Sunday, September 21, 2014

Borgir - New York í september III

Eftir Guggenheim safnaferð rölti ég seint og um síðir eftir 86 stræti til að finna Subway sem tæki mig heim. Villtist auðvitað inn í Barnes og Noble bókabúð á þremur hæðum og hellti mér í slúðurblöðin áður en ég fann listaverkabækurnar. Amerískar bókabúðir eru sannarlega fullar af gulli. Þær eru að visu misjafnar og sumar eru óttalega flatar og "kommersíal" en aðrar eru þannig að maður gæti bara verið þar allan daginn bókstaflega. Þannig var þessi bókabúð þó ég saknaði þess að geta ekki sest niður og látið fara vel um mig, en hvert sæti var skipað(aftur komum við að mannfjöldanum) Ætlaði að finna góða bók um einhvern amerísku málarana, en fór út með bók um aldeilis frábæran listamann Antonio López Garcia sem er nýtt rannsóknarefni.
Flottur málari - Antonio Garcia Lopez
Það sem dró mig að honum þegar ég fletti bókinni hratt var ekki þessi svolítið djarfa forsíða heldur voru það verk hans af borginni Madrid þar sem hann býr og hvernig hann hefur fylgst með borginni þróast og málað hana frá ýmsum sjónarhornum og skiptir myndunum upp, málar á tré og skeytir myndunum saman. Hann vinnur líka mikið figúratíft td. stóra skúlptúra af fólki sem minna á líkneski. En svo þegar ég fór að skoða bókina betur og lesa mér til þá er þetta stórt nafn í alþjóðasamhengi og sérstaklega á Spáni. Verk hans minna mig í útfærslu sumpartinn á verk Kiki Smith, fígúrurnar minna mig á blöndu af Steinunni Þórarinsdóttur, helgimyndir af dýrlingum, málverk Degas frá upphafsárum hans, en líka á sum verk málarans Ninu Sten Knudsen. Svo sver hann sig auðvitað í spænsku málarana svo sem eins og Goja.
Hm hm nokkrar bækur...
Bókabúðir safnanna voru ærið misjafnar. Oft meira með hluti og framleiðslu en góðar bækur. Bestu bækurnar fann ég á Whitney safninu og hefði viljað kaupa miklu meira þar en ég gerði. En einhversstaðar verður maður að draga mörkin. Þar eru bækur um einstaka listamenn í góðu úrvali, katalógar gerðir af safninu eru með miklar upplýsingar og góðar myndir og loks voru margar bækur þar hreinlega til "innspýtingar" og þar var af nægu að taka. 

Eitt af mörgum fríblöðum sem liggja frammi í bókabúðum og galleríum með
frábærum greinum um menningu, stefnur og strauma, gagnrýni um sýningar ofl. 

Þessa bók langar mig að glugga í,
alltaf áhugaverður Hockney
Richard Diebenkorn -
Afhverju keypti ég hana ekki!!! 
Wayne Thiebaud -
Hefði nú ekki munað öllu að kippa þessari með.
Edward Hopper - Þessa keypti ég þó.


Mörg áhugaverð verkefnin í þessari bók 
og koma hausnum af stað.

No comments:

Post a Comment