Tuesday, October 29, 2013

Huliðsheimar - Sýning

Myndin er tekin á vinnustofunni núna í vikunni
af Kristínu Bogadóttur ljósmyndara. 

Ég opna sýningu með nýjum málverkum á vinnustofu minni 1. nóvember. Tilefnið er meðfram öðru Dagur myndlistar sjá hér sem er 2. nóvember og allir listamenn út um allt land opna vinnustofur sínar upp á gátt og fannst mér tilhlýðlegt að setja upp sýningu sem sýndi það sem fram fer á vinnustofunni.
Hér er það sem ég segi um sýninguna:
Sú vinna sem fram fer á vinnustofunni fer oftast fram í hljóði. Sum verkanna sem ég geri þar ná aldrei augum annarra en eigenda sinna. Undanfarin ár hef ég staðið í ýmsum óskyldum verkefnum sem gætu virst sundurlaus og úr samhengi við annað sem ég geri.

Það er mín skoðun að allt sem við gerum skipti máli og hafi áhrif. Mig langaði því einfaldlega að velja hér saman þau málverk sem ég hef verið að gera og sýna í einum sal í mínu samhengi. Sum var ég að klára, önnur eru þegar farin frá mér(og koma nú aftur stutta stund). Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég nefnilega alltaf að mála.

Alltaf eitthvað á trönunum...
Sýninguna tileinka ég foreldrum mínum. 1. nóvember skipaði sérstakan sess í þeirra lífi og þennan dag eru 60 ár frá því þau létu gefa sig saman í Reykjavík. Það veganesti sem ég hlaut frá þeim er ekki lítið. Pabbi, Sæmundur Jónsson sem látinn er fyrir röskum áratug var alveg sérstakur öðlingur, alltaf með söng eða blístur á vörunum, lundin einstök, en svo var hann líka drífandi og ákveðinn í þvi sem hann ætlaði sér og sagði gjarnan hvort það væri bara ekki spurning um að byrja á hlutunum.....og hún mamma, Svanfríður Ingvarsdóttir er sko engri lík. Ég get með sanni sagt að ég væri ekki það sem ég er í dag ef hún og pabbi hefðu ekki hvatt mig áfram, sent í myndlistarskóla og í píanótíma og til útlanda að skoða heiminn. Svo er hún mamma líka bara svo skemmtilegur félagi og mikil "Menningarstofnun" í sjálfu sér, alltaf með eitthvað í deiglunni og sannar það fyrir mér að aldur er fullkomlega afstæður og ekkert er ómögulegt! Æðruleysi þeirra beggja og víðsýni ásamt því tónlistaruppeldi sem síaðist inn í sál mína og tók sér bólfestu hefur haft viðvarandi áhrif á mína listsköpun og gert mig að því sem ég er í dag.

Á Degi myndlistar finnst mér líka mikilvægt að muna eftir stuðningsmönnum mínum sem leggja lykkju á leið sína öllu jöfnu til að sjá hvað ég er að gera og eru alltaf velkomin.Það er nefnilega svo ótrúlega mikilvægt að eiga sér góða stuðningsmenn sem hvetja mann áfram og halda manni við efnið.

Sýningin stendur frá 1.11.-21.11 og það er opið alla daga nema föstudaga frá 14-17.



Monday, September 16, 2013

Að fljúga hærra....

Að mörgu leyti notalegt þegar haustið kemur. Með djúpum haustlægðum, roki, kulda, stillum, fallegum litum og tærri fjallasýn kemur maður auga á margt sem fer framhjá manni þegar sumarið er í algleymingi. Haustinu fylgja líka fastir liðir eins og kennsla og umsóknaferli fyrir ýmislegt. Maður skerpir á áherslunum, setur sér ný markmið og leyfir sér að "fljúga hærra" amk. í huganum.
Eyja I - 60x60/Island I
Eyja II 60x60/Island II
Eyja III 60x60 Olía á tré
Island III 60x60 Oil on Wood
Ég var nýlega í Kaupmannahöfn þar sem ég tók þátt í Art Copenhagen á vegum Gallerí Foldar , en þar voru um 60 gallerí víðsvegar að að kynna listamenn sína og var sannarlega áhugavert og uppbyggjandi að fá þetta tækifæri til að bera sig saman við það besta og ekki hvað síst að sjá hvað listaheimurinn er fjölbreyttur í allri sinni dýrð, það besta snertir mann djúpt, annað alls ekki eins og gengur. Áhugavert var líka að sjá hvað galleríin hafa mismunandi áherslur og hvernig þau kynna sitt fólk. Sjálf var ég mjög sátt við mitt gallerí sem var að taka þátt í fyrsta sinn og gerði það afar vel, básinn flottur og faglega upp settur og aðlaðandi umhverfi og viðmót svo margir stoppuðu og skoðuðu af áhuga. Oftar en einu sinni gafst tilefni til að taka tappa úr kampavínsflösku og lyfta glasi á básnum okkar og ástæða til að óska Gallerí Fold til hamingju með árangurinn.
Hér má kíkja á heimasíðu messunnar: http://artcopenhagen.dk/
slóð... Olía á tré 90x130
track.... Oil on Wood 90x130cm.

DEGAS 1834-1917

Degas - Landslag - Monoþrykk 
Búið að teikna ofan í með pastellitum.

Þegar maður er búinn að skoða allar mögulegar gerðir af myndlist í órólegu umhverfi er ótrúlega róandi og gefandi að fara á söfn sem búa yfir fágun og gæðum sem finnst ekki í hinum hraða nútíma listheimi. Á sunnudögum er frítt inn á Glyptekið og ég var svo heppin að fá tækifæri til að sjá sýningu með meistara Degas og aðferðum hans. Þessi sýning hefur verið uppi í allt sumar og hreinlega slegið í gegn og þegar við komum þangað á síðasta sýningardegi voru allir salir stappaðir af fólki. Það truflaði mann þó ekkert við að njóta meistaratakta Degas og sökkva sér í aðferðir og leiðir og líf hans sem var skilmerkilega sett upp á veggjum safnsins.



“No art is less spontaneous than mine,” asserted Edgar Degas (1834-1917). “What I do results from reflection and the study of the great masters; I know nothing of inspiration, spontaneity and temperament.”

Degas tilheyrir Impressionistunum en skar sig að mörgu leyti úr, sérstaklega hvað varðaði vinnulag og aðferðir en hann málaði td. ekki mikið úti við, skissaði gjarnan á vettvangi svo sem sjá má á ballerínumyndum hans, en leyfði sér svo að  láta málverkið taka völdin á vinnustofunni og því búa myndir hans yfir sérstökum töfrum og innsæi sem skapast af því. Hann sagðist þó sjálfur ekki vera túlkandi og eins og sjá má í orðum hans hér að ofan. Hann notaði marga miðla, hreyfst t.a.m. af ljósmyndun en í verkum sínum notaði hann olíupastel, þurrkrít og teikningu með kolum á pappír, en hann vann líka með grafík svo sem litógrafíur, ætingar og monoþrykk sem hann málaði svo í með pastellitum. Í  málverkum sínum notar hann terpentínu næstum eingöngu til að þynna litinn og notar litinn þykkt til að ná línunni, leyfir því að standa til morguns og dregur svo litinn út vel terpentínuþynntan. Skúlptúra sína hugsaði hann næstum eingöngu sem skissur fyrir sig sjálfan, gerði þá litla og vann þá gjarnan með vaxi utan á vír sem hann var búinn að móta.  En hér er hlekkur á sýninguna:
http://www.glyptoteket.com/whats-on/calendar/degas-method

Degas - Teikning á litaðan pappír með kolum.
Málað með hvítum olíulit eða krít til skerpingar.
Degas (detail) Þarna sést vel hvernig hann teiknar línuna 
með þykkum lit og dregur hann svo út terpentínuþynntan.
Degas(detail). Þetta er olíupastel á pappír. 

Degas - Monoþrykk. Hann valsar svartan litinn á plötu, 
þurrkar í burtu með tusku, teiknar í með tuskunni líka
  og jafnvel pensli áður en hann leggur pappírinn ofan á 
og setur í gegnum pressu eða þrýstir bara á með lófanum. 
Svo teiknar hann með hvítri krít ofan i þegar myndin er þurr.


Monday, July 29, 2013

Sumar 2013

Oft er sumarið tími rólegheita, ferðalög, náttúruskoðun og sveitaferðir taka yfir og lítill tími í listskoðun af einhverju viti. Eftir að hafa haldið sýningu í sal ÍG í byrjun júní og setið yfir henni af miklum móð, staðið fyrir námskeiði og setið við trönurnar við að gera nýjar myndir(meira af  því síðar) var gott að taka sér dulítið næði og smella sér norður yfir heiðar. Akureyrar svæðið er smekkfullt af flottri myndlist en tímans vegna sá ég bara "Réttardag" Aðalheiðar í Ketilhúsinu alveg stórskemmtilega innsetningu með mögnuðum skúlptúrum. HInsvegar fór ég á Safnasafnið og  var svo heppin að hitta Níels Hafstein sjálfan sem sagði mér eitt og annað skemmtilegt eftir að ég hafði skoðað safnið, sérstaklega litla sýningu með verkum og bókum Karls Dunganon alveg ótrúlega magnaða og skemmtilega upp setta. Þetta hús er fullt af ævintýrum og stutt heimsókn þangað lifir lengi í minningunni og kallar fram bros. Í hvert skipti sem ég kem þar við er eitthvað nýtt að sjá og alltaf langar mig að vera lengur, líta í bók, horfa á lækinn sem rennur fyrir utan gluggann eða skoða listaverkin mögnuð af ýmsu tagi. Níels sagði mér meðal annars af þessu Ingvar Ellert Vignisson - Sýning . Það er gaman að skoða verk hans sem safnið varðveitir og eru til sýnis á vef þess: 


Það eru margir samtímalistamenn sem sækja mikið í alþýðulist af þessu tagi og áhrifin leyna sér ekki. Þegar verkunum er teflt saman á faglegan hátt eins og á Safnasafninu verða skilin óljós og líklega eru skilaboðin þau að halda í ástríðuna fyrir því sem þú ert að gera. Gleyma sér svona eins og þegar maður er í sumarfríi og fer um sveitir landsins og leitar uppi það sem kveikir áhuga eða snertir. Svo má líka fara á Listasafn Íslands og skoða verk Söru Riel sem sannarlega skapar sinn eigin heim á áhugaverðan máta. Hér er heimasíðan hennar: http://www.sarariel.com/




Sunday, June 2, 2013

Kleine Welt II / documenti

Boðskort
Opnaði sýninguna Kleine Welt II / documenti 1, júní  sl. í sal ÍG. Þetta er einskonar framhaldssýning af fyrri sýningu minni í Kirsuberjatrénu í febrúar sl. Ég fer þá leið að setja nánast allt fram sem ég vann í Þýskalandi í nóvember sl. og útvíkka þannig þennan "litla heim". Með því er ég að melta hvað það er sem ég hef í höndunum. Mér finnst forvitnileg viðbrögð áhorfenda og legg mig fram um að tala við þá um sýninguna og verk mín. Það er mjög áhugavert að sitja sjálfur yfir sýningu. Viðbrögð fólks eru allavega og einhverjir búast við einhverju allt öðru en því sem blasir við þeim. En hér er texti úr sýningarskrá:


Á þessari sýningu Kleine Welt II / documenti eða skrásetning er enn ríkari áhersla á hið skrásetta ferli og hugmyndir settar fram með formlegum hætti og taka á sig skýrari mynd. Með því að sýna þessar hugmyndir/skissur í mismunandi rýmum verður ákveðin þróun og samtal listamannsins við áhorfendur um ferlið útvíkkar þennan “smáa heim” og stækkar. Skissur verða að fullbúnum verkum með sjálfstætt líf. Ferðalangur og goðsagnakenndar verur takast á loft eða lenda á hillu og hið skrásetta líf frá tilteknum tíma öðlast nýtt gildi þegar það er sett í annað samhengi. Tilgangurinn er öðrum þræði að velta því fyrir sér hvað sé “í pípunum”? Hvers virði er einn mánuður í lífi listamanns? Hverju kemur hann í verk? Hvað verður um það? Skiptir það einhverju máli og þá fyrir hvern? Hvar var hann staddur og hvert leiðir þessi dvöl hann?
.





Saturday, April 13, 2013

Ný uppgötvun - William Hogarth

William Hogarth 1697-1764
Svo gaman þegar maður uppgötvar einhverja listamenn fyrir tilviljun. Var að lesa bókagagnrýni á "Druslubókum og doðröntum"og þar var minnst á William Hogarth og kenningar hans um sjónræna fegurð. Ég fór nú að fletta honum upp og skoða. Fyrsta myndin sem kom upp er þessi sjálfsmynd hans með hundinum en þegar ég las meira um hann þá komst ég að ýmsu. Hann er einn af þessum stóru bresku málurum, var uppi á 18. öld og hafði víðtæk áhrif og lét sér ekkert óviðkomandi. Hann hafði td. mikil áhrif á þróun skopmynda, vann td. pólitískar grafíkmyndir(ætingar) sem öðluðust mikla útbreiðslu.  Þegar maður skoðar myndirnar hans þá eru þær merkilega "sviðsettar"og gaman væri ef einhver málari/grafíklistamaður í dag festi kosningabaráttuna á striga/blað.  
Hundarnir eru ótrúlega fyndnir og setja svip...

Svipurinn á barninu er óvanalegur fyrir málverk frá þessum tíma.

Persónusköpunin er skemmtileg og eins og maður kannist td. við þennan í rauða frakkanum.





Wednesday, April 10, 2013

Ískalda íslenska vorið

Manet Edouard In the winter garden Sun
Eduard Manet(1832-1883) - Vetrargarður
Það er nokkuð napurt úti um þessar mundir þó birtan sé um það bil að ná yfirhöndinni.  Einhverra hluta vegna eru grænir litir áberandi á litapalettunni og gróður, mosi, laufblöð og plöntur þrengja sér inn í myndefnið. Ég sá þessa mynd Manets nýverið í Berlín og var algerlega heilluð. Þetta er mjög stór mynd og þessi litla ljómynd gefur engan veginn til kynna áhrifin sem hún býr yfir. En hugrenningarnar sem fylgja nafninu eru áhugaverðar. Afhverju er þetta Vetrargarður? Hvaðan koma þessar plöntur. Hvar er parið? Hvernig er sambandið á milli þeirra? Hvernig manneskja er konan? Það er svolítið ringlað andrúmsloftið í kringum hana og litirnir og litanotkunin gefa það líka til kynna. En maðurinn? Er hann ekki dreginn mun skarpari dráttum, svartur litur öryggis og staðfestu. Gróðurinn er líka áhugaverður, hjá konunni mjúkar bleikar nellikur en hjá manninum pálmi í einum lit.
Rabarbari er oft fyrsti vorboðinn...
Tími til að stúdera plöntur og skoða bækur og láta fara vel um sig.

Wednesday, February 20, 2013

Kleine Welt - Sýningarlok




Sýningin mín Kleine Welt í Herberginu/Kirsuberjatrénu opnaði fimmtudaginn 7. febrúar og lýkur nú sunnudaginn 24. febrúar. Það er opið virka daga frá 11-18, á laugardag kl. 11-16 og sýningarlokadagur er á sunnudaginn kl. 15-17. Það hefur verið gaman að standa að þessari litlu sýningu og margir hafa komið og skoðað, enda staðsetningin góð og einfalt að bregða sér í bæinn. Þessi elskulega búð hefur líka svo marga fallega muni til sýnis og þær sem að henni standa eru hver annarri yndislegri og margir sem líta inn, túristar sem aðrir. Ég fékk frábæran ljósmyndara til að mynda sýninguna fyrir mig og hér eru nokkrar myndir.

Monday, January 28, 2013

Nýtt myndlistarár 2013

Frá sýningunni Hreyfing augnabliksins
 í Listasafni Reykjavíkur
Það er ástæða til að fagna hverju myndlistarári og alltaf áhugavert að velta fyrir sér í upphafi árs hvað skal taka sér fyrir hendur á myndlistarvettvangi, hvaða sýningar verða í sölum borgarinnar, hvaða listamenn eru spennandi og hvað vekur athygli. Eftir Þýskalandsdvölina í lok árs 2012 var gott að koma heim og sjá að þar var líka heilmikið áhugavert í gangi þó fjöldi sýningarstaða sé takmarkaður eins og gefur að skilja . Ég rétt náði sýningu Kristins Harðarsonar, Mæting í Gerðarsafni í lok desember sem var stór og fjölbreytt með teikningum, málverkum ofl. og óvenjulegan vinkil á nánasta umhverfi listamannsins sem skrásetur það af mikilli nákvæmni og fær mann til að hugsa um staði og staðsetningar á nýjan máta. Það var líka alveg frábærlega hressandi sýning með Margréti Jónsdóttur í Sal Grafíkfélagsins í desember sem allt of margir létu framhjá sér fara en má sjá betur hérhttp://mjons.blogspot.com/ . Það var hrein upplifun að sjá yfirlitssýningu Ragnheiðar Jónsdóttur, Hugleikir og fingraflakk á Kjarvalsstöðum sem veitti góða sýn á fjölbreytni hennar sem listamanns. Grafíkverkin hennar, stórar ætingar frá áttunda áratugnum sjást víða en það var svo gaman að sjá þau svona mörg saman og í grúppum, þá sá maður hvað þau voru sterk og þróunin áhugaverð. Ekki var síður frábærar stórar óræðar kolateikningar hennar sem minntu á jörð, hreyfingu, veður, kraft og sérstaklega var áhugavert að sjá þróunina úr frásagnakenndum ætingunum yfir í óhlutbundnar teikningar. Þá sá ég sýninguna Hreyfing augnabliksins í Listasafni Reykjavíkur á síðasta degi og hefði gjarnan viljað gefa mér betri tíma. Listamenn voru valdir út frá því að þeir vinna þannig að þeir leyfa efnunum að vinna að mörgu leyti án þess að koma mikið við verkin beinlínis. Þar fannst mér sérstaklega áhugaverð og heillandi verk Rögnu Róbertsdóttur sem vann þar með saltkristalla á pappír og í glerkúpli en hún er nú með einkasýningu í Gallerí i8. Mér fannst hugmyndin að sýningunni skila sér vel í vali á listamönnum og sérstaklega fannst mér verk Jóhanns Eyfells sem tók upp mikinn hluta sýningarinnar, svo sem stór bómullarrefill sem hafði legið úti lengi undir járnstöngum og myndbandsverk með viðtali við hann eftir Þór Elís Pálsson sterkt. Sú aðferð að leyfa efnunum að vinna er áhugaverð og það ferli sem fer í gang getur verið óhemju fallegt. Þykkt lím sem þornar springur gjarnan, olíupollur skreppur saman þegar hann þornar og þetta má nýta á áhrifaríkan hátt í myndverk. Harpa Árnadóttir vinnur oft með þetta í verkum sínum sjá hér: http://www.harpaarnadottir.com/works/works.html#9 .


Ferðalangur - 2013
Mitt myndlistarár 2013 helgast af uppskeru á því sem ég hef verið að safna í sarpinn undanfarið og þarf nú að koma frá mér með ýmsum hætti. Það er spennandi en líka svolítið stressandi því ég þarf að velja úr og ritskoða það sem ég er búin að vera að gera, ég þarf líka að skrásetja það og sýna auðvitað, gera fréttatilkynningar og sýningarskrár, láta taka myndir af verkum, ákveða innrömmun eða ekki, hversu mikið á að sýna og hvenær og þannig mætti lengi telja. Ég verð með litla sýningu "Kleine Welt" í rýminu Herbergið í Kirsuberjatrénu við Vesturgötu 7.-24.febrúar. Þar mun ég sýna vatnslitaverk á pappír, málverk og smáverk sem ég vann í Þýskalandi. Mig langar til að gefa innsýn í vinnuferli mitt, skapa þar smá - heim ævintýra og uppgötvana en líka að hafa svolítið gaman af og koma fólki á óvart. Framhald af þeirri sýningu verður í Sal Grafíkfélagsins í sumar.

Kennsla/námskeið/smiðjur. Eins og áður kenni ég við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar kröftugum hópi á þriðjudagskvöldum. Ég er með "Ljóðræna abstraction" hjá þeim sem er krefjandi verkefni en óhemju spennandi og ég hlakka til að sjá hvað kemur. Ég hef ekki verið með viðfangsefni í líkingu við það áður og það er gaman að takast á við eitthvað nýtt. Í vor mun ég aftur vera með stutt námskeið í MyndMos fyrir byrjendur líkt og í fyrra og einnig endurtaka fyrirlestra mína um olíuliti og tól/tæki í olíumálun í apríl en það verður nánar auglýst síðar.

Mikið er spurt um námskeið í málun og ýmislegt í þá átt þessa dagana og ég verð með nokkur helgarnámskeið á vinnustofunni í febrúar og mars sem ég auglýsi fljótlega. Það er ákveðinn lúxus að koma þangað á námskeið því ég er með allt við hendina og fáa í hóp svo þetta verður einskonar einkakennsla. Ég reyni að leggja upp með eitthvað nýtt á hverju námskeiði sem ég er að spá í hverju sinni eða hæfir árstíðinni en námskeiðin henta byrjendum og lengra komnum.

Ég kenni áhugasömum málun í Ljósinu við Langholtsveg á föstudögum, en það er endurhæfingar og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Ég er orðlaus yfir því gjöfula og kraftmikla starfi sem þar fer fram. Mér finnst gott að finna að litir og að skoða og horfa á málverk og myndlist er gefandi, ekki bara fyrir sérfræðinga heldur hvern sem er og það opnast eitthvað alveg nýtt við það að mála.
Ströndin í Ahrenshoop í N-Þýskalandi.
Labbaði þarna á hverjum degi og sólarlagið var aldrei eins.
 Á hverjum degi skolaði sjórinn nýjum steinum á land.