Friday, August 27, 2010

Endurmenntun Háskólans - Litafræði

Þetta er litahringur Goethes. Hann velti mikið fyrir sér áhrifum ljóss og skugga á  liti

Þetta er litahringur Ittens en hann velti mikið fyrir sér  samspili lita. Hann setti frumlitina 3, gulan rauðan og bláan í miðjuna, annars stigs litina appelsínugulan, grænan og fjólubláan sem blandast úr frumlitunum þar fyrir utan og loks þriðja stigs litina sem voru blandaðir úr frumlit og annars stigs lit yst. 
.
Ég mun einnig kenna stutt námskeið hjá Endurmenntunarstofnun sem nefnist Litafræði til gagns og ánægju en þar verður stiklað á stóru um fræði lita og virkni, farið í sögu þeirra og þróun,  áhrif þeirra og tákn og er ótrúlega spennandi að setja þessa fyrirlestra saman. Fyrir mig er það óvanalegt að byggja kennsluna eingöngu upp á fyrirlestrum þó ég muni sýna einhver dæmi um litablöndun . Saga litanna er mögnuð þróun menningar og er gaman að lesa um hvernig nýjar uppgötvanir lita og landvinningar kónga skila sér í menningu og listum gegnum aldirnar og hvernig táknfræði lita er mismunandi eftir tíma, menningu og heimshlutum, Litahringurinn er svo í raun afar merkilegt fyrirbæri sem gaman er að velta fyrir sér og hann getur líka verið ótrúlega mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að því að raða litum saman. Það er heilmikil heimspeki tengd virkni lita og þó ég fari ekki svo ítarlega í það á námskeiðinu er samt ætla ég að reyna að stikla þar á stóru. Aðalatriðið er að þátttakendur fari út með brennandi áhuga á litum og séu einhvers vísari.  Hér er hlekkur á námskeiðslýsinguna. Þetta námskeið hefst 21. október og er þrjú fimmtudagskvöld í röð.

Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Haust 2010


Það er stundum gaman að gleyma sér....

Þarna er verið að vinna með vax.

Ég mun kenna í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar á þriðjudagskvöldum framhaldshópi í málun. Ég hef kennt þar undanfarin 5 ár og haft gaman af. Á síðustu önn var unnið með drauma og hvernig maður skapar draumkennda áferð og kynnti ég vax sem íblöndunarefni í olíulit. Á þessari önn verða litirnir teknir föstum tökum undir yfirskriftinni  " Litafræði fyrir lengra komna". Stutt verkefni og löng munu hverfast um liti og þann persónulega litahring sem hver og einn mun vinna samkvæmt minni forskrift. Vanalega er ég með frekar lausbeislað form en að þessu sinni ætla ég að vera með ákveðin verkefni og hlakka til að sjá nemendur mína takast á við þau. Hér er heimasíða skólans. Innritun hefst innan skamms. 
Frá vorsýningu skólans 2010. Veggur með nokkrum verkum nemenda minna.





Reykjanes - Námskeið Dagar við Djúpið

Töfrandi umhverfi
Í maí sl. stóð ég fyrir námskeiði í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þetta var 5 daga námskeið þar sem mætt var með striga og liti og málað í ró og næði, öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar og matur og gisting innifalin. Umhverfið var skissað og skoðað og unnið með það eins og hver og einn vildi. Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að vinna óháð tíma á ákveðnum stað og þó einhverjir hefðu viljað koma heim með margar myndir til að sýna þá er alveg öruggt að það sem eftir situr í huganum mun skila sér með tíð og tíma. Langar sumarnætur sitja eftir í minningunni og ekki ólíklegt að þangað verði einhverntímann farið aftur.


Skólastofan undirlögð


Myndir á ýmsum stigum

Ekki slegið slöku við að vinna með umhverfið


Litafræði

Gamall ryðgaður tankur, flott litasamsetning
Í grænum greniskóg, sjáið öll mörgu litabrigðin og hvernig birtan breytir græna litnum.
Gólfmotta á Síldarminjasafninu. Eru þetta sömu litir og í gamla tanknum. Hvert skyldi hönnuðurinn hafa sótt innblásturinn
Það er óhætt að segja að haustið verði fullt af litum. Ég ligg þessa dagana yfir bókum og ýmsum gögnum um liti og litafræði og velti því látlaust fyrir mér hvernig ég geti talað um liti og virkni þeirra án þess að gera þá óspennandi og fæla áheyrendur frá öllu því skemmtilega, dularfulla og leyndardómsfulla sem fylgir þeim. Sjálf hafði ég mestu ímugust á litafræði í skóla en eitthvað gerðist þegar ég fór kom inn í kennslu í Tækniskólanum sl. vetur þar sem verið var að kenna litafræði Ittens og ég fór að endurskoða ýmislegt sem ég hefði áður verið búin að loka á. Svona er maður alltaf að læra eitthvað nýtt.