Tuesday, November 20, 2012

Dvöl í Þýskalandi hitt og þetta II


Ég er nú rúmlega hálfnuð með dvöl mína hér í Lukas Künstlerhaus. Á sunnudaginn(25. nóvember klukkan 15)verður sýning í rými neðstu hæðarinnar þar sem afrakstur dvalarinnar liggur fyrir. Rík hefð er fyrir "opnu húsi" hér og margir koma hingað til Ahrenshoop um helgar til að njóta lista og menningar og strandarinnar sem er endalaus uppspretta gleðistunda. Ég geng þangað á hverjum degi og alltaf skilar sjórinn af sér nýjum gersemum og sólin sest aldrei með sama hætti. Það er kominn þó nokkur bunki af teikningum hér, ég hef verið að vinna með umhverfið og landslagið og hef teiknað og skissað af miklum móð, legið yfir sögu svæðisins sem er mjög tilkomumikil svo ekki sé meira sagt bæði í sögulegu og jarðfræðilegu samhengi. Þá hef ég gleymt mér næturlangt við að skapa goðsagnakenndar sögupersónur sem lifa í ævinýralegum heimi og auðvitað líka skipuleggja næstu sýningar og viðburði í því samhengi. Ég kom eingöngu með pappír(þó nokkuð af honum sko)hingað. Rúllu af frábærum skissupappír og aðra af þunnum japanpappír. Bunka af gullfallegum teiknipappír með fallegri brún og tvær aðrar gerðir í A-4 stærð af mismunandi þykkt og hvítum lit. Vatnsliti, stórir og litlir penslar, hvítt og brúnt blek og svartar og hvítar akríl litatúbur. Svo má ekki gleyma blýjöntunum sem eru þó nokkrir af mismunandi gerð og svo "graphyte" blýjantar í mismunandi styrkleika og einn lófastór hlunkur sem ég á síðan í Ameríku. Svo tók ég með mér pakka af leir. Mér finnst gott að brjóta upp hugsunina með því að móta hana bókstaflega og það kom sér í góðar þarfir hér að geta verið með fjölbreytt verkefni. Það tekur svolítið á að vera ekki með meiri málningu og liti til að auðga andann og lífga upp á tilveruna en fyrir vikið tekur maður kannski meira eftir litum í umhverfi og í kringum og sig og svo tekur maður bara eitthvað út úr fataskápnum og stillir upp þegar litaþörfin er alveg að drepa mann. Fjólublá taska, skærgrænir inniskór og neonappelsínugulir sokkar eru gleðigjafar í dagsins önn.

Augustus Vincent Tack - Aspiration 1931
En svo má líka alltaf skreppa á netið og skoða eitthvað skemmtilegt. Í dag hef ég til dæmis verið að uppgötva ýmsa listamenn því ég er að velta fyrir mér "ljóðrænni abstraktlist(lyrical abstract paintings)". Sumpart vegna þess að ég ætla að nota það sem verkefni í kennslu eftir áramót en líka fyrir mig sjálfa því þegar maður skoðar svona mikið landslag, form og liti þá er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvernig meður getur unnið með það áfram án þess að gera hreinar eftirmyndir/ljósmyndir af landslagi. Svo ég hef nú fundið ýmislegt skemmtilegt. Skoðaði ýmsa listamenn út frá þessari síðu: http://www.abstract-art.com sem er svoldið púkaleg og gömul en þarna er líka að finna ýmsan fróðleik sem er skemmtilegur og ef maður skoðar svo áfram útfrá þeim nöfnum sem þarna koma fram þá kemst maður framhjá þessu hallærislega sem er svo oft í sambandi við listir(finnst mér). Fyrstan ber að nefna Augustus Vincent Tack(1870-1949). Hann bjó í Massachusets en var alltaf með studio í New York og sýndi þar og var einkum þekktur fyrir Portrett málverk af frægum köppum og landslagsmyndir en lumaði svo á þessum abstraktmyndum inn á milli sem hann vann út frá ljósmyndum frá vesturströnd Bandaríkjanna og hann auðvitað sýndi ekkert sérstaklega og þær hefðu aldrei komið fyrir sjónir almennings nema fyrir þær sakir að þekktur safnari(Duncan Philips)bað hann um að gera þær og keypti af honum. Þessar myndir eru því í eigu þekktra safna og höfðu einnig áhrif á ýmsa síðari abstrakt málara svo sem Clifford Still ofl. Augustus vann í þessum myndum út frá ákveðnu tímaleysi og á andlegum nótum ólíkt öðrum verkum hans sem eru frekar hefðbundin. Kannski einhverjir íslenskir málarar hafi skoðað hann líka?

Augustus Vincent Tack 

Flight

Augustus Vincent Tack - Nocturne

Hér má sjá að hann á frekar hefðbundum nótum en þó er
myndbyggingunni óvanaleg, amk. á þessum tíma.
Milton Avery 1885-1965 Eitthvað svo elskulegur
maður líka held ég og fannst bara svo gaman að mála.
Annar málari sem ég enduruppgötvaði í dag var Milton Avery(1885-1965). Hann bjó einnig í new York alla sína ævi. Fór snemma að vinna fyrir sér og þurfti að sjá fyrir stórum systkinahópi eftir lát foreldra sinna. Hann vann sem málari alla ævi og er stundum nefndur hinn ameríski Matisse. hann málaði einkum fjölskyldu sína og nánasta umhverfi og var heppinn að vera snemma uppgötvaður af miklum safnara sem keypti um 100 verk sem nú eru í eigu helstu safna Bandaríkjanna og halda nafni hans á lofti. Verk hans þóttu of bókstafleg fyrir Abstrakt Expressionistana en of abstrakt fyrir aðra svo hann fer líklega þarna mitt á milli. Litanotkun hans finnst mér sérstaklega falleg og líka hvernig hann málar landslag.
Milton Avery (1953)
Green Sea/Grænn sjór
Milton Avery
Dunes and Sea/Strönd og sjór

Milton Avery
Off Shore Island/Út frá strönd eyja

Friday, November 2, 2012

Dvöl í Þýskalandi - Hitt og þetta


Ég dvel í Lukas Künstlerhauswww.kuenstlerhaus-lukas.de sem er í Aahrenshoop í Norður Þýskalandi allan nóvember mánuð ásamt 5 öðrum listamönnum. Við upphaf og í lok dvalar verð ég í Berlín svo óhætt er að segja að ég fái nokkuð góðan skammt af þýskri menningu, stefnu og straumum um þessar mundir. Berlín er auðvitað vagga nútímalistar og margir listamenn dvelja þar í lengri og skemmri tíma úr öllum listgreinum en það getur þó verið nokkuð flókið að kortleggja allt sem mann langar að sjá og skoða þegar tíminn er knappur og auðvitað verður maður bara að velja eitthvað. Fyrsta daginn fór ég í Gemäldegallerie sem hefur að geyma næstum öll uppáhaldsmálverkin mín. Upplifunin er amk. mjög sterk þegar maður stendur fyrir framan verk eftir Rembrant og sér snilldina, getur skoðað hverja pensilstroku, hvernig hann byggir upp litinn og hvernig hann nær þessar dýpt í myndirnar. Aðra listamenn uppgötvar maður og þarna sá ég td. gríðarlega flottar myndir eftir Hans Holbein sem höfðu sterk áhrif á mig.
Næsta dag ákvað ég að skoða Hamburger Bahnhof sem er helgað nútímalist og sá þar myndir eftir Cy Twombly, Andy Warhole, Anselm Kiefer ofl. Það kom mér á óvart hvað myndirnar voru gríðarstórar, næstum verksmiðjuframleiddar fannst mér og svolítil vonbrigði að þær hefðu þá ekki sterkari áhrif á mig.
Verk eftir Martin Honert
Stór sérsýning með málverkum, skúlptúrum, innsetningu ofl. eftir Martin Honert(fæddur 1953) var skemmtileg og hressandi. Hann vinnur með barnæsku sína á mjög einfaldan og tilgerðarlausan máta og þarna voru td. styttur af gömlu kennurunum hans, landslagsmálverk þar sem fígúrur(leikfangafígúrur) koma út úr myndinni og hugafluginu engin takmörk sett. Hann vinnur verk sín sjálfur frá grunni sem mér finnst gefa þeim gildi og einstaklega vel að verki staðið og manni sýnist hann hafa verið trúr sjálfum sér frá upphafi.  
Auðvitað fór ég svo í bókabúðina sem var með ótal bækur á tilboði frá 10 evrum og upp úr. Ég reyndi eins og ég gat að standast freistingarnar en fór út með eina bók um teikningar og málverk hinnar austurrísku Mariu Lassing(1919-). Hef svo verið að skoða hana á netinu og hugmyndaflugi hennar eru engin takmörk sett. Hún vinnur með líkamann/konuna/form á mjög svo persónulegan máta og sjálfsmyndir hennar eru mjög flottar. Hún var fyrsti kvenprófessorinn við austurrísku akademíuna, er enn að og hefur mjög fríska sýn á listina og málverk. Ég vissi ekki að hún hefur einnig gert video sem eru sannarlega í hennar anda. Hér eru eitt þeirra:Kantata um líf Mariu Lassing og hér er skemmtilegt Viðtal við Mariu Lassing.
Mér finnst áhugavert hvernig hún leyfir myndum sínum að vera svolítið hráar og teflir saman ólíkum hlutum. Eftir sem áður er það litanotkunin sem dregur mann að myndunum og mér finnst Jossef Albers sem var mikill litaspekúlant koma þessari hugsun fallega frá sér, hvernig litur er eins og innri hreyfing formanna. Ég veit ekki hvort ég legg í að snara þessu yfir á íslensku svo vel fari.....en það má alltaf setja þetta í þýðngarforrit í Google.
Wenn ich male
sehe und denke ich zunächst – Farbe
Und zumeist Farbe als Bewegung
Nicht als Begleitung
von Form, die seitwärts bewegt,
nur seitwärts verbleibt
Sondern als Farbe in dauernder innerer Bewegung
Nicht nur in Interaktion und Interdependenz
mit Nachbarfarben,
verbunden wie unverbunden
Sondern in Aggression – zum wie vom Beschauer
in direktem frontalen Uns-Anschauen
Und näher betrachtet,
als ein Atem und Pulsieren – in der Farbe

Josef Albers

Friday, September 14, 2012

Nokkrar Nocturnur

James Whistler vann mikið með nóttina eins og ég hef minnst á áður og hann kallaði myndir sínar Nocturne og bætti síðan litunum aftan við. Hann sagðist kalla þær því nefni til að draga úr áhrifum þess hvar myndirnar voru málaðar, en þær voru flestar málaðar af Thames ánni að kvöld/næturlagi. Nocturne gefur líka til kynna tónlist og Chopin samdi margar fallegar sem má til dæmis hlýða á hér: NOCTURNE CHOPIN
Nocturne blue and silver

Nocturne

Nocturne

Monday, September 10, 2012

Nokkrir flottir málarar....

Chris Brown(1951) - Dark Winter 1991
Er búin að vera að skoða málara sem vinna á einhvern hátt með nóttina/kvöldið, stemminguna sem er á nóttinni og hvernig hægt er að ná fram kyrrð og ró í myndum. Mér finnst margir málarar í San Francisco hafa þessa stemmingu á valdi sínu. Þessir þrír hér eru allir frá því svæði...

Elmar Bishof (1916-1991)


Elmar Bishof

Elmar Bishof
Mér finnst Olivera alltaf ótrúlega naskur að komast upp með að gera lítið en þó svo mikið. Einhver kraftur sem einkennir myndirnar hans, eins og innbyggð stilla.

Nathan Olivera 1928-2010

Nathan Olivera

Nathan Olivera

Nathan Olivera
Tónlist tengist líka í mínum huga nóttinni. Jass kannski.....og þá helst þessi hérna....:Tord Gustavsen - Where breathing starts

Sunday, August 19, 2012

Að mála á tré -

Albrecht Dürer 1471-1528 er meistari allra efna. 
Þetta málverk er málað á tré og þvílík fágun í litanotkun og teikningu
Lukas Cranach - Málverk frá 16. öld. 
Í vikunni verð ég með námskeið á vinnustofunni í olíumálun á tré. Það er að mörgu leyti mjög ólíkt að vinna á tré samanborið við striga. Mér finnst það gefa ákveðna dýpt í myndirnar því það tekur langan tíma að byggja litinn upp og lengi framan af drekkur viðurinn meira í sig en ef ég væri td. að mála á striga. Auðvitað fer það að einhverju leyti eftir því hvað plöturnar eru grunnaðar mikið, en ég grunna yfirleitt tvisvar sinnum með gezzo báðum megin. Það eru ríkar hefðir í íkonamálun og mjög strangar reglur, það þekkja þeir sem hafa farið á námskeið í því og lært samkvæmt því. Hér er td. sýnt hvaða leið var farin við það:  Hefðbundin aðferð við að grunna og mála á tréplötu Það er auðvitað hægt að mála á tré án þess að fara eftir þessari ströngu formúlu sem þeir allra hörðustu fara eftir í hörgul en það er alltaf gott að vera meðvitaður um hverju maður vill ná fram svo ef þú ætlar að mála íkona þá er þetta leiðin. En svo má líka lesa sér til almennt, hér er meira um tréplötur/striga ofl.
Málverk eftir Degas málað á tréplötu
Peter Paul Rubens(1577-1640) málaði oft á tré.
Þetta málverk er ekki fullunnið er frá 1565 og er í stærðinni 80x100m.

Peter Bruegel um 1500



Hyronomius Bosch 1450-1516


Sunday, August 12, 2012

Sumar....málningartilraunir og ný verkefni...

Á sumrin finnst mér gaman að prófa mig áfram með ný efni, nota liti sem ég er ekki alltaf að nota, leyfa sumrinu að flæða inn. Ég tók nokkra daga í að prófa mig áfram með heitt vax og olíulit á pappír. Ég er ekkert brjálæðislega glöð með útkomuna en finnst hún þó vísa í einhverja átt og fíla litina vel.
Tilraunir með vax og olíutlit á pappír
Á sumrin reyni ég auðvitað líka að halda mig við efnið, maður þarf alltaf að eiga eitthvað til í galleríinu og ekki þýðir að leika sér alla daga þó það sé gaman. Það er stundum létt yfir köppunum mínum.
...er þessi kannski úti á túni?
...og þessi úti í glugga?


.....og þessi uppi á þaki?
Í Svíþjóð í vetur keypti ég bláan pappír sem hefur legið hjá mér í hillunni. Undir áhrifum frá myndinni Hugo(ekki drykknum sko) hef ég svo leitast við að skapa einhverja veröld með hvítu bleki, gylltri og silfurlitaðri slikju og blýjanti. Þetta er skemmtilegt og þróun. Mig langar til að það taki tíma svo það skiptir ekki höfuð máli. Vantar nafn á þessa seríu...kannski það komi þegar allt er komið. Mér finnst þetta hvíta vera snjór eða ský, en getur allt eins verið reykur. Þetta skilar sér nú ekki beint vel á ljósmynd....en kannski mun þetta einhverntímann koma fyrir sjónir sýningargesta. Mér finnst þetta virka.





 Af og til detta inn á borð hjá mér einhver gæluverkefni sem eru af öðrum toga en þessi hefðbundnu. Nú er ég með eitt slíkt í vinnslu. Byrjaði á því 2008 og það mun líta dagsins ljós á haustdögum. Það mun ég þó tilkynna betur þegar nær dregur.
Nýjasta verkefnið á nýja borðinu mínu.




Monday, August 6, 2012

Töfrar sumarnæturinnar....








Þessar óendanlegu sumarnætur koma svo sannarlega ímyndunaraflinu af stað. Svo mikil hvíld í þessum bláma sem tekur á sig gráa, fjólulita og græna, jafnvel bleika tóna. En staðurinn þar sem þessar myndir eru teknar í Landsveitinni er að sjálfsögðu sveipaður töfraljóma og ljósmyndarinn, vinkona mín Berglind Björgúlfsdóttir nær að fanga hann þegar hún var þar á ferðinni fyrir stuttu. 

Svo er ekki úr vegi að minna á námskeiðin sem eru framundan hjá mér á vinnustofunni í ágúst. Enn eru pláss laus og hægt að taka bæði saman fyrir þá sem vilja ná miklum árangri á stuttum tíma.

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.



Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000

Sunday, July 22, 2012

Amerískir straumar....

Adolph Gottlieb
Adolph Gottlieb
Franz Kline
Henri Matisse - Hurð - (1914)
Henri Matissse - Gluggi út á Notre Dame(1914)
Ég er að skoða ýmsa ameríska spennandi málara sem ég sé allt í einu eitthvað alveg nýtt í. Adolph Gottlieb er einn af þeim. Þessar myndir hafa svo lifandi línu og mýkt í litanotkun sem er þunn og gagnsæ og formin eins og fljóta ofan á. Samferða honum var Franz Kline sem notar sterk form og mikinn svartan lit sem á köflum er ótrúlega sterkt. Langt á undan þeim var Matisse sem notaði rými og form á nýjan máta og hafði örugglega áhrif á þá sem á eftir komu, hvernig hann notaði litinn þunnt, hvernig hann skapaði rými í myndinni, myndbyggingin og einhver fágun í litanotkuninni.
Richard Diebencorn - Seascape


Ekki ólíklegt að Kaliforníu listamaðurinn Richard Diebencorn hafi skoðað verk Matisse og séð ýmislegt sem hann nýtti sér. Nú ætla ég að hugsa til þeirra allra, skoða myndbyggingu, nota litinn þunnt, STÆRÐIR, línur og að láta formin fljóta ofan á.

Sumarnætur...

Toulouse Lautrec vakti oft á næturna og vann. Hann málaði nokkrar útgáfur af sofandi fólki. Gaman að velta fyrir sér á hvað tíma sólarhringsins þessi mynd er máluð og lika á hvaða tíma ársins. Ég spaí því að hún sé máluð að vori eða hausti í París. Snilldarvel máluð og gaman að þessum bláu og grænu tónum í sænginni og teikningin skilar sér sérlega vel í málverkinu.
Edward Munch notaði oft sama mótífið og mismunandi birtu. Hér er "Sumarnótt".
Blái liturinn getur verið ákaflega þrunginn og höfugur þegar líður á sumarið. Ég er svolítið að spá í sumarnætur og næturhiminn almennt og hvernig hægt er að mála hann. Mér finnst íslenskur sumarblár næturhiminn vera mjög gegnsær og hugsa mér himinblá, cobalt eða ultramarin blá augu í því samhengi. En stundum eru sumarnæturnar þéttar og dökkar, Indigo svarbláar og stundum jafnvel gráar. Það er líka merkilegt hvernig aðrir litir taka líka mið af því.
Svona sá Winslow Homer sína "Sumarnótt". Svolítið drungaleg.