Sunday, July 22, 2012

Amerískir straumar....

Adolph Gottlieb
Adolph Gottlieb
Franz Kline
Henri Matisse - Hurð - (1914)
Henri Matissse - Gluggi út á Notre Dame(1914)
Ég er að skoða ýmsa ameríska spennandi málara sem ég sé allt í einu eitthvað alveg nýtt í. Adolph Gottlieb er einn af þeim. Þessar myndir hafa svo lifandi línu og mýkt í litanotkun sem er þunn og gagnsæ og formin eins og fljóta ofan á. Samferða honum var Franz Kline sem notar sterk form og mikinn svartan lit sem á köflum er ótrúlega sterkt. Langt á undan þeim var Matisse sem notaði rými og form á nýjan máta og hafði örugglega áhrif á þá sem á eftir komu, hvernig hann notaði litinn þunnt, hvernig hann skapaði rými í myndinni, myndbyggingin og einhver fágun í litanotkuninni.
Richard Diebencorn - Seascape


Ekki ólíklegt að Kaliforníu listamaðurinn Richard Diebencorn hafi skoðað verk Matisse og séð ýmislegt sem hann nýtti sér. Nú ætla ég að hugsa til þeirra allra, skoða myndbyggingu, nota litinn þunnt, STÆRÐIR, línur og að láta formin fljóta ofan á.

Sumarnætur...

Toulouse Lautrec vakti oft á næturna og vann. Hann málaði nokkrar útgáfur af sofandi fólki. Gaman að velta fyrir sér á hvað tíma sólarhringsins þessi mynd er máluð og lika á hvaða tíma ársins. Ég spaí því að hún sé máluð að vori eða hausti í París. Snilldarvel máluð og gaman að þessum bláu og grænu tónum í sænginni og teikningin skilar sér sérlega vel í málverkinu.
Edward Munch notaði oft sama mótífið og mismunandi birtu. Hér er "Sumarnótt".
Blái liturinn getur verið ákaflega þrunginn og höfugur þegar líður á sumarið. Ég er svolítið að spá í sumarnætur og næturhiminn almennt og hvernig hægt er að mála hann. Mér finnst íslenskur sumarblár næturhiminn vera mjög gegnsær og hugsa mér himinblá, cobalt eða ultramarin blá augu í því samhengi. En stundum eru sumarnæturnar þéttar og dökkar, Indigo svarbláar og stundum jafnvel gráar. Það er líka merkilegt hvernig aðrir litir taka líka mið af því.
Svona sá Winslow Homer sína "Sumarnótt". Svolítið drungaleg.


Sunday, July 15, 2012

Soffía Grafíker

True North/Æting/2012
Ég var á sýningaropnun í gær. Reyndar á sýningu sem ég sjálf var að opna í Grafíkfélaginu, ekkert formlegt, heldur er þetta grafíkmappa sem mér bauðst að taka þátt í og heitir "Idea of North" og 14 listamenn frá íslandi, USA og Kanada eiga verk í þessari möppu. Nicole Pietrantoni sem dvaldi hér á Íslandi síðasta ár setur þessa möppu saman. Ég sýni þar ætinguna True North sem ég þrykkti í 18 eintaka upplagi, nokkuð sem ég geri afar sjaldan. Þetta er ánægjulegt og ég er satt best að segja mjög glöð að vera tekinn með í hóp framsækinna "grafíkera" því ég hef ekki beint litið á mig sem sérstakan grafíklistamann þó ég vinni af og til í grafík. Ég hef reyndar sinnt grafíkinni af dálitlum krafti undanfarið og kem til með að gera það meira á næstunni. Gekk meira að segja svo langt að stofna sérstakt blogg sem ég kalla Grafíkbloggið, en þar ætla ég að setja inn ýmsar upplýsingar um aðferðir og grafík og listamenn sem nota grafík í sinni myndlist. Hér kemur það:Grafíkbloggið.