Sunday, January 31, 2010

áfram veginn...

Það er erfitt að koma heim eftir tveggja vikna dvöl í sumarblíðu þar sem lítið var um annað hugsað en hvað skyldi borða og hvaða bók ætti að lesa næst. En alvara lífsins er tekin við að nýju og það er líka bara gott. Hvunndagurinn er góður hvað sem hver segir. Verstþykir mér að hafa ekki alveg tækifæri til að finna sálina að fullu því það er lítill tími til þess og líka að geta ekki tengst listinni að fullum krafti. Það er esvo oft þannig þegar maður er búinn að vera í fríi þá hefur maður mikla þörf fyrir að skapa.

Saturday, January 9, 2010

Hugleiðing um söfn

Í námi mínu hér við LHÍ hef ég lagt það í vana minn að spyrja sjálfa mig 10 spurninga við upphaf hvers áfanga og eftir föngum í námsdagbók mína. Spurningarnar eru settar fram sem leið til að kortleggja hugann og festa þau atriði sem upp í hugann koma en ekki endilega sem leið til að leita rökstuddra svara. Ég hef kennt á namskeiðum í olíumálun við Myndlistarskóla Mosfellsbæjar undanfarin 5 ár og nota sýningar og söfn sem mikilvægan þátt í í kennslunni, fer með nemendur mína á sýningu einu sinni á hverri önn sem hluta af náminu. Sjálf reyni ég að sækja flestar þær sýningar sem upp koma og hvet nemendur mína til hins sama og fer jafnvel fram á að þeir skili skýrslu eða hugleiðingu um það sem þeir skoða. Undanfarin 3 ár hef ég verið í sýningarnefnd hjá Íslenskri grafík sem rekur sal í húsnæði félagsins svo margar spurningar varðandi eðli og starfsemi safna kvikna reglulega í starfi mínu. Mér eru ljósir vankantar sem söfn óneitanlega glíma við svo sem skortur á fjármagni og umfjöllun auk þess sem það er stöðug vinna að halda reglulegri starfsemi úti. Sjálf rek ég líka vinnustofu og sal þar og stend fyrir sýningarhaldi á eigin verkum og annarra og hef mikinn hug á að nýta það húsnæði sem lifandi vettvang vakandi fyrir þeim tækifærum sem bjóðast.

En:

  1. Hvert er hltuverk safna
  2. Hvaða stöðu hafa þau í samfélaginu, menningu, skólakerfi.
  3. Við hverju má búast á safni?
  4. Þurfa söfn að vera hefðbundin?
  5. Hversu mikilvægur er upplifunarþátturinn?
  6. Hversu ítarlegar eiga upplýsingar um verkin að vera ?
  7. Er menntun í faginu nauðsynleg til að skilja söfn/sýningar?
  8. Bæta skýringar alltaf einhverju við eða geta þær verið of stýrðar og eyðilagt upplifunina?
  9. Hversu ítarlegar eiga upplýsingar að vera?
  10. Getur “annað” efni , svo sem hlutverk safnabúða, kaffihús ofl. eyðilagt upplifunina eða bæta þau einhverju við?

Í greininni Running a Museum: A Practical Handbook er farið í stórum dráttum yfir helstu hlutverk safna og mikilvægi þess að þær aðgerðir sem safnið stendur að miði að því að þjóna almenningi og menntun í landinu. Sú fræðsla sem fram fer á safni er mjög ólík þeirri sem fram fer með formlegum hætti í skólum landsins eða annars staðar og ýmsum flötum á henni er velt upp í greininni og með hvaða hætti hún geti farið fram.

Mér er hugleikið hvernig hægt er að koma frekar til móts við þann hóp nemanda sem ég hef hug á að einbeita mér að í kennslu sem hægt er að kalla hinn almenna listnjótanda og er fullorðinn einstaklingur sem hefur áhuga á að mála. Meðfram því sem ég kenni honum aðferðir til þess finnst mér það hlutverk mitt að ala upp listnjótanda sem með því að læra um málun og málara lærir að njóta safna og myndlistar á annan og ólíkan hátt og mynda sér skoðun á því hvað gerir listaverk áhugavert en einnig að td. njóta þess hvað viðkomandi listamaður fer vel með gula litinn og nær fallegum blæbrigðum í himinninn eða hvað teikningin er flottt og veltir fyrir sér hvernig hann fer að því.

Þegar ég hugsa um þau söfn sem ég er hvað hrifnust af í þessu samhengi þá koma mér einkum í hug söfn í Bretlandi svo sem Tate Modern, National Gallery ofl. sem, þegar allt kemur saman, myndir, fræðsla, tölvunotkun, bækur, sendir mann heim með ótal hugmyndir og ómælda upplifun. Lítil sérsýning td. um litanotkun Turners á efri hæð Tate Modern þar sem bæði munir og myndir sem tengdust ferðum hans og litanotkun opnuðu nýja sýn á því hvernig hann notaði liti og rafrænt prógram þar sem þú gast prófað sjálfur ýmislegt í tölvu, ásamt því að fylgja eftir ferli hans og framvindu varpaði ómetanlegu ljósi á það sama. Með sama hætti væri td. hægt afþví að það er nærtækt dæmi að hafa litla sérsýningu á Kjarvalsstöðum þar sem hægt væri að sýna með munum, myndum og á rafrænan hátt fjölbreytta notkun Kjarvals á efnum og litum sem gæti gagnast almenningi og skólum og dýpka með því sýn okkar á vinnu listamannsins. Sýningin Kjarval allur sl. vor var líka brunnur af upplýsingum fyrir kennslu í málun, því hann hafði svo fjölbreyttan stíl. Sýningar eru þó oft ekki nægilega lengi uppi, sem væntanlega helgast af þeim fjármunum og kröfu um fjölbreytni í svo litlu samfélagi en alveg eins og Þjóminjasafnið er með fastar sýningar allan ársins hring kæmi það sér vel fyrir kennsluþáttinn að hafa stöku sýningar sem standa lengur og það þurfa ekki endilega að vera stórar sýningar. Þá er enn mjög vannýttur möguleiki tækninnar en á bestu söfnunum td. MOMA í New York eru mjög flottir sýningarvefir með fræðsluefni. Þar er gríðarlegur fjársjóður fyrir kennara. Það væri áhugavert að leggja meiri áherslu á þennan þátt.

Sú spurning kviknar iðulega í huga mínum þegar ég rekst á skólahópa á öllum aldri út um alla ganga td. á breskum söfnum, hversvegna íslensk söfn eru svo vannýtt sem raun ber vitni, amk. af skólum. Maður kemur iðulega að tómum sölum í miðri viku á helstu söfnum borgarinnar þó vera kunni að það sé smám saman að breytast. Er það áhugaskortur kennara, eitthvað í skipulagi skóla sem kemur í veg fyrir nýtni þeirra eða er eitthvað innbyggt í kerfið hér sem þarf að breyta? Mér finnst einnig mjög vannýtt sú mikla þekking og innspýting sem finna má á vinnustofum listamanna. En heimsóknir og samstarf gætu orðið hvati að ýmsu og það væri áhugavert að kanna frekar “hollensku leiðna” sem gerir einmitt ráð fyrir slíku flæði. Þetta kann þó að liggja í því að ekki er gert ráð fyrir því hér í skólum að greiða fyrir slíkar heimsóknir og því undir hverjum kennara komið hvernig hann nýtir tímann og þetta er auðvitað tímafrekt. Mitt mat er hinsvegar að sú menntun sem fram fer á slíkum stöðum sé ómetanleg.

Greinin sem hér er til umfjöllunar fjallar að mestu leyti um praktíska hluti og reglur, einskonar viðmið og leiðir sem eru færar og hafa ber í huga varðandi söfn og margar góðar hugmyndir og þar viðraðar. Hinsvegar held ég jafnframt að það sé að mörgu leyti mjög óplægður akur í samvinnu skóla, listamanna og safna hér á landi sem spennandi er að kafa dýpra ofan í og tel ég einsýnt að bæði myndlistarmenn, hönnuðir og starfandi og verðandi kennarar geta lagt sitt af mörkum og ég hlakka til að sjá þær hugmyndir sem spretta fram í hópi eins og þessum í kennaranámi LHÍ.

Fyrsta bloggið

Jæja, fyrsta bloggið mitt komið af stað, það er ekki svo auðvelt að finna út úr þessu en ég ætla samt að reyna að vera dugleg og setja allt inn sem mér settur í hug og svona það besta.