Um þessar mundir er ég að undirbúa spennandi sýningar. Þó sumarið sé kannski ekki allra besti tíminn til að sitja við trönurnar, standa við pressuna eða gleyma sér í verkum sínum er því ekki að neita að fegurð sumarsins og litadýrð, dularfullar nætur, dalalæða og spegilsléttur djúpblár sjór er "innspirerandi" og það er auðvelt að verða innblásinn.
Á ferðum mínum um landið er ég alltaf með skissubók/bækur og pennaveski með blýjöntum, stundum vatnslitabox og pensil, myndavélina mína sem ég elska og nota óspart, helst mjög ónákvæmt út um bílgluggann á ferð og þó ég teikni ekki beint það sem ég sé þá skrifa ég gjarnan litina sem ég upplifi í miklum smáatriðum gulgrábrúnt gras, blágrágræn fjöllin með fjólubleikri slikju.
Sýningarnar framundan eru allar ólíkar að gerð
1. Samsýningin
brot með samkennurum mínum í Myndlistarskóla Mosfelssbæjar í húsnæði skólans og á Kaffi Álafoss í tilefni af bæjarhátíðinni í Túninu heima 26. ágúst.
2. Einkasýning í Gallerí Fold 10. september. Ég hef ekki sýnt í Fold lengi og hlakka til að setja upp sýningu þar en hvað ég sýni er ennþá á huldu.
3. Í október sýni ég ásamt Magdalenu Margréti Kjartansdóttur í galleríi í Malmö í Svíþjóð. Ég hef ekki sýnt grafík lengi og hlakka til og er líka ákaflega þakklát Magdalenu fyrir að bjóða mér að sýna með sér. Hún er ein af okkar allra flottustu listamönnum og hefur sýnt út um allan heim. Þetta verður spennandi.
Það er ekki alveg komið að kennslunni hjá mér ennþá, hún hefst að mestu leyti í september eftir sýninguna í Fold. Ég ætla þó að standa fyrir námskeiði í litum og litanotkun á vinnustofunni um næstu helgi. Nokkrir hafa þegar skráð sig en pláss fyrir fleiri. Sumarið er tíminn!!
|
Varmá í Hvergerði frá því í apríl.... |