Monday, October 31, 2011

Týndir á helgum stað...

Ferðalangar - Frá fyrstu sýningu minni í Gallerí Fold 1996
Soffía hún sjálf 1999, ljósmynd tekin á vinnustofunni af Kristni Ingvarssyni
Það styttist í næstu sýningu. Ég opna einkasýningu í Gallerí Fold(baksal) eftir tæpar tvær vikur. Ég var með sýninguna Rætur þar 2006 og 15 ár frá fyrstu sýningu minni þar svo ég er svolítið að kíkja á hvað ég var að gera þá og hvað ég er að gera nú. Ég lét taka af mér nýjar myndir af þessu tilefni og það er gaman að bera þær saman við mynd af mér sem Kristinn Ingvarsson tók af mér á sínum tíma(1999)og ég notaði lengi í sýningarskrár.
Soffía hún sjálf á vinnustofunni 2011, ljósmynd tekin af Erlendi Sveinssyni
Vinnuheiti sýningarinnar er "Týndir á helgum stað"og ég vil vekja tilfinningu fyrir einhverju stórbrotnu en jafnframt ofurlítið brothættu. Manneskjurnar í myndunum sem ég kalla ferðalanga, halda ferð sinni áfram í forundran yfir stærð veraldarinnar og óendanleika og smæð mannsins í því samhengi. Að sumu leyti laga þeir sig að náttúrunni og renna jafnvel saman við hana og hafa sig hæga. Hinsvegar hefur hlutverk þeirra kannski aldrei verið jafn skýrt. Þeir kveða við fossinn, halda áfram yfir sléttuna um leið og þeir sá nýjum fræjum í græna jörð og jafnvel má gægjast með þeim inn í annan heim sem lýtur öðrum lögmálum.
Stig lífsins - Olía á tré 2011

Í græna jörð - Olía á tré 2011

Þjóðarsöngur

Á helgum stað

Tuesday, October 25, 2011

Það sem rekur á fjörur manns....

Í Kaupmannahöfn og Malmö nýverið sá ég margar sýningar og skoðaði bækur í hinum frábæru bókabúðum sem eru á stóru söfnunum. Ég fór í Glypotekið i Kaupmanna höfn og þar var Gauguin sýning sem olli mér tölvuverðum vonbrigðum. Litirnir í málverkunum voru daufir og mér fannst málverkin hafa elst vægast sagt illa. Skýringin kann að vera að hann bjó lengi í Suðurhöfum og hefur kannski ekki getað fengið bestu litina senda og hefur kannski þurft að spara þá við sig. Hinsvegar sá ég frábærar tréristur þarna eftir hann, mjög áhrifamiklar og sterkar þó þær væru bara svart/hvítar í mesta lagi með einum öðrum lit undir.
Trérista eftir Gauguin, einföld teikning en feikilega gott handverk!






Í Louisiana safninu varð ég fyrir miklum áhrifum af teikningum og þrykkjum Viju Celmins. Hún hefur ótrúlegt vald á blýjantinum og kolunum og nær mikilli dýpt svo maður hverfur inn í myndirnar með einhverjum hætti. Hún vinnur með himinn, sjó, kóngulóarvefi og stjörnuhiminn og þetta eru mjög djúpar myndir.


Wolfgang Tillmann
 Í bókabúðinni í Louisiana kynntist ég tveimur ólíkum listamönnum. Verk Wolfgang Tillmann fóru með mig um óravíddir af blöðum bókarinnar. Get ekki beðið eftir að sjá þessi verk augliti til auglitis. Hvernig hann fer að því að fá svona mikinn léttleika í línurnar. Þetta eru að vísu ljósmyndir held ég(prints) en dýptin í þeim er makalaus. Annar listamaður og mjög ólíkur var þessi kona:
Tanja Lempicka, pólsk 1898-1980
 Hún var líklega mjög umdeild á sínum tíma en það dylst engum færni hennar í málverkinu. Hún sagði: "My goal was never to copy, but to create a new style with bright luminous colours and to scent out the elegance in my models".

Grrrafik 2011/Kaupmannahöfn Kulturnatt

Þetta haust hefur verið venju fremur annasamt. Fyrst flutti ég fyrirlestur um sjálfa mig og verk mín í Listasafni Árnesinga sem var reglulega skemmtilegt og fróðlegt að taka ferilinn saman með þessum hætti. Svo tók við heilmikil reisa til Svíþjóðar og Danmerkur þar sem ég opnaði sýningu á verkum mínum, annars vegar í Gallery Sagoy í Malmö í tengslum við Grrrafik 2011 og hinsvegar setti ég upp nokkur málverk á vinnustofu Sossu vinkonu minnar á Nybrogade í Kaupmannahöfn á Menningarnótt ásamt fleiri góðum gestum. Mikil stemming og gaman að vera á þessum viðburði sem Sossa hefur staðið fyrir undanfarin ár og margir sem leggja leið sína þangað.
Frá Listasafni Árnesinga.
Setti fram nokkrar skissur sem ég vann í Varmahlíð í apríl.

Það var ágætlega mætt og fleiri týndust inn þegar leið á.
Gallery Sagoy er í Malmö. Sýningin Glimt fra Island stendur til 27. nóvember
svo  það er um að gera að hvetja þá sem eiga leið þar um að kíkja.

Sýni þar tvær seríur af ætingum.

Slóðir I-XVI

Staðir I-XVI

Hluti af tréristum Magdalenu Margrétar Kjartansdóttur.


Þarna er ég búin að koma myndunum fyrir á vinnustofu  Sossu

Portið fyrir framan vinnustofuna var skemmtilega upplýst og ef vel er að gáð
má sjá mynd eftir Sossu sem hangir þar uppi. Síðar var þarna tískusýning.

Ánægðar með okkur eftir skemmtilegt kvöld. 

Friday, October 7, 2011

Sýningar - kúltúr og kræsingar!!







Ég er á leið til Svíþjóðar og Kaupmannahafnar í næstu viku og er að skipuleggja hvað ég ætla að sjá af myndlist. Það er skemmtilegt að vera ekki með of mikið planað en stundum er líka gott að vera búin að ákveða eitthvað. Ég er að opna sýningu í Gallery Sagoy í Malmö ásamt Magdalenu Margréti Kjartansdóttur sem verður með stóru tréristurnar sínar, en ég verð með seríu af nýjum grafíkverkum(ætingum) sem ég hef verið í óðaönn að þrykkja undanfarið. Þetta er hluti af mikill grafíkhátíð sem stendur út árið http://www.grrrafik.se/ og það verður gaman að sjá hvað er um að vera i Malmö þessa daga. Auk þess tek ég þátt í Menningarnótt í Kaupmannahöfn sem haldin er 14. október nk. með viðburðum út um alla borg Kulturnatten . Ég mun sýna nokkur málverk á vinnustofu Sossu sem er á besta stað í borginni og það eru nokkrir fleiri sem hún hefur boðið að sýna hjá sér auk þess sem hún sýnir auðvitað sjálf. Tónlist og stemming og kúltúr í fyrirrúmi!! En af sýningum ætla ég alveg örugglega ekki að láta sýningu Cobru og Paul Klee sem er í Louisiana safninu í Danmörku framhjá mér fara og þar sýnir líka Vija Celmins sem er einn af mínum uppáhalds listamönnum. Áhugavert myndband, vonandi fæ ég að sjá "litlu málverkin hennar". Hér eru svo nokkrar myndir sem Erlendur tók af mér í dagsins "grafíkönn" þar sem ég stend við pressuna og þrykki......það er ólíkt því að mála og tekur jú heilmikið á en alltaf spennandi að sjá hvað kemur af plötunni á pappírinn!