Sunday, February 21, 2010

Málaragleði

Það má ekki vanmeta þá ánægju sem fæst út úr því að mála. Að koma að grunnaðri rauðri og türkisgrænlitaðri tréplötu þar sem er lítið annað á en kannski sjóndeildarhringur og undarlegur rauður himinn. Þegar ég kem að myndinni sé ég þó út úr trénu hóla og hæðir eða væri kannski réttara að tala um kletta og steina og  við að mála terpentínuþunnt með Indian Yellow og Titian blönduðu örlítilli línolíu yfir himinninn og bæta oggulitlum hvítum saman við túrkis/emeraldgræna litinn í sjóinn sem kannski breytist í gras eða eyjur eða móbergskletta verður svo geggjuð litasamsetning að ég fæ í hnén og líka undir bringuspalirnar. Á morgun þegar ég kem að henni verður hún kannski flöt og óspennandi en í öllu falli .....það að mála breytir deginum og gerir hann betri.

Aðferð




Aðferð:
Það er að ýmsu að hyggja þegar maður leggur drög að verki. Hér að ofan má sjá ljósmynd af fjörugróðri. Hvernig gætir þú hugsað þér að yfirfæra þessa ljósmynd í málverk? Það koma margar leiðir til greina og hér tel ég upp ýmislegt sem gott er að hafa í huga.

1. Hvernig ætlar þú að byrja á myndinni? Vinna eftir skissu, eftir ljósmynd, eftir lifandi módeli, eða á myndin að leiða þig áfram? Ætlar þú að vinna blautt í blautt eða vinna myndina á löngum tíma lag fyrir lag? Á að vera einn grunntónn undir? Það er mjög ólíkt að vinna td. með svart undirlag eða hvítt, rautt undirlag gefur líka spennu. Svo má líka vinna markvisst með andstæða liti, eða heita/kalda? 
2. Ætlar þú að vinna myndina með einum pensli eða mörgum? Það gefur mynd ákveðið vægi ef þú vinnur hana alla með sama penslinum, prófaðu til dæmis að vinna nákvæmt með stórum pensli og sömuleiðis að vinna stóra mynd alla með litlum pensli, og litla mynd með stórum pensli. Ætlar þú kannski að vinna myndina með tusku eingöngu? 
3. Ætlar þú að vinna grunninn þykkt og þá með hvaða efni, gezzo, setja efni í grunninn td. sand, drasl, efni ýmis akrílefni sem hægt er að kaupa. Ætlar þú að vinna myndina með akríllitum framan af? 
4. Ætlar þú að hella málningunni yfir myndina eða ætlar þú að vinna hana alla með fíngerðum penslum, hvaða undirlag er það best að nota? Ætlar þú að nota íblöndunarefni, terpentína, línolía, vax, malbutter, lakk, nota gljáa, eða viltu hafa myndina matta. Hvað er á myndinni, hvaða aðferð er best að nota til að ná sem mestum áhrifum.
5. Þú þarft að hugsa um hvaða litir eiga að vera í henni áður en þú byrjar að setja eitthvað á og hvort þú vilt td. láta sjást í strigann eða hafa hana alla ljósa. Ef þú byrjar að teikna inn á myndina með kolum sem er í raun skemmtilegasta efnið að vinna með í byrjun þá getur þú lent í vandræðum því kolin smitast út í litinn og gera hann gráan. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að teikna beint inn á með pensli og málningu en þá þarftu að vera búin að ákveða liti fyrirfram. Viltu td. halda línunni sem þú teiknar inn í upphafi? Mynd eftir Nathan Oliveira er til dæmis öll ljós undir og mikið lagt upp úr línunni og teikningunni og striginn skín í gegn en mynd Arngunnar er unnin í mörgum lögum með málningu, vaxi og öðrum efnum á tré. Getur þú séð muninn á því hvernig á að byrja á þessum málverkum? Að hverju þarf að huga og hvað myndir þú spá í? Prófaðu þig áfram.

Efni - Sjávarföll/Turner

lEfni:
1. Hvað málar þú á?
a. Er það strigi og þá hvernig strigi, er hann grófur, fínn, grunnaður eða ekki? Strekktur eða óstrekktur?
b. Er það kannski tré eða mdf plata?Er það fínt, gróft, með miklum kvistum eða fínpússað, mikið unnið eða lítið.
c. Hvað er myndefnið, hvernig efni er þá best að nota/mála á? Er það viðkvæmt, landslag, fígúratíft, hvað viltu segja með myndinni?
d. Hvaða stærð á að vera á myndinni? Á hún að vera lítið, er þetta sería(koma fleiri á eftir). Eiga þetta að vera stórar myndir í þykkum blindrömmum því myndefnið er þannig? Er þetta landslag og þá hvernig landslag? Hvaða form hæfir því? Ertu að reyna að ná fram ákveðnum stíl td. vinna eins og annar málari hefur gert, hvaða stærðir vann/vinnur hann með?
e. Skoðaðu til dæmis Turner og þessa ljósmynd af sjávarlandslagi og reyndu að finna út hvernig þú myndir velja efni/áferð/aðferð við að mála þessa ljósmynd og yfirfæra hana í annað efni svo sem málverk.Turner var oft mjög dramatískur/rómantískur í sínum myndum, hvernig getur þú séð það í þessu verki? Hvernig heldur þú að hann hafi unnið það? Hann skissaði mjög mikið og vann með vatnsliti ofl. efni. Hvaða aðferð myndi henta þér best? Hvernig myndir þú gera þessa ljósmynd "Turner-lega" í málverki?

Átök og ögrun - Golub/Spero

Seinna myndbandið sem ég sá í dag er um listamanninn Leon Golub og reyndar lítillega um konu hans Nancy Spero. Það sem mér finnst áhugavert við verk Golubs er vinnuferlið en hann vinnur með ljósmyndir og samtímann og vinnur á mjög stórum skala en verk hans eru amk. 2 metrar á hæð og amk. 3 metrar á breidd og unnin beint á óstrekktan striga með akríllitum og vaxi á vegg og á gólfi. Hann notar ljósmyndir af fólki í mismunandi stellingum og myndir af hlutum til að velja myndefnið sem hann sækist eftir og í sömu myndinni er notast við margar mismunandi ljósmyndir. Myndir hans eru oftar en ekki mjög ögrandi og fjalla um átök og stríð og hermenn fólk og pyntingar. Það er svo aftur í vinnuferlinu sjálfu og þeim efnum sem hann notar þar sem mér finnst hann ná tengslum við myndina og skapa spennu. Eftir að hafa teiknað manneskjurnar inn á og hlutina og raðað því eins og hann vill á myndflötinn hefst áhrifamikið ferli  sem felst í því að hann vinnur myndirnar ýmist á gólfinu eða veggnum og málar með misstórum penslum með málningu úr stórum dollum yfir það sem hann er búinn að teikna inn á. Síðan leggur hann myndina á gólfið og hefst handa við að hella yfir og mála og skefur og klórar í lögin, hellir yfir og skefur í burtu, teiknar ofan í aftur og stundum límir hann yfir einhverja parta af myndinni meðan hann vinnur í öðrum og með þessu lagskipta ferli og þessum óvenju stóra skala næst mikil dýpt og saga í myndirnar. Litanotkunin er mjög ákveðin, jarðlitir og grátónar og pastel, skærir litir inn á milli. Kona hans Nancy Sphero, þekktur feministi og vinnur myndir af konum, einnig á stórum skala og oft með skírskotun í nútímann. Það er ekki mikið fjallað um verk hennar í þessari mynd en maður finnur samt að áhrif hennar á mann sinn eru sterk og hún tjáir sig um hvað betur megi fara í myndunum og hann spyr hana gjarnan álits(amk. í myndinni)enda eru þau saman með stóra vinnustofu og nokkra aðstoðarmenn. Golub er fæddur árið 1922 en lést 2004 og það er áhugavert að sjá síðustu verk hans í myndinni frá 2001 þar sem hann vinnur með texta, hunda og geometríu og manni finnst hann svolítið vera búinn að tapa sér....eða hvað....kannski bara frelsi til að gera það sem hann vill.

James Castle - sjálflærður einfari frá Idaho

Ég hef í dag verið að skoða tvær athyglisverðar myndir um listamenn sem ég tók á bókasafni Listaháskólans. Mjög ólíkir listamenn en með vissum hætti má segja að þær fjalli um líf þeirra og að þeir í list sinni taki fyrir þau málefni sem á þeim brenna hverju sinni. Sú fyrri sem ég horfði á var um sjálflærðan einfara, James Castle sem fæddist heyrnalaus rétt fyrir aldamótin 1900. Hann bjó í litlum bæ í Idaho alla sína æfi í sér húsi en í grennd við fjölskyldu sína og teiknaði, málaði, og mótaði  og myndefni hans mótaðist auðvitað af umhverfi hans að miklu leyti. Hann var uppgötvaður af listheiminum um miðbik æfinnar og safnarar kepptust um að eignasat verk eftir hann og það hlýtur að hafa haft áhrif á að hann gat unnið við list sína óhindrað. Hann vann alla tíð í einföld efni og ekki hefðbundin, þannig teiknaði hann ekki með blýjanti heldur með sprekum sem hann nuddaði upp úr kolaryki, sömuleiðis notaði hann tuskur til að mála með en ekki pensla og ýmis önnur efni sem féllu til, en foreldrar hans ráku nýlenduvöruverslun og ýmsar pakkningar og pappír urðu honum að yrkisefni. Hann skrásetti samviskusamlega það sem hann sá í nánasta umhverfi og fjölskyldan, heimilið, ýmsir hlutir og pakkar urðu honum að innblæstri. Það sem heillar mig alltaf við svonefnda einfara er þessi beina tenging við myndefnið sem oftar en ekki er úr nánasta umhverfi svo og notkun á ýmsum efnum sem finnast þar. Kannski ná þeir að varðveita barnið í sér með því að fara ekki hefðbundna skólagöngu þar sem þú lærir td. að teikna og fara með efni. Maður sér oft að listamenn sækja innblástur í þessháttar list og í list barna.Það er stofnun/sjóður í Bandraíkjunum sem hefur sérhæft sig í að koma svokölluðum einförum (selftaught artists)á framfæri með ýmsum hætti, m.a. í kvikmyndum. Skoðið endilega slóðina:

Thursday, February 18, 2010

Tími og tónlist

Dagarnir eru svo kúfullir að það eru farnir að renna taumar niður. Í morgun keyrði ég hollenska andann til Keflavíkur og á leiðinni heim fann ég hvernig ég útvatnaðist og hið hvunndagslega líf tók yfir. Framundan dagur á vinnustofunni í ró og næði, heimsókn um hádegið og svo bara að munda pensla. Það var líka þannig og í lok dags er ég ringluð. Það var annasamt á vinnustofunni í maleríi og mannamótum af ýmsu tagi, allt gott og ég náði að prófa nýja pensla og halda áfram með einhverjar myndir. Spaghetti með reyktum veiðivatnaurriða og chilisósu í kvöldmatinn með kvik-yndinu og mikið rætt um dagana , handritið, framhaldið, vinnuna í sumar og allt sem mann langar í. Sinfónían kom út á mér tárum, Sellókonsert Dvorjak og ótrúlegur leikur Sæunnar Þorsteinsdóttur sem er eins venjuleg að sjá og nafnið gefur til kynna en eins óvenjulega góður sellóleikari og við mátti búast því þetta er ekkert venjulegt stykki og hún er bara 26 ára. Það er eitthvað við sellóleik sem kemur við hjartað á manni og strýkur því rækilega, hittir mann í hjartastað. Mér fannst merkilegt að lesa mér til um að Dvorsjak hefði búið í New York í þrjú ár og verið þar skólastjóri, hann var þjakaður af heimþrá og samdi því þennan konsert sem er eins og þungbúið bæheimst ættjarðarljóð, himinn og þoka og tár veðurbarða bænda sem staupa sig meðan þeir syngja blíðsárt komu upp í hugann en upplifunin í sjálfu sér dýpri en það.

Monday, February 15, 2010

Myndin sem ég sendi inn

Umsóknir

Ég hef setið meira og minna við í allan dag að gera umsókn um sýningu í ASÍ. Ég ætlaði auðvitað að vera búin að þessu fyrir löngu en ég er bara ekki fljótari en þetta. Um hvað á maður að sækja? Hvaða myndir á maður að senda? Hvaða tíma vill maður? Hver er maður hvað viill maður.....og vill mann einhver!!?Mér finst þetta alltaf eilífur höfuðverkur. En í þetta skiptið er ég með Monicu hollensku mér við hlið sem býr til PDF skjöl og tekur nýjar myndir fyrir mig og sér til þess að þetta skili sér allt með póstinum á réttan stað. Mér finnst samt eins og ég verði aldrei góð í þessu og ég er svo óskipulögð í tölvunni að það er benlínis vandræðalegt. Ég á aldrei réttu myndirnar af réttu myndunum, aldrei rétta formið og kem þessu aldrei almennilega frá mér. Þetta er flókið líf.

Thursday, February 11, 2010

Hollenski andinn

Monica, hollensk vinkona mín er komin í heimsókn. Hún er listamaður sem ég kynntist í Banff 2004 og við höfum haldið sambandinu allar götur síðan. Hún er ljósmyndari en í Kanada var hún að vinna æðislega skúlptúra úr örþunnu postulíni með ljósmyndum. Við sýndum saman í Grafíksalnum 2007 ég teikningar og málverk en hún sýndi ljósmyndir og skúlptúra. Það var svo merkilegt hvað þessi hollenski minimalíski andi skilaði sér inn í sýninguna. Við vinnum ólíkt en þó kannski ekki. Mér finnst hún aga mig og halda mér á jörðinni en hún slakar á. Við höfum í dag og kvöld velt fyrir okkur Íslandi um þessar mundir og hvað sú staða sem uppi er þýði fyrir það. Hún hjálpaði mér að koma mér fyrir á verkstæðinu og raða upp verkum fyrir morgundaginn og lá hvergi á skoðunum sínum sem er ótrúlega gott og hjálpar manni í vinnunni. Henni finnst ég ekki vera góð í að setja verkin mín fram og skilja kjarnann frá hisminu og ég geri mér grein fyrir því hvað það er rétt hjá henni þegar ég horfi á það sem hún valdi í kvöld með mér til að sýna. Einhver fágun og stíll sem skilar sér alla leið og ég hefði ekki valið hefði ég bara verið ein að setja þetta upp. Eins og í Safnasafninu fyrir norðan þar verður maður var við þessa fágun og hversdagslegan en litglaðan stíl. Á borðinu eru nú hvítir postulínsbollar, enginn eins sem hún kom með handa mér frá vinkonu sinni sem sendi mér þá og stór kringlóttur ostur í vaxi. Hann á að vera á borðinu en ekki í ískápnum og svo bara sker maður hann með hníf þegar rétti tíminn kemur.

Hugmyndavinna

Á morgun á ég að undirbúa hugmyndavinnu í 15 mínútur. Mér finnst hugmyndavinna skemmtileg en mér finnst erfitt að tengja hana beinlínis við kennslu og að það þurfi að koma eitthvað almennilegt út úr henni. Hef verið að skoða allskonar síður og hugyndirnar spretta fram eins og sprækir lækir. En hvort það verður eins gott að koma þessu frá sér veit ég ekki. Kannski hef ég of mikla reynslu af því að kenna fullorðnum og er því rög við að reyna nýja hluti eða treysti mér ekki alla leið. Ég er að velta fyrir mér línu, mismunandi gerðir af línu og hvernig er hægt að gera línu án þess að teikna hana með blýjanti eða penna. Er líklega innblásin af sýningu Kristínar Gunnlaugs í Grafíksalnum með þessar frábæru " teikningar" á striga með garni. Lyktin af grófum striganum fylgir mér heim og er hluti af upplifuninni. Lína getur verið spennandi með grófu garni, eða tvinna eða pípuhreinsara. Með pipuhreinsurum verður línan þrívídd þegar þeir eru reistir við. Hugsa líka kortlagningu. Man þegar ég fór út um skólalóðina í Mills með Naomi og Rosönnu að leita að skúlptúrum, við áttum að finna skúlptúra, gefa þeim nafn og kortleggja staðina sem þeir voru á og taka af þeim mynd. Þetta vAR ÓGEÐSLEGA SKEMMTILEGT. Hvað skilgreinir skúlptúr og hvað gerir hann að því. Þetta var eitt af þessum verkefnum sem fengu mig til að hugsa hlutina upp á nýtt. Við gerðum líka hljóðskúlptúr úr röddum okkar, en þetta hafði allt með staðinn Mills að gera. Í lokin var svo stórt persónulegt verk sem tengdist okkur. Ég vann út frá orðum og mismunandi þýðingu td. náttúra, landslag...og myndir sem tengjast því. Mér fannst þetta spennandi pælingo og þetta fékk mig til að vinna meira inn á við og tengja mig sjálfa beint inn í myndirnar. 

Er að ná þessu

Mér finnst ég vera að ná þessu með þetta blogg og um hvað það snýst. Sé að ég get notað þetta mikið og að  það hentar mér í raun um leið og ég er búin að skilja út á hvað þetta gengur. Hef legið yfir síðum og skoðað og það er í raun býsna auðvelt að villast. Mér finnst ég þó eiga langt í land með að ná því að festa þetta eins hratt niður og þegar ég skrifa í bókina mína eða skissa. Hugurinn er merkilegt fyrirbæri.