Tuesday, October 29, 2013

Huliðsheimar - Sýning

Myndin er tekin á vinnustofunni núna í vikunni
af Kristínu Bogadóttur ljósmyndara. 

Ég opna sýningu með nýjum málverkum á vinnustofu minni 1. nóvember. Tilefnið er meðfram öðru Dagur myndlistar sjá hér sem er 2. nóvember og allir listamenn út um allt land opna vinnustofur sínar upp á gátt og fannst mér tilhlýðlegt að setja upp sýningu sem sýndi það sem fram fer á vinnustofunni.
Hér er það sem ég segi um sýninguna:
Sú vinna sem fram fer á vinnustofunni fer oftast fram í hljóði. Sum verkanna sem ég geri þar ná aldrei augum annarra en eigenda sinna. Undanfarin ár hef ég staðið í ýmsum óskyldum verkefnum sem gætu virst sundurlaus og úr samhengi við annað sem ég geri.

Það er mín skoðun að allt sem við gerum skipti máli og hafi áhrif. Mig langaði því einfaldlega að velja hér saman þau málverk sem ég hef verið að gera og sýna í einum sal í mínu samhengi. Sum var ég að klára, önnur eru þegar farin frá mér(og koma nú aftur stutta stund). Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég nefnilega alltaf að mála.

Alltaf eitthvað á trönunum...
Sýninguna tileinka ég foreldrum mínum. 1. nóvember skipaði sérstakan sess í þeirra lífi og þennan dag eru 60 ár frá því þau létu gefa sig saman í Reykjavík. Það veganesti sem ég hlaut frá þeim er ekki lítið. Pabbi, Sæmundur Jónsson sem látinn er fyrir röskum áratug var alveg sérstakur öðlingur, alltaf með söng eða blístur á vörunum, lundin einstök, en svo var hann líka drífandi og ákveðinn í þvi sem hann ætlaði sér og sagði gjarnan hvort það væri bara ekki spurning um að byrja á hlutunum.....og hún mamma, Svanfríður Ingvarsdóttir er sko engri lík. Ég get með sanni sagt að ég væri ekki það sem ég er í dag ef hún og pabbi hefðu ekki hvatt mig áfram, sent í myndlistarskóla og í píanótíma og til útlanda að skoða heiminn. Svo er hún mamma líka bara svo skemmtilegur félagi og mikil "Menningarstofnun" í sjálfu sér, alltaf með eitthvað í deiglunni og sannar það fyrir mér að aldur er fullkomlega afstæður og ekkert er ómögulegt! Æðruleysi þeirra beggja og víðsýni ásamt því tónlistaruppeldi sem síaðist inn í sál mína og tók sér bólfestu hefur haft viðvarandi áhrif á mína listsköpun og gert mig að því sem ég er í dag.

Á Degi myndlistar finnst mér líka mikilvægt að muna eftir stuðningsmönnum mínum sem leggja lykkju á leið sína öllu jöfnu til að sjá hvað ég er að gera og eru alltaf velkomin.Það er nefnilega svo ótrúlega mikilvægt að eiga sér góða stuðningsmenn sem hvetja mann áfram og halda manni við efnið.

Sýningin stendur frá 1.11.-21.11 og það er opið alla daga nema föstudaga frá 14-17.