Tuesday, November 20, 2012

Dvöl í Þýskalandi hitt og þetta II


Ég er nú rúmlega hálfnuð með dvöl mína hér í Lukas Künstlerhaus. Á sunnudaginn(25. nóvember klukkan 15)verður sýning í rými neðstu hæðarinnar þar sem afrakstur dvalarinnar liggur fyrir. Rík hefð er fyrir "opnu húsi" hér og margir koma hingað til Ahrenshoop um helgar til að njóta lista og menningar og strandarinnar sem er endalaus uppspretta gleðistunda. Ég geng þangað á hverjum degi og alltaf skilar sjórinn af sér nýjum gersemum og sólin sest aldrei með sama hætti. Það er kominn þó nokkur bunki af teikningum hér, ég hef verið að vinna með umhverfið og landslagið og hef teiknað og skissað af miklum móð, legið yfir sögu svæðisins sem er mjög tilkomumikil svo ekki sé meira sagt bæði í sögulegu og jarðfræðilegu samhengi. Þá hef ég gleymt mér næturlangt við að skapa goðsagnakenndar sögupersónur sem lifa í ævinýralegum heimi og auðvitað líka skipuleggja næstu sýningar og viðburði í því samhengi. Ég kom eingöngu með pappír(þó nokkuð af honum sko)hingað. Rúllu af frábærum skissupappír og aðra af þunnum japanpappír. Bunka af gullfallegum teiknipappír með fallegri brún og tvær aðrar gerðir í A-4 stærð af mismunandi þykkt og hvítum lit. Vatnsliti, stórir og litlir penslar, hvítt og brúnt blek og svartar og hvítar akríl litatúbur. Svo má ekki gleyma blýjöntunum sem eru þó nokkrir af mismunandi gerð og svo "graphyte" blýjantar í mismunandi styrkleika og einn lófastór hlunkur sem ég á síðan í Ameríku. Svo tók ég með mér pakka af leir. Mér finnst gott að brjóta upp hugsunina með því að móta hana bókstaflega og það kom sér í góðar þarfir hér að geta verið með fjölbreytt verkefni. Það tekur svolítið á að vera ekki með meiri málningu og liti til að auðga andann og lífga upp á tilveruna en fyrir vikið tekur maður kannski meira eftir litum í umhverfi og í kringum og sig og svo tekur maður bara eitthvað út úr fataskápnum og stillir upp þegar litaþörfin er alveg að drepa mann. Fjólublá taska, skærgrænir inniskór og neonappelsínugulir sokkar eru gleðigjafar í dagsins önn.

Augustus Vincent Tack - Aspiration 1931
En svo má líka alltaf skreppa á netið og skoða eitthvað skemmtilegt. Í dag hef ég til dæmis verið að uppgötva ýmsa listamenn því ég er að velta fyrir mér "ljóðrænni abstraktlist(lyrical abstract paintings)". Sumpart vegna þess að ég ætla að nota það sem verkefni í kennslu eftir áramót en líka fyrir mig sjálfa því þegar maður skoðar svona mikið landslag, form og liti þá er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvernig meður getur unnið með það áfram án þess að gera hreinar eftirmyndir/ljósmyndir af landslagi. Svo ég hef nú fundið ýmislegt skemmtilegt. Skoðaði ýmsa listamenn út frá þessari síðu: http://www.abstract-art.com sem er svoldið púkaleg og gömul en þarna er líka að finna ýmsan fróðleik sem er skemmtilegur og ef maður skoðar svo áfram útfrá þeim nöfnum sem þarna koma fram þá kemst maður framhjá þessu hallærislega sem er svo oft í sambandi við listir(finnst mér). Fyrstan ber að nefna Augustus Vincent Tack(1870-1949). Hann bjó í Massachusets en var alltaf með studio í New York og sýndi þar og var einkum þekktur fyrir Portrett málverk af frægum köppum og landslagsmyndir en lumaði svo á þessum abstraktmyndum inn á milli sem hann vann út frá ljósmyndum frá vesturströnd Bandaríkjanna og hann auðvitað sýndi ekkert sérstaklega og þær hefðu aldrei komið fyrir sjónir almennings nema fyrir þær sakir að þekktur safnari(Duncan Philips)bað hann um að gera þær og keypti af honum. Þessar myndir eru því í eigu þekktra safna og höfðu einnig áhrif á ýmsa síðari abstrakt málara svo sem Clifford Still ofl. Augustus vann í þessum myndum út frá ákveðnu tímaleysi og á andlegum nótum ólíkt öðrum verkum hans sem eru frekar hefðbundin. Kannski einhverjir íslenskir málarar hafi skoðað hann líka?

Augustus Vincent Tack 

Flight

Augustus Vincent Tack - Nocturne

Hér má sjá að hann á frekar hefðbundum nótum en þó er
myndbyggingunni óvanaleg, amk. á þessum tíma.
Milton Avery 1885-1965 Eitthvað svo elskulegur
maður líka held ég og fannst bara svo gaman að mála.
Annar málari sem ég enduruppgötvaði í dag var Milton Avery(1885-1965). Hann bjó einnig í new York alla sína ævi. Fór snemma að vinna fyrir sér og þurfti að sjá fyrir stórum systkinahópi eftir lát foreldra sinna. Hann vann sem málari alla ævi og er stundum nefndur hinn ameríski Matisse. hann málaði einkum fjölskyldu sína og nánasta umhverfi og var heppinn að vera snemma uppgötvaður af miklum safnara sem keypti um 100 verk sem nú eru í eigu helstu safna Bandaríkjanna og halda nafni hans á lofti. Verk hans þóttu of bókstafleg fyrir Abstrakt Expressionistana en of abstrakt fyrir aðra svo hann fer líklega þarna mitt á milli. Litanotkun hans finnst mér sérstaklega falleg og líka hvernig hann málar landslag.
Milton Avery (1953)
Green Sea/Grænn sjór
Milton Avery
Dunes and Sea/Strönd og sjór

Milton Avery
Off Shore Island/Út frá strönd eyja

No comments:

Post a Comment