24-26 maí nk. tek ég þátt í ráðstefnunni Art in Translation með fyrirlestri um notkun texta í verkum mínum. Þarna verða um 70 fyrirlesarar frá ýmsum löndum auk Íslands, listamenn, þýðendur og fræðimenn í bland og verður án efa athyglisvert að hlýða á ýmsa fyrirlestra um notkun texta og mismunandi nálgun á því. Sjálfri finnst mér texti/skrif/orð skipta miklu máli í myndlist minni, en það er nýtt fyrir mig að þurfa að setja það fram með þessum hætti og gera það áheyrilegt og spennandi.
31. maí - 4. júní eru Bjartir dagar í Hafnarfirði og hjá Málaranum við höfnina verður sýningin Út á við - Inn á við í sal. Þar munum við Gunnar Karl Gunnlaugsson leiða saman hesta okkar með ljósmyndum og málverkum. Gunnar hefur undanfarin misseri tekið ljósmyndir af "Listamönnum í lengjunni" hér við höfnina og sýnir seríu ljósmynda en ég málverk sem máluð eru á þeim tíma. Það er áhugavert að fá að skyggnast á bakvið en líka gaman að draga fram þessa margvíslegu starfsemi sem fram fer hér við höfnina og ég er hluti af.
15. júní - 8. júlí verð ég með litla sýningu í Gallerí Klaustri í Gunnarshúsi, Skriðuklaustri. Sýninguna nefni ég Dalverpi, minningar og fundnir hlutir og ætla að sýna málverk og teikningar. Það er alltaf gaman að setja upp sýningu í nýju umhverfi úti á landi að sumri til. Ég dvaldi í Gunnarshúsi 1999 og vann þar sýninguna Dalbúar sem ég sýndi í Osló og Gallerí Fold og dvölin er mér að mörgu leyti minnisstæð. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum stað sem mér finnst gaman að spá í og skoða og láta hafa áhrif í myndirnar.
Svo vona ég að það komi að því þegar þetta er allt afstaðið að Landsveitin taki vel á móti manni á fallegum sumardegi og að Hekla hafi hægt um sig amk. að sinni. |