Monday, July 29, 2013

Sumar 2013

Oft er sumarið tími rólegheita, ferðalög, náttúruskoðun og sveitaferðir taka yfir og lítill tími í listskoðun af einhverju viti. Eftir að hafa haldið sýningu í sal ÍG í byrjun júní og setið yfir henni af miklum móð, staðið fyrir námskeiði og setið við trönurnar við að gera nýjar myndir(meira af  því síðar) var gott að taka sér dulítið næði og smella sér norður yfir heiðar. Akureyrar svæðið er smekkfullt af flottri myndlist en tímans vegna sá ég bara "Réttardag" Aðalheiðar í Ketilhúsinu alveg stórskemmtilega innsetningu með mögnuðum skúlptúrum. HInsvegar fór ég á Safnasafnið og  var svo heppin að hitta Níels Hafstein sjálfan sem sagði mér eitt og annað skemmtilegt eftir að ég hafði skoðað safnið, sérstaklega litla sýningu með verkum og bókum Karls Dunganon alveg ótrúlega magnaða og skemmtilega upp setta. Þetta hús er fullt af ævintýrum og stutt heimsókn þangað lifir lengi í minningunni og kallar fram bros. Í hvert skipti sem ég kem þar við er eitthvað nýtt að sjá og alltaf langar mig að vera lengur, líta í bók, horfa á lækinn sem rennur fyrir utan gluggann eða skoða listaverkin mögnuð af ýmsu tagi. Níels sagði mér meðal annars af þessu Ingvar Ellert Vignisson - Sýning . Það er gaman að skoða verk hans sem safnið varðveitir og eru til sýnis á vef þess: 


Það eru margir samtímalistamenn sem sækja mikið í alþýðulist af þessu tagi og áhrifin leyna sér ekki. Þegar verkunum er teflt saman á faglegan hátt eins og á Safnasafninu verða skilin óljós og líklega eru skilaboðin þau að halda í ástríðuna fyrir því sem þú ert að gera. Gleyma sér svona eins og þegar maður er í sumarfríi og fer um sveitir landsins og leitar uppi það sem kveikir áhuga eða snertir. Svo má líka fara á Listasafn Íslands og skoða verk Söru Riel sem sannarlega skapar sinn eigin heim á áhugaverðan máta. Hér er heimasíðan hennar: http://www.sarariel.com/