Yfirlitsmynd af sýningu í baksal Gallerí Foldar |
Helgur staður-Olía á tré-2011 |
Ég sendi nemendur mína í Myndlistarskóla Mosfellsbæjar í vikunni út af örkinni til að skoða sýningar og mynda sér skoðun á amk. tveimur verkum og rýna til gagns og segja hvað hrífur þá og hvað ekki. Það voru amk. 9 ólíkir sýningarstaðir í boði næstu tvær vikurnar með hátt í 20 sýningum og enn fleiri sýnendum. Þá erum við bara að tala um stóru söfnin á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað birtist gagnrýni um sýningarnar þar en það verður bara svo margt útundan sem er markvert. Mér finnst í kennslu oft skorta á umburðarlyndi hjá nemendum sem eiga erfitt með að skoða myndlist með opnum hug. Myndir eru ljótar og klessulegar, listamennirnir þunglyndir eða hátt uppi og dómar þeirra um myndlist og málara oft neikvæðir. Ég velti því fyrir mér hvort það geti stafað af því að það vantar meiri umræðu um myndlist sem höfðar til hins almenn borgara sem er ekki búinn að þróa með sér smekk eða skoðun á samtímalist og það vantar einhverja brú þarna á milli sem litlu sýningarstaðirnir bjóða oft upp á. Ef ég ber þetta saman við tónlist og tónlistargagnrýni þá er nánast allt gagnrýnt sem kemur út eða er flutt, sama má segja um bækur, kvikmyndir og leikhús. Hversvegna er hægt að gagnrýna sýningu hjá LA á Akureyri en ekki sýningar í Listasafni Akureyrar. Leiksýning í Grindavík er gagnrýnd við fyrsta hentugleika en flottar myndlistarsýningar í Listasafni Reykjanesbæjar fá ekki náð. Ég held að það gleymist svolítið hvað myndlist er útbreidd og hvað margir eru að skoða myndlist og skapa sjálfir en akkúrat það flækir málið og gerir það enn mikilvægara að umræða um allskonar myndlist nái upp á yfirborðið.
En ég ætla ekkert að hætta að mála eða halda sýningar og sækja um sýningarsali. Framundan er nýtt sýningarár 2012. Að mörgu leyti óskrifað blað hjá mér....en svo dúkkar eitthvað upp...allt i einu, bara handan við hornið.