Sunday, August 19, 2012

Að mála á tré -

Albrecht Dürer 1471-1528 er meistari allra efna. 
Þetta málverk er málað á tré og þvílík fágun í litanotkun og teikningu
Lukas Cranach - Málverk frá 16. öld. 
Í vikunni verð ég með námskeið á vinnustofunni í olíumálun á tré. Það er að mörgu leyti mjög ólíkt að vinna á tré samanborið við striga. Mér finnst það gefa ákveðna dýpt í myndirnar því það tekur langan tíma að byggja litinn upp og lengi framan af drekkur viðurinn meira í sig en ef ég væri td. að mála á striga. Auðvitað fer það að einhverju leyti eftir því hvað plöturnar eru grunnaðar mikið, en ég grunna yfirleitt tvisvar sinnum með gezzo báðum megin. Það eru ríkar hefðir í íkonamálun og mjög strangar reglur, það þekkja þeir sem hafa farið á námskeið í því og lært samkvæmt því. Hér er td. sýnt hvaða leið var farin við það:  Hefðbundin aðferð við að grunna og mála á tréplötu Það er auðvitað hægt að mála á tré án þess að fara eftir þessari ströngu formúlu sem þeir allra hörðustu fara eftir í hörgul en það er alltaf gott að vera meðvitaður um hverju maður vill ná fram svo ef þú ætlar að mála íkona þá er þetta leiðin. En svo má líka lesa sér til almennt, hér er meira um tréplötur/striga ofl.
Málverk eftir Degas málað á tréplötu
Peter Paul Rubens(1577-1640) málaði oft á tré.
Þetta málverk er ekki fullunnið er frá 1565 og er í stærðinni 80x100m.

Peter Bruegel um 1500



Hyronomius Bosch 1450-1516


Sunday, August 12, 2012

Sumar....málningartilraunir og ný verkefni...

Á sumrin finnst mér gaman að prófa mig áfram með ný efni, nota liti sem ég er ekki alltaf að nota, leyfa sumrinu að flæða inn. Ég tók nokkra daga í að prófa mig áfram með heitt vax og olíulit á pappír. Ég er ekkert brjálæðislega glöð með útkomuna en finnst hún þó vísa í einhverja átt og fíla litina vel.
Tilraunir með vax og olíutlit á pappír
Á sumrin reyni ég auðvitað líka að halda mig við efnið, maður þarf alltaf að eiga eitthvað til í galleríinu og ekki þýðir að leika sér alla daga þó það sé gaman. Það er stundum létt yfir köppunum mínum.
...er þessi kannski úti á túni?
...og þessi úti í glugga?


.....og þessi uppi á þaki?
Í Svíþjóð í vetur keypti ég bláan pappír sem hefur legið hjá mér í hillunni. Undir áhrifum frá myndinni Hugo(ekki drykknum sko) hef ég svo leitast við að skapa einhverja veröld með hvítu bleki, gylltri og silfurlitaðri slikju og blýjanti. Þetta er skemmtilegt og þróun. Mig langar til að það taki tíma svo það skiptir ekki höfuð máli. Vantar nafn á þessa seríu...kannski það komi þegar allt er komið. Mér finnst þetta hvíta vera snjór eða ský, en getur allt eins verið reykur. Þetta skilar sér nú ekki beint vel á ljósmynd....en kannski mun þetta einhverntímann koma fyrir sjónir sýningargesta. Mér finnst þetta virka.





 Af og til detta inn á borð hjá mér einhver gæluverkefni sem eru af öðrum toga en þessi hefðbundnu. Nú er ég með eitt slíkt í vinnslu. Byrjaði á því 2008 og það mun líta dagsins ljós á haustdögum. Það mun ég þó tilkynna betur þegar nær dregur.
Nýjasta verkefnið á nýja borðinu mínu.




Monday, August 6, 2012

Töfrar sumarnæturinnar....








Þessar óendanlegu sumarnætur koma svo sannarlega ímyndunaraflinu af stað. Svo mikil hvíld í þessum bláma sem tekur á sig gráa, fjólulita og græna, jafnvel bleika tóna. En staðurinn þar sem þessar myndir eru teknar í Landsveitinni er að sjálfsögðu sveipaður töfraljóma og ljósmyndarinn, vinkona mín Berglind Björgúlfsdóttir nær að fanga hann þegar hún var þar á ferðinni fyrir stuttu. 

Svo er ekki úr vegi að minna á námskeiðin sem eru framundan hjá mér á vinnustofunni í ágúst. Enn eru pláss laus og hægt að taka bæði saman fyrir þá sem vilja ná miklum árangri á stuttum tíma.

II) ÁGÚST 16.-19.8. 


Einu sinni á ágústkveldi...
Sérstaklega farið í slikjur og hvernig hægt er að ná fram dýpt í lit með því að nota mismunandi tóna af lit og grunni. Skoðum sumarnóttina. Vinnum með bláa, græna og fjólubláa liti og æfum okkur í að blanda þá saman. Miðað við að nemendur komi með myndir og myndefni sem þeir eru byrjaðir á eða langar til að mála.

16.8. fimmtudagur 17-20. Veljum myndir til að mála, spáum í viðfangsefnið og komum okkur af stað.
18.8. laugardagur 10-15 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara.
19.8. sunnudagur 11-16 Unnið að myndum í sal undir handleiðslu kennara. Yfirferð og frágangur og leiðbeint með framhald.



Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 22.000


III) ÁGÚST 22.8.-26.8. 

Olía á tré - Spennandi efniviður
Áhrifamikið og spennandi námskeið þar sem farið er yfir mismunandi undirlög í málun og hvaða lögmál gilda þegar málað er á tré. Skoðum söguna og hefðina og vinnum myndir frá grunni.  Allt efni á staðnum en nemendur koma með sína liti og pensla og eru hvattir til að leyfa hugmyndaauðgi að njóta sín í myndefni og vali á efnivið. Sýndar leiðir til að fernisera myndir og gera þær "gamlar".

22.8. miðvikudagur 18-20 Kynning og leiðir. Kennari fer yfir og sýnir mismunandi undirlög og hvaða leiðir eru færar. Leiðbeint með myndefni og næstu skref.
23.8 fimmtudagur 17-20 Myndir undirbúnar og grunnaðar.
25.8. laugardagur 10-15 Málað í sal undir handleiðslu kennara.
26.8. sunnudagur 11-16 Málað í sal undir handleiðslu kennara, gengið frá myndum. Leiðbeint með framhald.


Kennari:Soffía Sæmundsdóttir
Staður: Fornubúðir 8
Tímar:Samtals 12 klukkustundir 
Verð: 28.000