugga trjánna og leiksvæði fyrir unga sem aldna fjarri ys og þys stórborgarinnar. En einmitt þarna við garðinn vestan megin eru nokkur af helstu listasöfnum borgarinnar.
Mér finnst oft gott að kíkja á Timeout til að finna út hvað er helst spennandi að finna og hvaða sýningar eru í gangi því satt best að segja er listalífið oft svolítið flókið fyrir utanaðkomandi í stórborginni. En ég byrjaði á að fara á Metropolitan safnið. Leiðin þangað var löng og ströng í gegnum Central Park sem mér fannst að væri bara stutt ganga þvert yfir garðinn reyndist heljarinnar labb í steikjandi hita. En á leiðinni sá ég ýmsar trjátegundir og gat ekki annað en dáðst að fjölbreytileikanum í mannlífinu.
Að sjálfsögðu var löng röð til að komast inn en það gekk þó hratt og vel fyrir sig og svo mátti ég ráða hvað ég borgaði mikið fyrir það. Tillaga(Suggested donation)var 25$ og lét ég mig hafa það. "Þú mátt borga minna" sagði afgreiðslumaðurinn. En ég bara borgaði og brosti(ein voða ánægð með sig). Safnið er mjög stórt og ég var fljót að skauta í gegnum þær deildir sem ég hef ekki áhuga á, en þegar ég kom að vini mínum Caspar David Friedrich og þeim sem fylgdu honum svo sem Johan Christian Dahl, norskur nemandi hans fann ég að ferðin hafði verið þess virði að leggja á sig.Hér má sjá myndina hans: Birkitré í stormi . Ég var mjög hrifin af þessum litlu "stúdíum" þar sem hann skoðar himinninn. Myndirnar þarna voru ekki stórar en þeim mun áhugaverðari. Ég sá myndir eftir fleiri nemendur Friedrichs sem höfðu dvalið langdvölum í Þýskalandi hjá meistara sínum og var gaman að spá í landslagið og tökin sem þeir notuðu hvað var líkt/ólíkt með meistaranum. Í Berlín er heill salur tileinkaður verkum C.D.F. sem er ógleymanlegur og ég man líka þegar ég sá fyrstu myndir hans í Amsterdam. Ég hef séð verk Dahls í bókum en það var gaman að sjá þessar myndir.
Myndin eftir Johan Christian Dahl(afsakið gæðin) |
Það var líka magnað að sjá nokkur verka Eduard Manet af fólki þar sem hann vann með ljósgráan undirtón á striga en teiknaði manneskjuna inn á með olíupastel. Hann nær fram ótrúlegri dýpt í manneskjunni almennt og það minnir mig líka á það hvað það er hægt að nota mismunandi tækni til að skapa góð listaverk. Ég hef oft minnst á verk hans í þessu bloggi en verð alltaf jafn heilluð þegar ég sé myndir hans.
Verk eftir Franz Kline merkt"Untitled" frá 1957 sem fór á sögulegu verði á uppboði fyrir nokkru síðan. |
Í nútímadeildinni (Modern Art) voru líka verk eftir marga frábæra listamenn og áhrifamest fannst mér að sjá málverk Franz Kline sem virka ótrúlega áreynslulaus og mögnuð, en eru í raun útspökúleruð og mjög tæknilega útfærð. Hann notaði gjarnan húsamálningu og stóra pensla og gerði litlar skissur af verkunum áður en hann hófst handa. Hér má svo sjá smá upplýsingar um tækni Franz Kline.
No comments:
Post a Comment