Monday, January 28, 2013

Nýtt myndlistarár 2013

Frá sýningunni Hreyfing augnabliksins
 í Listasafni Reykjavíkur
Það er ástæða til að fagna hverju myndlistarári og alltaf áhugavert að velta fyrir sér í upphafi árs hvað skal taka sér fyrir hendur á myndlistarvettvangi, hvaða sýningar verða í sölum borgarinnar, hvaða listamenn eru spennandi og hvað vekur athygli. Eftir Þýskalandsdvölina í lok árs 2012 var gott að koma heim og sjá að þar var líka heilmikið áhugavert í gangi þó fjöldi sýningarstaða sé takmarkaður eins og gefur að skilja . Ég rétt náði sýningu Kristins Harðarsonar, Mæting í Gerðarsafni í lok desember sem var stór og fjölbreytt með teikningum, málverkum ofl. og óvenjulegan vinkil á nánasta umhverfi listamannsins sem skrásetur það af mikilli nákvæmni og fær mann til að hugsa um staði og staðsetningar á nýjan máta. Það var líka alveg frábærlega hressandi sýning með Margréti Jónsdóttur í Sal Grafíkfélagsins í desember sem allt of margir létu framhjá sér fara en má sjá betur hérhttp://mjons.blogspot.com/ . Það var hrein upplifun að sjá yfirlitssýningu Ragnheiðar Jónsdóttur, Hugleikir og fingraflakk á Kjarvalsstöðum sem veitti góða sýn á fjölbreytni hennar sem listamanns. Grafíkverkin hennar, stórar ætingar frá áttunda áratugnum sjást víða en það var svo gaman að sjá þau svona mörg saman og í grúppum, þá sá maður hvað þau voru sterk og þróunin áhugaverð. Ekki var síður frábærar stórar óræðar kolateikningar hennar sem minntu á jörð, hreyfingu, veður, kraft og sérstaklega var áhugavert að sjá þróunina úr frásagnakenndum ætingunum yfir í óhlutbundnar teikningar. Þá sá ég sýninguna Hreyfing augnabliksins í Listasafni Reykjavíkur á síðasta degi og hefði gjarnan viljað gefa mér betri tíma. Listamenn voru valdir út frá því að þeir vinna þannig að þeir leyfa efnunum að vinna að mörgu leyti án þess að koma mikið við verkin beinlínis. Þar fannst mér sérstaklega áhugaverð og heillandi verk Rögnu Róbertsdóttur sem vann þar með saltkristalla á pappír og í glerkúpli en hún er nú með einkasýningu í Gallerí i8. Mér fannst hugmyndin að sýningunni skila sér vel í vali á listamönnum og sérstaklega fannst mér verk Jóhanns Eyfells sem tók upp mikinn hluta sýningarinnar, svo sem stór bómullarrefill sem hafði legið úti lengi undir járnstöngum og myndbandsverk með viðtali við hann eftir Þór Elís Pálsson sterkt. Sú aðferð að leyfa efnunum að vinna er áhugaverð og það ferli sem fer í gang getur verið óhemju fallegt. Þykkt lím sem þornar springur gjarnan, olíupollur skreppur saman þegar hann þornar og þetta má nýta á áhrifaríkan hátt í myndverk. Harpa Árnadóttir vinnur oft með þetta í verkum sínum sjá hér: http://www.harpaarnadottir.com/works/works.html#9 .


Ferðalangur - 2013
Mitt myndlistarár 2013 helgast af uppskeru á því sem ég hef verið að safna í sarpinn undanfarið og þarf nú að koma frá mér með ýmsum hætti. Það er spennandi en líka svolítið stressandi því ég þarf að velja úr og ritskoða það sem ég er búin að vera að gera, ég þarf líka að skrásetja það og sýna auðvitað, gera fréttatilkynningar og sýningarskrár, láta taka myndir af verkum, ákveða innrömmun eða ekki, hversu mikið á að sýna og hvenær og þannig mætti lengi telja. Ég verð með litla sýningu "Kleine Welt" í rýminu Herbergið í Kirsuberjatrénu við Vesturgötu 7.-24.febrúar. Þar mun ég sýna vatnslitaverk á pappír, málverk og smáverk sem ég vann í Þýskalandi. Mig langar til að gefa innsýn í vinnuferli mitt, skapa þar smá - heim ævintýra og uppgötvana en líka að hafa svolítið gaman af og koma fólki á óvart. Framhald af þeirri sýningu verður í Sal Grafíkfélagsins í sumar.

Kennsla/námskeið/smiðjur. Eins og áður kenni ég við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar kröftugum hópi á þriðjudagskvöldum. Ég er með "Ljóðræna abstraction" hjá þeim sem er krefjandi verkefni en óhemju spennandi og ég hlakka til að sjá hvað kemur. Ég hef ekki verið með viðfangsefni í líkingu við það áður og það er gaman að takast á við eitthvað nýtt. Í vor mun ég aftur vera með stutt námskeið í MyndMos fyrir byrjendur líkt og í fyrra og einnig endurtaka fyrirlestra mína um olíuliti og tól/tæki í olíumálun í apríl en það verður nánar auglýst síðar.

Mikið er spurt um námskeið í málun og ýmislegt í þá átt þessa dagana og ég verð með nokkur helgarnámskeið á vinnustofunni í febrúar og mars sem ég auglýsi fljótlega. Það er ákveðinn lúxus að koma þangað á námskeið því ég er með allt við hendina og fáa í hóp svo þetta verður einskonar einkakennsla. Ég reyni að leggja upp með eitthvað nýtt á hverju námskeiði sem ég er að spá í hverju sinni eða hæfir árstíðinni en námskeiðin henta byrjendum og lengra komnum.

Ég kenni áhugasömum málun í Ljósinu við Langholtsveg á föstudögum, en það er endurhæfingar og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Ég er orðlaus yfir því gjöfula og kraftmikla starfi sem þar fer fram. Mér finnst gott að finna að litir og að skoða og horfa á málverk og myndlist er gefandi, ekki bara fyrir sérfræðinga heldur hvern sem er og það opnast eitthvað alveg nýtt við það að mála.
Ströndin í Ahrenshoop í N-Þýskalandi.
Labbaði þarna á hverjum degi og sólarlagið var aldrei eins.
 Á hverjum degi skolaði sjórinn nýjum steinum á land.