Tuesday, June 7, 2011

Bjartir dagar og sumarið framundan...

Opið var á báðum hæðum og nýjustu verkin á trönunum auðvitað.

Margir komu til að hlusta á Auði Gunnarsdóttur syngja af  "Little things"



Stöðugur straumur...
Auður Gunnarsdóttir söng nokkur lög...


Einn veggurinn af "pop up" sýningunni.
Bjartir dagar á vinnustofu minni í Hafnarfirði um helgina tókust einkar vel. Mikill fjöldi gesta sótti hátíðina heim og var gerður góður rómur að því sem þar var á boðstólum. Vel á annað hundrað manns komu á opnun pop up sýningar og tóku þátt í listaverkahappdrætti og margir komu aftur til að vera viðstaddir þegar Auður Gunnarsdóttir söng af nýútkomnum diski sínum "Little things"og vildu ekki missa af þegar dregið var í happdrættinu. Aðalvinningurinn "Hvíta birta" kom í hendur ungs drengs sem staddur var þarna með ömmu sinni og afa og var hann heldur en ekki glaður. Sögumálverkið var á sínum stað og eru margar áhugaverðar sögur komnar í kassann en svo vel tókst til á síðasta ári að ákveðið var að endurtaka leikinn.
Vinningshafi í Listaverkahappdrættinu

Hluti úr sögumálverkinu 2010
Á sjómannadaginn var mikið um að vera við höfnina og lét Málarinn við höfnina sitt ekki eftir liggja með sjómannadagsstemmingu. Pönnukökur og kaffi voru í boði hússins og klukkan 3 tók Marín Hrafnsdóttir menningarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar við "Sögum af björtum dögum 2010" litlu kveri sem gefið var út með sögum sem samdar voru við sögumálverkið 2010.

Helena Mjöll Jóhannsdóttir fékk verðlaun fyrir skemmtilegustu söguna 2010 sem var bæði titill og saga og var yfirskrifitn "Bjarma slær á engi" sem var jafnframt sá titill sem fór á málverkið, sagan fjallaði um vinina Bjart og Hjalta sem nutu veðurblíðunnar. Draumkenndur og fallegur texti sem hæfði myndinni sannarlega eins og þeir reyndar gerðu margir textarnir hver með sínum hætti. Stefnt er að því að gera þetta að árvissum viðburði.

Helena fékk í verðlaun málverkið "Draumarnir taka yfir" og bókina sem gefin var út.

Nokkuð var um að fólk skráði sig á námskeið í sumar en vikuna 10. - 14. ágúst verða haldin námskeið í litum og litafræði sem hentar þeim sem hafa verið að mála í langan tíma og langar að öðlast ferska sýn á liti með nýjum kennara og einnig verður haldið námskeið fyrir byrjendur eða þá sem litla reynslu hafa. Nokkuð hefur verið spurt um styttri námskeið  og ef nægur fjöldi fæst hef ég hug á að vera með eins dags námskeið í ákveðnum þáttum td. hvað þarf að hafa í huga við að mála landslag og er þá heill dagur frá 10-17 þar sem farið er í helstu atriði. Allt frá skissugerð til fullgerðs málverks. Næsta námskeið er 3. júlí. Námskeiðin eru eins og áður á vinnustofu minni.


En sumarið er til að njóta skoða, horfa og vera til. Ég verð mikið við á vinnustofunni því það eru stórar sýningar framundan og alltaf opið þegar ég er á staðnum.Þar er líka hægt að skrá sig á námskeið, skoða myndir og fleira..