Thursday, April 1, 2010

Ýmislegt um eldgos


Hér má sjá túlkun tveggja listamanna á eldgosi á 18. öld. Annars vegar bretinn Turner með Vesuvius og hins vegar bandaríkjamaðurinn Edwin Church með suður ameríska fjallið Coxata. Það er athyglisvert hvernig þeir nota myndbygginguna og liti markvisst til að ýkja stærðina á þessum náttúruundrum og draga vissa hluti fram. Í mynd Turners eru skipin eins og táknmynd heimsins mót stórfenglegu fjallinu og eru dregin dökkum dráttum en hvít mýkt fossins og fjallsins mynda ákveðnar andstæður móti gulri sólinni í mynd Church en reykurinn og klettarnir tengjast með dökkum lit á móti og mynda grunninn.

Eldgos - Rauður


Það gengur mikið á í náttúrunni um þessar mundir. Eldgos í Eyjafjallajökli sést víða og margir fara á staðinn til að skoða. Appelsínurauði liturinn er magnaður og hann þröngvar sér í myndirnar hjá mér. Rauður litur er flókinn í notkun. Hann er jafnframt alveg ótrúlega fallegur sé hann rétt notaður. Hann getur verið agressívur og ögrandi, rómantískur og rólegur, glaðlegur og gefandi. Það er auðvelt að klúðra honum og  örítill dropi af hvítum getur gert hann bleikari en allt sem bleikt er. Doppa af bláum breytir honum samstundis í skærfjólubláan, en gul doppa í skær appelsínugulan. Minn uppáhaldsrauður er Alizarin Crimson(W&N litur) og blandi maður Cadmium Yellow í hann(sömu tegund) fæst þessi skær rauð appelsínuguli litur sem einkennir gosið. Þessi mynd er tekin af vini mínum Gunnari Karli Gunnlaugssyni ljósmyndara.