Ekki er hægt að segja að það sem af er sumri hafi verið tíðindalítið, enda varla gefist tími til að setja hér inn nokkra færslu. Fyrst voru Bjartir dagar í lok apríl á vinnustofunni með Sumarsýningu, listaverkahappdrætti og stemmingu. Heilmargir litu við og fengu sér miða, skoðuðu myndir og nutu kvöldsins. Allir vinningar gengu út utan einn númer 32. En hér eru nokkrar myndir í tengslum við Bjarta daga.
Hafnarfjarðarhöfnin er ótrúlega myndræn. |
Maður beitir ýmsum brögðum til að auglýsa. |
Svo kom þetta skemmtilega símtal í síðustu viku þar sem mér var tjáð að ég hefði verið útnefnd Bæjarlistamaður Garðabæjar 2014 en Menningar og Safnanefnd óskaði eftir tilnefningum frá einstaklingum, bæjarbúum og félagasamtökum. Mikill og skemmtilegur heiður fyrir mig og hvetjandi að geta einbeitt sér að því að sinna myndlistinni. Ég ræð því sjálf hvað ég vil gera af þessu tilefni en líklega verður mér gert háttt undir höfði eftir því sem árinu fleytir áfram og ég ætla að setja mér ný markmið og langar að nýta mér þetta vel. Við sama tilefni var Mannfreð Vilhjálmsson arkitekt útnefndur heiðurslistamaður Garðabæjar og er aldeilis vel að því kominn. En auðvitað ljómaði maður eins og sólin sjálf við þetta tækifæri í Garðaholti og hlý orð og hamingjuóskir úr ýmsum áttum gera mann glaðan.
Bæjarlistamaður Garðabæjar 2014 |
Stutt sumarnámskeið hafa verið vinsæl á vinnustofunni. Ég hef haldið nokkur undanfarið ár undir yfirskriftinni "Við höfnina" þar sem unnið er með höfnina og umhverfi hennar og útfært með olíu á striga. Á Sjómannadaginn, suunnudaginn 1. júní ætla ég að standa fyrir sýningu með verkum nemendanna sem stendur þann dag frá klukkan 13-18. Það er gaman að sjá hvað fólk nálgast viðfangsefnið mismunandi og persónuleg útfærsla verkanna er frábær. Að hafa gaman af, að taka sig ekki of hátíðlega og prófa að mála með olíulitum er markmið námskeiðanna og hefur verið gerður góður rómur að þeim. Hér má sjá nokkrar myndir af námskeiðunum.
Svo nú er bara að smella sér á sýningu á Sjómannadaginn, við höfnina í Hafnarfirði. Legg upp með fína stemmingu, kaffisopa og með því og jafnvel harmonikkutónlist ef þannig verkast. Ég verð með einhver námskeið i sumar og auglýsi það þegar þar að kemur.